34. vika 2017.

Skólastarfið.

Skólastarf er nú að falla í eðlilegan farveg eftir sumarleyfin. Nemendur og starfsfólk skólanna eru boðin velkomin til starfa.

Leikskólinn Gefnarborg hefur nú starfað nokkurn tíma eftir sumarleyfi.  Að venju var tilhlökkun hjá börnunum að hittast aftur og ganga til skólastarfa. Yngstu börnin eru að feta sín fyrstu skref í nýjum heimi skólans, eflaust blendnar tilfinningar hjá sumum þeirra en aðlögunin gengur fljótt yfir.

Gerðaskóli var settur í 145. sinn nú í vikunni. Um 215 nemendur munu stunda nám við skólann í vetur. Eins og fram hefur komið fá nemendur skólans ókeypis skólagögn, sem er góður áfangi að því að kostnaður fjölskyldna grunnskólabarna vegna skólagöngu þeirra verði sem minnstur.

145. setning Gerðaskóla.

Tónlistarskólinn glímir við óvenjulegar aðstæður nú í byrjun skólaársins, þar sem framkvæmdir standa yfir við breytingar á húsnæði skólans. Þegar þeim verður lokið mun tónlistarskólinn starfa við mun betri aðstöðu en áður.

Sumarstörf og framkvæmdir.

Vinnuskólinn og annað starfsfólk sveitarfélagsins hafa unnið frábært starf í sumar. Bærinn hefur verið mjög snyrtilegur og vel við haldið, ásamt því að unnið hefur verið að ýmsum umhverfisverkefnum til að bæta ásýnd bæjarins enn frekar. Fjölmargar framkvæmdir hafa verið í gangi í sumar, stórar og smærri og mikið að gera hjá starfsfólki sveitarfélagsins og verktökum. Enn standa yfir nokkur verkefni sem unnið er að samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Má þar m.a. nefna breytingar á Sæborgu, en tónlistarskólinn mun fá allt húsið til afnota og félagsmiðstöðin flytur í Heiðartún. Þá hófust í vikunni framkvæmdir við fráveitu, útrásir fráveitunnar við hafnarsvæðið verða lagðar af og fráveitan tengd við megin útrás neðan Þorsteinsbúðar.

Fallegasti garðurinn í Garði.

Í gær, fimmtudag veitti Umhverfisnefnd viðurkenningu fyrir fallegasta garðinn í sumar. Viðurkenninguna hlutu eigendur garðsins að Lyngbraut 1, þau Anna Marý Pétursdóttir og Guðmundur Jens Knútsson. Til hamingju með viðurkenninguna. Hér eru myndir af garðinum Lyngbraut 1, það er gróðursælt í Garði!

Hér eru Guðmundur og Anna Marý með verðlaunagripinn, sem gerður var af Ástu Óskarsdóttur.  Með þeim á myndinni eru Brynja Kristjánsdóttir formaður Umhverfisnefndar og Ásta Óskarsdóttir.

Guðmundur og Anna með verðlaunagripinn.

Skipulagsmál.

Bæjarráð hefur staðfest samþykkt Skipulags-og byggingarnefndar um að kynna vinnslutillögu um breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins, sem m.a. nær til breytinga á svæðinu við Rósaselstorg. Einnig var framundan að auglýsa tillögu um nýtt deiliskipulag fyrir íbúabyggð sunnan Skagabrautar. Þá vinnur Skipulags-og byggingarnefnd að breytingum á deiliskipulagi Teiga-og Klapparhverfis, sem miðar m.a. að blandaðri byggð einbýlis-, par-og raðhúsa í stað einungis einbýlishúsa eins og gildandi deiliskipulag gerir ráð fyrir.

Töluverð eftirspurn er eftir lóðum fyrir bæði íbúðarhús og atvinnustarfsemi, sú skipulagsvinna sem er í gangi og hefur verið undanfarnar vikur og mánuði miðar að því að mæta eftirspurn og búa í hag til framtíðar. Þess má geta að á fundi Skipulags-og byggingarnefndar í vikunni voru afgreidd byggingarleyfi vegna 6 íbúða. Allt að gerast !

Sameining sveitarfélaga.

Samstarfsnefnd sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar hefur nú skilað áliti sínu til bæjarstjórna. Framundan er umfjöllun um málið í bæjarstjórnum beggja sveitarfélaganna. Samstarfsnefndin leggur til að íbúar sveitarfélaganna kjósi um það í nóvember hvort sveitarfélögin verða sameinuð. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum ber að hefja almenna kynningu á málinu a.m.k. tveimur mánuðum fyrir kjördag og mun sú kynning væntanlega hefjast í byrjun september.

Víðir.

Knattspyrnuliði Víðis hefur gengið vel í sumar. Nú er Víðir í 3. sæti 2. deildar og á raunhæfa möguleika á að færast enn ofar og tryggja sér sæti í 1. deild á næsta ári. Næsti leikur liðsins er á heimavelli á morgun, laugardag gegn Sindra frá Höfn.

Facebooktwittergoogle_plusmail