43. vika 2016.

Kosningar í Gerðaskóla.

Það eru ekki bara alþingiskosningar í gangi þessa dagana. Nemendur Gerðaskóla ganga til kosninga í dag og taka afstöðu til tiltekinna mála. Framkvæmd kosninga nemendanna verður með sama hætti og verður á morgun vegna alþingiskosninganna. Það verða dyraverðir, kjörstjórar með „kjörskrá“, nemendur nota kjörklefa til að kjósa og skila atkvæðaseðlum sínum í kjörkassa. Þetta er m.a. til þess að kenna nemendunum að taka þátt í kosningum, en svo vel vill til að kosningar til Alþingis fara fram í Gerðaskóla á morgun og þar er búið að koma upp aðstöðu til að framkvæma kosningarnar, sem nemendur og starfsfólk skólans nota í dag fyrir sínar kosningar. Þess má geta að elstu nemendur Gerðaskóla hafa öðlast kosningarétt þegar næstu alþingiskosningar verða eftir fjögur ár og því er kosningin í Gerðaskóla í dag ágæt æfing fyrir þá. Vonandi skilar það sér í aukinni kosningaþátttöku yngstu hópa kjósenda, sem því miður hafa látið sig vanta á kjörstað í of miklum mæli í undanförnum kosningum. Skemmtilegt framtak hjá Gerðaskóla.

Kjörseðillinn
Kjörseðillinn
Biðröð á kjörstað í Gerðaskóla.
Biðröð á kjörstað í Gerðaskóla.

Bæjarráð.

Fundur var í bæjarráði í vikunni. Á dagskrá fundarins bar hæst umfjöllun um fjárhagsáætlun næsta árs. Fjárhagsáætlun verður á dagskrá bæjarstjórnar í næstu viku, þegar fram fer fyrri umræða um áætlunina.

Verðmætasköpun í atvinnulífinu.

Í gær, fimmtudag var haustfundur Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja, Heklunnar.  Á fundinum var fjallað um verðmætasköpun í atvinnulífinu og fluttar um það áhugaverðar framsögur. Enn og aftur kemur fram að samfara mjög auknum umsvifum á Keflavíkurflugvelli er Reykjanesið heitasta svæði landsins er varðar tækifæri, uppbyggingu og blómleg samfélög. En tækifærin eru ekki einungis tengd fjölgun ferðamanna og auknum umsvifum ferðaþjónustu, tækifærin liggja í ýmsum öðrum greinum og mörgum sviðum. Það eru miklar áskoranir og risavaxin verkefni sem blasa við sveitarfélögunum og atvinnulífinu á Suðurnesjum. Það eru miklir hagsmunir í húfi, ekki aðeins fyrir Suðurnesin heldur landið allt.

Á fundinum var bent á þær gríðarlegu miklu tekjur sem aukin umsvif ferðaþjónustu skilar ríkissjóði í formi skatta og gjalda, sem og hvað gjaldeyristekjur þjóðarbúsins aukast mikið vegna mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna sem sækja landið heim. Í því sambandi er sláandi hve lítill hluti af þessum auknu tekjum ríkissjóðs fara í að fjármagna uppbyggingu innviða í landinu, sem brýnt er að gera til þess að mögulegt sé að taka við öllum þeim fjölda erlendra ferðamanna sem heimsækja landið og ferðast um það. Þar er ekki aðeins um að ræða vegi og samgöngur, heldur ekki síður heilbrigðisþjónustu, löggæslu og fjarskipti, svo eitthvað sé nefnt. Ólíkt mörgum öðrum atvinnugreinum, þá nýtast þeir innviðir sem byggja þarf upp og fjármagna vegna ferðamanna öllum landsmönnum og kemur okkur öllum til góða. Það er ljóst að stjórnvöld verða að gefa þessu meiri gaum og ráðstafa meiri hluta af þeim tekjum sem ríkissjóður er að fá vegna ferðamanna til uppbyggingar innviða. Að öðrum kosti blasir við að við stefnum lóðbeint í óefni og draumurinn breytist í martröð.

Alþingiskosningar.

Á morgun, laugardag verða kosningar til Alþingis. Vonandi verða úrslit þeirra og það sem á eftir fylgir til gæfu og hagsbóta fyrir land og þjóð. Kjósendur eru hvattir til að nýta sinn kosningarétt, mæta á kjörstað og taka þátt í kosningunum.

Veðrið.

Veðurfarið hefur verið frekar erfitt að undanförnu. Ríkjandi suðlægar áttir með hvössum vindi á köflum og rigningu en inn á milli hefur verið sólskin, það má því segja að vikan hafi einkennst af því að skipst hafa á skin og skúrir. Þegar þetta er skrifað á föstudags morgni skín sólin í ágætu veðri, en haustið hefur færst yfir og má reikna með kaldari tíð. Við getum átt von á slyddu eða snjókomu og hálku á vegum, það er því mikilvægt að gera sig kláran fyrir slíkar aðstæður og sýna aðgát í umferðinni.

Góða og ánægjulega helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail