5. vika 2017.

Nú er tími flensunnar og ýmiskonar krankleika. Bæjarstjóri fór ekki varhluta af því í síðustu viku og er það ástæða þess að engir molar fóru í loftið fyrir viku síðan. Nú er heilsufarið komið í samt lag.

Þorrablót í Garði.

Fyrsta laugardag í Þorra var þorrablót suðurnesjamanna haldið í Íþróttamiðstöðinni í Garði. Rúmlega 600 manns mættu til að blóta Þorra, mikil og góð stemmning og skemmtilega jákvætt andrúmsloft sveif yfir borðum. Knattspyrnufélagið Víðir og Björgunarsveitin Ægir stóðu að þorrablótinu og framkvæmd þess. Þetta var í 8. skipti sem þorrablótið er haldið og mátti vel sjá hvað framkvæmdaraðilar eru í góðri æfingu við að halda svo fjölmenna og glæsilega samkomu, allur undirbúningur og framkvæmd tókst frábærlega. Kærar þakkir til Víðis og Ægis fyrir þorrablótið, sömuleiðis kærar þakkir allir sem mættu, fyrir skemmtilega samveru.

Allt var tilbúið tímanlega fyrir þorrablótið.

Rafmagnslausi dagurinn í leikskólanum.

Föstudaginn 27. janúar var rafmanglausi dagurinn í leikskólanum Gefnarborg. Þá mættu börnin með vasaljós og luktir í leikskólann, þar sem engin ljós voru kveikt þann dag. Það var mögnuð stemmning meðal barnanna í myrkrinu fram eftir morgni og eflaust hefur mörgum þeirra fundist það skrítið að engin ljós hafi verið kveikt. Þetta var sniðugt og gott framtak hjá leikskólanum, en hér að neðan eru myndir af Facebook síðu leikskólans Gefnarborgar frá rafmagnslausa deginum.

Rafmagnslausi dagurinn í leikskólanum.
Rafmagnslausi dagurinn í leikskólanum.

Minningarathöfn á Garðskaga.

Sunnudaginn 29. janúar sl. var minningarathöfn á Garðskaga, þegar þess var minnst að þann 29. janúar 1942 var Alexander Hamilton, skip US Coast Guard skotið niður og sökkt út af Garðskaga af þýskum kafbáti. 213 manns voru í áhöfn skipsins og íslenskir sjómenn björguðu flestum þeirra. 26 úr áhöfninni fórust. Fyrr í vetur var komið fyrir minningarskildi í anddyri Garðskagavita, með nöfnum þeirra sjóliða sem fórust. Landhelgisgæslan aðstoðaði við athöfnina, sem var hin hátíðlegasta. Meðal þeirra sem voru viðstaddir var fulltrúi aðstandenda þeirra sem fórust, þýskur sjóliðsforingi og fulltrúar Landhelgisgæslunnar, ásamt fleiri gestum, þ.á.m. nokkrum afkomendum íslensku sjómannanna sem björguðu þeim sem lifðu af.

Minningarathöfn.
Minningarathöfn.
Minningarskjöldur.
Minningarskjöldur.

Bæjarstjórn.

Í vikunni var fundur hjá bæjarstjórn Garðs. Að venju voru ýmsar fundargerðir nefnda, ráða og stjórna á dagskrá. Bæjarstjórn tók m.a. til afgreiðslu nokkur mál sem bæjarráð hafði áður fjallað um. Þar á meðal var skipan fulltrúa sveitarfélagsins í samstarfshóp með fulltrúum Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Voga, sem fær það verkefni að vinna að stefnu um þjónustu við aldraða í sveitarfélögunum. Þá staðfesti bæjarstjórn reglur um sérstakan húsnæðisstuðning og um fjárhagsaðstoð, sem Fjölskyldu-og velferðarnefnd hafði áður samþykkt.

Hjartamánuðurinn febrúar.

Undanfarin ár hefur Ísland tekið þátt í samstarfi alþjóða hjartasamtakanna og GoRed verkefnisins, þar sem febrúarmánuður er skilgreindur sem hjartamánuðurinn. Tilgangurinn er að vekja fólk til meiri vitundar um hjartasjúkdóma. Rauði dagurinn í ár er í dag, föstudaginn 3. febrúar og er starfsfólk sveitarfélaga og almenningur hvattur til að klæðast rauðum fatnaði til að minna á verkefnið. Garðbúar, klæðumst rauðu og tökum þátt.

Lífshlaupið.

Hið árlega lífshlaup hófst þann 1. febrúar. Lífshlaupið er heilsu-og hvatningarverkefni Íþrótta-og Ólympíusambands Íslands og höfðar til allra aldurshópa. Landsmenn eru hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er, þ.e. í frítíma, heimilisverkum, vinnu, skóla og við val á ferðamáta. Fjölmörgir taka þátt, bæði sem einstaklingar og í liðum og nær til allra aldurshópa.  Að venju tekur lið starfsfólks á bæjarskrifstofunni í Garði þátt í lífshlaupinu, en undanfarin ár hefur okkur gengið mjög vel og flestir tekið góðan þátt í leiknum. Nú stefnum við hærra og hvetjum sem flesta að taka þátt í þessum skemmtilega leik. Skráning er á heimasíðunni lifshlaupid.is.

Lífshlaupið 2017

Allir lesa.

Föstudaginn 27. janúar hófst landsátakið Allir lesa. Þetta er lestrarlandsleikur þar sem allir eru hvattir til að skrá sig til leiks á vefinn allirlesa.is. Garðbúar eru hvattir til að skrá sig til leiks, þar sem þetta er að hluta til keppni milli sveitarfélaga. Þetta er gott tækifæri til þess að fara í bókasafnið í Gerðaskóla og fá sér góða bók til að lesa, en Garðbúar hafa gjaldfrjálsan aðgang að bókakosti bókasafnsins. Koma svo Garðbúar, tökum þátt !

Dagur leikskólans.

N.k. mánudag þann 6. febrúar verður dagur leikskólans. Að þessu sinni er lögð áhersla á að kynna leikskólakennarastarfið sem vænlegt framtíðarstarf, með sérstakri áherslu á karlmenn. Þetta verður í 10. skipti sem dagur leikskólans er haldinn hátíðlegur og verður væntanlega eitthvað skemmtilegt um að vera í leikskólanum Gefnarborg þann 6. febrúar.

Veðrið.

Veðurfarið í Garði hefur verið með ágætum að undanförnu, ekki síst ef litið er til þess að janúar hefur rétt runnið sitt skeið. Það hefur verið hlýtt í veðri og nánast enginn snjór á svæðinu. Eitt og eitt kvöld hafa sést dansandi norðurljós á himni. Þegar þetta er skrifað á föstudags morgni er hlýtt veður og rigning, snjófölin sem kom í gær er óðum að bráðna niður.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

3. vika 2017.

Bóndadagur og þorrablót.

Í dag, föstudaginn 20. janúar er Bóndadagur. Þar með hefst Þorrinn, sem tekur við af Mörsungi, samkvæmt fornu tímatali. Miklar hefðir eru fyrir því víða um land að halda þorrablót í Þorramánuði. Á morgun verður þorrablót Suðurnesjamanna haldið í íþróttahúsinu í Garði. Knattspyrnufélagið Víðir og Björgunarsveitin Ægir standa að þorrablótinu og reiknað er með að langt yfir 600 manns munu mæta, gæða sér á þorramat og skemmta sér saman. Til hamingju með daginn  !

Bóndadagur í leikskólanum.

Í tilefni Bóndadags bauð leikskólinn öllum pöbbum og öfum leikskólabarna í morgunmat með þorraívafi. Mæting var mjög góð, margir pabbar og afar mættu og gæddu sér á hafragraut og þorramat. Skemmtilegt framtak hjá leikskólanum og til þess fallið að viðhalda þorrahefðinni meðal barnanna.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði. Þar var m.a. samþykkt var að skipa tvo fulltrúa sveitarfélagsins í vinnuhóp með fulltrúum Sandgerðisbæjar og Voga, sem móti tillögur um stefnu í þjónustu við aldraða. Bæjarstjóri lagði fram yfirlit yfir skatttekjur ársins 2016 og eru þær nokkuð hærri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Loks má nefna að bæjarráð samþykkti að fela bæjarstjóra að sjá til þess að unnið verði eftir vegvísi samstarfsnefndar Sambands ísl. sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara, sem miðar að því að koma til framkvæmdar bókun við kjarasamning grunnskólakennara frá því í nóvember 2016.

Fundir á samstarfsvettvangi sveitarfélaga.

Til viðbótar við ýmis störf bæjarstjóra innan sveitarfélagsins, eru margvísleg samstarfsverkefni með öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum. Síðustu vikuna hafa verið nokkrir fundir vegna slíkra verkefna. Starfshópur um þróunar-og atvinnusvæði á Miðnesheiði fundaði sl. föstudag. Í gær var fundur í Svæðisskipulagsnefnd Suðurnesja og fyrr í dag var fundur í stjórn Reykjanes Jarðvangs og hjá stjórn Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja, Heklu. Þar fyrir utan var áhugaverður fundur á vegum ISAVIA og Kadeco, um samspil sjávarútvegs og Keflavíkurflugvallar vegna útflutnings á sjávarafurðum. Þar kom fram hvað Keflavíkurflugvöllur gegnir mikilvægu hlutverki fyrir sjávarútveginn. Alltaf nóg um að vera í góðu samstarfi sveitarfélaganna á Suðurnesjum.

Veðrið.

Veðrið undanfarna daga hefur borið með sér sýnishorn af nokkrum veðurafbrigðum. Það hefur skipst á rigning og hlýindi og snjókoma með svalara veðri. Í gær, fimmtudag snjóaði en það stóð aðeins yfir í örfáar klukkustundir þar til allan snjó hafði tekið upp með hlýju veðri og rigningu. Nú undir lok janúar fela veðurspár í sér hlýindi næstu daga svo ekki þarf að búast við að mikið álag verði í snjómokstrinum hér vestast og nyrst á Reykjanesinu.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

2. vika 2017.

Bæjarstjórn.

Í vikunni var fundur í bæjarstjórn. Þar voru að venju mörg mál á dagskrá, fundargerðir kjörinna nefnda bæjarins auk fundargerða af sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga. Bæjarstjórnin samþykkti tillögu bæjarstjóra um gerð húsnæðisáætlunar fyrir sveitarfélagið, en öll sveitarfélög eiga að vinna slíka áætlun samkvæmt ákvæðum nýlegra laga um húsnæðismál. Þá var samþykkt að mæla með því að sýslumaður veiti tímabundið áfengisveitingaleyfi vegna þorrablóts í Garði 21. janúar. Þorrablótsgestir ættu því að geta notið viðeigandi veiga til að skola niður gómsætum þorramat.

Skólahald komið í hefðbundinn farveg.

Eftir jólaleyfið hófst skólahald í Gerðaskóla í síðustu viku. Dagleg störf nemenda og starfsfólks Gerðaskóla er því komið í fast horf á nýjan leik. Sama er að segja um leikskólann Gefnarborg og tónlistarskólann. Þótt svo flestum þyki notalegt að fá frí frá daglegum störfum þegar þannig ber undir, þá er líka alltaf gott þegar daglegt líf fellur í sinn farveg.

Viðlagatrygging.

Í vikunni komu starfsmenn Viðlagatryggingar í heimsókn og fóru yfir ýmis mál. Fundurinn með þeim var upplýsandi og góður, ljóst er að Viðlagatrygging gegnir mikilvægu hlutverki og er ákveðinn öryggisventill ef tjón verða af náttúrunnar völdum. Ástæða er til að vekja athygli allra á þætti Viðlagatryggingar í tryggingakerfinu, það á jafnt við um opinbera aðila og allan almenning.

Heimsókn starfsmanna Viðlagatryggingar.
Heimsókn starfsmanna Viðlagatryggingar.

 

Sameiningarmál sveitarfélaga.

Eins og fram hefur komið vinna Garður og Sandgerðisbær að úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna. Ráðgjafar hjá KPMG vinna að verkefninu með stýrihópi skipuðum fulltrúum sveitarfélaganna. Greiningarvinna og upplýsingaöflun er í fullum gangi, síðar í janúar verður framkvæmd netkönnun meðal íbúa þar sem leitað er eftir sjónarmiðum þeirra til ýmissa mála. Í febrúar eru áformaðir íbúafundir og vinnufundir hjá sveitarstjórnarfólki í sveitarfélögunum tveimur. Þetta er spennandi verkefni og verður fróðlegt að sjá hver framvinda þess verður þegar lengra líður á árið.

Þorrablót.

Eins og fram kemur hér að framan þá verður hið víðfræga þorrablót Suðurnesjamanna í Garðinum laugardaginn 21. janúar, en Bóndadagur í upphafi Þorra er að þessu sinni föstudaginn 20. janúar. Knattspyrnufélagið Víðir og Björgunarsveitin Ægir standa að þorrablótinu og sjá um undirbúning og framkvæmd. Þorrablótið verður að venju í íþróttahúsinu og er von á nálægt 600 gestum. Þorrablótin í Garði hafa verið vel sótt og vel heppnuð mörg undanfarin ár, myndarlega að því staðið með skemmtilegri dagskrá. Engin breyting verður á því að þessu sinni. Axel hjá Skólamat sér að vanda til þess að gómsætur þorramatur er fram borinn. Að þessu sinni mun góður nágranni annast veislustjórn, nefnilega Kjartan Már bæjarstjóri í Reykjanesbæ. Bæjarbúar og gestir eru þegar farnir að undirbúa sig fyrir þorrablótið, þess má geta að mikil aðsókn hefur verið að líkamsræktinni að undanförnu. Líklega kemur þar til annars vegar nokkurs konar endurhæfing eftir jólin og áramótin, en ekki síður uppbygging fyrir þorrablótið.

Þorrablót 2017

Víðir í Garði.

Leikmenn meistaraflokks Víðis eru byrjaðir að undirbúa komandi keppnistímabil. Eins og kunnugt er vann Víðir sér sæti í 2. deild íslandsmótsins á síðasta ári. Bryngeir Torfason var í haust ráðinn þjálfari liðsins og unnið hefur verið að samningum við leikmenn. Nú í vikunni var samið við þá Magnús Þórir Matthíasson og Unnar Má Unnarsson, báðir hafa sterk tengsl við Garðinn. Magnús Þórir er Garðmaður og lék með yngri flokkum Víðis, en hefur undanfarin ár leikið með Keflavík.  Unnar Már hefur sterk fjölskyldutengsl í Garðinn og hefur einnig leikið síðustu árin með Keflavík. Það er mikill og góður liðsstyrkur fyrir Víðir að fá þessa góðu leikmenn til liðs við sig. Þá hefur verið gengið frá samningum við Serbneska leikmenn sem hafa leikið með Víði síðustu tvö ár og koma þeir til æfinga á næstu dögum. Spennandi tími framundan hjá Víði.

Unnar Már og Magnús Þórir.
Unnar Már og Magnús Þórir.

Veðrið.

Nú í vikunni hefur flesta daga verið norðanátt með hægum vindi en svalt. Nokkuð bjart veður og fullur máninn hefur skinið á himni á kvöldin. Það hefur því að mestu verið fallegt vetrarveður en snjólaust, þar til nú undir lok vikunnar þegar snjóaði aðeins til að lita jörðina ljósari lit. Daginn er farið að lengja aftur eftir sólstöður 21. desember.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

1. vika 2017.

Gleðilegt nýtt ár !

Ég óska íbúum sveitarfélagsins og landsmönnum öllum gleðilegs og farsæls árs með þökk fyrir liðnu árin. Að þessu sinni var bæjarstjórinn með fjölskyldunni erlendis um jólin og áramót, það var ný upplifun og við áttum góðan tíma saman þessa daga. Hins vegar er jólahald og áramótagleðin á Íslandi eitthvað sem eru nokkuð sérstök fyrirbæri, sérstaklega á það við um gamlárskvöld. Meðan landinn fékk útrás fyrir sprengjuæði og að skjóta á loft ómældu magni flugelda sáust aðeins nokkrir slíkir á lofti þar sem við vorum stödd, en það var ekki síður tilkomumikið og skapaði ákveðna stemmningu.

Það er jafnan eitthvað spennandi við áraskipti, í lok árs er horft yfir árið sem er að líða og rifjað upp það fjölmarga sem átti sér stað á því ári.  Ef ég lít yfir árið 2016 þá var það að flestu leyti mjög gott ár, bæði í persónulega lífinu og í þeim störfum sem unnin voru. Eins og alltaf er líka eitthvað sem var síður jákvætt og hefði jafnvel betur mátt fara, en það fer í reynslubankann til að læra af. Í upphafi nýs árs er jafnan spennandi að horfa fram á veginn, hvaða verkefni eru framundan og hvað er ekki eins augljóst að verða muni.

Framundan eru mörg verkefni sem þarf að vinna að og ljúka á árinu 2017 á vettvangi sveitarfélagsins. Við munum halda áfram að byggja upp góða þjónustu sveitarfélagsins við íbúana og nokkuð verður um framkvæmdir og fjárfestingar á vegum sveitarfélagsins. Unnið er að úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar, í upphafi sumars mun liggja fyrir hvert framhald verður á því verkefni. Í samstarfi við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum er unnið að mörgum spennandi verkefnum. Þar má m.a. nefna skipulagsmál og stefnumótun til framtíðar um uppbyggingu atvinnu-og þróunarsvæðis á Miðnesheiði norðan flugstöðvar. Þá má einnig nefna að unnið er að uppbyggingu ferðaþjónustu í Garði, bæði gistingu og veitingaþjónustu en einnig afþreyingu fyrir ferðafólk. Hér er aðeins stiklað á stóru og margt ekki nefnt til. Í Molum næstu vikur og mánuði verður nánar fjallað um hin fjölmörgu verkefni sem framundan eru.

Jólahúsið 2016.

Fyrir jólin valdi Umhverfisnefnd jólahúsið 2016. Íbúar sveitarfélagsins höfðu send nefndinni tilnefningar um fallega skreyttar húseignir í Garði og tók nefndin síðan afstöðu til þeirra. Að þessu sinni var Skagabraut 16 útnefnt jólahúsið. Við óskum eigendum og nágrönnum bæjarstjórans til hamingju með valið, enda er húsið og garður þess fallega skreytt og með smekklegum ljósaskreytingum sem lýsa upp húsið og næsta nágrenni. Á myndunum hér að neðan má sjá jólahúsið og þegar Brynja Kristjánsdóttir formaður Umhverfisnefndar afhenti Sverri Karlssyni eiganda hússins verðlaunagrip.

Jólahúsið 2016
Jólahúsið 2016
Verðlaun afhent.
Verðlaun afhent.

Áramótabrenna og flugeldasýning.

Að venju var áramótabrenna tendruð á gamlárskvöld ofan við íþróttasvæðið í Garði. Einnig var myndarleg flugeldasýning. Fjöldi manns var við brennuna og fylgdist með flugeldasýningunni. Björgunarsveitin Ægir og Kiwanisklúbburinn Hof önnuðust brennuna og flugeldasýninguna og er þeim þakkað fyrir frábæra framkvæmd og utanumhald þessara viðburða.

Íbúafjöldi í Garði.

Nú um áramót var íbúafjöldi í Sveitarfélaginu Garði 1.511, samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár. Þar með fjölgaði íbúum í sveitarfélaginu um 86 á árinu 2016, eða um liðlega 6%. Nýir íbúar eru boðnir velkomnir til búsetu í sveitarfélaginu og eru hvattir til að kynna sér þá góðu þjónustu sem sveitarfélagið býður upp á.

Þrettándinn.

Í dag 6. janúar er Þrettándinn og þar með rennur jólatíminn sitt skeið á enda. Sums staðar eru mikil hátíðahöld af því tilefni, með brennum og skoteldum ásamt því að víða er hefð fyrir því að börn klæðist grímubúningum og gangi í hús í leit að einhverju gómsætu. Í kvöld verða allir jólasveinarnir komnir aftur til síns heima og hefja undirbúning fyrir næstu jól.

Veðrið.

Meðan bæjarstjórinn spókaði sig í sól og blíðu í sólarlandi um jólin og áramótin var veður rysjótt í Garðinum síðustu vikur desember og núna fyrstu vikuna á nýju ári. Miklar veðursveiflur hafa verið, skipst á hlýindi með rigningu og kaldara veður með snjókomu. Vindasamt hefur verið og er útlit fyrir framhald á þessari veðurtíð fram í næstu viku. Eftir hlýtt og gott haust erum við minnt á að nú er hávetur á Íslandi og því ekki við öðru að búast en við fáum kulda og einhvern snjó.

Góða helgi.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail