12. vika 2018.

Árshátíð Gerðaskóla.

Nú í vikunni héldu nemendur Gerðaskóla sína árlegu árshátíð. Nemendur og starfsfólk skólans hafa að undanförnu staðið í ströngu við að undirbúa árshátíðina, sem var að vanda glæsileg og vel heppnuð. Nú eru nemendur og starfsfólk komin í páskafrí og mæta aftur til starfa strax eftir Páska. Vonandi njóta þau þess öll að komast í fríið og hafi það gott um páskahelgina. Myndina hér að neðan tók Guðmundur Sigurðsson af hljómsveitinni 13 nótur, sem er skipuð nemendum Gerðaskóla og hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir flottan tónlistarflutning á ýmis hljóðfæri, sem sum eru óhefðbundin.

Bæjarráð í vikunni.

Nú í vikunni fundaði bæjarráð Garðs og voru ýmis mál á dagskrá, að venju. Sem dæmi um mál sem voru til umfjöllunar er erindi frá Heilbrigðisnefnd Suðurnesja, sem hvetur til þess að fundin verði ný vatnsból til að tryggja vatnsöflun á Suðurnesjum en núverandi vatnsból eru í nágrenni Grindavíkurvegar og ekki þarf að spyrja að áhrifum þess ef vatnsbólin spillast vegna hugsanlegra umhverfisslysa á veginum. Þá var samþykkt erindi frá Knattspyrnufélaginu Víði, sem leggur til að Sólseturshátíðin þetta árið verði undir mánaðamótin maí/júní, en ekki í lok júní eins og verið hefur undanfarin ár. Farið var yfir framkvæmdir og framkvæmdaáætlun ársins og lögð fram drög að ársreikningi sveitarfélagsins fyrir árið 2017. Loks var fjallað um fundargerðir sameiginlegra nefnda sem sveitarfélagið á aðild að, þar á meðal um fundargerðir Stjórnar til undirbúnings sameiningar Garðs og Sandgerðisbæjar. Alltaf nóg um að vera hjá bæjarráði.

Af sameiningarmálum.

Mikil vinna hefur verið í gangi við að undirbúa sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Stjórn til undirbúnings sameiningunni hefur gert skil á öllum formlegheitum til Sveitarstjórnaráðuneytis þannig að ráðuneytið geti auglýst sameininguna í samræmi við sveitarstjórnarlög. Mikil vinna er framundan við alls kyns undirbúning, til þess að sameiningin geti gengið hnökralaust fyrir sig og nýtt sameinað sveitarfélag hefji starfsemi að loknum sveitarstjórnarkosningum 26. maí. Þessa dagana er mest umræða og spenna meðal margra íbúa sveitarfélaganna um það hvað nýtt sveitarfélag muni heita. Ekki síður virðast margir aðilar utan sveitarfélaganna spenntir og forvitnir um nafnið. Sumir fara hamförum í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum og geta greinilega ekki beðið eftir niðurstöðu íbúanna um málið. Framundan er rafræn kosning meðal íbúa sveitarfélaganna, þar sem kosið verður milli tillagna frá nafnanefndinni og munu þær tillögur koma fram fljótlega. Einn gárunginn sagði að spennan hjá sumum vegna nafns á nýtt sveitarfélag minni á spennu barnanna fyrir jólin, þau geti ekki beðið eftir að fá að opna jólapakkana…

Vetrarfundur SSS.

Í dag, föstudag verður vetrarfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Á fundinum verður m.a. fjallað um þá athyglisverðu staðreynd að þrátt fyrir gríðarlega fjölgun íbúa í sveitarfélögunum síðustu 2-3 árin, hefur ríkið ekki staðið sig í að fylgja þeirri þróun eftir, t.d. í heilbrigðisþjónustu, menntamálum, löggæslumálum, samgöngumálum o.s.frv. Þar að auki hafa þjónustustofnanir sem ríkið ber ábyrgð á í mjög auknum mæli þurft að sinna þeirri sprengingu sem verið hefur í fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll. Þannig má því segja að álag á þá þjónustu ríkisins hér á svæðinu hafi aukist frá tveimur hliðum, en því miður hefur ríkið ekki séð ástæðu til að styrkja þessa þjónustu með auknum fjárheimildum þrátt fyrir að sveitarstjórnarfólk á Suðurnesjum hafi ítrekað sýnt fram á nauðsyn þess með gögnum og fullgildum rökum. Þá verður eflaust umræða á fundinum í dag um framlög úr ríkiskerfinu til ýmissa verkefna sem tengjast stóraukinni umferð ferðafólks á Suðurnesjum. Þar er allt á sömu bókina lagt, frekar dregið úr en hitt og nýjasta skrautfjöður ríkisins í þeim efnum kom fram við flugeldasýningu tveggja ráðherra í gær, þegar tilkynnt var um framlög úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Allt þetta hvetur sveitarstjórnarfólk til dáða til að berjast af enn meira afli en áður til þess að ríkiskerfið opni augun, átti sig á þróun mála á Suðurnesjum og æpandi þörf fyrir aukna athygli ríkisins þegar kemur að þjónustu við íbúa, atvinnulíf og ferðafólk á svæðinu.

Vorjafndægur.

Sl. þriðjudag þann 20. mars kl. 16:15 var vorjafndægur og eftir það hófst vorið. Á sama tíma var haustjafndægur á suðurhveli jarðar og þar hófst því haustið. Gangur tungls, þ.e. hvenær fullt tungl er og tímasetning vorjafndægurs ræður því hvenær Páskadagur er hverju sinni. Páskasunnudag ber alltaf upp fyrsta sunnudag eftir fyrsta fulla tungl eftir vorjafndægur. Í ár var síðasta fulla tungl fyrir vorjafndægur þann 2. mars. Næsta fulla tungl eftir vorjafndægur verður á morgun, laugardaginn 31. mars. Þar af leiðandi verður Páskadagur sunnudaginn 1. apríl. Þennan fróðleik má m.a. finna á Stjörnufræðivefnum. Þar kemur einnig fram að árið 1582 hafi Gregoríus 13. páfi sett fram tímatalið sem við förum eftir og sú tímatalsregla tryggi að vorjafndægur beri upp á tímabilinu 19. – 21. mars ár hvert. Alltaf fróðlegt að rýna í vísindin, sem í þessu tilfelli sýna fram á að vorið sé hafið 🙂

Góða helgi

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

11. vika 2018.

Sameining sveitarfélaga.

Mikil vinna er í gangi við undirbúning að sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Stjórn til undirbúnings sameiningunni hefur afgreitt þau formsatriði sem þarf til að sveitarstjórnaráðuneyti geti auglýst sameininguna. Þá er unnið að mörgum öðrum verkefnum til þess að undirbúa það að sameiningin geti gengið hnökralaust fyrir sig. Þar má m.a. nefna starfsmannamálin, samræmingu samþykkta og reglugerða, skjalastjórnun og persónuverndarmál, svo eitthvað sé nefnt. Framundan er svo vinna við að sameina ýmis kerfi og fjárhagsbókhald. Sumir dagar eru þétt bókaðir fyrir ýmsa fundi vegna verkefnisins og má sem dæmi nefna að í dag, föstudag eru ýmsir fundir í gangi hér á bæjarskrifstofunni í Garði, allt frá því snemma morguns og fram á seinnipart dagsins. Allt gengur þetta mjög vel og góður starfsandi svífur yfir verkefninu.

Nýr skólastjóri Gerðaskóla.

Í síðustu viku samþykkti bæjarstjórn að ráða Evu Björk Sveinsdóttur í stöðu skólastjóra Gerðaskóla. Eva mun taka við starfinu þann 1. ágúst. Eva hefur starfað sem aðstoðarskólastjóri við Gerðaskóla í vetur. Um leið og henni er óskað til hamingju með stöðuna væntum við góðs af samstarfi við hana á komandi árum. Þar sem Eva mun láta af starfi aðstoðarskólastjóra, hefur sú staða nú verið auglýst laus til umsóknar á heimasíðu sveitarfélagsins svgardur.is. Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér auglýsinguna.

Er vorið að koma ?

Eftir að töluvert snjóaði í Garðinum um síðustu helgi hefur veður snúist í hlýindi og rigningu á köflum. Snjórinn sem féll um síðustu helgi staldraði stutt við og er horfinn. Nú í vikunni sagði einn pottverjinn frá því í heita pottinum snemma morguns að hann hafi séð nokkra Tjalda á vappi á Garðskaga. Taldi hann það augljóst merki um að vorið sé byrjað að færast yfir. Vonandi er það rétt, hver dagur er hænufet inn í vorið og í átt að sumri.

Góða helgi 🙂

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

10. vika 2018.

Menningin blómstrar í Garði.

Eins og fram hefur komið hlaut listahátíðin Ferskir viðurkenninguna Eyrarrós fyrir stuttu.  Um síðustu helgi var uppskeruhátíð tónlistarskólanna, Nótan haldin í Hörpu. Þar hlaut rokkhljómsveit frá Tónlistarskólanum í Garði, skipuð fjórum nemendum sérstök Nótuverðlaun fyrir framúrskarandi tónlistarflutning í opnum flokki. Þá voru þeir valdir úr hópi verðlaunahafa til að endurflytja sitt atriði í lok hátíðarinnar. Strákarnir í hljómsveitinni, þeir Alexander, Helgi, Hólmar Ingi og Magnús Fannar og tónlistarskólinn fá hamingjuóskir með þennan frábæra árangur. Hér eru myndir af rokkurunum úr Garði í Hörpu.

Alþjóðleg ráðstefna jarðvanga.

Mikið og gott starf hefur verið unnið undanfarin misseri og ár við að byggja upp og markaðssetja Reykjanesið fyrir ferðamenn. Reykjanes Jarðvangur (Reykjanes Geopark) er viðurkenndur UNESCO Global Geopark, sem á aðild að evrópusamtökum jarðvanga og á alþjóðavísu. Í síðustu viku var alþjóðleg ráðstefna jarðvanga haldin í Keili, þar voru mættir um 70 fulltrúar margra jarðvanga víðs vegar að frá 11 löndum. Ráðstefnan tókst vel og var til fyrirmyndar hvernig starfsfólk Reykjanes Jarðvangs stóð að undirbúningi og framkvæmd ráðstefnunnar.

Fleiri viðurkenningar og tilnefningar.

Á síðasta ári var Reykjanes tilnefnt sem eitt af 100 sjálfbærustu ferðamannasvæðum heimsins, svonefnd Sustainable Global Destinations. Nú í vikunni hlaut Reykjanes þriðju verðlaun af þessum 100 sjálfbærustu svæðum, í flokknum Earth Award. Þessi verðlaun eru veitt fyrir framlag í loftslagsmálum, gegn þeim loftslagsbreytingum sem verið hafa (sjá mynd af viðurkenningarskjali hér fyrir neðan). Þá var markaðsherferð Markaðsstofu Reykjaness, „Reykjanes-við höfum góða sögu að segja“ tilnefnd til árangursverðlauna ÍMARK. Þetta verkefni var unnið í samstarfi við HN-Markaðssamskipti. Þótt svo þessi markaðsherferð hafi ekki hlotið verðlaunin, þá felst mikil viðurkenning í tilnefningunni sem merki um gott og árangursríkt verkefni.

Fundur í bæjarstjórn.

Bæjarstjórn fundaði sl. miðvikudag og voru ýmis mál á dagskrá. Uppistaða í dagskrá bæjarstjórnar eru jafnan fundargerðir nefnda og ráða. Meðal þess sem bæjarstjórn samþykkti á fundinum voru drög að nýrri lögreglusamþykkt fyrir sveitarfélögin í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Þá kaus bæjarstjórn fulltrúa í yfirkjörstjórn vegna komandi sveitarstjórnarkosninga.  Við þær kosningar verður kosin bæjarstjórn fyrir nýtt sameinað sveitarfélag, kjördeildir verða í hvoru núverandi sveitarfélaga með tilheyrandi undirkjörstjórnum og því þarf að kjósa yfirkjörstjórn til að annast framkvæmd kosninganna. Þá samþykkti bæjarstjórn að bjóða Evu Björk Sveinsdóttur stöðu skólastjóra Gerðaskóla.

Vorboðinn á Garðsjónum.

Í góða veðrinu nú í vikunni birtist vorboðinn á Garðsjónum. Það eru allir smábátarnir sem voru við veiðar úti fyrir Garði. Það er jafnan ákveðinn vorbragur af því þegar smábátarnir hefja veiðar og sú var upplifunin nú í vikunni. Þegar þetta er skrifað fyrir hádegi á föstudegi, má sjá fjölda smábáta að veiðum úti af Garðinum.

Safnahelgi framundan.

Nú um komandi helgi verður Safnahelgi á Suðurnesjum. Hins ýmsu söfn í öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum verða opin almenningi og ýmsar uppákomur verða. Heimafólk og gestir eru hvattir til að heimsækja söfnin á svæðinu um helgina. Nánari upplýsingar eru á vefnum safnahelgi.is.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

9. vika 2018.

Ferskir vindar handhafi Eyrarrósarinnar.

Alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar í Garði hlaut í gær Eyrarrósina, sem er viðurkenning sem er afhent á hverju ári fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Eliza Reid forsetafrú og verndari Eyrarrósarinnar afhenti Mireyu Samper viðurkenninguna við athöfn á Neskaupstað. Listahátíðin Ferskir vindar hefur verið haldin fimm sinnum í Garði og er samstarfsverkefni sveitarfélagsins og Ferskra vinda. Nú er listahátíðin orðin handhafi Eyrarrósarinnar og er það mikil viðurkenning og heiður fyrir samfélagið í Garði, en ekki síst fyrir Mireyu Samper og hennar samstarfsfólk. Mireya fær innilegar hamingjuóskir með Eyrarrósina, sem er mikil viðurkenning fyrir það menningarstarf sem hún hefur staðið fyrir með Ferskum vindum í Garði undanfarin ár. Einnig fær sveitarfélagið og samfélagið í Garði hamingjuóskir, en listahátíðin Ferskir vindar er ekki síst samfélagslegt verkefni sem margir íbúar og starfsfólk sveitarfélagsins taka þátt í hverju sinni. Hér er Mireya með Eyrarrósina, ásamt Elizu Reid og fulltrúa Listahátíðar í Reykjavík, eftir afhendinguna á Neskaupstað í gær.

Sameining sveitarfélaga.

Undirbúningur að sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar er í fullum gangi. Sameiningin mun taka gildi eftir sveitarstjórnarkosningar 26. maí, þegar íbúar munu kjósa bæjarstjórn fyrir nýtt sameinað sveitarfélag. Mesta spennan um þessar mundir snýst um það hvað nýtt sveitarfélag muni heita. Eftir að yfir 390 tillögur að nafni bárust, hefur sérstök nafnanefnd farið yfir tillögurnar og valið tillögur í 10 liðum sem Örnefnanefnd hefur nú til umsagnar. Rafræn kosning um tillögur að nafni mun síðan fara fram meðal íbúa upp úr miðjum mars og verður það nánar auglýst síðar. Að öðru leyti gengur vinna við undirbúning sameiningarinnar vel, en þar er í mörg horn að líta.

Síðasta föstudag var sameiginlegur fundur allra starfsmanna beggja sveitarfélaganna. Þar var rýnt til framtíðar og m.a. fjallað um hugmyndir um gildi fyrir nýjan vinnustað, sem er nýtt sveitarfélag. Góður andi var á fundinum, samhljómur og áhugi, sem gefur góð fyrirheit um framhaldið.

Bæjarráð í vikunni.

Nú í vikunni fundaði bæjarráð. Að venju voru ýmis mál á dagskránni. Sem dæmi um mál má nefna nýja lögreglusamþykkt fyrir  öll sveitarfélögin í umdæmi lögreglustjórans á Suðurnesjum. Samþykkt voru drög að nýjum samstarfssamningi við Íþróttafélagið Nes, sem er íþróttafélag fatlaðra á Suðurnesjum. Þá má nefna að fjallað var um vinnustaðagreiningu meðal starfsfólks sveitarfélagsins, fundargerðir stjórnar til undirbúnings sameiningu sveitarfélaganna og ráðningu skólastjóra Gerðaskóla, en bæjarstjórn mun samkvæmt samþykkt um stjórn sveitarfélagsins taka ákvörðun um ráðningu skólastjóra í næstu viku.

Fundir bæjarstjórans í vikunni.

Þessi vika hefur verið annasöm vegna alls kyns funda sem bæjarstjórinn í Garði hefur sótt í vikunni. Sem dæmi má nefna fundi um skipulagsmál, um þarfir vegna fyrirhugaðrar stækkunar leikskóla, viðtöl við umsækjendur um stöðu skólastjóra, fundur í Grindavík um samgöngumál og svo fundur í bæjarráði. Þá var eins dags alþjóðleg ráðstefna um jarðvanga, þar sem Reykjanes Jarðvangur sá um framkvæmd og var í brennidepli, loks voru fundir vegna sameiningar sveitarfélaga. Svona eru sumar vikur í störfum bæjarstjórans, enda í mörg horn að líta.

Veðrið.

Eftir langvarandi leiðindatíð í veðrinu, sunnanáttir með snjógangi og rigningu til skiptis, snerist til norðlægrar áttar um miðja vikuna. Með norðanáttinni birti til en heldur svalara veður. Líkur munu vera á því að hann liggi í norðlægum áttum á næstunni. Einhverjir höfðu á orði nú í vikunni að vart væri við vorkeim í lofti og heyra mætti fuglasöng sem fylgdi vortíðinni. Þó ber að hafa í huga að ennþá er vetur og við megum búast við að vetrartíð skelli yfir okkur næstu vikurnar. En, þrátt fyrir allt styttist í vorið með hverri viku og nú er allt í einu komið fram í marsmánuð.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail