25. vika 2017.

Sólseturshátíð.

Þessa vikuna hefur verið mikið um að vera í Garðinum. Dagskrá Sólseturshátíðar hófst á þriðjudagskvöld með fjölskyldujóga, hápunktur hátíðarinnar verður á laugardaginn með fjölskyldudagskrá á Garðskaga. Ágæt þátttaka hefur verið á viðburðum í vikunni, enda er dagskráin fjölbreytt og höfðar til allra. Til dæmis var stór hópur sem fór í fróðleiksgöngu um bæinn með leiðsögumanninum Herði Gíslasyni á miðvikudagskvöld. Í gær, fimmtudag opnuðu listamenn í Garði sýningu að Sunnubraut 4, ungir tónlistarmenn héldu tónleika í Gerðaskóla og Golfklúbbur Suðurnesja hélt golfmót í samstarfi við sveitarfélagið þar sem var met þátttaka. Þá var mikið líf og fjör í Íþróttamiðstöðinni þar sem stór hópur hjólaði spinning fram yfir miðnætti. Dagskráin heldur áfram í dag og kvöld, með útigrilli á íþróttasvæðinu við Nesfiskvöllinn og knattspyrnuleik Víðis gegn Tindastól. Eftir leikinn verða tónleikar KK í veitingahúsinu Röst á Garðskaga og deginum lýkur með miðnæturmessu í Útskálakirkju. Á morgun verður mikil dagskrá á Garðskaga, sem mun standa fram undir nóttu.

Bærinn er óðum að klæðast hátíðarskrúða, með litríkum skreytingum í hverfunum og á morgun verða veitt verðlaun fyrir best skreyttu húsin í hverju hverfi.  Víða má finna myndir frá dagskrá hátíðarinnar, til dæmis á Facebook síðunni Sólseturshátíð í Garði. Það er líf og fjör í Garði þessa dagana, við bjóðum gesti velkomna til að njóta með okkur heimafólki .

Söguganga, Hörður Gíslason rauðklæddur leiðsögumaður.
Söguganga, Hörður Gíslason rauðklæddur leiðsögumaður.
Spinning liðið í bláu þema.
Spinning liðið í bláu þema.

Sumarhátíð leikskólans í dag.

Í dag, föstudag verður árleg sumarhátíð leikskólans Gefnarborgar. Án efa verður gleðin við völd hjá börnunum, enda ber dagskrá dagsins með sér að svo verði. Þess má geta að leikskólinn Gefnarborg er Sólblóma leikskóli og styrkir dreng í Uganda sem heitir Peter, en hann á einmitt afmæli í dag þann 23. júní. Alltaf líf og fjör á leikskólanum.

Framkvæmdir.

Ýmsum sumarverkefnum sveitarfélagsins er þegar lokið, önnur standa yfir og framundan verður mikið um að vera. Nú í vikunni lauk til dæmis framkvæmdum við malbikun Skagabrautar út á Garðskaga, einnig var Norðurljósavegur malbikaður við hótelið Lighthouse Inn. Mikill kraftur er í starfsemi vinnuskólans, enda er byggðarlagið vel hirt og snyrtilegt.

Malbikun Norðurljósavegur.
Malbikun Norðurljósavegur.
Skagabraut að Garðskaga nýmalbikuð.
Skagabraut að Garðskaga nýmalbikuð.

Hreinsun strandarinnar.

Nú á miðvikudaginn var ráðist í það verkefni að hreinsa rusl af ströndinni við Garðskaga. Verkefnið var hluti af samvinnuverkefni Nettó, Bláa hersins, Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og fleiri aðila, sem gengur út á að hreinsa strandlengjuna með Reykjanesi. Tómas Knútsson hjá Bláa hernum stjórnaði hreinsun strandarinnar við Garðskaga eins og herforingi. Við þökkum Tómasi og öðrum þeim sem komu að verkefninu fyrir vel unnið verk.

Tómas hershöfðingi Bláa hersins á Garðskaga.
Tómas hershöfðingi Bláa hersins á Garðskaga.

Samningar.

Sveitarfélagið gerir samninga við ýmsa aðila á mörgum sviðum. Nú hafa verið gerðir samningar við Norræna félagið í Garði og Hollvini Unu í Sjólyst. Um er að ræða framlengingu á fyrri samningum um samstarf sveitarfélagsins við þessi ágætu félagasamtök. Bæjarstjórinn og Erna M Sveinbjarnardóttir formaður beggja félagasamtakanna undirrituðu samningana nú í morgun. Sveitarfélagið á gott samstarf við hin ýmsu félagasamtök í Garði, íbúunum og byggðarlaginu til heilla.

Samningar 2017

Nýr þjálfari hjá Víði.

Víðir hefur skipt um þjálfara meistaraflokks karla í knattspyrnu. Nýr þjálfari er Guðjón Árni Antoníusson, sem nú snýr aftur heim í Víði eftir að hafa leikið með Keflavík og FH mörg undanfarin ár. Guðjón er boðinn velkominn „heim“, með ósk um gott gengi. Fyrsti leikur Víðis undir stjórn Guðjóns verður í kvöld, þegar Tindastóll kemur í heimsókn.

Veðrið.

Undanfarna daga hefur verið frekar kalt í veðri með úrkomu. Lengsti dagur ársins var á miðvikudaginn, en veðrið þann dag minnti frekar á haustdag en hásumar. Vonandi verða veðurguðir garðbúum hliðhollir um helgina.

Góða helgi og gleðilega Sólseturshátíð !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

24. vika 2017.

Þjóðhátíðardagurinn 17. júní á morgun.

Á morgun þann 17. júní höldum við þjóðhátíðardaginn okkar hátíðlega um land allt. Hér í Garði verða hátíðahöldin með hefðbundnu sniði. Hátíðardagskráin hefst með hátíðarmessu í Útskálakirkju kl. 13, síðan verður skrúðganga frá kirkju og í Gerðaskóla þar sem verður fjölbreytt dagskrá í sal skólans Miðgarði. Þar mætir fjallkonan og ávarpar samkomuna, tónlistaratriði og skemmtidagskrá og hátíðarræða. Garðbúar eru hvattir til að taka virkan þátt í hátíðardagskrá þjóðhátíðardagsins. Nánari upplýsingar um hátíðardagskrána í Garði er að finna á vefsíðu sveitarfélagsins, svgardur.is. Víða um land mun væntanlega verða sungið Hæ hó jibby jei, það er kominn 17. júní o.s.frv. Gleðilega þjóðhátíð !

Íslenski fáninn

Sólseturshátíð framundan.

Í næstu viku og um næstu helgi verður bæjarhátíð garðmanna, Sólseturshátíðin. Dagskráin byrjar þriðjudaginn 20. júní og stigmagnast fram í næstu helgi. Á miðvikudag munu bæjarbúar klæða bæinn hátíðarskrúða og skreyta hverfin með sínum litum. Umhverfisnefnd sveitarfélagsins mun veita viðurkenningar fyrir best skreyttu húsin í hverju hverfi. Megin hluti dagskrárinnar verður laugardaginn 24. júní og verður í gangi dagskrá á hátíðarsvæðinu á Garðskaga frá kl. 13:30 og fram í miðnætti. Dagskrá hátíðarinnar og upplýsingar um hana má finna á Facebook síðunni Sólseturshátíð í Garði, einnig á heimasíðu sveitarfélagsins svgardur.is. Knattspyrnufélagið Víðir ber hitann og þungann af undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar, í samstarfi við Björgunarsveitina Ægir, sveitarfélagið, lögreglu og fleiri aðila. Mikið framundan hjá garðbúum og gestum.

Dagskrá Sólseturshátíðar 2017.

Viðurkenningar fyrir hús hverfanna.
Viðurkenningar fyrir hús hverfanna.

Leikjanámskeið, vinnuskóli o.fl.

Nú í sumarbyrjun hófst sumarstarfsemi fyrir börn og ungmenni í Garði.  Leikjanámskeið fyrir börn sem hafa lokið 1.-6. bekkjum grunnskólans stendur nú yfir, með fjölbreyttri dagskrá og góðri þátttöku. Þá er hafið námskeiðið Skólagarðar og kofabyggð fyrir börn sem hafa lokið 3.-7. bekkjum grunnskólans. Undanfarið hefur staðið yfir sundnámskeið fyrir 5, 6 og 7 ára börn og er aðsókn mikil. Einnig hefur verið boðið upp á vatnsleikfimi fyrir fullorðna í hádeginu virka daga, mikil þátttaka. Þá er vinnuskólinn í fullum gangi. Það er mikið um að vera á vegum sveitarfélagsins, fyrir börn jafnt sem fullorðna í sumar.

Myndir af börnum á leikjanámskeiði:

19030640_1909035659357988_2945892169943195158_n

19146278_1911787069082847_6326502419314933306_n

Myndir af börnum á námskeiðinu Skólagarðar og kofabyggð:

19149036_10211826312847051_4111975359286267616_n

19225183_10211826322927303_8704304530673121314_n

Myndir af sundnámskeiði barna og vatnsleikfimi fullorðinna í sundlauginni:

Sundnámskeið 2017

Vatnsleikfimi 2017

Hjóladagur á leikskólanum.

Nú í morgun komu leikskólabörn með hjólin sín í leikskólann. Mikil umferð hjóla var á aflokuðu bílastæði við leikskólann. Gleðin skein úr andlitum barnanna og þau fengu góða útrás fyrir orkuna.

IMG_2594

IMG_2593

Ferðamenn á Garðskaga.

Eins og áður hefur komið fram er Garðskagi vinsæll ferðamannastaður. Nú í vor og í sumarbyrjun hefur aukist umferð ferðafólks á Garðskaga. Samkvæmt talningu komu um 30.000 gestir á Garðskaga í maí. Veitingastaðurinn Röst hefur notið mikilla vinsælda og fær mjög góða dóma. Byggðasafnið er á sínum stað og opið alla daga. Nú í byrjun júní opnaði kaffihúsið Flösin í gamla vitanum á Garðskagatá. Nú er unnið að því að setja upp sýningar í stóra vitanum og er vonast til að þær opni fljótlega. Auk alls þessa er nokkur fjöldi sem gistir á tjaldsvæðinu. Garðskaginn er sterkur segull sem dregur til sín gesti, enda er upplifunin á svæðinu einstök.

Bæjarráð.

Í vikunni fundaði bæjarráð. Mörg mál voru á dagskrá fundarins, þar má m.a. nefna að lagt var fram skilabréf, samantekt og framkvæmdaáætlun vinnuhóps um stefnumótun í málefnum aldraðra í Garði og Sandgerðisbæ. Það mál verður til frekari umfjöllunar á næstunni. Farið var yfir framkvæmdir ársins, en þar kennir ýmissa grasa. Samþykktar voru breytingar á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning og fjallað var um nokkrar fundargerðir nefnda. Fjölbreytt og mörg viðfangsefni bæjarráðs, að vanda.

Ljósnet í Garði.

Undanfarið hefur Míla unnið að því að tengja öll heimili í Garði við ljósnet. Tilgangur þess er að bæta fjarskipti og auka gæði internet sambanda. Nú er verkefni Mílu lokið þannig að íbúar í Garði eiga þess nú kost að búa við mun meiri gæði nettenginga en verið hefur. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is. Garðbúar eru vel tengdir.

sandgerdi_ljosnet_3(1)

Loftmyndir – map.is/gardur.

Ótal margt má finna á Internetinu. Eitt af því er slóðin map.is/gardur, sem sveitarfélagið stendur að. Þar má finna loftmyndir af sveitarfélaginu og ýmsar upplýsingar um skipulag, lagnakerfi o.fl. Vefurinn er öllum opinn.

Veðrið.

Framan af vikunni var veðurblíða með glampandi sól. Í morgun hefur veðrið breyst, nú er komin suð-austlæg átt með rigningarskúrum og kaldara lofti. Vætan þarf ekki að koma á óvart, enda er þjóðhátíðardagurinn 17. júní á morgun. Eins og ótrúlega oft áður er von á einhverri úrkomu á þjóðhátíðardaginn.

Góða helgi og gleðilega þjóðhátíð !

Facebooktwittergoogle_plusmail

23. vika 2017.

Vinnuskólinn.

Starfsemi vinnuskólans er hafin af fullum krafti. Vinnuskólinn er mikilvægur liður í starfsemi sveitarfélagsins, enda felur hann í sér margar vinnandi hendur sem vinna að alls konar verkefnum og sjá til þess að umhirða og ásýnd bæjarins sé eins og best verður á kosið.

Bæjarstjórnarfundur.

Í vikunni var fundur í bæjarstjórn. Að venju voru mörg mál á dagskrá, fundargerðir fastanefnda sveitarfélagsins, fundargerðir nefnda og ráða þar sem sveitarfélagið á fulltrúa og svo ýmis önnur mál.

Eitt stærsta málið sem tekið var fyrir á fundinum var tillaga um skipan samstarfsnefndar um sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Var samþykkt samhljóða að skipa fulltrúa í nefndina, sem mun vinna eftir ákvæðum sveitarstjórnarlaga um sameiningu sveitarfélaga. Samstarfsnefndin á fyrir 30. júlí að fara yfir gögn og upplýsingar sem fyrir liggja um ýmsar forsendur og kynna þarf íbúunum síðar, ásamt því að skila tillögum til bæjarstjórnanna um kosningu íbúa um tillögu um sameiningu. Eftir það munu bæjarstjórnir sveitarfélaganna taka málið til umræðu á tveimur fundum og ákveða kjördag. Stefnt er að því að þetta liggi fyrir um mánaðamótin ágúst/september.

Á fundinum staðfesti bæjarstjórn afgreiðslur bæjarráðs á ýmsum málum sem fram koma í tveimur fundargerðum bæjarráðs sem voru á dagskrá bæjarstjórnar. Þá má nefna að kosið var í bæjarráð til eins árs, eins og samþykkt um stjórn sveitarfélagsins kveður á um. Fundaáætlun bæjarráðs fram í september var samþykkt og samþykktar voru breytingar á skipan nokkurra nefnda.

Í lok fundarins var samþykkt að bæjarstjórn fari í leyfi frá reglulegum fundum í sumar og var bæjarráði veitt heimild til fullnaðarafgreiðslu mála á meðan. Næsti reglulegur fundur bæjarstjórnar verður í byrjun september, en líklega þarf bæjarstjórn að koma saman áður til að fjalla um tillögur frá samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar.

Ferðamenn.

Nú í byrjun júní hefur umferð ferðafólks aukist mjög í Garðinum og beinist athygli þeirra að Garðskaga. Helsti segullinn sem dregur ferðamenn á Garðskaga eru vitarnir, en þó helst gamli vitinn á garðskagatá. Samkvæmt mælingum koma hátt í 300.000 gestir á Garðskaga á ári og er stór hluti þeirra erlendir ferðamenn. Umhverfið og náttúran á Garðskaga felur í sér einstaka upplifun fyrir þá sem þangað koma. Nú þegar nálgast hásumar og um Jónsmessuna sækja margir í að upplifa sólsetrið, sem er einstaklega fallegt og tilkomumikið þegar miðnætursólin hverfur bak við Snæfellsjökul og Snæfellsnesið. Um vetrartímann sækja margir á Garðskaga til að upplifa Norðurljósin. Þar fyrir utan una gestir sér við að njóta náttúrunnar, margir sækja í fjörurnar sitt hvoru megin við Flösina, skoða dýralífið og jafnvel sitja og horfa út á hafið.

Vitarnir og sólsetur á Garðskaga.

_JOI5071 (1)

Sjómannadagurinn.

Nú á sunnudaginn verður sjómannadagurinn haldinn hátíðlega um land allt. Víða er þessi dagur einn helsti hátíðardagurinn á árinu og í mörgum sjávarbyggðum á sjómannadagurinn djúpar og traustar rætur með hefðbundinni dagskrá. Sjómannadagurinn felur því í sér mikilvæga menningarlega hefð, ekki síður en að hann sé haldinn hátíðlegur til heiðurs sjómönnum og fjölskyldum þeirra og reyndar öllum þeim sem vinna við sjávarútveg almennt. Gleðilegan sjómannadag !

Gunnar Hámundarson á siglingu.
Mb. Gunnar Hámundarson úr Garði á siglingu.

Veðrið.

Veðrið þessa vikuna hefur að mestu einkennst af norðlægum áttum, með svölum vindi og sólskini flesta daga. Inn á milli hafa komið rigningarskúrir. Framan af vikunni hefur verið frekar kalt í veðri, en eftir því sem hefur liðið á vikuna hefur heldur hlýnað í veðri og veðurútlit fyrir komandi helgi er ágætt.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

22. vika 2017.

Íbúafundur um hugsanlega sameiningu sveitarfélaga.

Sl. miðvikudag var boðað til íbúafundar í Gerðaskóla, þar sem kynntar voru helstu niðurstöður í úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Mæting var ágæt, fram komu ýmsar spurningar um málið og urðu ágætar umræður. Bæjarstjórn mun í næstu viku taka ákvörðun um framhald málsins, en ef af verður má reikna með að íbúar munu taka afstöðu til málsins með kosningu næsta haust.

IMG_2517

Gerðaskóli – skólaslit.

Nú er komið að lokum skólaársins hjá nemendum og starfsfólki Gerðaskóla, en skólaslit verða í dag föstudag. Að baki er viðburðaríkur vetur, bæði í námi og félagslífi nemenda. Þessa vikuna hafa nemendur sinnt ýmsum verkefnum, sem dæmi voru allir bekkir út og suður í gær fimmtudag. Einhverjir fóru til dæmis í Húsdýragarðinn og aðrir voru í ýmiskonar útiveru og ferðum. Nemendur í 10. bekk útskrifast frá grunnskólanum í dag og við tekur spennandi tími hjá þeim, þeir fá sérstakar óskir um farsæld í framtíðinni. Nemendur Gerðaskóla fá árnaðaróskir á þessum tímamótum og starfsfólk skólans þakkir fyrir vel unnin störf á liðnu skólaári.

Vinnuskólinn.

Eins og fram hefur komið er sumarstarf vinnuskólans hafið, með tilheyrandi grasslætti og gróðurvinnu. Verk-og flokkstjórar hafa verið að undirbúa verkefni sumarsins með ungmennum í vinnuskólanum, meðal annars með fundum og yfirferð yfir fjölbreytt verkefni framundan. Hér er mynd frá fundi þeirra með Guðbrandi frístunda-, menningar-og lýðheilsufulltrúa, sem heldur utan um starfsemi vinnuskólans.

IMG_2520

Tónleikar í Garðskagavita.

Í gærkvöldi, fimmtudag voru tónleikar í Garðskagavita. Tónleikarnir voru af dagskránni Söngvaskáld á Suðurnesjum og voru hluti af dagskrá Jarðvangsviku á Suðurnesjum. Tónleikarnir tókust vel og hljómburðurinn í vitanum naut sín, en það er eftirsóknarvert meðal tónlistarmanna að flytja tónlist í vitanum þar sem hljómburður er einstakur og mikil upplifun fyrir tónleikagesti. Skemmtilegt framtak.

Hótel Ligthouse Inn í Garði.

Eins og fram hefur komið hefur nýtt hótel opnað í Garði, Hótel Lighthouse Inn. Bræðurnir Gísli, Þorsteinn og Einar Heiðarssynir standa að uppbyggingu og rekstri hótelsins, en þeir hafa síðustu ár rekið gistiheimilið Garð. Hótelið er hið glæsilegasta, hlýlegt og smekklega innréttað. Hér að neðan eru þeir bræður í afgreiðslu hótelsins. Til hamingju með nýtt og glæsilegt hótel !

Bræðurnir Einar, Þorsteinn og Gísli Heiðarssynir.
Bræðurnir Einar, Þorsteinn og Gísli Heiðarssynir.

Víðir úr leik í bikarnum !

Í vikunni fór fram stórleikur á Nesfiskvellinum í Garði, en þá tók Víðir á móti Fylki í 16 liða úrslitum bikarkeppni KSÍ, Borgunarbikarnum. Fjöldi áhorfenda mætti á völlinn í blíðskaparveðri, enda mikið í húfi. Þegar upp var staðið bar Fylkir sigurorð af Víði 5-0, en miðað við hvernig leikurinn spilaðist geta Víðismenn borið höfuðið hátt því leikur liðsins var á stórum köflum mjög góður. Framundan er leikur gegn Völsungi á Húsavík í 2. deildinni og fá Víðismenn baráttukveðjur fyrir þann leik.

Veðrið.

Þessa vikuna hefur veður verið frekar erfitt og leiðinlegt. Sunnan áttir og rigning, á köflum hefur verið hreint úrhelli. Inn á milli hefur þó rofað til og á miðvikudag var hægviðri og glampandi sól, meðal annars meðan stórleikur Víðis og Fylkis stóð yfir á Nesfiskvellinum.

Hvítasunnuhelgi framundan.

Framundan er Hvítasunnan og eflaust verða margir á ferðinni nú um helgina, enda löng helgi með frídegi á mánudaginn, annan í Hvítasunnu. Ferðalangar eru hvattir til að fara varlega í umferðinni og gæta að öryggi sínu og annarra.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail