52. vika 2017.

Nú árið er liðið…

Nú líður að því að við kveðjum árið 2017. Þegar litið er til baka yfir árið, þá hefur þetta verið gott ár. Alltaf er þó svo að finna megi eitthvað sem betur mátti fara, eða rifja upp ýmislegt sem varpar skugga á með einhverjum hætti. En, þegar dæmið er gert upp er niðurstaðan sú að árið hefur verið farsælt og gott.

Ég þakka starfsfólki og kjörnum bæjarfulltrúum sveitarfélagsins fyrir ánægjulegt og gott samstarf á árinu sem er að líða. Einnig íbúum sveitarfélagsins fyrir góð samskipti og ánægjulega samfylgd. Mörgum fleirum er vert að þakka fyrir samstarf og samfylgd á árinu. Með þessum síðustu molum úr Garði á þessu ári er landsmönnum öllum sendar góðar áramótakveðjur með þökk fyrir árið sem er að líða.

Áramótabrenna og flugeldasýning.

Á gamlárskvöld verður að venju áramótabrenna í Garðinum. Eldur verður lagður að brennunni kl. 20:30 og flugeldasýning verður um kl. 21:00. Það eru Björgunarsveitin Ægir og Kiwanisklúbburinn Hof sem sjá um framkvæmd, en flugeldasýningin er í samstarfi við sveitarfélagið.

Flugeldasala björgunarsveitarinnar.

Eins og undanfarin ár verður Björgunarsveitin Ægir með flugeldasölu nú fyrir áramótin. Ágóði af flugeldasölunni fer til að fjármagna starfsemi björgunarsveitarinnar og eru allir þeir sem ætla að fjárfesta í flugeldum hvattir til að versla við björgunarsveitina. Eins og mörg dæmi sanna eru sjálfboðaliðar björgunarsveitanna öllum stundum tilbúnir til að bregðast við ef á þarf að halda. Með því að kaupa flugeldana hjá björgunarsveitinni styðjum við starfsemi þeirra, sem er okkur öllum mikilvægt.

Jólatrésskemmtun Gefnar.

Á morgun, laugardaginn 30. desember heldur Kvenfélagið Gefn sína árlegu jólatrésskemmtun og hefst hún kl. 15:00 í Miðgarði, sal Gerðaskóla. Aðgangur er ókeypis og eru fjölskyldur hvattar til að mæta, njóta samveru og skemmtunar.

Nýtt ár heilsar. 

Framundan eru áramót og er sá tímapunktur um margt sérstakur. Litið er til baka yfir farinn veg og liðið ár gert upp. Framundan er nýtt ár og þar með óskrifuð framtíð. Það er alltaf jafn spennandi að horfa fram í tímann og reyna að gera sér í hugarlund hvað nýtt ár muni bera í skauti sér. Árið 2018 mun fela í sér margar áskoranir og spennan felst í óvissunni um marga hluti. Vonandi verður nýtt ár okkur öllum farsælt og til heilla.

Gleðilegt og farsælt nýtt ár, allir hvattir til að fara varlega með skotelda um áramótin !

Facebooktwittergoogle_plusmail

51. vika 2017.

Jólafrí.

Nú eru nemendur og starfsfólk Gerðaskóla komin í jólafrí, litlu jólin voru í vikunni og eftir það jólafrí fram yfir áramótin. Í leikskólanum Gefnarborg er einnig ríkjandi jólaandi. Nú í vikunni heimsótti sóknarpresturinn börnin í leikskólanum og fræddi þau um jólin og það sem þeim tengjast. Eitthvað sást til jólasveina í báðum skólunum. Þá voru jólatónleikar tónlistarskólans í lok síðustu viku, þar sem nemendur fluttu jólalög. Jólaandinn svífur yfir Garðinum.

Ferskir vindar.

Nú er listahátíðin Ferskir vindar hafin. Listamenn eru á fullu í sinni vinnu og verður spennandi að sjá og upplifa listsköpun þeirra.

Jólatrésskemmtun.

Árleg jólatrésskemmtun Kvenfélagsins Gefnar verður í Gerðaskóla laugardaginn 30. desember. Kvenfélagið hefur árum saman staðið fyrir jólatrésskemmtunum fyrir Garðbúa. Að venju er aðgangur gjaldfrjáls.

 

Molar óska Garðbúum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

50. vika 2017.

Skötuveisla Víðis í dag.

Að venju býður Unglingaráð Knattspyrnufélagsins Víðis upp á skötuveislu fyrir Jól. Í dag og fram á kvöld verður skötuilmur við samkomuhúsið, en eflaust mæta margir til að fá sér skötu í hádeginu í dag og í kvöldmat í kvöld. Garðbúar eru hvattir til að mæta í skötuna hjá Víði, enda ómissandi rétt fyrir Jól.

Jólastemmning í Gerðaskóla.

Í hádeginu í dag, föstudag var hangikjötsveisla og samvera nemenda og starfsfólks með jólalegu ívafi. Nemendur og starfsfólk voru í klæðnaði sem tengist jólahátíðinni, góð stemmning og jólaandi. Miðgarðsbandið skipað kennurum spilaði jólalög og viðstaddir tóku undir með söng. Ýmsar viðurkenningar og verðlaun voru veitt fyrir verkefni tengd jólum, þar á meðal fyrir jólalegustu hurð að kennslustofu, sem féll í skaut 6. bekkjar.  Skemmtileg og í senn hátíðleg stund sem ánægjulegt var að upplifa. Hér eru myndir frá hádeginu í Gerðaskóla.

Þetta er verðlauna jólahurð Gerðaskóla 2017, stofa 6. bekkjar.

Ferskir vindar.

Listahátíðin Ferskir vindar hefst nú um helgina og mun standa fram undir lok janúar. Hátíðin setur jafnan skemmtilegan svip á bæjarlífið, fjöldi listamanna af ýmsu tagi taka þátt og koma þeir margir erlendis frá en einnig taka þátt íslenskir listamenn. Það verður áhugavert og skemmtilegt að fylgjast með og upplifa þessa einstöku listahátíð, sem hefur víða vakið athygli og fengið viðurkenningar. Mireya Samper er helsti forsprakki hátíðarinnar, sem er samstarfserkefni Ferskra vinda og sveitarfélagsins.

Norðurljós á Garðskaga.

Undanfarið hafa hópar erlendra ferðamanna komið á Garðskaga seint um kvöld til að njóta norðurljósa. Skilyrði til að upplifa norðurljósin hafa verið ágæt og er jafnan gaman að fylgjast með upplifun erlendu ferðamannanna þegar þeir sjá norðurljósin í fyrsta skipti. Þeir taka jafnan mikið af myndum, enda eru norðurljósin fallegt myndefni. Hér er mynd sem Jóhann Ísberg tók fyrir nokkrum kvöldum af norðurljósum og gamla vitanum á Garðskaga.

Undirbúningur að sameiningu sveitarfélaga.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum hafa bæjarstjórnir Garðs og Sandgerðisbæjar nú skipað fulltrúa sína í sérstaka stjórn til undirbúnings sameiningu sveitarfélaganna. Þetta er næsta skref í málinu eftir að íbúar samþykktu í atkvæðagreiðslu að sveitarfélögin verði sameinuð. Stjórnin mun á næstu vikum og mánuðum vinna að undirbúningi sameiningar sveitarfélaganna, sem mun taka gildi eftir sveitarstjórnarkosningar í lok maí 2018.

Framkvæmdir á Aðventu.

Nú um Aðventu standa yfir ýmsar framkvæmdir í Garði. Sem dæmi standa yfir framkvæmdir við byggingu íbúðarhúsa, slíkar framkvæmdir hafa ekki verið algengar mörg undanfarin ár en eru hafnar á ný og má reikna með að fjör færist í leikinn á næsta ári við byggingu íbúðarhúsnæðis í Garði. Þá eru framkvæmdir við húsnæði tónlistarskólans á lokaspretti og verður húsnæðið væntanlega tilbúið um miðjan janúar. Þá mun tónlistarskólinn búa við mjög góða aðstöðu, sem vonast er til að efli tónlistarlífið í Garði enn frekar. Hér er mynd af byggingu íbúðarhúss við Vörðubraut, tekin nú í morgunsárið.

 

Jólahátíð nálgast.

Nú er aðeins rúm vika til Jóla. Bærinn er kominn í jólabúning með ljósaskreytingar á húsum víða í bænum. Nemendur og starfsfólk í skólum fara í jólafrí í næstu viku og spennan fyrir jólunum eykst dag frá degi. Árleg jólatrésskemmtun Kvenfélagsins Gefnar verður síðan milli Jóla og nýárs í Gerðaskóla.  Næstu vikuna verður væntanlega helsta spurningin, verða rauð eða hvít jól? Það kemur í ljós, en veðurútlit næstu daga ber ekki með sér von um snjókomu.

Veðrið.

Undanfarna vikuna hefur verðrið nánast leikið við okkur í Garðinum. Flesta daga hafa verið norðlægar áttir með hægviðri og sólar hefur notið við þann hluta daganna sem bjart er. Í næstu viku þann 21. desember verða vetrarsólstöður, eftir það fer daginn að lengja aftur hægt og bítandi og myrkasta skammdegið lætur undan síga.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

49. vika 2017.

Nokkuð er síðan Molar úr Garði birstust síðast. Fyrir því eru ýmsar ástæður, m.a. það að bæjarstjórinn fór í stutt frí í nóvember og svo gerðist það að síðan lá niðri vegna bilunar hjá hýsingaraðila. En nú er þráðurinn tekinn upp að nýju.

Aðventan.

Nú er Aðventan gengin í garð og óðum styttist í Jól. Mikið var um að vera í Garði sl. sunnudag, sem var sá fyrsti í Aðventu. Messa var í Útskálakirkju, Kvenfélagið Gefn hélt sinn árlega jólabasar og jólamarkaður var í byggðasafninu á Garðskaga. Góð þátttaka var í öllum viðburðum dagsins, enda alltaf ákveðin hátíðarstemmning þegar Aðventa gengur í garð.

Síðast en ekki síst voru ljósin tendruð á jólatrénu í miðbænum fyrsta sunnudag í Aðventu, samkvæmt venju.  Dagskrá var með hefðbundnu sniði með kærleikshugvekju, söng og jólasveinum. Að venju sá yngsti nemandi Gerðaskóla um að tendra ljósin, að þessu sinni var það hann Magnús Máni Guðnason. Þá buðu drengir í 4. flokki Reynis/Víðis upp á heitt súkkulaði og piparkökur. Fjölmenni mætti, enda var veður einstaklega gott og aðstæður eins og best verður á kosið.

Bæjarstjórn.

Í vikunni var síðasti fundur á þessu ári hjá bæjarstjórn. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2018 var afgreidd og tilnefndir voru fulltrúar í stjórn til undirbúnings að stofnun nýs sveitarfélags við sameiningu Garðs og Sandgerðisbæjar. Bæjarstjórn samþykkti verklagsreglur við úthlutun byggðakvóta og auk þess voru ýmsar fundargerðir nefnda, ráða og stjórna á dagskrá. Afgreiðsla bæjarstjórnar á fjárhagsáætlun að þessu sinni markaði nokkur tímamót. Annars vegar er þetta síðasta fjárhagsáætlun sem núverandi bæjarstjórn vinnur og afgreiðir þar sem kjörtímabili bæjarstjórnar lýkur í maí á næsta ári. Hins vegar er þetta síðasta fjárhagsáætlun sem afgreidd er í nafni Sveitarfélagsins Garðs, þar sem sveitarfélagið mun sameinast Sandgerðisbæ við næstu sveitarstjórnarkosningar. Nánari upplýsingar um fjárhagsáætlun eru á heimasíðunni svgardur.is.

Kvenfélagið Gefn 100 ára.

Á morgun, laugardag heldur Kvenfélagið Gefn afmælishátíð í tilefni þess að liðin eru 100 ár frá stofnun kvenfélagsins. Saga kvenfélagsins í 100 ár er um margt merkileg og athyglisverð, félagið hefur allan þennan tíma haldið úti öflugu starfi og lagt mikið af mörkum í þágu samfélagsins og fólksins í Garði. Innilega til hamingju kvenfélagskonur, með þennan merka áfanga í starfi Kvenfélagsins Gefnar.

Hangikjötsveisla Víðis.

Í hádeginu í dag bauð Víðir sínum stuðningsaðilum í hádegismat í Víðishúsinu, þar sem boðið var upp á dýrindis hangikjöt og meðlæti. Fjölmenni mætti og naut matarins, enda býr Víðir vel að mörgum og öflugum stuðningsaðilum. Takk fyrir og áfram Víðir.

Veðrið.

Veðrið undanfarna viku hefur verið með besta móti. Að mestu hægviðri en nokkuð svalt, að vísu kom norðan skot með vindi einn sólarhring. Þegar þetta er skrifað á föstudegi er hægviðri og sól, en frostið er um 6 gráður.

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail