13. vika 2017.

Annir hjá nemendum Gerðaskóla.

Það er mikið um að vera hjá nemendum Gerðaskóla þessa dagana. Í síðustu viku kepptu fulltrúar skólans í Skólahreysti og stóðu sig vel.  Á sunnudaginn þann 2. apríl fer fram lokahátíð Nótunnar 2017 í Hörpu, þrátt fyrir að fulltrúar Gerðaskóla, hljómsveitin 13 nótur, hafi ekki komist í úrslit Nótunnar þá voru þau beðin um að sýna atriðið sitt aftur í Hörpu sem upphitun fyrir Nótuna. Frábært hjá krökkunum, en eins og fram hefur komið þá spila þau m.a. á hljóðfæri gerð úr skolprörum. Hópur nemenda hefur undanfarið æft leikritið Morð eftir Ævar Þór Benediktsson og verður það frumsýnt í lok apríl. Þetta leikverk er samstarfsverkefni með Þjóðleik, sem er leiklistarverkefni ungs fólks á landsbyggðinni í samstarfi við Þjóðleikhúsið.  Vitor Hugo Rodrigues Eugenio, kennari við Gerðaskóla, leikstýrir leikhópnum í Gerðaskóla.  Í næstu viku, nánar tiltekið þriðjudaginn 4. apríl verður blái dagurinn haldin hátíðlegan í tilefni af alþjóðlegum degi einhverfunnar. Þá eru allir hvattir til að klæðast bláu og foreldrar um leið hvattir til að ræða við og fræða börn sín um einhverfu.  Loks má nefna að lið Gerðaskóla keppti í gær í stóru upplestrarkeppninni sem fram fór í Grindavík og stóðu fulltrúar Gerðaskóla sig vel.  Framundan er síðan árshátíð skólans í næstu viku. Duglegir og athafnasamir nemendur í Gerðaskóla.

13 nótur
13 nótur
Lið Gerðaskóla í upplestrarkeppninni.
Lið Gerðaskóla í upplestrarkeppninni.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur hjá bæjarráði, á dagskrá fundarins kenndi ýmissa grasa. Lögð voru fram drög að ársreikningi 2016, sem fer til fyrri umræðu í bæjarstjórn í næstu viku. Samþykktar voru umsagnir um tvö þingmál á Alþingi, annars vegar mælt gegn samþykkt breytinga á lögum sem fela í sér afnám lágmarksútsvars og hins vegar mælt með að Alþingi samþykki tillögu um að Landhelgisgæslan verði flutt í Reykjanesbæ. Bæjarstjórinn lagði fram minnisblað um húsnæðismál og samþykkti bæjarráð að skoða kosti þess að eiga samstarf við húsnæðissjálfseignarstofnanir um fjölgun leiguíbúða í sveitarfélaginu. Lagður var fram samstarfssamningur sveitarfélagsins og Ferskra vinda vegna listahátíðarinnar Ferskir vindar sem fram fer í desember og janúar næstkomandi. Þá má nefna að ákveðið var að staðsetja rafmagnshleðslustöð fyrir rafmagnsbifreiðir við Íþróttamiðstöðina. Þá samþykkti bæjarráð starfslýsingu og starfsheiti Frístunda-, menningar-og lýðheilsufulltrúa sveitarfélagsins. Alltaf nóg um að vera hjá bæjarráði.

Framkvæmdir.

Nokkuð er um framkvæmdir í sveitarfélaginu um þessar mundir. HS Veitur hafa undanfarna mánuði unnið að endurnýjun vatnslagna í Útgarði og sér nú fyrir endan á þeim framkvæmdum. Míla hefur unnið að því að stórbæta fjarskiptasambönd í bænum. Þá eru framkvæmdir hafnar á vegum sveitarfélagsins við uppbyggingu salernishúss við byggðasafnið á Garðskaga og unnið er að lagfæringum og uppsetningu leiktækja á opnu leiksvæði barna. Framundan eru margvísleg verkefni á vegum sveitarfélagsins og verður mikið um að vera í þeim efnum á árinu. Þegar mikið er um að vera í framkvæmdum og alls kyns verkefnum, þá reynir á starfsmenn sveitarfélagsins. Þeir Jón Ben og Einar Friðrik á Umhverfis-, skipulags-og byggingarsviði hafa í mörgu að snúast og þurfa að meðhöndla alls konar gögn og upplýsingar. Myndin hér fyrir neðan ber það m.a. með sér.

Mikið að gera hjá Jóni og Einari.
Mikið að gera hjá Jóni og Einari.
Steypuvinna við salernishúsið.
Steypuvinna við salernishúsið.
Framkvæmdir á opnu leiksvæði barna.
Framkvæmdir á opnu leiksvæði barna.

Ferðaþjónustan.

Nú hillir undir að Hotel Lighthouse Inn opni, en framkvæmdir við uppbyggingu hótelsins hafa staðið yfir í allan vetur. Ferðaþjónustan á Garðskaga er í uppbyggingu og hefur verið vart við stöðuga aukningu á umferð út á Garðskaga síðustu vikur. Veitingahúsið Röst hefur notið mikilla vinsælda og stutt er í að kaffihúsið í gamla vitanum opni aftur eftir lokun í vetur. Að undanförnu hafa nokkrir ferðalangar slegið upp tjöldum og gist á Garðskaga, svo ekki sé minnst á húsbílana og Camper gistibílana. Gera má ráð fyrir að umferð ferðafólks í Garðinn aukist jafnt og þétt næstu vikur, en samkvæmt mælingum er áætlað að vel yfir 200.000 gestir komi á Garðskaga á ári. Það voru því mikil vonbrigði að umsókn um endurbætur á bílastæðum á Garðskaga hlaut ekki náð hjá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, en mjög aðkallandi er að lagfæra aðkomu og bílastæði á Garðskaga. Margir leggja leið sína á Garðskaga til að upplifa fegurð náttúrunnar, hér fyrir neðan er mynd tekin á Garðskaga í gærkvöldi og sýnir fallegt sólsetur með Snæfellsjökul í forgrunni.

Snæfellsjökull og sólsetrið.
Snæfellsjökull og sólsetrið.

Veðrið.

Nú í vikunni hefur verið sannkallað vorveður. Augljóst er að hefðbundin vorveður eru fyrr á ferðinni en oftast áður. Einhverjir farfuglar eru komnir, fyrr en venjulega og veturinn virðist víðs fjarri þótt ennþá sé marsmánuður.

Facebooktwittergoogle_plusmail

12. vika 2017.

Nótan.

Um þessar mundir er uppskeruhátíð tónlistarskólanna í landinu.  Nemendur Tónlistarskóla Garðs og Gerðaskóla í hljómsveitinni 13 nótur tók þátt í einni af undankeppnum hátíðarinnar um síðustu helgi. Hljómsveitin spilaði á tréspil og heimatilbúin „tubulum-hljóðfæri“, en þau eru gerð úr skolprörum og voru smíðuð af nemendum fyrr í vetur. Því miður náðu 13 nótur ekki að vinna sér þátttöku á lokakvöldi Nótunnar í ár, en þau vöktu verðskuldaða athygli fyrir sviðsframkomu, góðan flutning og ekki síst fyrir hljóðfærin sem þau notuðu. Á myndinni hér að neðan má sjá nemendur Gerðaskóla við smíði hljóðfæris úr skolprörum.

Hljóðfærasmiðir að störfum.
Hljóðfærasmiðir að störfum.

Heilsueflandi samfélag.

Nú í vikunni var vinnufundur á vegum Landlæknisembættisins, þar sem fulltrúar sveitarfélaga á Suðurnesjum og stofnana þeirra mættu og tóku virkan þátt. Umfjöllunarefnið var Heilsueflandi samfélag. Hér er um að ræða athyglisvert verkefni, en nokkur sveitarfélög hafa þegar skilgreint sig sem heilsueflandi samfélög. Það er mikilvægt fyrir alla að huga að heilsunni og heilbrigðu líferni, á vinnufundinum var m.a. fjallað um það hvernig samfélögin og stofnanir sveitarfélaganna geta beitt sér í þeim efnum.

IMG_2410

Alþjóðadagur vatns í Leikskólanum Gefnarborg.

Nú í vikunni var alþjóðadagur vatns og tók leikskólinn þátt í að vekja athygli á honum. Vatn er ein megin undirstaða alls lífs og því skiptir öllu máli að hafa aðgang að hreinu og góðu vatni. Við íslendingar erum heppin að hafa opinn aðgang að hreinu og heilnæmu vatni, en því miður búa margir jarðarbúar við verri aðstæður í þeim efnum. Það er gott framtak að vekja börnin á leikskólanum til umhugsunar um vatnið og mikilvægi þess, ásamt því að börnin voru hvött til að drekka nóg af vatni.

Vatn í leikskólanum.
Vatn í leikskólanum.

Dagur Norðurlanda – Norræna félagið í Garði 10 ára.

Í gær þann 23. mars var Dagur Norðurlanda. Um þessar mundir eru 10 ár frá því að Norræna félagið í Garði var stofnað og hélt félagið afmælishátið af því tilefni í gærkvöldi. Sveitarfélagið Garður hefur átt gott samstarf við Norræna félagið, en sveitarfélagið á vinabæi í þremur hinna Norðurlandanna og hefur Norræna félagið lykilhlutverk í samskiptum við þau. Meðal skemmtiatriða á afmælishátíðinni var söngur Söngsveitarinnar Víkinga, sem flutti nokkur lög en söngsveitin fer í tónleikaferð í vor, m.a. til Nybro sem er vinabær Garðs í Svíþjóð. Erna M Sveinbjarnardóttir er formaður félagsins og Jónína Holm fór fyrir afmælisnefnd félagsins sem undirbjó afmælishátíðina.

Jónína og Erna á afmælishátíð Norræna félagsins í Garði.
Jónína og Erna á afmælishátíð Norræna félagsins í Garði.

Landsþing sveitarfélaga.

Í dag, föstudag er Landsþing sveitarfélaga. Þar mæta fulltrúar allra sveitarfélaga og fara yfir ýmis hagsmunamál sveitarfélaganna og íbúa þeirra. Samband íslenskra sveitarfélaga annast undirbúning og framkvæmd þingsins að venju, en Sambandið er mikilvægur samstarfs vettvangur sveitarfélaganna í landinu og vinnur að hagsmunamálum þeirra, m.a. gagnvart ríkisvaldinu. Að loknu Landsþingi verður aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

11. vika 2017.

Safnahelgi í Garði.

Um síðustu helgi voru Safnadagar á Suðurnesjum og voru fjögur söfn í Garði opin fyrir gestum. Það voru einkasöfn þeirra Ásgeirs Hjálmarssonar, Hilmars Foss og Helga Valdimarssonar, auk byggðasafnsins á Garðskaga. Mikil aðsókn var að öllum þessum söfnum og má áætla að alls hafi hátt í 1.000 gestir komið í öll þessi söfn um helgina. Mikil umferð var í Garðinum í tengslum við safnahelgina og tókst mjög vel til. Þeir Ásgeir, Hilmar og Helgi fá miklar þakkir fyrir að opna sín einkasöfn fyrir almenningi, það er í raun ótrúlegt hvað allir þessir aðilar hafa lagt mikið af mörkum við að koma upp sínum söfnum. Það er fjölbreytt flóra af söfnum í Garðinum.

Ásgeir við Renault árg. 1946, sem hann gerði upp frá grunni.
Ásgeir við Renault árg. 1946, sem hann gerði upp frá grunni.
Hilmar í sínu einkasafni, þar sem eru m.a. Jaguar bifreiðir.
Hilmar í sínu einkasafni, þar sem eru m.a. Jaguar bifreiðir.

Frjálsíþróttanámskeið.

Næstu þrjár vikurnar verður frjálsíþróttanámskeið fyrir börn í Íþróttamiðstöðinni. Íris Dögg Ásmundsdóttir annast námskeiðið og mættu um 60 börn á fyrstu æfingu nú í vikunni. Það verður fróðlegt að fylgjast með hvernig gengur hjá krökkunum, aldrei að vita nema í þessum hópi leynist framtíðar afreksfólk í frjálsum íþróttum.

Íris Dögg með framtíðar frjálsíþróttahetjum Garðs.
Íris Dögg með framtíðar frjálsíþróttahetjum Garðs.

Leikskólinn Gefnarborg – vika tileinkuð læsi.

Síðasta vika var tileinkuð læsi í leikskólanum, en þar er unnið markvisst með læsi alla daga. Farið var í heimsókn á bókasafnið, ásamt því að unnið er með verkefnið „Orð að heiman“ sem felur í sér að foreldrar lesa bækur fyrir börn sín heima og börnin fara síðan með orð úr viðkomandi bók í leikskólann þar sem orðið er krufið og útskýrt. Þetta er gott framtak hjá leikskólanum, enda er öllum mikilvægt að hafa gott vald á læsi.

Bætt netsamband í Garði.

Undanfarið hafa íbúar kvartað yfir slæmu netsambandi, enda kallar tækni nútímans á góð og örugg netsambönd hvort sem á við um sjónvarpssendingar eða tölvusambönd. Eftir að kvartanir komu fram og eftir fund fulltrúa sveitarfélagsins með starfsmönnum Mílu, var brugðist hratt og vel við og þessa dagana vinnur Míla að framkvæmdum við að bæta netsambönd í bænum. Á næstu vikum munu íbúar í Garði búa við betra netsamband en verið hefur. Garðbúar vilja vera vel tengdir.

Skipulagsmál.

Nú er unnið að breytingum á aðalskipulagi sveitarfélagsins og hefur matslýsing um breytingarnar verið auglýst. Þá er unnið að endurskoðun deiliskipulags Teiga-og Klapparhverfis, en gildandi deiliskipulag hverfisins var staðfest árið 2007. Þá er unnið að nýju deiliskipulagi fyrir íbúðabyggð í Útgarði. Sú breyting hefur orðið á um það bil einu og hálfu ári, að í stað þess að fjöldi íbúða stóðu ónotaðar í sveitarfélaginu hefur nánast allt laust íbúðarhúsnæði selst og er þegar kominn fram skortur á íbúðarhúsnæði. Sú vinna sem nú er í gangi við deiliskipulög í tveimur íbúðahverfum er viðleitni sveitarfélagsins til þess að mæta eftirspurn eftir íbúðalóðum, sem nú þegar er komin fram. Á næstunni má búast við að uppbygging íbúðarhúsnæðis hefjist á ný, en allmörg ár eru síðan síðast var íbúðarhús í byggingu í Garði.

Þjónustusamningur um skólaþjónustu.

Sveitarfélagið hefur undanfarin ár notið þjónustu Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar, sem hefur veitt Gerðaskóla og leikskólanum Gefnarborg þjónustu. Þar sem fyrri samningur rann út í ársbyrjun hefur verið undirritaður nýr þjónustusamningur, sem gildir út skólaárið 2017-2018. Bæjarstjórar Garðs og Reykjanesbæjar undirrituðu samninginn í dag, að Helga Arnarssyni fræðslustjóra viðstöddum. Auk þjónustu við nemendur og skólana, miðar samningurinn að öflugu og góðu samstarfi skólanna á þjónustusvæði Fræðsluskrifstofunnar.

Magnús og Kjartan Már bæjarstjórar undirrita samninginn að Helga viðstöddum.
Magnús og Kjartan Már bæjarstjórar undirrita samninginn að Helga viðstöddum.

Veðrið.

Við höfum verið laus við hefðbundið vetrarveður nú um miðjan mars. Segja má að veðurfarið síðustu vikuna minni frekar á vortíð en vetrartíma. Í dag er glampandi sól, norðlægur andvari og hitastig nokkrar gráður yfir frostmarki.

Góða helgi.

 

 

 

 

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

10. vika 2017.

Bæjarstjórnarfundur.

Í síðustu viku var fundur bæjarstjórnar Garðs. Á dagskrá voru ýmsar fundargerðir nefnda og stjórna til afgreiðslu. Segja má að þar hafi borið hæst fundargerðir Skipulags-og byggingarnefndar, þar sem fjallað er um skipulagsmál, ásamt því að samþykkt var úthlutun á lóð undir íbúðarhúsnæði. Samþykkt var tillaga að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins, þar sem helst er um að ræða breytingar á skipulagssvæðum á Miðnesheiði við Rósaselstorg. Þessi breyting á aðalskipulagi er háð því að nýtt aðalskipulag Keflavíkurflugvallar verði staðfest, en eftir ótrúlegar tafir á afgreiðslu þess máls hjá Skipulagsstofnun vísaði stofnunin staðfestingu aðalskipulags Keflavíkurflugvallar til umhverfisráðherra til staðfestingar. Í ályktun bæjarstjórnar um það mál er skorað á umhverfisráðherra að staðfesta aðalskipulag Keflavíkurflugvallar hið fyrsta, enda hafa tafir á því valdið töfum á uppbyggingu á svæðinu.  Þá fjallaði bæjarstjórn um vinnslu á deiliskipulagi á tveimur íbúðarsvæðum í sveitarfélaginu, stefnt er að því að ljúka þeirri vinnu svo fljótt sem kostur er.

Bæjarráð.

Í þessari viku var fundur í bæjarráði. Þar var m.a. fjallað um minnisblað frá félagsþjónustunni með upplýsingum um stöðu húsnæðismála. Þar kemur fram að mikill skortur er á íbúðarhúsnæði í Garði og fyrir liggja vel á annan tug umsókna um félagslegt húsnæði í sveitarfélaginu. Þá samþykkti bæjarráð drög að samningum um starfsemi í byggðasafni og um listahátíðina Ferska Vinda, sem verður haldin kringum næstu áramót.

Safnahelgi á Suðurnesjum.

Nú um komandi helgi verður Safnahelgi á Suðurnesjum, þar sem gjaldfrjálst verður í mörg söfn á svæðinu og er fólk hvatt til þess að njóta safnanna. Í Garði bjóða fjögur söfn gesti velkomna. Það er byggðasafnið á Garðskaga, einkasafn Ásgeirs Hjálmarssonar að Skagabraut 17, einkasafn Hilmars Foss að Iðngörðum 2 og ævintýragarður Helga Valdimarssonar að Urðarbraut 4. Öll þessi söfn eru mjög áhugaverð og er fólk hvatt til þess að heimsækja þau um helgina. Nánari upplýsingar um Safnahelgi á Suðurnesjum má m.a. finna á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is.

Rafrettur, böl eða blessun?

Næsta mánudag verður málþing í Fjölbrautarskóla Suðurnesja kl. 17:00, undir yfirskriftinni Rafrettur, böl eða blessun? Þar er ætlað að varpa ljósi á það hvort rafrettan sé nýr lífsstíll eða óvægin markaðssetning sem beinist einkum að ungmennum eða nýjum notendum rafretta. Málþingið er samstarfsverkefni Samsuð (Samtaka félagsmiðstöðva á Suðurnesjum) og Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Þess má geta að hægt verður að fylgjast með málþinginu á vef Víkurfrétta, vf.is þar sem verður bein útsending. Sitt sýnist hverjum um þetta mál.

Húsnæðismál.

Mikið hefur verið fjallað um húsnæðismál að undanförnu og er víst að sú umræða mun halda áfram og líklega færast aukinn þungi í hana. Á undanliðnu einu og hálfu ári hafa nánast allar fasteignir sem hafa verið til sölu í Garði verið seldar, enda hefur íbúum fjölgað mjög á síðast liðnu ári. Nú er húsnæðisskortur orðinn áþreifanlegur og er mikil eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu. Eins og fram kemur í umfjöllun um skipulagsmál á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku, þá er mikil vinna í gangi hjá sveitarfélaginu við að auka lóðaframboð til að mæta eftirspurn. Hér er um að ræða stórt og mikilvægt mál, sem mikil áhersla verður á hjá sveitarfélaginu á næstunni. Garðurinn er að springa út.

Nýir íbúar.

Í vikunni áttu bæjarfulltrúar og bæjarstjóri fund með stjórnendum IGS á Keflavíkurflugvelli, en IGS hefur tekið húsnæði Garðvangs á leigu hjá nýjum eigendum hússins. Á fundinum fóru fulltrúar IGS yfir það sem framundan er, en yfir 70 erlendir starfsmenn fyrirtækisins munu búa í húsinu, vera þar með lögheimili og greiða skatta og gjöld til sveitarfélagsins. Von er á fyrstu íbúunum í byrjun apríl. Á fundinum með IGS var farið yfir hvernig haldið verður utan um þennan hóp íbúa og jafnframt kom fram að um er að ræða hóp starfsmanna sem samanstendur af báðum kynjum og mun starfa við ýmis störf á vegum IGS á Keflavíkurflugvelli. Hér er um að ræða mikilvægt samstarfsverkefni sveitarfélagsins og IGS, með það að markmiði að bjóða þessa nýju íbúa velkomna og samlaga þá að samfélaginu. Þetta þýðir að íbúum sveitarfélagsins mun fjölga umtalsvert og tekjur sveitarfélagsins munu að sama skapi aukast.

Öskudagur á sér 18 bræður.

Öskudagurinn var í síðustu viku, þann dag var einmuna veðurblíða með sólskini og blíðu veðri. Samkvæmt þjóðtrúnni á Öskudagur sér 18 bræður og því má vænta þess að áfram verði veðurblíða ríkjandi, eins og verið hefur frá því á Öskudag. Að venju var mikið um að vera hjá börnunum á Öskudaginn. Þau klæddu sig upp sem alls kyns fígúrur og furðuverur, gengu í fyrirtæki og stofnanir þar sem þau sungu og fengu gott í gogginn í staðinn og í íþróttahúsinu var öskudagsskemmtun þar sem köttur var sleginn úr tunnu. Öll börnin fengu Pez kall í lok dagskrár í íþróttahúsinu. Það voru mörg glöð og ánægð börn á ferli í Garðinum þennan dag, enda alltaf spennandi að taka þátt í svona hátíðarhöldum. Hér að neðan eru nokkrar myndir frá öskudeginum í síðustu viku.

IMG_4163

IMG_4180

IMG_4170

Veðrið.

Eins og fram kemur í umfjöllun um Öskudaginn, þá hefur verið einmuna veðurblíða undanfarna daga. Það er vorblær í lofti þótt svo ekki sé komið fram í miðjan mars. Snjórinn sem þakti jörðu um daginn er bráðinn, en ennþá eru nokkrar snjóhrúgur eftir snjómokstursmenn á nokkrum stöðum. Þær hrúgur rýrna dag frá degi og er stutt í að þær snjóleifar hverfi að fullu.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail