35. vika 2016.

Víðir upp um deild.

Í gær, fimmtudag var stórleikur á Nesfiskvellinum. Þar áttust við lið Víðis og Þróttar í Vogum, sannkallaður nágrannaslagur. Víðir gat tryggt sér sæti í 2. deild að ári með því að fá a.m.k. eitt stig út úr leiknum. Svo fór að Víðir sigraði leikinn 3-1 og þar með liggur fyrir að Víðir fer upp um deild og leikur í 2. deild á næsta ári. Mikill fögnuður var í leikslok, enda mikilvægum áfanga náð og þar með megin markmiði liðsins í sumar. Með þessum úrslitum fær Knattspyrnufélagið Víðir góða afmælisgjöf frá leikmönnum, þjálfurum og öllum þeim sem standa að liðinu,en félagið á 80 ára afmæli í ár. Hér að neðan er mynd af sigurglöðum leikmönnum Víðis í klefanum eftir leik og mynd af leikmönnum, þjálfurum og stjórnarfólki.

Til hamingju með frábæran árangur Víðismenn !

Sigurreifir Víðismenn í leikslok.
Sigurreifir Víðismenn í leikslok.
Víðir 2016
Víðir 2016

Bæjarstjórar á knattspyrnuleik.

Þar sem lið Víðis og Þróttar í Vogum áttust við í Garðinum í gær, var við hæfi að bæjarstjórar sveitarfélaganna fylgdust saman með leiknum. Í hálfleik var staðan 1-1 og allt lék í lyndi, þá var við hæfi að Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í Vogum tæki sjálfu-mynd af okkur kollegunum. Vogamenn samglöddust Víðismönnum að leik loknum, enda góðum áfanga náð hjá Víði.

Bæjarstjórar á knattspyrnuleik Víðis og Þróttar.
Bæjarstjórar á knattspyrnuleik Víðis og Þróttar.

Aparólan vígð.

Sl. mánudag var stórviðburður á lóð Gerðaskóla, en þá fór fram vígsla á aparólunni sem var sett upp á skólalóðinni í sumar. Nemendur og starfsfólk skólans fjölmenntu út á svæðið í góða veðrinu og tóku þátt í hátíðarhöldunum. Ungmennaráð Garðs beitti sér fyrir því gagnvart bæjarstjórn að aparóla væri sett upp á skólalóðinni og nú hefur barátta þeirra skilað árangri. Það var því við hæfi að Halldór Gísli Ólafsson formaður Ungmennaráðs færi fyrstu ferðina, það gerði hann við mikil fagnaðarlæti viðstaddra. Myndirnar að neðan voru teknar við þetta tækifæri.

Fyrsta ferðin í aparólunni.
Fyrsta ferðin í aparólunni.
Fjöldi nemenda og stemmning við vígslu rólunnar.
Fjöldi nemenda og stemmning við vígslu rólunnar.

Fjölgun íbúa, vantar einn upp á 1.500 !

Allt frá því í vor hefur íbúum Sveitarfélagsins Garðs fjölgað jafnt og þétt. Í Molum 28. viku þann 15. júlí sl. kom fram að íbúar væru 1.477 talsins, samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár. Þá hafði íbúum fjölgað um 52 frá 1. desember 2015, þegar skráðir íbúar í sveitarfélaginu voru 1.425 talsins. Samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár sl. mánudag, þann 29. ágúst voru íbúar sveitarfélagsins 1.499 talsins. Þar með hefur íbúum fjölgað um 74 frá 1. desember sl., eða um 5,2%. Miðað við þróunina má búast við að í næstu viku verði íbúafjöldi sveitarfélagsins orðinn 1.500.

Garður í Útsvari.

Sveitarfélagið Garður mun tefla fram hörku liði í Útsvari Sjónvarpsins í vetur. Þetta verður í fyrsta skipti sem sveitarfélagið tekur þátt í Útsvari og verður spennandi að fylgjast með liði okkar. Búið er að velja í liðið og munu eftirtalin skipa lið Garðs: Magnús Guðmundsson kennari og fyrrverandi skipstjóri, Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur og Guðjón Árni Antoníusson íþróttafræðingur og knattspyrnukappi. Við óskum þeim góðs gengis og stöndum þétt við bakið á okkar liði.

Umferðartalning á Garðskaga.

Umferð ferðafólks hefur aukist mikið á Suðurnesjum að undanförnu. Það sama á við um Garðskaga. Erfitt hefur reynst að nálgast upplýsingar um fjölda þeirra sem koma á Garðskaga, en nú er hafin markviss talning og því verður auðveldara að fá þessar upplýsingar. Talning hófst á Garðskaga í byrjun júní og hefur komið í ljós að um 40.000 manns komu á svæðið hvorn mánuðinn júní og júlí í sumar, eða um 80.000 manns þessa tvo mánuði. Fróðlegt verður að fylgjast með talningu komandi mánuði og misseri, samkvæmt lauslegri ágiskun má ætla að hátt í 200.000 manns komi nú á Garðskaga á ársgrundvelli.

Samstarfssamningur vegna hraðlestar.

Í gær, fimmtudag undirrituðu bæjarstjórar sveitarfélaganna Sandgerðisbæjar, Garðs, Reykjanesbæjar og Voga, ásamt fulltrúum Þróunarfélags um hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins samstarfssamning. Samningurinn felur í sér samstarf aðila um skipulagsmál og greiningu á samfélagslegum áhrifum á Suðurnesjum.

Veðrið.

Nú í upphafi september mánuðar er ljóst að haustið er að síga að. Ágætt veður hefur verið þessa vikuna, aðeins skipst á skin og skúrir en ágætt hitastig. Þegar þetta er skrifað á föstudags morgni er hægviðri, heiður himinn og skínandi sól. Útsýnið frá skrifstofu bæjarstjórans, yfir Faxaflóann þar sem blasir við fjallahringurinn alla leið að Snæfellsjökli, er eins og best verður á fallegum degi.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail