31. vika 2016.

Róleg vika.

Eins og venja er til er vikan eftir Verslunarmannahelgi frekar róleg almennt. Margir hafa verið í sumarleyfum og nýta þessa viku til ferðalaga, aðrir eru að koma sér í daglega rútínu eftir sumarleyfin. Nú þegar líður inn í ágúst mánuð fara hjólin að snúast aftur af meiri krafti, stutt er í að skólahald hefjist og almennt verður farið að huga að verkefnum haustsins og næsta vetrar.

Tónlistarsköpun í Garðskagavita.

Eins og fram kom í molum síðustu viku, þá unnu þau Ólafur Arnalds og Nanna Bryndís Hilmarsdóttir tónlistarmenn að tónlistarsköpun og upptökum í Garðskagavita í síðustu viku. Afrakstur þeirra vinnu hefur verið opinberaður á internetinu, mjög flott lag og skemmtilegt myndband. Það er ánægjulegt fyrir okkur í Garði að þessi viðburður hafi átt sér stað á Garðskaga og óskum þeim Ólafi og Nönnu til hamingju með frábært verk. Hér að neðan er hlekkur á tónlistarmyndbandið sem þau unnu í Garðskagavita.

Ólafur Arnalds – Particles ft. Nanna Bryndís Hilmarsdóttir

Byggðasafnið og ferðaþjónusta á Garðskaga.

Byggðasafnið var opnað aftur fyrir nokkru síðan, eftir framkvæmdir í húsinu. Safnið er nú opið daglega milli kl. 13:00 og 17:00. Eins og kunnugt er var opnað lítið kaffihús í gamla vitanum og hefur verið mikil aðsókn að því, enda þykir mörgum sérstök upplifun að koma við í gamla vitanum. Nú mun stutt í að veitingasala hefjist aftur á efri hæð í byggðasafninu og unnið hefur verið að uppsetningu á sýningum í stóra vitanum, sjálfum Garðskagavita.

Unuhús, Sjólyst.

Í ár hefur verið unnið að viðhaldi og endurbótum á Sjólyst. Skipt hefur verið um glugga og nú standa yfir endurbætur á klæðningu hússins. Sjólyst er hús Unu í Garði og hafa Hollvinir Unu annast húsið, sem er í eigu sveitarfélagsins og haldið á lofti minningu Unu. Í húsinu eru munir sem voru þar meðan Una Guðmundsdóttir bjó í Sjólyst, gestir eru velkomnir í heimsókn en Sjólyst er að jafnaði opin gestum um helgar.

Endurbætur á Sjólyst.
Endurbætur á Sjólyst.

Víðir á sigurbraut.

Eftir slæman skell um daginn komu Vðismenn sterkir til baka og unnu góðan sigur á Dalvík í gær. Liðið er í góðri stöðu í öðru sæti 3. deildar og á nú alla möguleika á að vinna sér sæti í 2. deild að ári. Til hamingju Víðismenn, með óskum um áframhaldandi gott gengi.

Veðrið.

Veðrið í sumar hefur verið með ágætum hér í Garðinum. Að undanförnu hefur verið sólskin nánast alla daga og oftast hægviðri eða logn, sannkallað sumarveður. Mikil umferð hefur verið af fólki á Garðskaga undanfarin kvöld, sólarlagið bak við Snæfellsnesið er töfrum líkast og vilja margir upplifa það og njóta. Útlit er fyrir áframhald á veðurblíðunni, a.m.k. næstu dagana.

Regnbogafáninn blaktir.

Regnbogafáninn hefur verið dreginn upp við bæjarskrifstofuna í Garði. Um helgina verða Hinsegin dagar og mun regnbogafáninn blakta fram yfir helgi af því tilefni.

Regnbogafáni við bæjarskrifstofuna.
Regnbogafáni við bæjarskrifstofuna.

 

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail