44. vika 2016.

Að afloknum kosningum.

Alþingiskosningar voru um síðustu helgi. Garðurinn á nú tvo fulltrúa á Alþingi, þau Ásmund Friðriksson og Oddnýju Harðardóttur. Við óskum þeim til hamingju með þingsætin og velfarnaðar í sínum krefjandi verkefnum, en þess má geta að þau eru bæði fyrrverandi bæjarstjórar í Garði. Það hefur jafnan verið metnaðarmál allra byggðarlaga í landinu að eiga fulltrúa á Alþingi, Garðbúar búa vel að því. Við á bæjarskrifstofunni í Garði settum upp samkvæmisleik fyrir kosningarnar, þar sem starfsfólkið spáði fyrir um úrslit kosninganna. Veitt voru vegleg verðlaun þeim sem spáði næst úrslitunum og féllu þau í hlut bæjarstjórarns !

Bæjarstjóri með verðlaun fyrir kosningaspá.
Bæjarstjóri með verðlaun fyrir kosningaspá.

Að loknum kosningunum var settur upp annar samkvæmisleikur á bæjarskrifstofunni, en þá spáði starfsfólkið um samsetningu næstu ríkisstjórnar. Þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir hver niðurstaðan verður úr þeim samkvæmisleik, en greint verður frá því síðar.

Bæjarstjórnarfundur.

Í vikunni var fundur í bæjarstjórn. Þar bar hæst fyrri umræða um fjárhagsáætlun 2017, en síðari umræða og afgreiðsla fjárhagsáætlunar verður í byrjun desember. Áætlun um rekstur sveitarfélagsins á næsta ári lítur ágætilega út og mun bæjarráð hafa áætlunina til frekari vinnslu fram að síðari umræðu í bæjarstjórn. Aðrir liðir á dagskrá bæjarstjórnar voru fundargerðir bæjarráðs og fastanefnda sveitarfélagsins ásamt fundargerðum stjórna og nefnda sem sveitarfélagið á aðild að með öðrum sveitarfélögum.

Trölladiskó í Eldingunni.

Í tengslum við Halloween var haldið trölladiskó í Félagsmiðsöðinni Eldingunni nú á miðvikudaginn. Ungmenninn mættu í alls kyns búningum og voru því ýmsar furðuverur mættar í stuðið. Hér eru myndir af nokkrum þeirra.

img_8357

img_8364

Gunnar Hámundarson GK hverfur á braut.

Fiskiskipið Gunnar Hámundarson GK 357 var fyrir stuttu selt norður á Hauganes. Skipið skipar merkilegan sess í útgerðarsögu Garðs, en skipið var smíðað 1954 og hefur verið gert út frá Garði síðan. Þetta skip var það þriðja í röð skipa sem útgerðarfélagið Gunnar Hámundarson hf gerði út, en útgerðin er ein sú elsta á landinu stofnuð árið 1911. Gunnar Hámundarson GK 357 hefur borið að landi þúsundir tonna af fiski allan þann tíma sem skipið hefur verið gert út og er því skarð fyrir skildi. Nýtt hlutverk skipsins verður að sigla með ferðamenn um Eyjafjörðinn til að skoða hvali.

Gunnar Hámundarson á siglingu.
Gunnar Hámundarson á siglingu.

Heimildamynd um Guðna á trukknum.

Guðni Ingimundarson er heiðursborgari Garðs. Hann er þekktur á Suðurnesjum og víðar fyrir einstakt lífshlaup sitt og margvíslega aðkomu að atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Guðni átti og notaði trukk bifreið með gálga að framan og dráttarspili við hin ýmsu verkefni, sem sum voru flókin úrlausnar og ekki á allra færi að leysa. Guðmundur Magnússon kvikmyndagerðarmaður í Garði hefur unnið að gerð myndarinnar, eftir handriti Harðar Gíslasonar og með tónlist eftir Tryggva M Baldvinsson. Sveitarfélagið Garður og Uppbyggingarsjóður Suðurnesja styrkja gerð myndarinnar. Þess má geta að Guðni Ingimundarson safnaði og gerði upp fjöldan allan af bátavélum af ýmsum stærðum og gerðum. Einstakt safn þessara véla er í byggðasafninu á Garðskaga og eru allar vélarnar gangfærar. Þá má einnig geta þess að Guðni var um tíma vitavörður í Garðskagavita.

Hér að neðan er sýnishorn úr myndinni og hér má sjá þá Guðna og Hörð Gíslason.

Veðrið.

Um síðustu helgi voru sunnan áttir með nokkrum vindi og úrkomu. Í byrjun vikunnar og fram undir miðja vikuna var ágætt veður, hægviðri og úrkomulaust að mestu og þokkalegt hitastig. Sunnanáttin mætti svo aftur með rigningu, en þegar þetta er skrifað á föstudagsmorgni er hægviðri og úrkomulaust, hitastigið um 6°. Útlit er fyrir ágætt veður um komandi helgi.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail