43. vika 2017.

Bæjarráð

Bæjarráð fundaði í vikunni. Af ýmsum málum sem voru á dagskrá fundarins má nefna að drög að fjárhagsáætlun voru til umfjöllunar, vinnu við fjárhagsáætlun er ekki lokið en hún kemur til fyrri umræðu í bæjarstjórn í næstu viku. Þá ályktaði bæjarráð um mögulega gjaldtöku á áningarstöðum fyrir ferðamenn, mál sem hefur verið til umfjöllunar á vettvangi Reykjanes Jarðvangs. Bæjarráð lítur svo á að gjaldtaka komi til greina en líta þurfi m.a. til eðlilegs aðgengis íbúa ef um er að ræða áningarstaði sem eru hluti af þéttbýli. Loks má nefna að bæjarráð samþykkti samhljóða verkefnaáætlun um samstarfsverkefni sveitarfélaganna Garðs, Sandgerðisbæjar og Reykjanesbæjar með Kadeco og Isavia varðandi atvinnu-og þróunarsvæði á Miðnesheiði í við Keflavíkurflugvöll.

Lýðheilsugöngur

Nú í september stóð Ferðafélag Íslands fyrir lýðheilsugöngum í samstarfi við sveitarfélög í landinu. Dagskráin var í tilefni 90 ára afmælis ferðafélagsins. Ýmsir aðilar og félagasamtök tóku að sér að skipuleggja og leiða fimm lýðheilsugöngur í Garði. Nú í vikunni bauð lýðheilsufulltrúi sveitarfélagsins þessum aðilum í stutta samveru á bæjarskrifstofunni og þakkaði fyrir þeirra þátt í lýðheilsugöngunum, afhenti þakkargjöf frá Ferðafélagi Íslands og tók þessa mynd af því tilefni. Sveitarfélagið þakkar skipuleggjendum og fararstjórum ganganna fyrir þeirra framlag. Einnig er þakkað skemmtilegt frumkvæði Ferðafélags Íslands og samstarf um þessar lýðheilsugöngur, en mjög góð þátttaka var í þeim af íbúum sveitarfélagsins.

Sameining sveitarfélaga – íbúafundir og kynningarefni

Nú eru tvær vikur þar til íbúar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar greiða atkvæði um hvort sveitarfélögin sameinast eða ekki. Í næstu viku verður dreift kynningarefni og upplýsingum í öll hús í sveitarfélögunum báðum. Mánudaginn 6. nóvember verður íbúafundur um málið í Gerðaskóla í Garði og þriðjudaginn 7. nóvember í Grunnskólanum í Sandgerði. Þar verður farið yfir málið og íbúum gefst kostur á að afla sér upplýsinga. Á heimasíðum sveitarfélaganna; svgardur.is og sandgerdi.is má fara inn á upplýsingasíðuna sameining.silfra.is, þar sem eru upplýsingar um málið og þar má finna skýrslu KPMG sem inniheldur miklar upplýsingar. Auk þess er bent á Facebook síðuna Kosningar um sameiningu Sandgerðis og Garðs, þar sem eru einnig ýmsar upplýsingar.  Íbúar eru hvattir til að kynna sér málið og taka þátt í atkvæðagreiðslunni þann 11. nóvember.

Alþingiskosningar á morgun

Á morgun, laugardaginn 28. október fara fram kosningar til Alþingis. Kjósendur eru hvattir til að mæta á sína kjörstaði og njóta þeirra forréttinda að taka þátt í lýðræðislegum kosningum. Vonandi verða niðurstöður kosninganna þjóðinni til heilla.

Október að líða hjá !

Sem fyrr líður tíminn hratt áfram og nú er komið að lokum október mánaðar! Við njótum þess að ennþá hefur lítið borið á haustveðrum og þaðan af síður hefur orðið kuldatíð með éljum og snjókomu, eins og oft hefur verið á þessum árstíma. Víða er ennþá unnið að verkefnum sem að öllu jöfnu tilheyra sumrinu, svo sem jarðvinnu og ýmsum framkvæmdum. Nóvember er handan við hornið og ekki er laust við að einhverjir séu þegar farnir að undirbúa komu Jóla.

Góða kosningahelgi !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

42. vika 2017.

Þessi vika einkenndist eins og flestar aðrar vikur hjá bæjarstjóranum af mikilvægum verkefnum á bæjarskrifstofunni, þar sem nú stendur hæst lokasprettur við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Fyrri umræða um fjárhagsáætlun fer fram í bæjarstjórn 1. nóvember. Þá voru í vikunni ýmsir mikilvægir og áhugaverðir fundir, þar sem fjallað var um brýn málefni.

Húsnæðisþing.

Fyrsta Húsnæðisþing Íbúðalánasjóðs var haldið á mánudaginn. Þar voru húsnæðismálin í víðum skilningi til umræðu og var þingið vel heppnað. Meðal annars voru til umfjöllunar húsnæðisáætlanir sveitarfélaga, en við í Garði erum í hópi nokkurra sveitarfélaga sem höfum lokið við vinnslu húsnæðisáætlunar. Undirritaður tók þátt í pallborðsumræðu um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga, sem eru gott stjórntæki til stefnumótunar.

Samtök atvinnulífsins.

Á miðvikudag var hádegisfundur Samtaka atvinnulífsins, þar sem farið var yfir vinnumarkaðsmál og efnahagsmál almennt. Við höfum nú lifað eitt lengsta samfellda hagvaxtarskeið í sögu þjóðarinnar og erum líklega á hápunkti hagsveiflunnar. Framundan eru mikilvægar ákvarðanir og kjarasamningar sem munu hafa afgerandi áhrif á efnahag þjóðarinnar næstu misseri og ár. Vonandi tekst vel til í þeim efnum, en hættan er sú að við lendum í enn einni niðursveiflunni með tilheyrandi efnahagslegum áföllum, sem eins og venjulega munu fyrst og fremst bitna á almenningi. Þetta var áhugaverður og upplýsandi fundur.

Sameiningarmál í Auðarstofu.

Það líður óðum að atkvæðagreiðslu íbúa Garðs og Sandgerðis um það hvort sveitarfélögin sameinast. Á miðvikudag var undirritaður á mjög góðum fundi í Auðarstofu, þar sem er félagsstarf aldraðra og  öryrkja. Þar var farið yfir helstu niðurstöður og upplýsingar um hugsanlega sameiningu og urðu góðar og fjörlegar umræður. Fundurinn var góður og málefnalegur, eðlilega eru skiptar skoðanir en aðal málið er að íbúar afli sér upplýsinga, taki afstöðu og taki síðan þátt í atkvæðagreiðslunni 11. nóvember.

Fjárveitingar til stofnana á Reykjanesi.

Að frumkvæði Reykjanesbæjar var áhugaverður fundur á fimmtudag, þar sem farið var yfir fjárveitingar ríkisins til stofnana og þjónustu á Suðurnesjum. Þar komu fram mjög sláandi upplýsingar um það hvað Suðurnesin eru vanhaldin af fjárveitingum miðað við aðra landshluta, sérstaklega ef litið er til þess hvað íbúum á svæðinu hefur fjölgað mikið undanfarin 2-3 ár og hve gríðarleg aukning hefur verið í umferð um Keflavíkurflugvöll. Það er nánast sama hvert er litið í þessum efnum og er alger og skýr krafa um að þetta verði leiðrétt. Íbúar á Suðurnesjum geta ekki lengur búið við það að vera skör lægra settir en samlandar okkar á öðrum landsvæðum. Á fundinum voru mættir frambjóðendur til Alþingis og fengu þessar staðreyndir beint í æð. Þeir sem ná kjöri eiga mikið verk fyrir höndum við að bæta hag Suðurnesjamanna.

Nemendaráð Gerðaskóla.

Eins og alltaf kjósa nemendur Gerðaskóla fulltrúa sína í nemendaráð fyrir skólaárið. Nemendaráðið hefur mikilvægu hlutverki að gegna, sérstaklega varðandi félagslíf nemenda. Hér er mynd af nýju nemendaráði í Gerðaskóla.

Sem fyrr er tíminn fljótur að líða, október mánuður líður hratt og öruggt áfram. Framundan eru alþingiskosningar og síðan atkvæðagreiðsla íbúa sveitarfélagsins 11. nóvember um það hvort verður af sameiningu Garðs og Sandgerðisbæjar. Íbúar eru hvattir til að kynna sér upplýsingar um málið á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is.

Góða helgi !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

41. vika 2017.

Vinaliðar.

Nú í vikunni fór fram þjálfun nemenda í Gerðaskóla til að vera vinaliðar.  Vinaliðar stjórna m.a. leikjum á skólalóð í frímínútum, með það að markmiði að vinna gegn einelti og bjóða upp á jákvæða afþreyingu á skólalóð í frímínútum. Eitt helsta verkefni vinaliðanna er að hvetja nemendur til þátttöku í leikjum og huga sérstaklega að nemendum sem eru aleinir í frímínútum. Þetta verkefni er að norskri fyrirmynd og í dag eru um 50 grunnskólar í landinu aðilar að verkefninu. Nemendur fá vinaliða þjálfun tvisvar á skólaári, meðan samningur þar um er í gildi milli skólans og vinaliðanna. Frábært framtak sem hefur gengið vel í Gerðaskóla. Hér er mynd frá þjálfun vinaliðanna í vikunni.

   

Starfsgreinakynning.

Í vikunni stóð Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, ásamt fyrirtækjum og stofnunum á Suðurnesjum, fyrir kynningu á starfsgreinum. Kynningin var ætluð nemendum í 8. – 10. bekkjum grunnskólanna á Suðurnesjum. Þetta verkefni er hluti af Sóknaráætlun Suðurnesja. Meðal þeirra starfsgreina sem voru kynntar eru störf flugmanna, flugreyja, lögreglu og leiðsögumanna. Einnig kennara, slökkviliðsmanna, rafeindafræðinga o.m.fl. Fjöldi ungmenna sóttu kynninguna og var gerður að henni góður rómur.

    

Bæjarráð.

Bæjarráð fundaði í vikunni. Ýmis mál á dagskrá eins og venjulega, en hæst bar að bæjarráð samþykkti að standa að samningi við ríkið um uppgjör á lífeyrisskuldbindingum vegna reksturs hjúkrunarheimila Dvalarheimilis aldraðra á Suðurnesjum. Mikill og góður áfangi að leysa úr þessu máli, sem hefur mjög lengi valdið deilum milli ríkisins og sveitarfélaga sem hafa tekið að sér að reka hjúkrunarheimili aldraðra fyrir ríkið. Þá var fjallað um fjárhagsáætlun næsta árs og samþykkt tillaga um álagningarhlutfall útsvars árið 2018. Loks lá fyrir endanleg tillaga um húsnæðisáætlun fyrir sveitarfélagið og beindi bæjarráð því til bæjarstjórnar að samþykkja húsnæðisáætlunina.

Sameining sveitarfélaga.

Nú styttist óðum í að íbúar Garðs og Sandgerðisbæjar kjósi um hvort sveitarfélögin verði sameinuð, en kosningin fer fram laugardaginn 11. nóvember. Opnuð hefur verið vefsíða þar sem deilt er ýmsum upplýsingum og kynningarefni, ásamt því að þar koma fram svör við ýmsum spurningum sem upp koma varðandi málið. Vefslóðin er sameining.silfra.is, en einnig má fara á síðuna gegnum heimasíður sveitarfélaganna, svgardur.is og sandgerdi.is. Þá hefur verið opnuð Facebook síðan Kosningar um sameiningu Sandgerðis og Garðs, þar sem einnig mun birtast kynningarefni og upplýsingar. Á næstu dögum verður dreift upplýsingabæklingum í öll hús í Garði og Sandgerði. Frekari kynningar verða auglýstar síðar, m.a. íbúafundir um málið.  Íbúar eru hvattir til að kynna sér efnið, taka afstöðu og umfram allt að mæta á kjörstað og taka þátt í kosningunni 11. nóvember.

Víkingarnir slá í gegn.

Söngsveitin Víkingarnir taka þátt í skemmtilegum þætti á Stöð 2, þar sem hinir ýmsu kórar koma fram keppa um framgang. Víkingarnir komu fram í þættinum 24. september, slógu í gegn og áhorfendur kusu þá áfram í keppninni. Þetta er frábær árangur hjá Víkingunum, enda var framlag þeirra í þættinum mjög vel heppnað og þeir flottir karlarnir. Það verður gaman að fylgjast með hvernig þeim gengur í framhaldinu. Til hamingju Söngsveitin Víkingar !

Fjárhagsáætlun.

Nú stendur sem hæst vinna við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2018 og rammaáætlun fyrir næstu þrjú ár þar á eftir. Fyrri umræða um fjárhagsáætlun fer fram 1. nóvember, en bæjarstjórn þarf síðan að ljúka við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir 15. desember. Þrátt fyrir að svo geti farið að sveitarfélagið sameinist Sandgerðisbæ, þá vinna sveitarfélögin sínar fjárhagsáætlanir samkvæmt venju enda mun nýtt sameinað sveitarfélag ekki taka til starfa fyrr en í júní á næsta ári, fari svo að sameining verði samþykkt.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail