41. vika 2016.

Bleikur föstudagur.

Í dag er bleikur föstudagur, í anda átaks Krabbameinsfélagsins gegn krabbameini í þessum mánuði. Vonandi hafa sem flestir styrkt þetta verkefni með því að fjárfesta í bleiku slaufunni. Þetta er lofsvert átak hjá Krabbameinsfélaginu, sem gegnir mikilvægu hlutverki í forvörnum og fræðslu um krabbamein.

Bleika slaufan 2016.
Bleika slaufan 2016.

Bæjarráð.

Fundur var haldinn í bæjarráði í vikunni. Á fundinum voru lögð fram fyrstu drög að rekstraráætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2017, en áætlunin er í vinnslu þessa dagana og verður fyrsta umræða í bæjarstjórn í byrjun nóvember. Af öðrum málum má nefna að fjallað var um erindi frá Sandgerðisbæ, þar sem m.a. kemur fram að bæjarstjórn Sandgerðis hafi samþykkt að skipa í starfshóp sem fái það verkefni að kanna kosti og galla sameiningar Garðs og Sandgerðisbæjar. Bæjarráð Garðs samþykkti að leggja til við bæjarstjórn að Garður skipi sína fulltrúa í starfshópinn. Þess má geta að bæjarstjórn Garðs samþykkti í júní sl. að taka þátt í þessu verkefni en bæjarstjórn Sandgerðis tók málið fyrir og gerði sína samþykkt núna í þessari viku. Þess má vænta að vinna við könnun á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna hefjist nú á næstu vikum. Þegar niðurstaða þessarar vinnu liggur fyrir munu bæjarstjórnir sveitarfélaganna taka ákvarðanir um hvort hafnar verða formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna, samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga þar um og slíkt ferli endar síðan á því að íbúar sveitarfélaganna greiða atkvæði um tillögu um sameiningu sveitarfélaganna.

Kosning utan kjörfundar á bæjarskrifstofu.

Í samstarfi við sýslumannsembættið fer fram kosning til Alþingis utan kjörstaðar á bæjarskrifstofunni í Garði. Sveitarfélagið tók þátt í tilraunaverkefni um utankjörfundar atkvæðagreiðslu með þessum hætti fyrir forsetakosningar sl. sumar, það gekk mjög vel og nýttu nokkrir íbúar í Garði sér þessa þjónustu. Nú er aftur boðið upp á þessa þjónustu fyrir alþingiskosningarnar. Atkvæðagreiðsla fer fram á opnunartíma bæjarskrifstofunnar og annast starfsfólk framkvæmdina. Íbúar Garðs sem þurfa af einhverjum ástæðum að kjósa utan kjörstaðar eru hvattir til þess að nýta sér þessa góðu þjónustu, mæta á bæjarskrifstofuna og nota þar kosningarétt sinn. Almennt eru kjósendur hvattir til að nota sinn kosningarétt og greiða atkvæði í komandi Alþingiskosningum, sem og öllum öðrum kosningum. Það að taka þátt í kosningum er ekki aðeins lýðræðislegur réttur, heldur mikilvægt tæki fyrir hver og einn til að hafa áhrif. Í raun er það lýðræðisleg skylda okkar hvers og eins að nota okkar kosningarétt og taka þátt í kosningum.

„Stóriðja í stöðugum vexti“.

Isavia hélt fund í vikunni þar sem farið var yfir stöðu mála og framtíðarhorfur varðandi farþegafjölda sem fer um Keflavíkurflugvöll. Á fundinum var einnig kynnt skýrsla með yfirskriftinni „Keflavíkurflugvöllur – stóriðja í stöðugum vexti“ þar sem fjallað er um hvaða þýðingu uppbygging Keflavíkurflugvallar hefur til framtiðar. Þar kom m.a. fram að ef hóflegustu spár ganga eftir þá verður Keflavíkurflugvöllur orðinn stærsti vinnustaður landsins eftir nokkur misseri, fjölgun starfsmanna á hverju ári verður sem svarar starfsmannafjölda í einu álveri. Það er ljóst að hér er um mjög stórt mál að ræða, með afar krefjandi verkefnum til úrlausnar. Það liggur fyrir út frá því að sveitarfélögin, ríkið og fjölmargir aðilar þurfa að taka höndum saman, móta stefnu um uppbyggingu innviða og alls kyns starfsemi til framtíðar til þess að mögulegt verði að mæta þeirri þróun sem farið var yfir á fundinum. Suðurnesin eru og verða í brennidepli næstu misseri og ár, þótt svo ekki nema eitthvað af þeim spám sem fjallað var um ganga eftir.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum verður haldinn í Garði nú um helgina. Auk venjulegra aðalfundarstarfa verða áhugaverð erindi flutt, sem munu án efa kalla fram líflegar umræður. Þessi erindi fjalla öll meira og minna um stöðu mála á Suðurnesjum og framtíðarhorfur, m.a. búsetuþróun, samgöngumál, raforkumál og uppbyggingu innviða til að mæta mikilli aukningu ferðamanna á svæðinu. Allt að gerast á Suðurnesjum.

Kvennakvöld Víðis.

Í kvöld, föstudag verður árlegt kvennakvöld Víðis í Samkomuhúsinu. Mikil aðsókn er jafnan að kvennakvöldinu og samkvæmt heimildum Mola er uppselt og því verður fullt hús af konum í Samkomuhúsinu í kvöld. Miklar sögur hafa farið af stemmningunni á kvennakvöldunum undanfarin ár, karlar í Víði sjá um þjónustu við konurnar og fer sögum af því að mikil eftirspurn sé eftir því meðal karlanna að fá að þjóna á kvennakvöldunum. Eins og sést á myndinni hér að neðan, þá er allt tilbúði fyrir kvennakvöldið og að sjálfsögðu er bleiki liturinn alls ráðandi á þessum bleika föstudegi. Frábært framtak hjá Víði og óskum við konunum góðrar skemmtunar í kvöld.

Allt klárt fyrir kvennakvöld Víðis.
Allt klárt fyrir kvennakvöld Víðis.

Ljóðasamkeppni Hollvina Unu í Sjólyst.

Hollvinir Unu í Sjólyst efna til ljóðasamkeppni í annað sinn á Suðurnesjum, undir heitinu Dagstjarnan 2016. Nánari upplýsingar um ljóðasamkeppnina má m.a. finna á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is.  Þetta er ánægjulegt framtak hjá Hollvinum Unu og vonandi að sem flestir taki þátt.

Una í Sjólyst
Una í Sjólyst

Veðrið.

Veðrið þessa vikuna hefur að mestu einkennst af suðlægum áttu, vindi og vætutíð. Óvenju mikið hefur rignt suma dagana, en nú undir lok vikunnar hefur stytt upp. Þegar þetta er skrifað á föstudagsmorgni skín sólin, en eftir leiðindin í veðrinu alla vikuna sér verulega á trjágróðri, sem hefur fellt mikið af laufum. Útlit er fyrir ágætt helgarveður.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail