37. vika 2016.

Haustið gerir vart við sig !

Veðrið þessa vikuna hefur verið frekar rysjótt og greinilegt á öllu að haustið sígur að. Flesta daga hafa verið sunnan áttir með rigningu af og til. Hins vegar var dásamlegt verður seinni part þriðjudags og fram í nóttina. Logn og sólskin, sólsetrið skartaði sínu fegursta á Garðskaga það kvöld og nokkur fjöldi fólks naut þess að upplifa töfra náttúrunnar.

Bæjarráð.

Bæjarráð fundaði í vikunni. Þar var m.a. fjallað um þjónustu við fatlað fólk á Suðurnesjum og varð umræða um þjónustuna til framtíðar. Bæjarstjóra var falið að sækja um byggðakvóta og farið var yfir nokkur mál í undirbúningi vinnslu fjárhagsáætlunar næsta árs. Þá má nefna að skipaður var starfshópur til samstarfs við Knattspyrnufélagið Víðir um stefnumótun og framtíðarskipulag íþróttasvæðis. Bæjarstjórn samþykkti sérstaka tillögu þess efnis í maí, í tilfeni 80 ár afmælis Víðis. Loks voru Alþingiskosningar til umfjöllunar, en eins og venja er til þurfa sveitarfélögin að annast framkvæmd kosninga. Jafnan margvísleg mál til umfjöllunar hjá bæjarráði.

Víðir fékk verðlaunin.

Síðasti heimaleikur Víðis á þessari leiktíð var sl. laugardag, þar sem Víðir vann góðan 3-1 sigur á Kára frá Akranesi. Að leik loknum fengu leikmenn og þeir sem standa að liðinu afhent verðlaun fyrir að hafna í öðru sæti 3. deildar. Með þessum frábæra árangri hefur Víðir unnið sér sæti í 2. deild á næsta ári. Til hamingju Víðismenn; leikmenn, þjálfarar og ekki síst allt það fólk sem stendur að starfi Knattspyrnufélagsins Víðis og leggur af mörkum mikla sjálfboðavinnu í þágu félagsins og samfélagsins í Garði. Á morgun, laugardag verður síðasti leikur Víðis á keppnistímabilinu og veglegt lokahóf annað kvöld í samkomuhúsinu, nokkuð víst að þar verður mikil og góð stemmning. Það er alltaf ánægjulegt að uppskera vel eftir mikla vinnu.

Silfurdrengir Víðis 2016.
Silfurdrengir Víðis 2016.

Samstarf við mótorhjólafólk.

Fulltrúar sveitarfélagsins og lögreglu hafa að undanförnu átt góð samskipti við ungmenni sem stunda mótorkross og foreldra þeirra. Í sumar brá við að slík hjól væru á ferð í bænum og var undan því kvartað. Samskiptin að undanförnu hafa gengið út á að finna leið til að ungmennin geti stundað sína iðju á þar til gerðu svæði og hefur það gengið vel. Von er til að úr þeim málum leysist fljótlega. Þetta er gott dæmi um það hvernig samtal og góð samskipti leiða til lausna á málum.

Garður í Útsvari.

Nú liggur fyrir að föstudaginn 23. september mun lið Garðs etja kappi í Útsvari í Sjónvarpinu. Það verður spennandi að fylgjast með þeim Magnúsi, Elínu Björk og Guðjóni Árna glíma við spurningarnar og verðuga andstæðinga, sem verður lið Árneshrepps. Áfram Garður !

Starfsfólk bæjarskrifstofa hittist í Garði.

Eins og fram kom í síðustu Molum, þá hittist starfsfólk bæjarskrifstofa fjögurra sveitarfélaga á Suðurnesjum í Garði sl. föstudag. Fjallað var um ýmis sameiginleg mál og var hópurinn hristur saman, enda mikilvægt að kollegar þekkist og geti átt góð samskipti um sameiginleg mál. Dagskrá dagsins var fjölbreytt. Hópurinn heimsótti Nesfisk, sem er myndarlegt og vel rekið sjávarútvegsfyrirtæki í Garðinum, þar var vel tekið á móti hópnum með kynningu á starfsemi fyrirtækisins.  Þá má nefna að farið var í ýmsar þrautir og leiki í íþróttamiðstöðinni og hópurinn átti saman góða stundi í veitingahúsinu á Garðskaga. Dagurinn var vel heppnaður, skemmtilegur og árangursríkur.

Haltur leiðir blindan, þrautakeppni í þreksalnum.
Haltur leiðir blindan, þrautakeppni í þreksalnum.
Spilandi og syngjandi bæjarstjórar.
Spilandi og syngjandi bæjarstjórar.

Haustið er tími alls kyns fundahalda.

Nú er komið að þeim tíma ársins þegar alls kyns fundir og ráðstefnur taka drjúgan tíma hjá bæjarstjórum. Í þessari viku hefur bæjarstjórinn í Garði setið fundi um þróun og framtíðar skipulag á Miðnesheiði, um markaðssetningu og stefnu í ferðaþjónustu, aðalfund Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi og í gær, fimmtudag var fundur í bæjarráði auk fundar með fjármálaráðherra um framtíðaruppbyggingu á Miðnesheiði. Í dag er aðalfundur Reykjanes Jarðvangs (Reykjanes Geopark) og síðan verður sameiginlegur starfsmannadagur starfsfólks sveitarfélagsins fram eftir degi.  Í næstu viku ber hæst fjármálaráðstefna sveitarfélaga, ásamt fleiri fundum á vettvangi sveitarstjórnarfólks. Loks mun bæjarstjórinn mæta í sjónvarpssal föstudagskvöldið 23. september og hvetja lið Garðs, sem mun keppa í Útsvari.  Vegna allra þessara anna verða Molar í fríi í næstu viku.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail