46. vika 2016.

Þrekmót í íþróttamiðstöðinni sl. laugardag.

Um síðustu helgi var Flott þrekmót í keppnisþrautum í Íþróttamiðstöðinni. Fjöldi þátttakenda á öllum aldri tók þátt í mótinu, en þar var á ferð hópur sem hefur stundað líkamsrækt af kappi undanfarna mánuði. Mikil stemmning var og vel tekið á því. SI Verslun var styrktaraðili mótsins og voru vegleg verðlaun veitt. Mikill kraftur og kapp hjá þrekhópnum í Garði. Myndin hér að neðan er af hópnum sem tók þátt í Flott þrek mótinu.

Keppendur í Flott þrek mótinu.
Keppendur í Flott þrek mótinu.

Kjörbúðin opnaði.

Eins og fram kom í síðustu Molum, var opnuð ný verslun í Garði sl. föstudag. Verslunin starfar undir merkinu Kjörbúðin og er rekin af Samkaup. Verslunin er hin glæsilegasta, með miklu og góðu vöruúrvali og hagstæðu verðlagi. Versluninni var vel tekið, opnunardaginn var nánast fullt út úr dyrum allan daginn af viðskiptavinum og mikil aðsókn var að versluninni alla síðustu helgi. Garðbúar bjóða Kjörbúðina velkomna í Garðinn og vonumst við til að hún blómstri með góðri þjónustu og hagstæðu verðlagi fyrir íbúana í Garði og þá gesti sem sækja Garðinn heim. Bæjarstjóri afhenti verslunarstjóranum og fulltrúa Samkaupa blómvönd í tilefni opnunarinnar.

Bæjarstjóri afhenti blóm við opnun Kjörbúðarinnar.

Hollvinir Unu Guðmundsdóttur.

Á morgun, laugardag verður aðalfundur Hollvina Unu Guðmundsdóttur í Kiwanishúsinu kl. 15. Annað kvöld kl. 20:00 verður afmælishátíð félagsins í Útskálakirkju. Þar verður dagskrá í anda Unu Guðmundsdóttur, hún var fædd þann 18. nóvember 1894, en Hollvinafélag Unu var stofnað á fæðingardegi Unu fyrir fimm árum. Mikill kraftur er í Hollinafélagi Unu, sem m.a. vinnur í samstarfi við sveitarfélagið að endurbótum á húsinu Sjólyst, sem einnig er kallað Unuhús, en Una Guðmundsdóttir bjó alla sína ævi í Sjólyst. Nánar í frétt á heimasíðunni svgardur.is.

Merki Sjólystar, söguhúss Unu Guðmundsdóttur.

Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2017. Útlit er fyrir ágæta niðurstöðu rekstraráætlunar, þannig að segja má að rekstur sveitarfélagsins sé kominn í ágætt jafnvægi. Í vikunni var vinnufundur allra bæjarfulltrúa með bæjarstjóra og starfsfólki bæjarskrifstofunnar. Á fundinum var farið yfir drög að gjaldskrá, ýmis erindi og óskir um fjárheimildir og styrki og framkvæmdir sem ráðast þarf í á næsta ári og á næstu árum. Eftir fundinn er verkefnið að vinna úr niðurstöðum fundarins og útfæra áætlunina í endanlegt horf. Bæjarráð mun taka fjárhagsáætlun til umfjöllunar í næstu viku.

Sameining sveitarfélaga ?

Eins og fram hefur komið tóku bæjarstjórnir Garðs og Sandgerðisbæjar ákvörðun um að láta gera úttekt á kostum og göllum þess að sameina sveitarfélögin. Skipaður hefur verið stýrihópur fulltrúa sveitarfélaganna sem hefur það hlutverk að stýra verkefninu og sjá til þess að það gangi vel fram. Stýrihópurinn hélt sinn fyrsta fund nú í vikunni og er þegar hafin vinna við að fá ráðgjafa til að vinna að verkefninu. Næstu mánuði verður unnið að málinu og munu bæjarstjórnirnar í framhaldinu leggja mat á niðurstöður og taka ákvörðun um framhaldið, eftir samráð við íbúa sveitarfélaganna.

Stýrihópurinn á fyrsta fundi.
Stýrihópurinn á fyrsta fundi.

Veðrið.

Veður hefur verið rysjótt þessa vikuna. Framan af viku var suðvestan átt með nokkrum vindi og vindhviðum, úrkoma var í formi rigningar og stöku élja. Um miðja vikuna breyttist í norðlægar áttir með kólnandi veðri. Fyrsta frost haustsins færðist yfir á miðvikudag, eftir það hefur verið stíf norðlæg átt með kaldara veðri en úrkomulaust.

Facebooktwittergoogle_plusmail