21. vika 2017.

Vegna leyfis og fjarvista bæjarstjórans hefur lítið verið um mola síðustu tvær vikur. Nú er þráðurinn tekinn upp þar sem frá var horfið.

Gerðaskóli.

Það er vorbragur yfir nemendum og starfsfólki Gerðaskóla. Í gær fimmtudagt var árleg vorhátíð, með tilheyrandi skemmtidagskrá og stemmningu. Nemendur, foreldrar og starfsfólk skólans fjölmenntu í besta vorveðri, farið var í ýmsa leiki, grillaðar pylsur og hlutavelta, svo eitthvað sé nefnt. Auk þess kepptu nemendur við foreldra í knattspyrnu og nemendur í elstu bekkjum öttu kappi við kennara í körfubolta. Fyrr í vikunni var hjóladagur í skólanum, þar sem lögreglan heimsótti nemendur og fór yfir öryggisatriði varðandi reiðhjól. Framundan eru skólalok með tilheyrandi skólaslitum og útskrift elstu nemenda frá skólanum.

Hjóladagur í Gerðaskóla.
Hjóladagur í Gerðaskóla.

Hér eru myndir frá vorhátíð Gerðaskóla.

Gerðask.vorhátíð17

Gerðask.vorhátíð17.2

Leikskólinn Gefnarborg.

Í byrjun vikunnar var hátíð í Gefnarborg, þegar elsti árgangur barna í leikskólanum var formlega útskrifaður frá leikskólanum og hjá þeim börnum tekur við innskráning í 1. bekk grunnskólans í haust. Þetta eru mikil tímamót hjá börnunum, í bland við hátíðleikann mátti greina vissan söknuð bæði hjá börnunum og starfsfólki leikskólans, enda hafa þau fylgst að undanfarin ár á mikilvægu þroskaskeiði barnanna.

Vinnuskólinn farinn af stað.

Starfsemi vinnuskólans er hafin, en fer í full afköst í byrjun júní.  Ekki veitir af því að hefja starfsemina, því grasið sprettur svo hratt um þessar mundir að það má nánast heyra í sprettunni.  Fyrir stuttu voru verkstjórar vinnuskólans á skyndihjálparnámskeiði, enda mikilvægt fyrir þau að hafa þekkingu á skyndihjálp.

Verkstjórar vinnuskóla á námskeiði í skyndihjálp.
Verkstjórar vinnuskóla á námskeiði í skyndihjálp.

Fræðsluferð starfsfólks íþróttamiðstöðvar.

Starfsfólk íþróttamiðstöðvarinnar þarf að hafa góða þekkingu á umhverfi sínu, ekki síst vegna þess að margir ferðamenn sækja í sundlaugina og leita eftir upplýsingum um Suðurnesin hjá starfsfólkinu. Til þess að skerpa á þekkingunni fór starfsfólk íþróttamiðstöðvarinnar í Garði, ásamt kollegum sínum í Sandgerði í fræðsluferð um Suðurnesin. Eftir þessa fræðsluferð ætti starfsfólkið að hafa meiri og betri upplýsingar en áður til að miðla til ferðamanna. Þetta var gott framtak hjá starfsfólkinu.

Starfsfólk íþróttamiðstöðva á Reykjanestá.
Starfsfólk íþróttamiðstöðva á Reykjanestá.

Sameining sveitarfélaga.

Starfshópur fulltrúa sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar hefur síðan í haust unnið að úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna. Starfshópurinn fékk ráðgjafa hjá KPMG til samstarfs og nú liggja fyrir niðurstöður verkefnisins. Næsta mánudag verður íbúafundur í Sandgerði, þar sem niðurstöður verða kynntar og á miðvikudag verður íbúafundur í Garði. Vonandi fjölmenna íbúarnir á þessa fundi til að kynna sér málið. Í framhaldinu munu bæjarstjórnir sveitarfélaganna taka ákvarðanir um framhald málsins.

Hótelið opnað.

Nú hefur verið opnað nýtt og glæsilegt hótel í Garði, Hotel Lighthouse Inn. Bygging hótelsins hefur tekið um það bil eitt ár og fyrstu gestirnir hafa notið verunnar á hótelinu. Það er fyrirtækið GSE ehf., sem stendur að byggingu og rekstri hótelsins og er þeim óskað til hamingju með þetta nýja og glæsilega hótel.

Víðir 

Víðir hefur farið vel af stað á nýhöfnu keppnistímabili 2. deildar. Liðið lítur vel út og eru miklar væntingar til árangurs þess í sumar. Á miðvikudag þann 31. maí verður stórleikur á Nesfiskvellinum í Garði, en þá kemur Fylkir í heimsókn og etur kappi við Víðir í 16 liða úrslitum bikarkeppni KSÍ. Garðbúar eru hvattir til að fjölmenna á leikinn og styðja okkar menn í Víði.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail

18. vika 2017.

Morð í Gerðaskóla.

Sl. föstudag frumsýndu nemendur Garðaskóla leikritið Morð eftir Ævar Þór Benediktsson, öðru nafni Ævar vísindamaður. Nemendum tókst vel til og var leiksýningin hin besta skemmtun. Vegna fjölda áskorana var leiksýningin endursýnd í gærkvöldi. Það eru efnilegir leikarar í hópi nemenda, aldrei að vita nema þar séu kvikmyndaleikarar framtíðarinnar. Takk fyrir frábæra leiksýningu.

Bæjarstjórnarfundur.

Bæjarstjórn Garðs fundaði í vikunni. Að vanda voru fjölmörg mál á dagskrá. Aðal mál fundarins var síðari umræða um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2016. Ársreikningurinn var samþykktur og áritaður af bæjarstjórn. Eins og fram hefur komið eru niðurstöður reikningsins ánægjulegar og jákvæðar. Efnahagslegur styrkur er góður, m.a. vegna þess að bæjarsjóður er skuldlaus. Afgangur af rekstri var meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir og fjárfestingar fjármagnaðar alfarið af skatttekjum, engin ný lán voru tekin.

Undirbúningur Vinnuskóla.

Nú styttist óðum í að vinnuskóli sumarsins hefji starfsemi. Starfsmenn sveitarfélagsins eru þessa dagana að undirbúa sumarið og skipuleggja verkefnin. Starfsemi vinnuskólans er mikilvæg, bæði fyrir starfsmenn og ekki síður sveitarfélagið og íbúa þess. Undanfarin ár hefur vinnuskólinn unnið gott verk við að sjá um að byggðarlagið sé snyrtilegt og vel hirt, enda höfum við fengið hrós fyrir það frá gestum sem sækja Garðinn heim.

Keilir 10 ára.

Í gær var haldið upp á 10 ára afmælis Keilis á Ásbrú. Þegar litið er yfir sögu skólans í 10 ár er ljóst að þeir sem að honum hafa komið hafa unnið gott og þarft verk, í raun er um þrekvirki að ræða. Það er ánægjulegt að undirtónninn hjá Keili er nýsköpun og þess sést glöggt merki í starfsemi skólans fyrr og nú. Til hamingju með áfangann nemendur og starfsfólk Keilis.

Víðir á sigurbraut.

Knattspyrnulið Víðis hefur verið að gera það gott að undanförnu. Víðir sló lið Keflavíkur út í bikarkeppni KSÍ og Víðir sigraði lið Njarðvíkur í úrslitaleik B-deildar Lengjubikarkeppninnar. Það má því segja að eins og staðan er í dag hafi Garðurinn yfirhöndina á knattspyrnusviðinu umfram Reykjanesbæ ! Íslandsmótið hefst á morgun, laugardag með heimaleik Víðis gegn Hetti frá Egilsstöðum. Víðismenn koma vel stemmdir og sigurreifir til leiks í íslandsmótinu. Áfram Víðir !

Víðir - Lengjubikar meistarar B-deild.
Víðir – Lengjubikar meistarar B-deild.

Veðrið.

Nú er vorið í algleymingi og sumarveður hefur ríkt á landinu. Það er alltaf jafn ánægjulegt að sjá hvað allt lifnar við og brosin færast yfir mannfólkið þegar svona tíð er á vorin. Allir í góðu skapi 🙂

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail