39.vika 2016.

Molar voru í fríi í síðustu viku vegna anna bæjarstjórans við að sitja fundi og ráðstefnu í Reykjavík síðari hluta vikunnar. Fjármálaráðstefna sveitarfélaga stóð yfir sl. fimmtudag og föstudag, að vanda kom þar margt athyglisvert fram og farið var yfir mikilvægar upplýsingar og forsendur vegna fjárhagsáætlunar næsta árs og varðandi fjármál sveitarfélaga almennt.

Garður í Útsvari Sjónvarpsins.

Garður tók nú í fyrsta skipti þátt í Útsvari Sjónvarpsins. Þau Elín Björk, Guðjón Árni og Magnús skipuðu lið Garðs, sem mætti liði Árneshrepps sl. föstudag. Skemmst er frá því að segja að þrátt fyrir frábæra frammistöðu þurfti lið Garðs að lúta í lægra haldi fyrir góðu liði Árneshrepps. Það er ekki einfalt mál að etja kappi við Strandamenn, enda eru þeir sem kunnugt er ramm-göldróttir ! Við þökkum okkar liði fyrir góða frammistöðu og óskum Árneshreppi til hamingju með sigurinn, vonandi gengur þeim vel í næstu umferð.

Lið Garðs í miðjum þætti Útsvars.
Lið Garðs í miðjum þætti Útsvars.
Að keppni lokinni.
Að keppni lokinni.

Fjölbrautaskóli Suðurnesja 40 ára.

Sl. laugardag var afmælishátíð í tilefni 40 ára afmæli Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Fjölmenni sótti hátíðina, sem var í senn hátíðleg og með léttu og skemmtilegu yfirbragði. Bæjarstjórinn í Garði afhenti skólanum til sýnis listaverkið Breath (öndun) eftir japanska listamanninn OZ-Keisuke Yamaguchi, en verkið er afrakstur listahátíðarinnar Ferskra vinda. Verkið er stórt í sniðum og ekki var auðvelt að finna því stað til sýnis, en samkomulag varð um að Listasafn Reykjanesbæjar tæki við verkinu til eignar og umsjár og því verði komið fyrir til sýnis í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Skólameistari skólans tók við verkinu og hefur því verið komið vel fyrir í skólanum. Til hamingju með þennan áfanga nemendur og starfsfólk skólans, fyrr og nú.

Skólameistari tekur við Breath til sýnis í Fjölbraut.
Skólameistari tekur við Breath til sýnis í Fjölbraut.
Verkið Breath í Fjölbraut.
Verkið Breath í Fjölbraut.
Breath frá öðru sjónarhorni í Fjölbraut.
Breath frá öðru sjónarhorni í Fjölbraut.

Bæjarráð.

Í gær, fimmtudag var fundur í bæjarráði Garðs. Samþykktir voru viðaukar við fjárhagsáætlun þessa árs auk þess sem lögð var fram útkomuspá um rekstur ársins. Útlit er fyrir að niðurstaða rekstrar ársins verði mjög í takti við fjárhagsáætlun. Bæjarráð fjallaði um helstu forsendur fyrir fjárhagsáætlun ársins 2017 og verður unnið út frá þeim í áætlanagerðinni. Ákveðið var að kjósendur geti kosið til Alþingis utan kjörstaðar á bæjarskrifstofunni, verður sú framkvæmd í samstarfi við sýslumannsembættið og auglýst sérstaklega. Þá skipaði bæjarráð bæjarstjórann sem fulltrúa sinn í verkefnishóp varðandi hraðlest frá Keflavíkurflugvelli, einnig ákvað bæjarráð að hefja framkvæmdir við salernis-og hreinlætisaðstöðu á Garðskaga, en Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur veitt styrk vegna þess verkefnis. Loks var fjallað um fundargerðir stýrihóps vegna atvinnu-og þróunarsvæðis á Miðnesheiði og fundargerð stjórnar Öldungaráðs Suðurnesja.

Norðurljósin.

Nú er norðurljósatíminn kominn, mikill fjöldi ferðamanna kemur til landsins til þess að upplifa norðurljósin. Mikil umfjöllun um þetta náttúrufyrirbrigði virðist hafa aukið áhuga landans á því að njóta norðurljósanna, það má m.a. sjá á Facebook þar sem fólk keppist um að setja inn myndir af norðurljósum. Eins og alltaf er, þá hafa norðurljósin verið mjög sýnileg og haldið uppi mikilli danssýningu á himni yfir Garðskaga undanfarin kvöld. Mikill fjöldi fólks hefur komið á Garðskaga til þess að njóta, enda er staðurinn einn sá allra besti á landinu til að njóta norðurljósa. Nú í vikunni kepptust nokkur sveitarfélög um að tilkynna orkusparnað með því að slökkva á götulýsingu til þess að minnka ljósmengun vegna norðurljósa. Á Garðskaga eru útiljós jafnan slökkt þegar norðurljósin eru sýnileg, aðeins vitaljósið í Garðskagavita fær að lifa. Töfrar náttúrunnar á Garðskaga eru miklir og fjölbreytilegir. Hér að neðan eru nokkrar myndir af norðurljósunum á Garðskaga í vikunni.

Norðurljós og gamli viti 27. september 2016.
Norðurljós og gamli viti 27. september 2016. (Mynd Jóhann Ísberg)
Norðurljós og Garðskagaviti 27. september 2016.
Norðurljós og Garðskagaviti 27. september 2016. (Mynd Jóhann Ísberg)
Norðurljós og gamli viti 28. september 2016. (Mynd Hilmar Bragi Bárðarson)
Norðurljós og gamli viti 28. september 2016. (Mynd Hilmar Bragi Bárðarson)
Norðurljós á Garðskaga 28. september 2016 (Mynd Hilmar Bragi Bárðarson)
Norðurljós á Garðskaga 28. september 2016 (Mynd Hilmar Bragi Bárðarson)

Bleikur október.

Október mánuður rennur upp á morgun, laugardag. Eins og allir ættu að vita þá er október bleikur mánuður, m.a. til að minna okkur á baráttu gegn krabbameinum hjá konum. Undanfarin ár hefur bleiki liturinn verið áberandi í október hér í Garði, m.a. með því að byggingar sveitarfélagsins eru lýstar með bleikum lit. Svo mun einnig verða nú í október. Krabbameinsfélagið vinnur gott og mikilvægt starf í baráttunni gegn krabbameini, félagið stendur fyrir sölu á bleiku slaufunni til fjáröflunar sinnar starfsemi og eru allir hvattir til þess að leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn krabbameinum, m.a. með því að kaupa bleiku slaufuna.

Veðrið.

Veðrið þessa vikuna hefur verið mjög gott. Flesta daga hefur verið logn og sólskin, en finna má á hitastigi að haustið er komið. Flest kvöld vikunnar hefur verið heiðskírt, með tindrandi stjörnum og dansandi norðurljósum. Þegar þetta er skrifað að morgni föstudags er logn og skínandi sól, en í morgun þurfti í fyrsta skipti þetta haustið að skafa ísskæni af framrúðu bílsins!

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail