27. vika 2017.

Mikið um að vera í Garði.

Nú í sumar standa yfir fjölmargar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins, eins og áður hefur komið fram í Molum. Í þessari viku var m.a. unnið að því að steypa gangstéttar og vinnuskólinn, ásamt sjálfboðaliðum á vegum Gróður fyrir fólk unnu að gróðursetningu trjáa sunnan við Heiðarholt og Vörðubraut. Nú í vikunni hefur verið unnið að byggingarframkvæmdum við nýtt íbúðarhús við Vörðubraut, lóðum hefur verið úthlutað og töluverð eftirspurn hefur verið eftir lóðum fyrir íbúðarhús. Uppbygging íbúðarhúsnæðis er því að hefjast aftur af fullum krafti eftir margra ára lágdeyðu í þeim efnum. Þá var í vikunni lokið við malbikun við Iðngarða, en fjölmargt fleira mætti nefna til. Hér eru myndir af nokkrum verkefnum þessarar viku.

Steypa gangst 17.1 Gróðursetn 17 Trjágengi 17 Vörðubr 7.17

Forvarnir og sumarfrí hjá vinnuskóla.

Nú í morgun var forvarnadagur í íþróttahúsinu hjá starfsfólki vinnuskólans, þar sem flutt voru fræðsluerindi og farið í leiki. Síðan voru grillaðar pylsur en ungmennin í vinnuskólanum eru nú farin í vikufrí. Flokkstjórar og verkstjóri halda áfram störfum. Ungmennin í vinnuskólanum hefja aftur störf mánudaginn 17. júlí. Starfsfólk sveitarfélagsins hefur unnið gott verk í sumar, við umhirðu bæjarins, gróðurvinnu o.fl. og eru ungmennin í vinnuskólanum vel að því komin að njóta sumarsins næstu vikuna. Nú í sumar hafa börn unnið að kofasmíði og er nú risið myndarlegt kofaþorp við félagsmiðstöðina. Hér eru nokkrar myndir af vinnuskólanum og kofasmíðinni.

20170628_122834 20170628_135038 IMG_6732 Skólagarðar 2017

IMG_7079

Ungmennaráð og sameining sveitarfélaga.

Fulltrúar í Ungmennaráði fengu bæjarstjórann á sinn fund til þess að fræðast um sameiningu sveitarfélaga og þá sérstaklega um þá vinnu sem staðið hefur yfir við greiningu á kostum og göllum sameiningar Garðs og Sandgerðisbæjar. Það var ánægjulegt að ræða við Ungmennaráðið um þessi mál og finna fyrir þeim áhuga sem fulltrúarnir hafa á sveitarstjórarmálum og hugsanlegri sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga.

Ungmennaráð og bæjarstjóri.
Ungmennaráð og bæjarstjóri.

Sumarhátíð vinnuskólanna.

Um síðustu mánaðamót var sumarhátíð vinnuskólanna í Garði, Grindavík, Vogum og  í Sandgerði, þar sem sumarhátíðin var að þessu sinni haldin. Alls tóku um 150 ungmenni og 25 flokkstjórar þátt í sumarhátíðinni sem var í samstarfi við Hitt húsið í Reykjavík. Sumarhátíðin tókst vel, þar sem ungmennin hlutu margvíslega fræðslu, nutu skemmtidagskrár og grillveislu. Gott framtak og gleðin við völd.

20170629_140434

Hremmingar í skipulagsmálum.

Sveitarfélagið Garður hefur nú beðið mánuðum saman eftir því að nýtt aðalskipulag Keflavíkurflugvallar verði staðfest, en nýtt aðalskipulag flugvallarsvæðisins er forsenda þess að hægt verði að gera breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins á svæðinu við Rósaselstorg. Margir aðilar hafa leitað eftir lóðum á því svæði í nágrenni flugstöðvarinnar fyrir atvinnustarfsemi, en til þess að sú uppbygging geti hafist þarf að gera ákveðnar breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Skipulagsstofnun tók sér tíma langt umfram lögbundinn afgreiðslufrest til að staðfesta nýtt aðalskipulag Keflavíkurflugvallar, en vísaði því fyrir rest til umhverfisráðherra til afgreiðslu. Umhverfisráðherra hefur nú farið langt umfram lögbundinn afgreiðslufrest og hefur ekki ennþá afgreitt málið. Að öllu eðlilegu hefði Skipulagsstofnun átt að staðfesta skipulagið í maí 2016 og ef umhverfisráðherra virti skipulagsreglugerð hefði ráðherra átt að klára málið í mars 2017. Þessar ótrúlegu tafir á afgreiðslu málsins koma sér mjög illa fyrir sveitarfélagið, flugvallaryfirvöld og fjölmarga aðra aðila sem hafa beðið eftir staðfestingu aðalskipulagsins í meira en eitt ár. Það er dapurlegt að upplifa að stjórnvöld virði ekki þær reglur sem þau setja sjálf og að stjórnsýsla og málsmeðferð Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra sé í því skötulíki sem við blasir í þessu máli.

Skötumessa 2017.

Talandi um skötur, þá verður Skötumessa 2017 haldin í Miðgarði, sal Gerðaskóla miðvikudaginn 19. júlí. Skötumessan er jafnan skemmtilegur viðburður, með ljúffengu sjávarmeti og skemmtiatriðum. Afrakstur kvöldsins rennur til styrktar góðra málefna, en Skötumessan er áhugafélag um velferð fatlaðra.

Víðir.

Knattspyrnuliði Víðis hefur gengið ágætlega í 2. deildinni í sumar. Á þriðjudaginn atti Víðir kappi við Aftureldingu á Nesfisk vellinum og endaði leikurinn með jafntefli. Eftir þennan leik er Víðir í 5. sæti deildarinnar, aðeins 4 stigum frá toppsæti. Áfram Víðir !

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail