17. vika 2017.

Vorið.

Nú spá veðurfræðingar því að vor og hlýrra veður taki völdin upp úr komandi helgi. Veðrið undanfarna daga og vikur hefur verið alveg þokkalegt miðað við árstíma hér í Garðinum. Grasflatir og tún eru óðum að taka græna litinn og gróðurinn er almennt byrjaður að fagna vori. Verkefnin þessa dagana fela mörg í sér undirbúning fyrir sumarstörfin, til dæmis er verið að ráða starfsfólk í vinnuskóla sumarsins og skipuleggja sumarstarfið. Þá eru orðin kaflaskil hjá knattspyrnufólki, íslandsmótið hófst í gær í efstu deild kvenna og nú um komandi helgi fer af stað íslandsmótið í efstu deild karla. Þegar hefur verið leikin ein umferð í bikarkeppni KSÍ.  Allt eru þetta skýr merki um að vorið er komið, við reiknum svo með að veðurguðirnir færi okkur hlýrra veður í næstu viku.

Flugstöðin 30 ára.

Í gær, fimmtudag var haldin afmælishátíð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Nú eru 30 ár liðin frá því flugstöðin var vígð og tekin í notkun. Saga flugstöðvarinnar er nokkuð merkileg og var uppbygging hennar á sínum tíma nokkuð umdeild. Í hönnunarferlinu þótti mörgum mannvirkið allt of stórt og mikið, úr varð að dregið var verulega úr stærð flugstöðvarinnar áður en bygging hófst. Síðan hafa menn þurft að stækka hana og stækka. Flugstöðin og starfsemin þar hefur reynst vel og er mikilvæg fyrir okkur íslendinga, það er í raun með ólíkindum hvernig tekist hefur að mæta þeirri gríðarlegu sprengingu í fjölda farþega sem fer um flugstöðina. Í tilefni 30 ára afmælis flugstöðvarinnar í gær var afhjúpað stórt og ótrúlega flott listaverk eftir Erró, sem er staðsett á þeim stað í flugstöðinn þar sem allir farþegar fara um á hverjum degi. Hér fyrir neðan er mynd sem tekin var af verkinu.

IMG_2445

Bæjarráð.

Fundur var í bæjarráði Garðs í vikunni. Á fundinum var meðal annars farið í saumana á niðurstöðum ársreiknings 2016 og samþykktir voru tveir viðaukar við fjárhagsáætlun 2017. Báðir viðaukarnir eru vegna tónlistarskólans, annars vegar er aukið stöðuhlutfall við tónlistarkennslu og hins vegar aukin fjárheimild vegna húsnæðismála skólans.

Frumsýning í Gerðaskóla.

Nemendur Gerðaskóla hafa að undanförnu æft leikritið Morð. Nú er komið að stóru stundinni þar sem frumsýning verður í Miðgarði í kvöld. Leiklistarlíf hefur verið líflegt í Gerðaskóla og hefur verið ánægjulegt að fylgjast með hvað nemendur og kennarar hafa lagt mikla vinnu í alls kyns uppákomur í skólanum, þar á meðal hafa verið settar upp leiksýningar undanfarna vetur.  Garðbúar eru hvattir til að mæta og njóta menningarlífsins í Gerðaskóla.

Stórleikur í kvöld.

Í kvöld er stórleikur í bikarkeppni KSÍ í knattspyrnu. Keflavík og Víðir í Garði mætast á Nettóvellinum í Keflavík kl. 19:00. Þessi nágrannalið hafa ekki att kappi í alvöru keppni frá því árið 1986, þegar Keflavík vann Víðir 1-0 á Garðvelli í bikarkeppninni. Spennan mikil fyrir leiknum og Víðir hefur harma að hefna frá því fyrir rúmum 30 árum! Það verður fróðlegt að sjá hvernig lið Víðis mun koma til leiks að þessu sinni, en liðið leikur í 2. deildinni í sumar eftir að hafa í nokkur ár verið í 3. deild. Miklar væntingar eru til Víðis fyrir sumarið og mikill hugur í víðisfólki, það verður spennandi að fylgjast með leikjum Víðis í sumar.                Áfram Víðir !

18118908_939981326142077_3271120670172602885_n

Framkvæmdir.

Að undanförnu hefur Bragi Guðmundsson byggingarverktaki og hans menn unnið að byggingu salernisálmu við hús byggðasafnsins á Garðskaga. Verkið gengur vel og er stefnt að því að taka húsnæðið í notkun í júní. Með tilkomu þess verður bætt úr salernisaðstöðu á Garðskaga, bæði fyrir gesti og gangandi sem munu hafa aðgang að salernum utan frá, eins fyrir gesti veitingahússins Röst og byggðasafnsins sem munu hafa aðgang innan frá. Hér fyrir neðan er mynd af stöðu mála í gær, fimmtudag, en búið er að steypa upp útveggina.

IMG_2447

Frídagur verkamanna 1. maí.

Nú er apríl að renna sitt skeið á enda. Næstkomandi mánudag þann 1. maí er frídagur verkamanna, sem í gegnum tíðina og þá aðallega í fyrri tíð var oft verið nefndur „baráttudagur verkalýðsins“. Víða um landið halda verkalýðsfélögin hátíðir í tilefni dagsins, en hefðir og venjur að því leyti eru þó nokkuð misjafnar eftir landsvæðum og byggðarlögum. Víða er mikið lagt upp úr hátíðarhöldunum, með ræðuhöldum og skemmtidagskrám en annars staðar er lítið eða jafnvel ekkert um að vera. Þema dagsins er þó jafnan hið sama frá ári til árs, það er baráttan fyrir betri kjörum launafólks.  Við óskum öllu launafólki fyrirfram til hamingju með daginn þann 1. maí.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

16. vika 2017.

Páskar að baki.

Síðustu tvær vikur hafa einkennst af hátíð Páskanna. Margir og góðir frídagar sem flestir hafa vonandi notið vel, ásamt því að njóta helgihalds páskahátíðarinnar.

Gleðilegt sumar !

Samkvæmt dagatalinu var sumardagurinn fyrsti í gær, þann 20. apríl. Sumardagurinn fyrsti hefur gjarnan jákvæðan sess í huga landsmanna, enda undirstrikar hann að komið sé að lokum vetrar og vorið framundan. Fyrstu tvo dagana í byrjun sumars að þessu sinni var ekki mjög sumarlegt, meira að segja þurfti að skafa bílrúður og sópa snjó af bílum snemma í morgun. Það er hins vegar orðið það hlýtt og milt að jörðin breytti fljótt um ásýnd í morgun og snjóinn tók fljótt upp. Vorið er framundan og vonandi verður það milt og gott.

Bæjarráð.

Fundur var í bæjarráði nú í vikunni. Þar bar hæst að samþykkt var tillaga um lausnir á húsnæðismálum tónlistarskólans, en tónlistarskólinn hefur undanfarin ár búið við mjög þrönga og ófullnægjandi húsnæðisaðstöðu. Samþykkt bæjarráðs er ánægjulegur áfangi sem miðar að því að búa vel að tónlistarskólanum.

Almannavarnanefnd á ferð.

Nú í morgun var Almannavarnanefnd Suðurnesja, utan Grindavíkur á ferð um utanverð Suðurnes. Nefndin heimsótti björgunarsveitirnar í Sandgerði, Garði og Reykjanesbæ þar sem nefndin hitti forystufólk björgunarsveitanna og kynnti sér aðstöðu og búnað sveitanna. Björgunarsveitirnar eru mjög mikilvægir hlekkir í öryggiskeðju samfélagsins og starfa náið með almannavörnum. Heimsóknir Almannavarnanefndar voru ánægjulegar og er alltaf jafn athyglisvert að sjá hvað margir einstaklingar leggja mikið af mörkum í sjálfboðavinnu á vettvangi björgunarsveitanna. Fyrir það er þakkað. Myndin hér að neðan var tekin af Almannavarnanefnd og formanni Björgunarsveitarinnar Ægis í Garði í húsnæði sveitarinnar í Garði.

IMG_2440

Ungt fólk og lýðræði.

Fulltrúar Ungmennaráðs Garðs sóttu fyrir stuttu ráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði, sem Ungmennaráð UMFÍ hefur staðið fyrir undanfarin ár. Að þessu sinni var ráðstefnan haldin á Hótel Laugabakka í Miðfirði. Yfirskrift ráðstefnunar að þessu sinni var „Ekki bara framtíðin – ungt fólk, leiðtogar nútímans“. Það er mikilvægt fyrir ungt fólk alls staðar að af landinu að koma saman og fjalla um sín hagsmunamál og það er gott framtak hjá UMFÍ að standa að þessum árlegu ráðstefnum. Hér er mynd af fulltrúum Ungmennaráðs Garðs, ásamt góðum vinum á ráðstefnunni.

IMG_4696

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

14. vika 2017.

Fimleikakappar úr Garði.

Um síðustu helgi slógu nokkrir efnilegir fimleikakappar úr Garði í gegn á íslandsmóti. Atli Viktor Björnsson varð íslandsmeistari í 3. þrepi karla, Magnús Orri Arnarson varði íslandsmeistaratitil sinn í frjálsum æfingum hjá Special Olympics og Sigurður Guðmundsson stóð sig vel á sínu fyrsta fimleikamóti hjá Special Olympics.  Frábær árangur hjá þessum efnilegu Garðbúum, til hamingju með það. Myndirnar hér að neðan eru fengnar af Facebook síðum foreldra.

Atli Viktor á verðlaunapalli.
Atli Viktor á verðlaunapalli.
Sigurður með verðlaunapeninginn, við hliðina á Leonard frænda sínum.
Sigurður með verðlaunapeninginn, við hliðina á Leonard frænda sínum.

Árshátíð Gerðaskóla.

Árshátíð Gerðaskóla var haldin í vikunni. Nemendur og kennarar hafa að undanförnu lagt mikla vinnu í að undirbúa árshátíðina og tókst hún mjög vel. Fjölmenni sótti árshátíðina, sem var í þremur hlutum eftir aldri nemenda. Framkoma og atriði nemendanna voru fjölbreytt og allt gekk mjög vel. Myndirnar hér að neðan eru af nemendum flytja sín atriði á árshátíðinni.

IMG_0687

IMG_0683

Bæjarstjórnarfundur.

Bæjarstjórn kom saman til fundar á miðvikudaginn. Þar bar hæst fyrri umræða um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2016. Niðurstöður ársreiknings eru mjög jákvæðar og lýsti bæjarstjórn ánægju með þær. Nánar er fjallað um ársreikninginn í molum bæjarstjóra frá því í gær. Að öðru leyti fjallaði bæjarstjórn um ýmsar fundargerðir nefnda og ráða og var samhljómur í bæjarstjórn um afgreiðslu allra mála.

Páskar framundan.

Tíminn líður hratt, allt í einu er komið að Páskahátíðinni. Grunnskólinn er farinn í páskaleyfi og margir landsmenn eru þegar lagstir í ferðalög innanlands sem utan. Næsta vika mun einkennast af því að páskahelgin verður framundan með tilheyrandi frídögum og ferðalögum, ferðalangar eru hvattir til að fara varlega í umferðinni og vonandi komast allir heilir heim úr sínum ferðalögum.

Veðrið.

Um síðustu helgi og raunar alla vikuna hafa verið miklar sviptingar í veðrinu. Sl. laugardag var dýðlegt vorveður með sól og blíðskaparveðri, síðan tók við sunnan rok og rigning á sunnudeginum. Mánudagurinn einkenndist af sunnan vindi þar sem skiptist á rigning og slydduél, að öðru leyti hafa að mestu verið suðlægar áttir með tilheyrandi vætutíð þessa vikuna. Það fer ekki milli mála að vorið er að taka völdin, a.m.k. hér á Suðurnesjunum.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail

Ársreikningur 2016 – góðar niðurstöður.

Ársreikningur Sveitarfélagsins Garðs fyrir árið 2016 var til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 5. apríl. Bæjarstjórn afgreiðir reikninginn eftir síðari umræðu í byrjun maí. Samkvæmt reglum um reikningsskil sveitarfélaga skiptist ársreikningur í tvo hluta. Annars vegar er A-hluti, sem er almennur rekstur bæjarsjóðs sem er að mestu leyti fjármagnaður með skatttekjum. Hins vegar er B-hluti, sem eru fyrirtæki í eigu sveitarfélagsins og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Undir B-hluta fellur m.a. rekstur félagslegra íbúða, íbúða fyrir aldraða og fráveitu.

Niðurstöður og lykiltölur ársreikningsins bera með sér að rekstur sveitarfélagsins gekk mjög vel á árinu 2016 og eru niðurstöður rekstrar talsvert betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Þá er ljóst að efnahagslegur styrkur sveitarfélagsins er mikill.

Rekstrarniðurstaða í samanteknum reikningi A og B-hluta er afgangur 60,9 milljónir, sem er 35,7 milljóna meiri afgangur en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Sem fyrr er bæjarsjóður í A-hluta skuldlaus en vaxtaberandi langtímaskuldir B-hluta eru aðeins kr. 60,4 milljónir.

Rekstrartekjur A-hluta bæjarsjóðs voru 1.243,5 milljónir, þar af voru skatttekjur 719,9 milljónir og framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 366,6 milljónir. Rekstrarniðurstaða B-hluta bæjarsjóðs var jákvæð um 58,5 milljónir, sem er 27,4 milljónum meiri afgangur en áætlun gerði ráð fyrir. Heildartekjur í samanteknum reikningi A og B-hluta voru 1.277,7 milljónir, sem er 70,3 milljónum meiri tekjur en áætlun ársins gerði ráð fyrir.

Laun og launatengd gjöld námu alls 524,6 milljónum og voru 61 stöðugildi í árslok 2016. Vöru-og þjónustukaup voru 496,8 milljónir, lífeyrisskuldbindingar jukust um 27,6 milljónir sem er 15,3 milljónum umfram áætlun.

Veltufé frá rekstri var 170,5 milljónir og var veltufjárhlutfallið 2,81. Handbært fé frá rekstri var 161,6 milljónir og hækkaði handbært fé frá fyrra ári um 121,4 milljónir, sem er 66,2 milljónum meira en áætlun ársins gerði ráð fyrir. Handbært fé í árslok 2016 var alls 457,4 milljónir.

Fjárfestingar voru 67,6 milljónir, en á móti voru seldar eignir fyrir 22 milljónir og álögð gatnagerðargjöld 14,7 milljónir. Í sjóðstreymisyfirlit kemur fram að fjárfestingar í varanlegum fjármunum voru nettó 39,8 milljónir.

Heildareignir A-hluta voru 3.040 milljónir og samtals í A og B-hluta 3.222,4 milljónir, eiginfjárhlutfall var 82,16%. Samanlagðar skuldir og skuldbindingar A og B-hluta voru 582,7 milljónir, þar af vaxtaberandi langtímaskuldir 60,4 milljónir sem fyrr segir, lífeyrisskuldbindingar 211,6 milljónir og langtíma leiguskuldbinding 111,6 milljónir.

Niðurstöður rekstrar árið 2016 og sterk efnahagsleg staða sveitarfélagsins eru mjög ánægjulegar staðreyndir, enda lýsti bæjarstjórn mikilli ánægju með útkomuna á fundi sínum við fyrri umræðu um ársreikninginn. Bæjarstjórinn er einnig ánægður með útkomuna og þakkar starfsfólki sveitarfélagsins, ásamt góðri og samstilltri bæjarstjórn fyrir þann árangur sem náðst hefur í rekstri og fjárhagslegum málefnum sveitarfélagsins.

Facebooktwittergoogle_plusmail