36. vika 2016.

Leikskólinn Gefnarborg er til fyrirmyndar.

Eins og á við um samfélagið í Garði, þá ber leikskólinn Gefnarborg sterkan keim af fjölmenningu. Af 84 börnum í leikskólanum eiga 19 þeirra tvö eða fleiri móðurmál. Í góðri grein í Víkurfréttum þann 7. september sl., fjallar Ingibjörg Jónsdóttir leikskólastjóri um að leikskólinn hefur unnið með margbreytileika samfélagsins og að hann fái notið sín sem best.  Í grein Ingibjargar kemur m.a. fram að á komandi skólaári ætli starfsfólk leikskólans Gefnarborgar að halda áfram og auka enn meira við það góða starf sem unnið er. „Markmiðið er að efla fjölmenningarlegan skólabrag og móta stefnu um fjölmenningu innan leikskólans. Einnig að gera fjölmenninguna enn sýnilegri og gera öll börn, starfsfólk og aðstandendur enn betur meðvituð um mikilvægi þess að virða og hlusta á raddir ólíkra menningarheima, vinna gegn fordómum og auka víðsýni. Við starfsfólkið á Gefnarborg vonum að þessi markmið eigi eftir að skila sér áfram til alls samfélagsins“ segir Ingibjörg leikskólastjóri í greininni í Víkurfréttum.

Frábært starf hjá leikskólanum Gefnarborg og til fyrirmyndar. Leikskólinn er einkarekinn, með þjónustusamningi við sveitarfélagið og hefur Hafrún Víglundsdóttir haft rekstur leikskólans með höndum í mörg ár. Til hamingju með gott starf á Gefnarborg.

Leikskólabörn í garðinum Bræðraborg.
Leikskólabörn í garðinum Bræðraborg.

Bæjarstjórn.

Í vikunni var fundur í bæjarstjórn Garðs. Bæjarstjórnin hefur ekki fundað síðan í júní og hefur bæjarráð haft heimild frá bæjarstjórn til fullnaðarafgreiðslu mála í millitíðinni. Á dagskrá bæjarstjórnar voru ýmsar fundargerðir nefnda og fundarboð á aðalfundi nokkurra félaga sem sveitarfélagið á aðild að. Bæjarstjórn samþykkti ályktun um samgöngumál, þar sem Alþingi og samgönguyfirvöld eru hvött til að setja í forgang tvöföldun Reykjanesbrautar frá Fitjum í Reykjanesbæ að Rósaselstorgi í Garði. Loks samþykkti bæjarstjórn samstarfssamning við þróunarfélag um hraðlest frá Keflavíkurflugvelli og loks var samþykkt fundaáætlun bæjarstjórnar og bæjarráðs til júní 2017.

Góður andi er í bæjarstjórninni og má segja að bæjarstjórnin komi vel undan sumri, enda hefur veðurblíða verið með eindæmum í sumar.

Félagsmiðstöðin hefur starfsemi.

Starfsemi Félagsmiðstöðvarinnar Eldingar hefst mánudaginn 12. september. Öflugt og fjölbreytileg starfsemi verður í félagsmiðstöðinni í vetur, að vanda. Starfsmenn hafa verið ráðnir og skipulag starfsins liggur fyrir. Spennandi vetur framundan í félagsmiðstöðinni.

Nemendaráð Gerðaskóla.

Nýverið kusu nemendur Gerðaskóla fulltrúa í Nemendaráð skólans. Það er jafnan nokkur spenna kringum þessa kosningu, sem sýnir áhuga nemendanna á starfinu. Hér að neðan er mynd af nýkjörnu Nemendaráði Gerðaskóla, sem Guðbrandur íþrótta-og æskulýðsfulltrúi tók í skólanum.

Nemendaráð Gerðaskóla.
Nemendaráð Gerðaskóla.

Heimsókn starfsfólks bæjarskrifstofa í Garðinn.

Sú hefð hefur verið mörg undanfarin ár að starfsfólk á bæjarskrifstofum Garðs, Sandgerðisbæjar, Grindavíkurbæjar og Voga hefur komið saman einu sinni á ári til skrafs og ráðagerða. Að þessu sinni er starfsfólk bæjarskrifstofunnar í Garði gestgjafar. Í dag, föstudag koma þessir góðu gestir og kollegar í heimsókn til okkar í Garðinn.  Það er alltaf ánægjulegt að fá góða gesti í heimsókn, ekki síst kollega og nágranna. Við lærum alltaf hvert af öðru þegar hist er og eflum kynnin.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail