39. vika 2017.

Reykjanes, sjálfbær áfangastaður.

Nú í vikunni var tilkynnt að Reykjanes hafi verið valið einn af 100 sjálfbærustu áfangastöðum í heimi árið 2017. Listi með þessum áfangastöðum var birtur sl. miðvikudag á alþjóðlegum degi ferðaþjónustunnar, en dagurinn í ár er helgaður sjálfbærri ferðaþjónustu. Það eru alþjóðlegu samtökin Green Destinations sem standa að valinu, eins og samtökin hafa gert mörg undanfarin ár. Reykjanes er eini íslenski áfangastaðurinn sem kemst á þennan lista í ár, en meðal áfangastaða á listanum eru Los Angeles, Niagarafossar, Asoreyjar, Höfðaborg, Svalbarði og Ljubliana. Þetta er mikilvæg viðurkenning fyrir Reykjanesið í heild sinni og afar ánægjuleg. Mikið starf hefur verið unnið á undanförnum árum hjá stoðstofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum í þeim anda sem viðurkenningin felur í sér. Reykjanes Jarðvangur og Markaðsstofa Reykjaness hafa m.a. leitt vinnu við gerð áfangastaðaáætlunar fyrir Reykjanes og er sú vinna lengra komin hér en annars staðar á landinu, m.a. vegna samstöðu sveitarfélaganna um gerð Svæðisskipulags fyrir Suðurnesin.

Þessi viðurkenning mun skila sér í aukinni athygli á Reykjanes í heild og ætti að ýta undir áhuga innlendra og erlendra ferðamanna að heimsækja Reykjanesið og njóta þess sem svæðið býður upp á. Þetta er ekki fyrsta alþjóðlega viðurkenningin sem Reykjanesið fær, en Reykjanes Geopark, eða Reykjanes Jarðvangur hefur hlotið viðurkenningu UNESCO og starfar undir merkinu „Reykjanes Unesco Global Geopark“. Kjartan Már Kjartansson formaður stjórnar Reykjanes Geopark veitti viðurkenningu Green Destinations móttöku í gær, fyrir hönd Reykjanes Geopark. Frekari upplýsingar má vinna á vef samtakanna greendestinations.org/2017, eða hjá Þuríði hjá Markaðsstofu Reykjaness.

Bæjarráð.

Fundur var í bæjarráði í vikunni. Mest fór fyrir fjárhagslegum málefnum á dagskrá fundarins. Þar á meðal var lögð fram útkomuspá um rekstur sveitarfélagsins á þessu ári. Útlit er fyrir að rekstrarniðurstaða verði ekki lakari en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins, þannig að rekstur og fjárhagur sveitarfélagsins stendur áfram á traustum fótum. Þá var fjallað um forsendur fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár, en vinna við gerð fjárhagsáætlunar stendur yfir og mun ljúka með afgreiðslu bæjarstjórnar í byrjun desember. Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár er unnin með hefðbundnum hætti, þótt svo framundan séu kosningar meðal íbúanna um hvort sveitarfélagið verði sameinað Sandgerðisbæ. Þá má nefna að bæjarráð samþykkti að vinna með öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum að því að setja samræmda lögreglusamþykkt sem gildi í umdæmi Lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Lýðheilsuganga.

Síðasta skipulagða lýðheilsuganga mánaðarins var í mörgum sveitarfélögum landsins sl. miðvikudag. Hér í Garði voru tvær skipulagðar göngur. Annars vegar á vegum Auðarstofu, félagsstarfs aldraðra. Gengið var frá gamla vitanum á Garðskaga og göngustíginn með ströndinni að Útskálakirkju. Ingibjörg og Sigurborg Sólmundardætur forstöðukonur félagsstarfsins leiddu gönguna, en Ásgeir Hjálmarsson sagði m.a. frá síðustu ferð MS Goðafoss sem sökkt var af þýska sjóhernum út af Garðskaga í síðari heimsstyrjöldinni.  Hins vegar var á vegum Hreystihóps eldri borgara gengið frá golfskálanum í Leiru upp að Prestsvörðu í leiðsögn Kristjönu Kjartansdóttur. Þar sagði Kristjana frá sögu Sr. Sigurðar Sívertsen sem hafðist við yfir nótt á þeim stað sem varðan er og lifði af aftakaveður. Góð þátttaka var í báðum göngunum og var veður hið besta, sól og hægviðri. Lýðheilsugöngurnar í Garði hafa tekist vel og þátttaka verið góð. Göngurnar hafa verið með sögulegu ívafi þar sem leiðsögufólk hefur rakið sögu þeirra svæða sem gengið var um. Sveitarfélagið þakkar öllum þeim sem hafa tekið að sér leiðsögn lýðheilsuganganna og öllum þeim sem hafa mætt og tekið þátt. Loks þökkum við Ferðafélagi Íslands fyrir frumkvæðið að lýðheilsugöngunum, sem voru skipulagðar í tilefni 90 ára afmælis félagsins. Til hamingju með afmælið Ferðafélag Íslands !

Hér eru myndir frá báðum göngunum á miðvikudag.

Útsvarið.

Í kvöld, föstudag mun lið Garðs etja kappi við lið Grindavíkur í Útsvari Sjónvarpsins. Við óskum þeim Jóni Bergmann, Aðalbirni Heiðari og Elínu Björk góðs gengis og hvetjum alla Garðbúa fyrr og nú til að senda þeim öfluga strauma. Hér er mynd af liði Garðs, kát og glöð og tilbúin í slaginn. Áfram Garður !

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Nú um helgina verður aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) haldinn í Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Auk venjulegra aðalfundarstarfa verða ýmis málefni til umræðu á fundinum. Aðalfundur SSS er mikilvægur vettvangur fyrir sveitarstjórnarfólk til þess að ræða um sameiginleg hagsmunamál sveitarfélaganna og móta stefnu til framtíðar.

Heilsu-og forvarnavika á Suðurnesjum.

Í næstu viku verður Heilsu- og forvarnavika á Suðurnesjum, um er að ræða samstarfsverkefni allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Markmiðið með heilsu- og forvarnavikunni er að draga úr þeim áhættuþáttum sem einstaklingar geta staðið frammi fyrir á lífsleiðinni og hlúa að verndandi þáttum með þátttöku allra íbúa sveitarfélaganna.

Vonast er til að fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök, íþróttafélög og deildir og ýmis tómstundafélög í öllum fimm sveitarfélögunum á Suðurnesjum, taki virkan þátt í verkefninu og bjóði bæjarbúum upp á fjölbreytta og heilsutengda viðburði, tilboð á heilsusamlegum vörum, kynningum og öðru slíku, sem höfðar til sem flestra íbúa.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðum sveitarfélaganna og á vef Víkurfrétta. Hugsum um heilsuna og tökum þátt !

Leikskólinn Gefnarborg og heilsuvikan.

Leikskólinn mun taka virkan þátt í Heilsu-og forvarnavikunni í næstu viku. Á Facebook síðu leikskólans má m.a. sjá auglýsingu frá leikskólanum þar sem foreldrar eru hvattir til að hjóla eða ganga í leikskólann með börnum sínum þessa viku.

Mánaðamót.

Tíminn flýgur hratt, nú er enn og aftur komið að mánaðamótum. Haustið sígur að og jólin nálgast óðfluga. Þótt svo enn sé september, þá eru ýmsar verslanir þegar farnar að tefla fram jólavörum!

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

38. vika 2017.

Útsvarið.

Lið Sveitarfélagsins Garðs mun eins og á síðasta hausti taka þátt í spurningakeppninni Útsvar í Sjónvarpi RUV.  Lið Garðs hefur verið valið, eftirtalin skipa liðið að þessu sinni: Jón Bergmann Heimisson, Aðalbjörn Heiðar Þorsteinsson og Elín Björk Jónasdóttir, sem tók þátt fyrir Garð á síðasta ári. Fyrsta viðureign þeirra verður við sigursælt lið Grindavíkur föstudaginn 29. september nk.  Við óskum okkar fólki góðs gengis í Útsvarinu.  Hér eru myndir af útsvarsliði Garðs við undirbúning.

Framkvæmdir við fráveitu.

Undanfarið hefur verið unnið að úrbótum á fráveitu sveitarfélagsins. Gamlar útrásir fráveitunnar við hafnarsvæðið verða aflagðar en fráveitan tengd við megin útrás út af Þorsteinsbúð. Verkinu er nú nánast lokið, verktaki er Tryggvi Einarsson og hefur verkið gengið vel. Þetta er mikilvægur áfangi í úrbótum á fráveitu sveitarfélagsins og ánægjulegt að honum sé lokið. Hér eru myndir af framkvæmdinni, þar sem m.a. má sjá hve djúpt þarf að grafa til að koma frárennslis lögnum fyrir.

Tónlistarskólinn og félagsmiðstöðin.

Unnið er að því að bæta aðstöðu tónlistarskólans, sem fær allt húsið Sæborgu til afnota en félagsmiðstöðin mun flytjast í Heiðartún 2. Með þessum aðgerðum mun tónlistarskólinn búa við mjög góða aðstöðu, en skólinn hefur verið í þröngu og alls ófullnægjandi aðstöðu í hluta hússins. Félagsmiðstöðin mun flytjast í sama hús og félagsstarf aldraðra er með aðstöðu, þar mun fara vel um kynslóðirnar og verður hluti húsnæðisins nýtanlegur fyrir bæði félagsmiðstöðina og félagsstarf aldraðra. Með þessari breytingu má segja að Heiðartún 2 verði hús kynslóðanna. Framkvæmdir standa yfir og er von til að þeim ljúki fljótlega.

Lýðheilsugöngur.

Undanfarna miðvikudaga hefur verið góð þátttaka í lýðheilsugöngum hér í Garðinum. Góðir leiðsögumenn hafa leitt göngufólk og hafa göngurnar verið með sögulegu ívafi. Hér eru myndir frá göngu í síðustu viku, þá var leiðsögumaður Magnús H Guðmundsson kennari og gengið var í blíðuveðri.

Kosning um sameiningu sveitarfélaga.

Eins og fram hefur komið hafa bæjarstjórnir Garðs og Sandgerðisbæjar ákveðið að íbúar sveitarfélaganna kjósi um hvort sveitarfélögin verða sameinuð. Kjördagur var ákveðinn þann 11. nóvember. Eftir að upp kom að alþingiskosningar verða 28. október var spurning hvort breyta eigi kjördegi sameiningarkosninga. Niðurstaðan er að kosning um sameiningu sveitarfélaganna mun fara fram þann 11. nóvember, eins og áður var ákveðið.

Víðir.

Knattspyrnuliði Víðis hefur gengið vel í 2. deildinni í sumar. Nú undir lok leiktíðarinnar var liðið í góðum færum að vinna sæti í 1. deild að ári, en ekki tókst það að þessu sinni. Síðasti leikur mótsins að þessu sinni verður á morgun, laugardag þegar lið Magna frá Grenivík kemur í heimsókn á Nesfiskvöllinn. Annað kvöld verður lokahóf Víðis í samkomuhúsinu og er að vænta mikillar gleði þar, enda full ástæða til að fagna góðu gengi í sumar.

Veðrið.

Haustið er komið, a.m.k. hafa haustlægðir með roki og rigningu gert sig heimakomnar að undanförnu. Það eru því augljós árstíðaskipti um þessar mundir þar sem haustið er að taka yfir eftir sumartíðina, enda eru nú jafndægur að hausti.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

36. vika 2017.

Bæjarstjórnarfundur.

Á miðvikudaginn var fyrsti reglulegi fundur bæjarstjórnar eftir sumarfrí frá fundum. Lagðar voru fram fundargerðir bæjarráðs af fundum þess undanfarnar vikur, einnig voru á dagskrá fundargerðir fastanefnda sveitarfélagsins og af sameiginlegum vettvangi með öðrum sveitarfélögum. Þá fór fram síðari umræða um álit og tillögu samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Íbúar sveitarfélaganna ákveða með atkvæðagreiðslu laugardaginn 11. nóvember hvort af sameiningu sveitarfélaganna verður. Þess má geta að fundur bæjarstjórnar hófst á hefðbundnum tíma kl. 17:30 og lauk honum 20 mínútum síðar, þannig að bæjarfulltrúar höfðu svigrúm í tíma til að koma sér fyrir framan við sjónvarpsskjái til að fylgjast með landsliði Íslands í knattspyrnu sigra Úkraínu á Laugardalsvelli.

Sameining sveitarfélaga.

Eftir fundi bæjarstjórna Garðs og Sandgerðisbæjar á miðvikudagskvöld var skýrsla KPMG, „Sameining sveitarfélaga – sviðsmyndir um mögulega framtíðarskipan sveitarfélaganna“, birt á heimasíðum sveitarfélaganna. Það kynningarefni sem gefið verður út um málið fram að kosningunum um sameiningu sveitarfélaganna þann 11. nóvember mun birtast á heimasíðunum. Íbúar eru hvattir til að kynna sér málið og taka þátt í atkvæðagreiðslunni þegar þar að kemur.

Gamli vitinn málaður.

Undanfarnar vikur hafa starfsmenn Vegagerðarinnar unnið að viðgerðum og málun gamla vitans á Garðskagatá. Gamli höfðinginn hefur þar með fengið góða andlitslyftingu og er eins og nýr!

Lýðheilsugöngur.

Hátt í 20 manns tóku þátt í lýðheilsugöngu sl. miðvikudag og var gangan að þessu sinni í umsjá Guðríðar S Brynjarsdóttur íþróttakennara. Næsta miðvikudag verður gengið af stað kl. 18:00 frá Gerðaskóla, undir fararstjórn Magnúsar H Guðmundssonar kennara. Íbúar eru hvattir til að taka þátt í þessum skemmtilegu göngutúrum um okkar næsta nágrenni. Lýðheilsugöngur eru í flestum sveitarfélögum á miðvikudögum í september, í tilefni 90 ára afmælis Ferðafélags Íslands. Nánar má finna upplýsingar um lýðheilsugöngur á heimasíðunni fi.is. Nánar um göngur í Garði á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is. Hér er mynd af gönguhópnum þegar lagt var í gönguna og önnur af þeim bræðrum Jóni og Ásgeiri Hjálmarssonum að rifja upp gamla takta af barnaleikvellinum.

Dagur læsis er í dag.

Í dag þann 8. september er alþjóðadagur læsis, en árið 1965 ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að 8. september skyldi vera dagur læsis ár hvert. Tilgangurinn er að hvetja fólk um allan heim til lestrar, sögusagna eða ljóðalesturs, eða á annan hátt að nota sín tungumál til góðra samskipta. Í anda Sameinuðu þjóðanna eru allir hvattir til að taka virkan þátt í þessu öllu, enda er læsi forsenda fyrir svo mörgu í okkar lífi.

Veðrið.

Þessa vikuna hefur verið ágætt haustveður, en finna má að hitastig fer lækkandi enda færumst við óðum inn í hausttíðina. Þegar þetta er skrifað er bjart veður og sólskin en nokkur norðan gola með svölum vindi.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

35. vika 2017.

Tíminn flýgur áfram!

Eins og hendi sé veifað er kominn 1. september og enn ein vikan flogin hjá. Tíminn flýgur áfram og haustið sígur að. Nú er tími uppskerunnar og berjatínslu, vonandi uppskera sem flestir vel. Nú er einnig að renna upp tími haustlitanna í gróðrinum, fyrir mörgum er þessi árstími í uppáhaldi. Ljósaskiptin eru oft ævintýralega falleg, þegar sólin hnígur við sjóndeildarhringinn. Oft má upplifa fegurð ljósaskiptanna á Garðskaga, myndina hér að neðan tók Jóhann Ísberg á Garðskaga eitt kvöldið fyrir stuttu og þar má sjá sólina síga við sjóndeildarhringinn rétt vestan við Snæfellsjökul.

„Sjáðu jökulinn loga“

Bæjarstjórn.

Sl. mánudag var aukafundur í bæjarstjórn Garðs og var eitt mál á dagskrá fundarins, fyrri umræða um tillögu að sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Samkvæmt lögum á bæjarstjórn að taka málið til umræðu á tveimur fundum, án atkvæðagreiðslu. Síðari umræða um málið verður á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag í næstu viku. Eftir það hefst kynning á tillögunni og ýmsum upplýsingum og gögnum sem liggja að baki. Skýrsla KPMG um málið verður birt á heimasíðu sveitarfélagsins á miðvikudag, eftir síðari umræðu um málið í bæjarstjórn. Gert er ráð fyrir að atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélagsins um tillöguna fari fram laugardaginn 11. nóvember nk.

Verklok hjá vinnuskólanum.

Nú í vikunni lauk formlega verktíma vinnuskólans. Starfsemin hófst 15. maí og luku flokksstjórar störfum 18. ágúst. Verkstjóri vinnuskólans var Berglind Ellen Pernille Petersen, hún hefur stýrt starfinu einstaklega vel og er enn að störfum. Ásamt Berglindi hefur Einar Friðrik umhverfis-og tæknifulltrúi stýrt verkefnum sumarsins en Guðbrandur frístunda-, menningar-og lýðheilsufulltrúi hefur haldið utan um starfsmannamálin. Vinnuskólinn og þeir sem með honum hafa unnið í sumar fá bestu þakkir fyrir vel unnin störf. Hér eru nokkrar myndir frá sumrinu.

Lýðheilsugöngur Ferðafélags Íslands.

Nú í september verða lýðheilsugöngur alla miðvikudaga, en tilefnið er 90 ára afmæli Ferðafélags Íslands. Ferðafélagið hefur leitað samstarfs við sveitarfélögin í landinu um þessar göngur og tekur Sveitarfélagið Garður þátt í því. Búið er að skipuleggja gönguferðirnar í samstarfi við ýmsa aðila og eru íbúar Garðs hvattir til að taka þátt. Nánar verða göngurnar auglýstar á heimasíðu sveitarfélagsins og á Facebook og hefjast þær allar kl. 18:00. Eftirtaldir aðilar hafa tekið að sér umsjón með göngunum: 6. september, starfsfólk Íþróttamiðstöðvar. 13. september, kennarar við Gerðaskóla. 20. september, Víðismenn. 27. september, Auðarstofa og hreystihópur.

Drögum úr plastnotkun.

Við vitum öll að plastmengun er orðið alvarlegt vandamál á heimsvísu. Nú í september er sérstakt átak sem miðar að því að hvetja alla til að sleppa allri plastnotkun. Hér með eru allir hvattir til að taka þátt í þessu árverkniátaki, draga úr og helst sleppa allri notkun á plastefnum í þessum mánuði. Í framhaldinu ættum við öll að viðhalda þessu átaki og leggja okkar af mörkum til að draga úr þessari alvarlegu umhverfismengun.

Víðir.

Eftir síðasta leik Víðis er liðið í 3. sæti deildarinnar, aðeins einu stigi frá því að færast upp um deild. Á morgun, laugardag leikur Víðir gegn Tindastól á Sauðárkróki. Baráttukveðjur til Víðismanna með ósk um gott gengi í leiknum í Skagafirðinum.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail