42. vika 2016.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Um síðustu helgi var aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Gerðaskóla í Garði. Dagskrá fundarins var efnismikil og um margt mjög áhugaverð. Mikið fór fyrir erindum og umræðu um þróun farþegafjölda á Keflavíkurflugvelli og mál því tengd, m.a. um ferðaþjónustu, íbúaþróun og þær áskoranir sem Suðurnesin í heild sinni standa frammi fyrir. Þá var fjallað um samgönguáætlun og það mikilvæga og aðkallandi mál að byggja upp flutningskerfi raforku út á Reykjanesið. Eftir þennan góða fund stendur að sveitarfélögin, atvinnulífið og ýmsir aðilar verða nú að fara í að móta stefnu um það hvernig samfélagið mætir þeirri þróun sem nú á sér stað og mun verða á næstu árum. Hér er um stórt og mikilvægt verkefni að ræða, áskoranirnar eru til staðar og þær eru til að takast á við. Það eru sannarlega spennandi tímar á Suðurnesjum.

Varnarliðið komið aftur ?

Sl. mánudag hrukku margir við í Garðinum, en þá voru herþotur á æfingaflugi úti fyrir ströndinni. Einnig var varðskipið Þór að lóna stutt frá landi og flugu þoturnar yfir og umhverfis varðskipið. Upp kom sú spurning hvort herinn væri kominn aftur ! Svarið var að tékkneskar herþotur sem sinna loftrýmisgæslu við landið voru við æfingar, en hávaðinn var ærandi svo vart var samtalshæft. Börnin á leikskólanum Gefnarborg voru agndofa yfir þessu og skimuðu út á hafið þar sem varðskipið var á ferð. Eflaust hafa einhverjir Garðbúar hugsað til fyrri tíðar þegar umferð herþota var algeng yfir Suðurnesjum.

Leikskólabörnin horfa til varðskipsins Þórs. (Mynd: Leikskólinn Gefnarborg).
Leikskólabörnin horfa til varðskipsins Þórs. (Mynd: Leikskólinn Gefnarborg).

Framkvæmdir á lóð leikskólans.

Lóð leikskólans var stækkuð verulega á síðasta ári, en af þeim sökum hafa verið dimmir blettir á lóðinni þar sem hefur vantað lýsingu. Nú á dögunum var bætt úr því og hefur verið komið fyrir ljósastaurum sem lýsa upp leiksvæði barnanna. Ungir og upprennandi gröfukarlar á leikskólanum fylgdust með dreymandi svip með verktakanum sem gróf fyrir ljósastaurunum og er ekki ólíklegt að einhverjir hafi ákveðið að vinna á gröfu þegar aldur færist yfir þá. Þessi dásamlega mynd af leikskólabörnum fylgjast hugfangin með gröfuvinnunni birtist á Facebook síðu leikskólans Gefnarborgar.

Gröfuvinna við leikskólann.
Gröfuvinna við leikskólann.

Bæjarstjórnarfundur.

Á miðvikudag var fundur í bæjarstjórn, þar sem m.a. var fjallað um kauptilboð í Garðvang. Bæjarstjórn samþykkti að ganga að tilboðinu og slíkt hið sama hafa hin sveitarfélögin sem eru eigendur hússins gert. Kaupandi er Nesfiskur í Garði, en fyrirtækið mun nýta húsnæðið fyrir sitt starfsfólk. Fundurinn var einnig vinnufundur bæjarstjórnar með starfsfólki bæjarskrifstofu þar sem farið var yfir drög að fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. Bæjarráð mun halda áfram umfjöllun og vinnu við fjárhagsáætlun, en á næsta fundi bæjarstjórnar verður fjárhagsáætlun til fyrri umræðu. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum á afgreiðslu fjárhagsáætlunar að vera lokið fyrir 15. desember, en bæjarstjórn Garðs mun afgreiða áætlunina í byrjun desember eftir aðra umræðu.

Alþingiskosningar.

Nú styttist óðum í alþingiskosningarnar þann 29. október nk. Kjósendur í Garði, sem geta af einhverjum ástæðum ekki mætt á kjörstað þann dag, eiga kost á því að kjósa utan kjörstaðar á bæjarskrifstofunni á opnunartíma skrifstofunnar. Þetta fyrirkomulag er í samstarfi við sýslumannsembættið og er liður í að auka þjónustu við íbúana.

Veðrið.

Við nutum veðurblíðu fram í miðja vikuna, þegar var hægviðri og hlýtt. Á miðvikudag byrjaði fjörið með miklum vindi og rigningu af suð-austri og hefur það haldið áfram, en veðrið hefur að mestu gengið niður þegar þetta er skrifað á föstudagsmorgni.

Óveður miðvikudaginn 19. okt. 2016 um hádegi.
Óveður miðvikudaginn 19. okt. 2016 um hádegi.

 

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail