34. vika 2016.

Skólasetning Gerðaskóla í 144. skipti.

Í byrjun vikunnar var Gerðaskóli settur, þar með er skólastarf vetrarins hafið eftir gott sumarleyfi. Fyrsta skólasetning Gerðaskóla var þann 7. október 1872 og var skólinn því settur í 144. skipti að þessu sinni. Í sumar var unnið að viðhaldsverkefnum í húsnæði skólans, auk þess sem aparólu var komið fyrir á skólalóðinni. Bæjarstjórinn býður nemendur og starfsfólk skólans velkomið til starfa og óskar þeim góðs gengis í sínum störfum í vetur.

Nú þegar skólastarfið er hafið í grunnskólanum og leikskólanum er hvatt til aðgátar í umferðinni í nágrenni skólanna. Árvökulir lögreglumenn hafa fylgst með umferðinni við skólana þessa vikuna, við verðum öll að gæta fyllstu varúðar gagnvart börnunum sem eiga leið til og frá skólunum.

Sjónarspil á Garðskaga.

Eftir mitt sumar hefur verið mikil umferð fólks að kvöldlagi á Garðskaga til að njóta sólseturs, enda hefur veðurfarið verið með þeim hætti að fallegt sólsetur hefur verið nánast hvert kvöld. Nú styttist í þann tíma ársins þegar fjölmargir koma á Garðskaga að kvöldlagi til að njóta norðurljósa. Sl. þriðjudagskvöld brá svo við að bæði var ótrúlega fallegt og tilkomumikið sólsetur og nokkrum klukkustundum síðar dönsuðu norðurljós á himni yfir Garðskaga. Sólarhring síðar lagðist þoka yfir Garðskagann og þá lýsti vitaljósið í Garðskagavita inn í þokuna og myndaðist sannkölluð dulúð. Sannarlega tilkomumikið sjónarspil. Myndirnar hér að neðan bera vitni um það.

Sólsetur 23. ágúst 2016 (Mynd: Atli R Hólmbergsson)

Sólsetur 23. ágúst 2016 (Mynd: Atli R Hólmbergsson)

Norðurljós 23. ágúst 2016 (Mynd: Jóhann Ísberg).
Norðurljós 23. ágúst 2016 (Mynd: Jóhann Ísberg).
Vitinn í þokunni. (Mynd: Kjartan G Júlíusson).
Vitinn í þokunni. (Mynd: Kjartan G Júlíusson).

Þjóðhátíð á leikskólanum.

Börnin á leikskólanum Gefnarborg tengjast mörgum mismunandi þjóðernum, þar á meðal er Úkraína. Miðvikudaginn 24. ágúst var þjóðhátíðardagur Úkraínu og þann dag var þjóðfána Úkraínu flaggað við leikskólann. Í góða veðrinu hreyfðist fáninn varla á fánastönginni.

Þjóðfáni Ukraínu við Gefnarborg.
Þjóðfáni Ukraínu við Gefnarborg.

Veðrið.

Veðrið í sumar hefur verið hreint dásamlegt. Sumir halda því fram að þetta sé besta sumar í minni eldri manna. Allur gróður ber þess merki, þar sem t.d. trjágróður hefur dafnað mjög vel. Gott verður hefur verið þessa vikuna og kærkomið að fá smá vætu nú síðustu nótt.

Góða helgi.

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail