45. vika 2016.

Molarnir eru margir í þessari viku, enda mikið um að vera í Garði.

Hljóðfærasmíði í Gerðaskóla.

Nemendur í 6. og 7. bekkjum Gerðaskóla fengu það verkefni í tónmennt nýlega að búa til ný hljóðfæri, undir leiðsögn Vitors Hugo R. Eugenio kennara. Til þess voru notuð pípulagningarör og þurfti að beita ákveðnum útreikningum til að ná fram ákveðnum tónum úr hljóðfærinu. Allt tókst þetta vel hjá nemendunum, verkefnið snerist ekki eingöngu um tónfræði heldur þurfti að beita stærðfræðinni til þess að finna réttu lausnirnar. Frábært og skemmtilegt verkefni, sem er dæmi um frábært starf í Gerðaskóla. Myndin hér að neðan er sótt á heimasíðu Gerðaskóla, gerdaskoli.is og þar má finna frekari upplýsingar um verkefnið.

Hljóðfærasmiðir að störfum.
Hljóðfærasmiðir að störfum.

Leikskólinn Gefnarborg, jól í skókassa.

Líkt og á síðasta ári tekur leikskólinn Gefnarborg þátt í verkefninu „Jól í skókassa“. Verkefnið er á vegum KFUM og KFUK með það að markmiði að börn og fullorðnir gleðji börn í Úkraínu sem búa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og gáfu foreldrar barnanna á leikskólanum flestar gjafirnar sem fóru í skókassana. Þetta er göfugt og gott framtak, sem gleður börnin á Gefnarborg að taka þátt í, vonandi verður gleðin ekki síðri hjá börnunum í Úkraínu sem fá gjafirnar.

Leikskólabörn senda börnum í Úkraínu jólagjafir.
Leikskólabörn senda börnum í Úkraínu jólagjafir.

Kennarar í heimsókn hjá bæjarstjóranum.

Á þriðjudaginn kom hópur kennara í Gerðaskóla í heimsókn til bæjarstjórans og afhentu kröfu frá kennurum til sveitarfélaga um bætt kjör þeirra, ásamt að lýst er áhyggjum af því hvert stefnir í starfsemi grunnskólanna í landinu. Bæjarstjórinn tók við kröfunni og var hún lögð fram á fundi bæjarráðs í gær, fimmtudag. Alltaf er ánægjulegt að fá góða gesti í heimsókn, hvert sem tilefnið er.

Fundur í bæjarráði.

Bæjarráð fundaði í gær, fimmtudag og voru ýmis mál á dagskrá fundarins. Unnið var í fjárhagsáætlun fyrir næsta ár, samþykktur samningur við Bergraf um eftirlit og viðhald götulýsingar og fjallað um úthlutun á byggðakvóta. Þá var lögð fram áskorun frá kennurum varðandi kjaramál og starf grunnskóla. Loks voru fulltrúar Garðs skipaðir í starfshóp með fulltrúum Sandgerðisbæjar sem fá það verkefni að láta vinna úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna. Alltaf í mörg horn að líta hjá bæjarráði.

Menningin og félagslífið blómstrar.

Í gær, fimmtudag voru norrænir þematónleikar í Útskálakirkju. Þar komu fram nemendur í tónlistarskólanum og léku norræna tónlist. Tónleikarnir voru samstarfsverkefni tónlistarskólans og Norræna félagsins í Garði og voru vel sóttir.

Í gær var skemmtidagskrá í Auðarstofu hjá félagsstarfi aldraðra. Þar var boðið upp á hangikjöt og saltkjöt, ásamt skemmtidagskrá. Fjölmenni mætti, naut góðra veitinga og skemmtidagskrár. Fjölbreytt og öflug starfsemi í Auðarstofu.

Síðar í dag, föstudag og fram á laugardagsmorgun verða „rokkbúðir“ í Gerðaskóla á vegum tónlistarskólans. Þá koma saman nemendur nokkurra tónlistarskóla, spila saman á rytmahljóðfæri og skapa tónlist. Tónleikar verða á miðnætti í kvöld og síðan verður spilað fram undir hádegi  á morgun, laugardag. Við erum taktviss í Garðinum !

Loks má nefna að annað kvöld, laugardag verður hið víðfræga og eftirsótta herrakvöld Víðis í Samkomuhúsinu. Þar verður væntanlega mikil stemmning og skemmtilegheit. Fyrr um daginn stendur Víðir fyrir firmakeppni í knattspyrnu í Íþróttamiðstöðinni. Alltaf mikið um að vera í herbúðum Víðis.

Flóamarkaður í Samkomuhúsinu.

Á sunnudaginn verður haldinn flóamarkaður í Samkomuhúsinu, milli kl. 13:00 og 18:00. Garðbúar og gestir eru hvattir til að koma við á flóamarkaðnum, þar verður margt áhugavert til sölu. Mikill áhugi er fyrir flóamarkaðnum, a.m.k. ef tekið er mið af umræðu á facebook síðunni Garðmenn og Garðurinn. Börn í 4. fl. knattspyrnuliðs Víðs/Reynis munu annast kaffisölu. Flott framtak og spennandi.

Kjörbúðin opnar.

Í dag opnar verslunin Kjörbúðin í verslunarhúsnæði Samkaups í Sunnubraut 4, þar sem verslun Samkaups hefur verið rekin undanfarin ár. Vonandi taka garðbúar vel á móti nýrri verslun og að hún gangi vel.

Veðrið.

Í upphafi viku voru hvassar sunnanáttir með rigningu, Gott veður á þriðjudag og um miðja vikuna. Þegar þetta er skrifað á föstudags morgni er hvöss suðaustan átt með mikilli rigningu. Spáin gerir ráð fyrir að veðrið gangi yfir þegar líður á daginn og að helgarveðrið verði þokkalegt.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail