30. vika 2016.

Makrílvertíð á Gerðabryggju.

Eins og kunnugt er hefur bryggjan í Garði verið aflögð sem löndunarbryggja og fiskiskip hafa ekki lagt að bryggjunni í allmörg ár. Engu að síður berst nokkur afli á land við bryggjuna, einkum yfir hásumarið. Skýringin er sú að þegar Makríll gengur inn með ströndinni, þá veiðist gjarnan mikið af Makríl á stöng frá Gerðabryggju. Nú undanfarið hefur orðið vart við Makríll framan við bryggjuna og margir veiðimenn hafa mætt með veiðistangir sínar og kastað fyrir Makríl. Suma daga hefur veiðst vel og því nokkur afli komið á land. Hitt er annað að þessi sjávarafli er utan kvóta, ekki vigtaður og skráður, enda er heimilt að veiða sér afla úr sjó í soðið. Það er því ljóst að víða hefur Makríll verið matreiddur og snæddur að undanförnu og má gera ráð fyrir að svo verði eitthvað áfram. Hafnarstjóri brýnir fyrir makrílveiðimönnum að gæta varúðar á bryggjunni og sýna af sér góða umgengni um hafnarsvæðið, en slæm umgengni hefur því miður fylgt veiðimennskunni á bryggjunni.

Mikill fjöldi ferðamanna í sumar.

Í sumar hafa mjög margir ferðamenn heimsótt Garðinn og liggur leið flestra á Garðskaga. Um er að ræða mikla aukningu frá fyrri árum, enda virðist náttúruperlan Garðskagi toga sífellt fleiri ferðamenn til sín. Ekki liggur fyrir hve margir heimsækja Garðskaga á ársgrundvelli, en það er ljóst að sá fjöldi er umtalsverður. Uppbygging á þjónustu og afþreyingu á Garðskaga er í fullum gangi og miðar að því að veita gestum á Garðskaga sem besta þjónustu, ásamt því að vernda umhverfið sem er einstakt.

Nú nýlega var opnað lítið kaffihús í gamla vitanum á Garðskagatá, hefur það vakið mikla athygli og þangað hafa margir gestir komið nú þegar til að fá sér kaffisopa.

Kaffihúsið Flösin, eða The Old Lighthouse Cafe á Garðskaga.
Kaffihúsið Flösin, eða The Old Lighthouse Cafe á Garðskaga.(mynd: Guðmundur Sigurðsson).

Heimsþekktir tónlistarmenn á Garðskaga.

Sl. þriðjudag voru heimsþekktir tónlistarmenn að störfum á Garðskaga. Það voru þau Ólafur Arnalds og Nanna Bryndís Hilmarsdóttir söngkona í Of Monsters And Men, en Nanna er Garðbúi sem ólst upp hér í Garðinum. Þau sömdu saman lag og unnu að upptökum í Garðskagavita, enda er hljómburður í vitanum einstakur og mikil upplifun að verða vitni að tónlistarflutningi í honum. Þá voru kvikmyndaupptökur á Garðskaga, sem verða notaðar í video með laginu sem þau tóku upp. Leikstjórinn Baldvin Z stjórnaði kvikmyndaupptökunum, Garðbúinn og Edduverðlaunahafinn Kristín Júlla Kristjánsdóttir vann með listafólkinu við upptökurnar. Það verður spennandi að sjá og heyra afrakstur listamannanna frá verunni á Garðskaga, en áætlað er að lagið og videomyndin verði opinberað á netinu í byrjun næstu viku. Allt að gerast í Garðinum.

Myndirnar hér að neðan tók Jóhann Ísberg af þeim Nönnu, Kristínu og Ólafi á Garðskaga, en þar var einstök veðurblíða á þriðjudaginn líkt og oft hefur verið í sumar.

Nanna og Kristín Júlla á Garðskaga
Nanna og Kristín Júlla á Garðskaga
Ólafur Arnalds í Garðskagavita.
Ólafur Arnalds í Garðskagavita.

Miðnesheiði, vinna stýrihóps.

Í upphafi sumars gengu sveitarfélögin Garður, Sandgerðisbær og Reykjanesbær til samstarfs um þróun og skipulag á uppbyggingu atvinnustarfsemi á Miðnesheiði við Keflavíkurflugvöll. Skipaður var stýrihópur fulltrúa sveitarfélaganna sem hefur unnið ötullega að verkefninu í sumar. Unnið er að því að afmarka það landsvæði sem verkefnið á að ná til, ásamt því að framundan eru viðræður stýrihópsins við ríkið og ríkisfyrirtæki á svæðinu með samstarf um verkefnið að leiðarljósi. Um er að ræða mjög mikilvægt mál til lengri framtíðar, þannig að sem best takist til við að þróa og byggja svæðið upp. Samfara mjög auknum umsvifum tengdum sífellt meiri umferð um Keflavíkurflugvöll, hafa mörg fyrirtæki sem starfa að flugtengdri þjónustu og þjónustu við ferðafólk leitað eftir lóðum fyrir sína starfsemi á því svæði sem verkefnið nær til. Það er því mikilvægt að vel takist til við skipulag og uppbyggingu svæðisins til framtíðar og það kallar á gott samstarf sveitarfélaganna, ríkisins og fleiri aðila við verkefnið. Vonandi gengur það eftir, enda miklir hagsmunir í húfi til framtíðar litið.

Skrúðgarðurinn við Bræðraborg.

Skrúðgarðurinn við Bræðraborg var byggður upp og ræktaður í áratugi af Magnúsi Magnússyni frá Bræðraborg. Magnús fæddist árið 1915 og lést árið 1994. Unnur Björk Gísladóttir eiginkona Magnúsar hélt starfi hans við garðinn áfram eftir fráfall hans og árið 2005 afhenti Unnur Björk sveitarfélaginu garðinn í minningu Magnúsar.

Í vor og sumar hefur sumarstarfsfólk sveitarfélagsins unnið mikið og gott verk í Bræðraborgargarði, undir stjórn Einars Friðriks Brynjarssonar tæknifulltrúa hjá Umhverfis-,skipulags-og byggingarsviði og Berglindar Fanney Guðlaugsdóttur verkstjóra vinnuskólans. Bræðraborgargarðurinn er fallegur skrúðgarður í nágrenni Íþróttamiðstöðvarinnar, með miklum og margvíslegum gróðri. Garðurinn sannkallaður sælureitur sem ánægjulegt er að heimsækja.

Myndirnar hér að neðan eru af þeim Einari Friðrik og Berglindi Fanney  í sælureitnum Bræðraborgargarði, í sól og blíðuveðri nú í vikunni.

Einar Friðrik og Berglind í Bræðraborgargarði.

Í Bræðraborgargarði

 

Víðismenn misstigu sig!

Knattspyrnuliði Víðis hefur gengið vel í 3. deildinni í sumar.  Liðið er nú í góðri stöðu í öðru sæti í baráttunni um að vinna sér sæti í 2. deild að ári. Það hefur verið ánægjulegt að horfa á leiki liðsins í sumar, enda liðið vel spilandi og skorar mikið af mörkum. Eins og stundum gerist þá misstíga menn sig á beinu brautinni, nú í vikunni tapaði Víðir illa og var það aðeins annar tapleikur liðsins í sumar. Framundan er síðari hluti mótsins og margir spennandi leikir á næstu vikum. Áfram Víðir !

Verslunarmannahelgi framundan.

Nú er Verslunarmannahelgin að ganga í garð. Að venju verða margir á ferðinni alla helgina og um allt land. Á mörgum stöðum er skipulögð dagskrá sem margir taka þátt í, aðrir ferðast um landið í öðrum tilgangi. Ferðalangar eru hvattir til varúðar í umferðinni þannig að allir komist heilir heim að ferðalagi loknu.

 

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail