40. vika 2016.

Það hefur verið frekar rólegt yfir Garðinum síðustu vikuna, nema hvað haustlægðirnar eru farnar að koma á færibandi. Veðrið hefur verið frekar erfitt, vikan hófst með þrumum, eldingum og hagléli á mánudags morguninn. Í kjölfarið hafa verið hvassar sunnan áttir með rigningu, af og til hefur þó slegið á milli lægða, til dæmis var ágætt veður í gær fimmtudag.

Fjárhagsáætlun.

Nú stendur yfir vinnsla fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár og rammaáætlunar fyrir næstu þrjú árin þar á eftir. Við vinnslu fjárhagsáætlunar er gengið út frá ýmsum forsendum og er útkomuspá fyrir þetta ár grunnurinn, en útkomuspá var lögð fyrir bæjarráð í síðustu viku og er ágætt útlit með rekstrarafkomu sveitarfélagsins á þessu ári. Aðrar helstu forsendur felast m.a. í þjóðhagsspá um breytingar á verðlagi næsta árið og í kjarasamningum varðandi launaþróun. Eftir umfjöllun í bæjarráði og vinnufundi bæjarfulltrúa með starfsfólki sveitarfélagsins verður fjárhagsáætlun tilbúin í lok október til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Samkvæmt lögum á bæjarstjórn að ljúka afgreiðslu fjárhagsáætlunar eftir síðari umræðu fyrir 15. desember.

Bæjarstjórnarfundur.

Bæjarstjórn Garðs kom saman til fundar í vikunni. Á dagskrá voru fundargerðir fastanefnda sveitarfélagsins og stjórna sem sveitarfélagið á aðild að með öðrum sveitarfélögum. Góð samstaða og vinnuandi er í bæjarstjórninni, sem er ein forsenda þess að vel gangi við stjórnun og rekstur sveitarfélagsins.

Haustið er annatími hjá sveitarstjórnarfólki.

Fyrir sveitarstjórnarfólk er haustið annatími á margan hátt. Þunginn í daglegu starfi þessar vikurnar felst í vinnslu fjárhagsáætlunar og stefnumótunar, en á þessum árstíma er einnig óvenju mikið um alls kyns fundi og ráðstefnur. Þar má m.a. nefna fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem var undir lok september, aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum verður í Garðinum eftir viku, ásamt því að sveitarstjórnarmenn þurfa að mæta á margvíslega fundi þar sem farið er yfir mikilvæg málefni sveitarfélaga sem snerta bæði nútíð og ekki síður framtíðina. Sem dæmi um fundi sveitarstjórnarmanna í þessari viku má nefna fund með stjórnendum Landsnets sl. mánudag þar sem farið var yfir ástand og nauðsynlega uppbyggingu flutningskerfis raforku, sem varðar fyrst og fremst orkuöryggi íbúa og atvinnulífs á Suðurnesjum en þar eru ákveðnar blikur á lofti. Í gær, fimmtudag var fundur með verkefnisstjórn um nýja byggðaáætlun sem er í vinnslu. Á morgun, laugardag verður svo aðalfundur Öldungaráðs Suðurnesja.

Knattspyrnan.

Ævintýri karlalandsliðsins í knattspyrnu heldur áfram og þeir halda þjóðinni við efnið. Frábær sigur í gærkvöldi á Finnlandi, dramatíkin undir lok leiksins sýnir og sannar að það eðli okkar íslendinga að gefast aldrei upp þótt móti blási skilar árangri. Framganga íslenska liðsins var til fyrirmyndar, þótt svo að knattspyrnulega séð hafi þetta ekki verið besti leikur liðsins. En, það að klára leiki á þennan hátt er ákveðinn gæðastimpill og sýnir hvað rétt hugarfar með sigurvilja skiptir miklu máli.  Næsti leikur liðsins verður á sunnudag gegn Tyrkjum, velgengni íslenska liðsins undanfarin misseri gerir mann heldur frekan til fjárins og því er ekkert annað en sigur í leiknum sem kemur til greina.  Ekki má gleyma að minnast á frábæran árangur kvennalandsliðsins, sem fyrir stuttu tryggði sér enn og aftur þátttökurétt í lokakeppni evrópumótsins á næsta ári. Stelpurnar hafa svo sannarlega staðið sig vel og í samanburði er árangur þeirra ekki síðri en hjá karlaliðinu.  Loks er það U21 landsliðið, sem heldur áfram með sinn góða árangur sem leggur ákveðinn grunn að áframhaldandi góðu gengi A-landsliðs Íslands á næstu árum.  Frábær árangur hjá íslensku knattspyrnufólki !

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail