47. vika 2016.

Aðventan gengur í garð.

Nú á sunnudaginn gengur Aðventan í garð og samkvæmt venju verður mikið um að vera í Garði þann dag.

Aðventuhátíð verður í Útskálakirkju kl. 14:00. Kvenfélagskonur í Kvenfélaginu Gefn taka þátt í messunni og kveikt verður á fyrsta aðventukertinu.

Árlegur jólabasar Kvenfélagsins Gefnar verður í Kiwanishúsinu og hefst kl. 15:00. Að venju verður þar margt í boði og allur ágóði rennur í líknarsjóð kvenfélagsins.

Loks verða tendruð ljós á jólatrénu við Gerðaveg 1. Dagskrá hefst kl. 17:00, flutt verður hugvekja og mun yngsti nemandi Gerðaskóla tendra ljósin á jólatrénu. Þá mun Söngsveitin Víkingar syngja nokkkur lög og öllum verður boðið upp á heitt súkkulaði og piparkökur, í umsjón unglingaráðs Víðis. Ekki er líklegt að snjói fram á sunnudag, en fastlega má búast við að einhverjir jólasveinar láti sjá sig.

Garðbúar og gestir eru hvattir til að taka virkan þátt í viðburðum dagsins og njóta samveru við upphaf Aðventu.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur hjá bæjarráði. Þar bar hæst umfjöllun um fjárhagsáætlun næsta árs og var tillögu um áætlun vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn. Þá var lagt fram árshlutayfirlit rekstrarins fyrir tímabilið janúar – september á þessu ári og lítur það allt vel út miðað við fjárhagsáætlun. Fjallað var um tillögu um verklagsreglur félagsþjónustunnar vegna samstarfs sveitarfélaganna Garðs, Sandgerðis og Voga um félagsþjónustu. Ákveðið var að veita jákvæða umsögn til sýslumanns vegna umsóknar um rekstur heimagistingar, þá var fjallað um erindi frá Öldungaráði Suðurnesja og samþykkt bókun um svar við því. Fyrir bæjarráði lá að fjalla um úthlutunarreglur vegna byggðakvóta og var samþykkt að þær verði óbreyttar frá fyrra ári. Loks lá fyrir fundargerð 1. fundar stýrihóps sem vinnur að úttekt á kostum og göllum sameiningar Garðs og Sandgerðisbæjar. Alltaf í mörg horn að líta hjá bæjarráði.

Íbúafundur.

Bæjarráð ákvað á fundi sínum að boða til íbúafundar miðvikudaginn 30. nóvember kl. 20:00 í Gerðaskóla. Á fundinum verður farið yfir tillögu að fjárhagsáætlun fyrir næsta ár og fjallað um rekstur og fjárhag sveitarfélagsins. Íbúar Garðs eru hvattir til að mæta á íbúafundinn, kynna sér málefni sveitarfélagsins og taka þátt í umræðum um þau.

Starfsfólk félagsmiðstöðvar á faraldsfæti.

Starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar Eldingar fór ásamt Íþrótta-og æskulýðsfulltrúa í vettvangsferð til Reykjavíkur sl. mánudag. Heimsóttar voru félagsmiðstöðvar við þrjá skóla þar sem okkar fólk kynnti sér starfsemi. Starfsmennirnir áttu góð samskipti við forstöðumenn þessara félagsmiðstöðva um starfsemi þeirra, auk þess sem aðstæður voru skoðaðar. Gott framtak hjá okkar fólki og alltaf er gott að skoða og kynna sér starfsemi hjá öðrum, til að læra af og fá nýjar hugmyndir. Það er metnaður hjá okkar fólki að hafa starfsemi félagsmiðstöðvarinnar sem blómlegasta, allt í þágu ungmenna í Garði. Á myndinni hér að neðan má sjá hópinn í einni af félagsmiðstöðvunum í höfuðborginni.

img_3123

Samstarfssamningur við Nes.

Sveitarfélagið Garður og íþróttafélagið Nes hafa átt gott samstarf undanfarin ár. Nýlega var undirritaður nýr samstarfssamningur milli sveitarfélagsins og Nes, sem m.a. felur í sér fjárhagslegan stuðning sveitarfélagsins við starfsemi Nes. Íþróttafólk frá Nes hefur staðið sig mjög vel á íþróttamótum fatlaðra og hafa m.a. keppt fyrir hönd Íslands á alþjóðlegum mótum. Bæjarstjóri og Drífa Birgitta formaður Nes undirrituðu samninginn, að viðstöddum garðmanninum Sigurði Guðmundssyni sem hefur m.a. gert garðinn frægan á knattspyrnuvöllum innanlands og erlendis undanfarin ár.

Bæjarstjóri og fulltrúar Nes.
Bæjarstjóri og fulltrúar Nes.

Veitingahúsið Röstin.

Veitingahúsið Röstin í húsi byggðasafnsins á Garðskaga hefur opnað og býður gesti velkomna. Veitingahúsið er nú opið alla daga frá morgni til kvölds og þar er boðið upp á ljúffenga rétti. Garðskagi ehf rekur veitingahúsið, en félagið hafði áður opnað og rekið kaffihús í gamla vitanum. Það er ánægjulegt að veitingastaður hafi aftur verið opnaður í Garði.

Veðrið.

Eins og verið hefur undanfarnar vikur hefur veðurfar verið frekar rysjótt þessa vikuna. Að mestu hafa verið nokkur hlýindi með suðlægum áttum og yfirleitt rigning. Inn á milli hefur vindáttin snúist í norðlægar áttir með kaldara veðri. Lítið hefur farið fyrir snjó það sem af er haustinu og fram að þessu og næstu daga er útlit fyrir áframhald á suðlægum áttum með nokkrum hlýindum. Framundan er desember mánuður og er ekki ólíklegt að styttist í einhver vetrarveður með tilheyrandi snjó og frosti.

Góða helgi !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

46. vika 2016.

Þrekmót í íþróttamiðstöðinni sl. laugardag.

Um síðustu helgi var Flott þrekmót í keppnisþrautum í Íþróttamiðstöðinni. Fjöldi þátttakenda á öllum aldri tók þátt í mótinu, en þar var á ferð hópur sem hefur stundað líkamsrækt af kappi undanfarna mánuði. Mikil stemmning var og vel tekið á því. SI Verslun var styrktaraðili mótsins og voru vegleg verðlaun veitt. Mikill kraftur og kapp hjá þrekhópnum í Garði. Myndin hér að neðan er af hópnum sem tók þátt í Flott þrek mótinu.

Keppendur í Flott þrek mótinu.
Keppendur í Flott þrek mótinu.

Kjörbúðin opnaði.

Eins og fram kom í síðustu Molum, var opnuð ný verslun í Garði sl. föstudag. Verslunin starfar undir merkinu Kjörbúðin og er rekin af Samkaup. Verslunin er hin glæsilegasta, með miklu og góðu vöruúrvali og hagstæðu verðlagi. Versluninni var vel tekið, opnunardaginn var nánast fullt út úr dyrum allan daginn af viðskiptavinum og mikil aðsókn var að versluninni alla síðustu helgi. Garðbúar bjóða Kjörbúðina velkomna í Garðinn og vonumst við til að hún blómstri með góðri þjónustu og hagstæðu verðlagi fyrir íbúana í Garði og þá gesti sem sækja Garðinn heim. Bæjarstjóri afhenti verslunarstjóranum og fulltrúa Samkaupa blómvönd í tilefni opnunarinnar.

Bæjarstjóri afhenti blóm við opnun Kjörbúðarinnar.

Hollvinir Unu Guðmundsdóttur.

Á morgun, laugardag verður aðalfundur Hollvina Unu Guðmundsdóttur í Kiwanishúsinu kl. 15. Annað kvöld kl. 20:00 verður afmælishátíð félagsins í Útskálakirkju. Þar verður dagskrá í anda Unu Guðmundsdóttur, hún var fædd þann 18. nóvember 1894, en Hollvinafélag Unu var stofnað á fæðingardegi Unu fyrir fimm árum. Mikill kraftur er í Hollinafélagi Unu, sem m.a. vinnur í samstarfi við sveitarfélagið að endurbótum á húsinu Sjólyst, sem einnig er kallað Unuhús, en Una Guðmundsdóttir bjó alla sína ævi í Sjólyst. Nánar í frétt á heimasíðunni svgardur.is.

Merki Sjólystar, söguhúss Unu Guðmundsdóttur.

Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2017. Útlit er fyrir ágæta niðurstöðu rekstraráætlunar, þannig að segja má að rekstur sveitarfélagsins sé kominn í ágætt jafnvægi. Í vikunni var vinnufundur allra bæjarfulltrúa með bæjarstjóra og starfsfólki bæjarskrifstofunnar. Á fundinum var farið yfir drög að gjaldskrá, ýmis erindi og óskir um fjárheimildir og styrki og framkvæmdir sem ráðast þarf í á næsta ári og á næstu árum. Eftir fundinn er verkefnið að vinna úr niðurstöðum fundarins og útfæra áætlunina í endanlegt horf. Bæjarráð mun taka fjárhagsáætlun til umfjöllunar í næstu viku.

Sameining sveitarfélaga ?

Eins og fram hefur komið tóku bæjarstjórnir Garðs og Sandgerðisbæjar ákvörðun um að láta gera úttekt á kostum og göllum þess að sameina sveitarfélögin. Skipaður hefur verið stýrihópur fulltrúa sveitarfélaganna sem hefur það hlutverk að stýra verkefninu og sjá til þess að það gangi vel fram. Stýrihópurinn hélt sinn fyrsta fund nú í vikunni og er þegar hafin vinna við að fá ráðgjafa til að vinna að verkefninu. Næstu mánuði verður unnið að málinu og munu bæjarstjórnirnar í framhaldinu leggja mat á niðurstöður og taka ákvörðun um framhaldið, eftir samráð við íbúa sveitarfélaganna.

Stýrihópurinn á fyrsta fundi.
Stýrihópurinn á fyrsta fundi.

Veðrið.

Veður hefur verið rysjótt þessa vikuna. Framan af viku var suðvestan átt með nokkrum vindi og vindhviðum, úrkoma var í formi rigningar og stöku élja. Um miðja vikuna breyttist í norðlægar áttir með kólnandi veðri. Fyrsta frost haustsins færðist yfir á miðvikudag, eftir það hefur verið stíf norðlæg átt með kaldara veðri en úrkomulaust.

Facebooktwittergoogle_plusmail

45. vika 2016.

Molarnir eru margir í þessari viku, enda mikið um að vera í Garði.

Hljóðfærasmíði í Gerðaskóla.

Nemendur í 6. og 7. bekkjum Gerðaskóla fengu það verkefni í tónmennt nýlega að búa til ný hljóðfæri, undir leiðsögn Vitors Hugo R. Eugenio kennara. Til þess voru notuð pípulagningarör og þurfti að beita ákveðnum útreikningum til að ná fram ákveðnum tónum úr hljóðfærinu. Allt tókst þetta vel hjá nemendunum, verkefnið snerist ekki eingöngu um tónfræði heldur þurfti að beita stærðfræðinni til þess að finna réttu lausnirnar. Frábært og skemmtilegt verkefni, sem er dæmi um frábært starf í Gerðaskóla. Myndin hér að neðan er sótt á heimasíðu Gerðaskóla, gerdaskoli.is og þar má finna frekari upplýsingar um verkefnið.

Hljóðfærasmiðir að störfum.
Hljóðfærasmiðir að störfum.

Leikskólinn Gefnarborg, jól í skókassa.

Líkt og á síðasta ári tekur leikskólinn Gefnarborg þátt í verkefninu „Jól í skókassa“. Verkefnið er á vegum KFUM og KFUK með það að markmiði að börn og fullorðnir gleðji börn í Úkraínu sem búa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og gáfu foreldrar barnanna á leikskólanum flestar gjafirnar sem fóru í skókassana. Þetta er göfugt og gott framtak, sem gleður börnin á Gefnarborg að taka þátt í, vonandi verður gleðin ekki síðri hjá börnunum í Úkraínu sem fá gjafirnar.

Leikskólabörn senda börnum í Úkraínu jólagjafir.
Leikskólabörn senda börnum í Úkraínu jólagjafir.

Kennarar í heimsókn hjá bæjarstjóranum.

Á þriðjudaginn kom hópur kennara í Gerðaskóla í heimsókn til bæjarstjórans og afhentu kröfu frá kennurum til sveitarfélaga um bætt kjör þeirra, ásamt að lýst er áhyggjum af því hvert stefnir í starfsemi grunnskólanna í landinu. Bæjarstjórinn tók við kröfunni og var hún lögð fram á fundi bæjarráðs í gær, fimmtudag. Alltaf er ánægjulegt að fá góða gesti í heimsókn, hvert sem tilefnið er.

Fundur í bæjarráði.

Bæjarráð fundaði í gær, fimmtudag og voru ýmis mál á dagskrá fundarins. Unnið var í fjárhagsáætlun fyrir næsta ár, samþykktur samningur við Bergraf um eftirlit og viðhald götulýsingar og fjallað um úthlutun á byggðakvóta. Þá var lögð fram áskorun frá kennurum varðandi kjaramál og starf grunnskóla. Loks voru fulltrúar Garðs skipaðir í starfshóp með fulltrúum Sandgerðisbæjar sem fá það verkefni að láta vinna úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna. Alltaf í mörg horn að líta hjá bæjarráði.

Menningin og félagslífið blómstrar.

Í gær, fimmtudag voru norrænir þematónleikar í Útskálakirkju. Þar komu fram nemendur í tónlistarskólanum og léku norræna tónlist. Tónleikarnir voru samstarfsverkefni tónlistarskólans og Norræna félagsins í Garði og voru vel sóttir.

Í gær var skemmtidagskrá í Auðarstofu hjá félagsstarfi aldraðra. Þar var boðið upp á hangikjöt og saltkjöt, ásamt skemmtidagskrá. Fjölmenni mætti, naut góðra veitinga og skemmtidagskrár. Fjölbreytt og öflug starfsemi í Auðarstofu.

Síðar í dag, föstudag og fram á laugardagsmorgun verða „rokkbúðir“ í Gerðaskóla á vegum tónlistarskólans. Þá koma saman nemendur nokkurra tónlistarskóla, spila saman á rytmahljóðfæri og skapa tónlist. Tónleikar verða á miðnætti í kvöld og síðan verður spilað fram undir hádegi  á morgun, laugardag. Við erum taktviss í Garðinum !

Loks má nefna að annað kvöld, laugardag verður hið víðfræga og eftirsótta herrakvöld Víðis í Samkomuhúsinu. Þar verður væntanlega mikil stemmning og skemmtilegheit. Fyrr um daginn stendur Víðir fyrir firmakeppni í knattspyrnu í Íþróttamiðstöðinni. Alltaf mikið um að vera í herbúðum Víðis.

Flóamarkaður í Samkomuhúsinu.

Á sunnudaginn verður haldinn flóamarkaður í Samkomuhúsinu, milli kl. 13:00 og 18:00. Garðbúar og gestir eru hvattir til að koma við á flóamarkaðnum, þar verður margt áhugavert til sölu. Mikill áhugi er fyrir flóamarkaðnum, a.m.k. ef tekið er mið af umræðu á facebook síðunni Garðmenn og Garðurinn. Börn í 4. fl. knattspyrnuliðs Víðs/Reynis munu annast kaffisölu. Flott framtak og spennandi.

Kjörbúðin opnar.

Í dag opnar verslunin Kjörbúðin í verslunarhúsnæði Samkaups í Sunnubraut 4, þar sem verslun Samkaups hefur verið rekin undanfarin ár. Vonandi taka garðbúar vel á móti nýrri verslun og að hún gangi vel.

Veðrið.

Í upphafi viku voru hvassar sunnanáttir með rigningu, Gott veður á þriðjudag og um miðja vikuna. Þegar þetta er skrifað á föstudags morgni er hvöss suðaustan átt með mikilli rigningu. Spáin gerir ráð fyrir að veðrið gangi yfir þegar líður á daginn og að helgarveðrið verði þokkalegt.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

44. vika 2016.

Að afloknum kosningum.

Alþingiskosningar voru um síðustu helgi. Garðurinn á nú tvo fulltrúa á Alþingi, þau Ásmund Friðriksson og Oddnýju Harðardóttur. Við óskum þeim til hamingju með þingsætin og velfarnaðar í sínum krefjandi verkefnum, en þess má geta að þau eru bæði fyrrverandi bæjarstjórar í Garði. Það hefur jafnan verið metnaðarmál allra byggðarlaga í landinu að eiga fulltrúa á Alþingi, Garðbúar búa vel að því. Við á bæjarskrifstofunni í Garði settum upp samkvæmisleik fyrir kosningarnar, þar sem starfsfólkið spáði fyrir um úrslit kosninganna. Veitt voru vegleg verðlaun þeim sem spáði næst úrslitunum og féllu þau í hlut bæjarstjórarns !

Bæjarstjóri með verðlaun fyrir kosningaspá.
Bæjarstjóri með verðlaun fyrir kosningaspá.

Að loknum kosningunum var settur upp annar samkvæmisleikur á bæjarskrifstofunni, en þá spáði starfsfólkið um samsetningu næstu ríkisstjórnar. Þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir hver niðurstaðan verður úr þeim samkvæmisleik, en greint verður frá því síðar.

Bæjarstjórnarfundur.

Í vikunni var fundur í bæjarstjórn. Þar bar hæst fyrri umræða um fjárhagsáætlun 2017, en síðari umræða og afgreiðsla fjárhagsáætlunar verður í byrjun desember. Áætlun um rekstur sveitarfélagsins á næsta ári lítur ágætilega út og mun bæjarráð hafa áætlunina til frekari vinnslu fram að síðari umræðu í bæjarstjórn. Aðrir liðir á dagskrá bæjarstjórnar voru fundargerðir bæjarráðs og fastanefnda sveitarfélagsins ásamt fundargerðum stjórna og nefnda sem sveitarfélagið á aðild að með öðrum sveitarfélögum.

Trölladiskó í Eldingunni.

Í tengslum við Halloween var haldið trölladiskó í Félagsmiðsöðinni Eldingunni nú á miðvikudaginn. Ungmenninn mættu í alls kyns búningum og voru því ýmsar furðuverur mættar í stuðið. Hér eru myndir af nokkrum þeirra.

img_8357

img_8364

Gunnar Hámundarson GK hverfur á braut.

Fiskiskipið Gunnar Hámundarson GK 357 var fyrir stuttu selt norður á Hauganes. Skipið skipar merkilegan sess í útgerðarsögu Garðs, en skipið var smíðað 1954 og hefur verið gert út frá Garði síðan. Þetta skip var það þriðja í röð skipa sem útgerðarfélagið Gunnar Hámundarson hf gerði út, en útgerðin er ein sú elsta á landinu stofnuð árið 1911. Gunnar Hámundarson GK 357 hefur borið að landi þúsundir tonna af fiski allan þann tíma sem skipið hefur verið gert út og er því skarð fyrir skildi. Nýtt hlutverk skipsins verður að sigla með ferðamenn um Eyjafjörðinn til að skoða hvali.

Gunnar Hámundarson á siglingu.
Gunnar Hámundarson á siglingu.

Heimildamynd um Guðna á trukknum.

Guðni Ingimundarson er heiðursborgari Garðs. Hann er þekktur á Suðurnesjum og víðar fyrir einstakt lífshlaup sitt og margvíslega aðkomu að atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Guðni átti og notaði trukk bifreið með gálga að framan og dráttarspili við hin ýmsu verkefni, sem sum voru flókin úrlausnar og ekki á allra færi að leysa. Guðmundur Magnússon kvikmyndagerðarmaður í Garði hefur unnið að gerð myndarinnar, eftir handriti Harðar Gíslasonar og með tónlist eftir Tryggva M Baldvinsson. Sveitarfélagið Garður og Uppbyggingarsjóður Suðurnesja styrkja gerð myndarinnar. Þess má geta að Guðni Ingimundarson safnaði og gerði upp fjöldan allan af bátavélum af ýmsum stærðum og gerðum. Einstakt safn þessara véla er í byggðasafninu á Garðskaga og eru allar vélarnar gangfærar. Þá má einnig geta þess að Guðni var um tíma vitavörður í Garðskagavita.

Hér að neðan er sýnishorn úr myndinni og hér má sjá þá Guðna og Hörð Gíslason.

Veðrið.

Um síðustu helgi voru sunnan áttir með nokkrum vindi og úrkomu. Í byrjun vikunnar og fram undir miðja vikuna var ágætt veður, hægviðri og úrkomulaust að mestu og þokkalegt hitastig. Sunnanáttin mætti svo aftur með rigningu, en þegar þetta er skrifað á föstudagsmorgni er hægviðri og úrkomulaust, hitastigið um 6°. Útlit er fyrir ágætt veður um komandi helgi.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail