39.vika 2016.

Molar voru í fríi í síðustu viku vegna anna bæjarstjórans við að sitja fundi og ráðstefnu í Reykjavík síðari hluta vikunnar. Fjármálaráðstefna sveitarfélaga stóð yfir sl. fimmtudag og föstudag, að vanda kom þar margt athyglisvert fram og farið var yfir mikilvægar upplýsingar og forsendur vegna fjárhagsáætlunar næsta árs og varðandi fjármál sveitarfélaga almennt.

Garður í Útsvari Sjónvarpsins.

Garður tók nú í fyrsta skipti þátt í Útsvari Sjónvarpsins. Þau Elín Björk, Guðjón Árni og Magnús skipuðu lið Garðs, sem mætti liði Árneshrepps sl. föstudag. Skemmst er frá því að segja að þrátt fyrir frábæra frammistöðu þurfti lið Garðs að lúta í lægra haldi fyrir góðu liði Árneshrepps. Það er ekki einfalt mál að etja kappi við Strandamenn, enda eru þeir sem kunnugt er ramm-göldróttir ! Við þökkum okkar liði fyrir góða frammistöðu og óskum Árneshreppi til hamingju með sigurinn, vonandi gengur þeim vel í næstu umferð.

Lið Garðs í miðjum þætti Útsvars.
Lið Garðs í miðjum þætti Útsvars.
Að keppni lokinni.
Að keppni lokinni.

Fjölbrautaskóli Suðurnesja 40 ára.

Sl. laugardag var afmælishátíð í tilefni 40 ára afmæli Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Fjölmenni sótti hátíðina, sem var í senn hátíðleg og með léttu og skemmtilegu yfirbragði. Bæjarstjórinn í Garði afhenti skólanum til sýnis listaverkið Breath (öndun) eftir japanska listamanninn OZ-Keisuke Yamaguchi, en verkið er afrakstur listahátíðarinnar Ferskra vinda. Verkið er stórt í sniðum og ekki var auðvelt að finna því stað til sýnis, en samkomulag varð um að Listasafn Reykjanesbæjar tæki við verkinu til eignar og umsjár og því verði komið fyrir til sýnis í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Skólameistari skólans tók við verkinu og hefur því verið komið vel fyrir í skólanum. Til hamingju með þennan áfanga nemendur og starfsfólk skólans, fyrr og nú.

Skólameistari tekur við Breath til sýnis í Fjölbraut.
Skólameistari tekur við Breath til sýnis í Fjölbraut.
Verkið Breath í Fjölbraut.
Verkið Breath í Fjölbraut.
Breath frá öðru sjónarhorni í Fjölbraut.
Breath frá öðru sjónarhorni í Fjölbraut.

Bæjarráð.

Í gær, fimmtudag var fundur í bæjarráði Garðs. Samþykktir voru viðaukar við fjárhagsáætlun þessa árs auk þess sem lögð var fram útkomuspá um rekstur ársins. Útlit er fyrir að niðurstaða rekstrar ársins verði mjög í takti við fjárhagsáætlun. Bæjarráð fjallaði um helstu forsendur fyrir fjárhagsáætlun ársins 2017 og verður unnið út frá þeim í áætlanagerðinni. Ákveðið var að kjósendur geti kosið til Alþingis utan kjörstaðar á bæjarskrifstofunni, verður sú framkvæmd í samstarfi við sýslumannsembættið og auglýst sérstaklega. Þá skipaði bæjarráð bæjarstjórann sem fulltrúa sinn í verkefnishóp varðandi hraðlest frá Keflavíkurflugvelli, einnig ákvað bæjarráð að hefja framkvæmdir við salernis-og hreinlætisaðstöðu á Garðskaga, en Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur veitt styrk vegna þess verkefnis. Loks var fjallað um fundargerðir stýrihóps vegna atvinnu-og þróunarsvæðis á Miðnesheiði og fundargerð stjórnar Öldungaráðs Suðurnesja.

Norðurljósin.

Nú er norðurljósatíminn kominn, mikill fjöldi ferðamanna kemur til landsins til þess að upplifa norðurljósin. Mikil umfjöllun um þetta náttúrufyrirbrigði virðist hafa aukið áhuga landans á því að njóta norðurljósanna, það má m.a. sjá á Facebook þar sem fólk keppist um að setja inn myndir af norðurljósum. Eins og alltaf er, þá hafa norðurljósin verið mjög sýnileg og haldið uppi mikilli danssýningu á himni yfir Garðskaga undanfarin kvöld. Mikill fjöldi fólks hefur komið á Garðskaga til þess að njóta, enda er staðurinn einn sá allra besti á landinu til að njóta norðurljósa. Nú í vikunni kepptust nokkur sveitarfélög um að tilkynna orkusparnað með því að slökkva á götulýsingu til þess að minnka ljósmengun vegna norðurljósa. Á Garðskaga eru útiljós jafnan slökkt þegar norðurljósin eru sýnileg, aðeins vitaljósið í Garðskagavita fær að lifa. Töfrar náttúrunnar á Garðskaga eru miklir og fjölbreytilegir. Hér að neðan eru nokkrar myndir af norðurljósunum á Garðskaga í vikunni.

Norðurljós og gamli viti 27. september 2016.
Norðurljós og gamli viti 27. september 2016. (Mynd Jóhann Ísberg)
Norðurljós og Garðskagaviti 27. september 2016.
Norðurljós og Garðskagaviti 27. september 2016. (Mynd Jóhann Ísberg)
Norðurljós og gamli viti 28. september 2016. (Mynd Hilmar Bragi Bárðarson)
Norðurljós og gamli viti 28. september 2016. (Mynd Hilmar Bragi Bárðarson)
Norðurljós á Garðskaga 28. september 2016 (Mynd Hilmar Bragi Bárðarson)
Norðurljós á Garðskaga 28. september 2016 (Mynd Hilmar Bragi Bárðarson)

Bleikur október.

Október mánuður rennur upp á morgun, laugardag. Eins og allir ættu að vita þá er október bleikur mánuður, m.a. til að minna okkur á baráttu gegn krabbameinum hjá konum. Undanfarin ár hefur bleiki liturinn verið áberandi í október hér í Garði, m.a. með því að byggingar sveitarfélagsins eru lýstar með bleikum lit. Svo mun einnig verða nú í október. Krabbameinsfélagið vinnur gott og mikilvægt starf í baráttunni gegn krabbameini, félagið stendur fyrir sölu á bleiku slaufunni til fjáröflunar sinnar starfsemi og eru allir hvattir til þess að leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn krabbameinum, m.a. með því að kaupa bleiku slaufuna.

Veðrið.

Veðrið þessa vikuna hefur verið mjög gott. Flesta daga hefur verið logn og sólskin, en finna má á hitastigi að haustið er komið. Flest kvöld vikunnar hefur verið heiðskírt, með tindrandi stjörnum og dansandi norðurljósum. Þegar þetta er skrifað að morgni föstudags er logn og skínandi sól, en í morgun þurfti í fyrsta skipti þetta haustið að skafa ísskæni af framrúðu bílsins!

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

37. vika 2016.

Haustið gerir vart við sig !

Veðrið þessa vikuna hefur verið frekar rysjótt og greinilegt á öllu að haustið sígur að. Flesta daga hafa verið sunnan áttir með rigningu af og til. Hins vegar var dásamlegt verður seinni part þriðjudags og fram í nóttina. Logn og sólskin, sólsetrið skartaði sínu fegursta á Garðskaga það kvöld og nokkur fjöldi fólks naut þess að upplifa töfra náttúrunnar.

Bæjarráð.

Bæjarráð fundaði í vikunni. Þar var m.a. fjallað um þjónustu við fatlað fólk á Suðurnesjum og varð umræða um þjónustuna til framtíðar. Bæjarstjóra var falið að sækja um byggðakvóta og farið var yfir nokkur mál í undirbúningi vinnslu fjárhagsáætlunar næsta árs. Þá má nefna að skipaður var starfshópur til samstarfs við Knattspyrnufélagið Víðir um stefnumótun og framtíðarskipulag íþróttasvæðis. Bæjarstjórn samþykkti sérstaka tillögu þess efnis í maí, í tilfeni 80 ár afmælis Víðis. Loks voru Alþingiskosningar til umfjöllunar, en eins og venja er til þurfa sveitarfélögin að annast framkvæmd kosninga. Jafnan margvísleg mál til umfjöllunar hjá bæjarráði.

Víðir fékk verðlaunin.

Síðasti heimaleikur Víðis á þessari leiktíð var sl. laugardag, þar sem Víðir vann góðan 3-1 sigur á Kára frá Akranesi. Að leik loknum fengu leikmenn og þeir sem standa að liðinu afhent verðlaun fyrir að hafna í öðru sæti 3. deildar. Með þessum frábæra árangri hefur Víðir unnið sér sæti í 2. deild á næsta ári. Til hamingju Víðismenn; leikmenn, þjálfarar og ekki síst allt það fólk sem stendur að starfi Knattspyrnufélagsins Víðis og leggur af mörkum mikla sjálfboðavinnu í þágu félagsins og samfélagsins í Garði. Á morgun, laugardag verður síðasti leikur Víðis á keppnistímabilinu og veglegt lokahóf annað kvöld í samkomuhúsinu, nokkuð víst að þar verður mikil og góð stemmning. Það er alltaf ánægjulegt að uppskera vel eftir mikla vinnu.

Silfurdrengir Víðis 2016.
Silfurdrengir Víðis 2016.

Samstarf við mótorhjólafólk.

Fulltrúar sveitarfélagsins og lögreglu hafa að undanförnu átt góð samskipti við ungmenni sem stunda mótorkross og foreldra þeirra. Í sumar brá við að slík hjól væru á ferð í bænum og var undan því kvartað. Samskiptin að undanförnu hafa gengið út á að finna leið til að ungmennin geti stundað sína iðju á þar til gerðu svæði og hefur það gengið vel. Von er til að úr þeim málum leysist fljótlega. Þetta er gott dæmi um það hvernig samtal og góð samskipti leiða til lausna á málum.

Garður í Útsvari.

Nú liggur fyrir að föstudaginn 23. september mun lið Garðs etja kappi í Útsvari í Sjónvarpinu. Það verður spennandi að fylgjast með þeim Magnúsi, Elínu Björk og Guðjóni Árna glíma við spurningarnar og verðuga andstæðinga, sem verður lið Árneshrepps. Áfram Garður !

Starfsfólk bæjarskrifstofa hittist í Garði.

Eins og fram kom í síðustu Molum, þá hittist starfsfólk bæjarskrifstofa fjögurra sveitarfélaga á Suðurnesjum í Garði sl. föstudag. Fjallað var um ýmis sameiginleg mál og var hópurinn hristur saman, enda mikilvægt að kollegar þekkist og geti átt góð samskipti um sameiginleg mál. Dagskrá dagsins var fjölbreytt. Hópurinn heimsótti Nesfisk, sem er myndarlegt og vel rekið sjávarútvegsfyrirtæki í Garðinum, þar var vel tekið á móti hópnum með kynningu á starfsemi fyrirtækisins.  Þá má nefna að farið var í ýmsar þrautir og leiki í íþróttamiðstöðinni og hópurinn átti saman góða stundi í veitingahúsinu á Garðskaga. Dagurinn var vel heppnaður, skemmtilegur og árangursríkur.

Haltur leiðir blindan, þrautakeppni í þreksalnum.
Haltur leiðir blindan, þrautakeppni í þreksalnum.
Spilandi og syngjandi bæjarstjórar.
Spilandi og syngjandi bæjarstjórar.

Haustið er tími alls kyns fundahalda.

Nú er komið að þeim tíma ársins þegar alls kyns fundir og ráðstefnur taka drjúgan tíma hjá bæjarstjórum. Í þessari viku hefur bæjarstjórinn í Garði setið fundi um þróun og framtíðar skipulag á Miðnesheiði, um markaðssetningu og stefnu í ferðaþjónustu, aðalfund Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi og í gær, fimmtudag var fundur í bæjarráði auk fundar með fjármálaráðherra um framtíðaruppbyggingu á Miðnesheiði. Í dag er aðalfundur Reykjanes Jarðvangs (Reykjanes Geopark) og síðan verður sameiginlegur starfsmannadagur starfsfólks sveitarfélagsins fram eftir degi.  Í næstu viku ber hæst fjármálaráðstefna sveitarfélaga, ásamt fleiri fundum á vettvangi sveitarstjórnarfólks. Loks mun bæjarstjórinn mæta í sjónvarpssal föstudagskvöldið 23. september og hvetja lið Garðs, sem mun keppa í Útsvari.  Vegna allra þessara anna verða Molar í fríi í næstu viku.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail

36. vika 2016.

Leikskólinn Gefnarborg er til fyrirmyndar.

Eins og á við um samfélagið í Garði, þá ber leikskólinn Gefnarborg sterkan keim af fjölmenningu. Af 84 börnum í leikskólanum eiga 19 þeirra tvö eða fleiri móðurmál. Í góðri grein í Víkurfréttum þann 7. september sl., fjallar Ingibjörg Jónsdóttir leikskólastjóri um að leikskólinn hefur unnið með margbreytileika samfélagsins og að hann fái notið sín sem best.  Í grein Ingibjargar kemur m.a. fram að á komandi skólaári ætli starfsfólk leikskólans Gefnarborgar að halda áfram og auka enn meira við það góða starf sem unnið er. „Markmiðið er að efla fjölmenningarlegan skólabrag og móta stefnu um fjölmenningu innan leikskólans. Einnig að gera fjölmenninguna enn sýnilegri og gera öll börn, starfsfólk og aðstandendur enn betur meðvituð um mikilvægi þess að virða og hlusta á raddir ólíkra menningarheima, vinna gegn fordómum og auka víðsýni. Við starfsfólkið á Gefnarborg vonum að þessi markmið eigi eftir að skila sér áfram til alls samfélagsins“ segir Ingibjörg leikskólastjóri í greininni í Víkurfréttum.

Frábært starf hjá leikskólanum Gefnarborg og til fyrirmyndar. Leikskólinn er einkarekinn, með þjónustusamningi við sveitarfélagið og hefur Hafrún Víglundsdóttir haft rekstur leikskólans með höndum í mörg ár. Til hamingju með gott starf á Gefnarborg.

Leikskólabörn í garðinum Bræðraborg.
Leikskólabörn í garðinum Bræðraborg.

Bæjarstjórn.

Í vikunni var fundur í bæjarstjórn Garðs. Bæjarstjórnin hefur ekki fundað síðan í júní og hefur bæjarráð haft heimild frá bæjarstjórn til fullnaðarafgreiðslu mála í millitíðinni. Á dagskrá bæjarstjórnar voru ýmsar fundargerðir nefnda og fundarboð á aðalfundi nokkurra félaga sem sveitarfélagið á aðild að. Bæjarstjórn samþykkti ályktun um samgöngumál, þar sem Alþingi og samgönguyfirvöld eru hvött til að setja í forgang tvöföldun Reykjanesbrautar frá Fitjum í Reykjanesbæ að Rósaselstorgi í Garði. Loks samþykkti bæjarstjórn samstarfssamning við þróunarfélag um hraðlest frá Keflavíkurflugvelli og loks var samþykkt fundaáætlun bæjarstjórnar og bæjarráðs til júní 2017.

Góður andi er í bæjarstjórninni og má segja að bæjarstjórnin komi vel undan sumri, enda hefur veðurblíða verið með eindæmum í sumar.

Félagsmiðstöðin hefur starfsemi.

Starfsemi Félagsmiðstöðvarinnar Eldingar hefst mánudaginn 12. september. Öflugt og fjölbreytileg starfsemi verður í félagsmiðstöðinni í vetur, að vanda. Starfsmenn hafa verið ráðnir og skipulag starfsins liggur fyrir. Spennandi vetur framundan í félagsmiðstöðinni.

Nemendaráð Gerðaskóla.

Nýverið kusu nemendur Gerðaskóla fulltrúa í Nemendaráð skólans. Það er jafnan nokkur spenna kringum þessa kosningu, sem sýnir áhuga nemendanna á starfinu. Hér að neðan er mynd af nýkjörnu Nemendaráði Gerðaskóla, sem Guðbrandur íþrótta-og æskulýðsfulltrúi tók í skólanum.

Nemendaráð Gerðaskóla.
Nemendaráð Gerðaskóla.

Heimsókn starfsfólks bæjarskrifstofa í Garðinn.

Sú hefð hefur verið mörg undanfarin ár að starfsfólk á bæjarskrifstofum Garðs, Sandgerðisbæjar, Grindavíkurbæjar og Voga hefur komið saman einu sinni á ári til skrafs og ráðagerða. Að þessu sinni er starfsfólk bæjarskrifstofunnar í Garði gestgjafar. Í dag, föstudag koma þessir góðu gestir og kollegar í heimsókn til okkar í Garðinn.  Það er alltaf ánægjulegt að fá góða gesti í heimsókn, ekki síst kollega og nágranna. Við lærum alltaf hvert af öðru þegar hist er og eflum kynnin.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail

35. vika 2016.

Víðir upp um deild.

Í gær, fimmtudag var stórleikur á Nesfiskvellinum. Þar áttust við lið Víðis og Þróttar í Vogum, sannkallaður nágrannaslagur. Víðir gat tryggt sér sæti í 2. deild að ári með því að fá a.m.k. eitt stig út úr leiknum. Svo fór að Víðir sigraði leikinn 3-1 og þar með liggur fyrir að Víðir fer upp um deild og leikur í 2. deild á næsta ári. Mikill fögnuður var í leikslok, enda mikilvægum áfanga náð og þar með megin markmiði liðsins í sumar. Með þessum úrslitum fær Knattspyrnufélagið Víðir góða afmælisgjöf frá leikmönnum, þjálfurum og öllum þeim sem standa að liðinu,en félagið á 80 ára afmæli í ár. Hér að neðan er mynd af sigurglöðum leikmönnum Víðis í klefanum eftir leik og mynd af leikmönnum, þjálfurum og stjórnarfólki.

Til hamingju með frábæran árangur Víðismenn !

Sigurreifir Víðismenn í leikslok.
Sigurreifir Víðismenn í leikslok.
Víðir 2016
Víðir 2016

Bæjarstjórar á knattspyrnuleik.

Þar sem lið Víðis og Þróttar í Vogum áttust við í Garðinum í gær, var við hæfi að bæjarstjórar sveitarfélaganna fylgdust saman með leiknum. Í hálfleik var staðan 1-1 og allt lék í lyndi, þá var við hæfi að Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í Vogum tæki sjálfu-mynd af okkur kollegunum. Vogamenn samglöddust Víðismönnum að leik loknum, enda góðum áfanga náð hjá Víði.

Bæjarstjórar á knattspyrnuleik Víðis og Þróttar.
Bæjarstjórar á knattspyrnuleik Víðis og Þróttar.

Aparólan vígð.

Sl. mánudag var stórviðburður á lóð Gerðaskóla, en þá fór fram vígsla á aparólunni sem var sett upp á skólalóðinni í sumar. Nemendur og starfsfólk skólans fjölmenntu út á svæðið í góða veðrinu og tóku þátt í hátíðarhöldunum. Ungmennaráð Garðs beitti sér fyrir því gagnvart bæjarstjórn að aparóla væri sett upp á skólalóðinni og nú hefur barátta þeirra skilað árangri. Það var því við hæfi að Halldór Gísli Ólafsson formaður Ungmennaráðs færi fyrstu ferðina, það gerði hann við mikil fagnaðarlæti viðstaddra. Myndirnar að neðan voru teknar við þetta tækifæri.

Fyrsta ferðin í aparólunni.
Fyrsta ferðin í aparólunni.
Fjöldi nemenda og stemmning við vígslu rólunnar.
Fjöldi nemenda og stemmning við vígslu rólunnar.

Fjölgun íbúa, vantar einn upp á 1.500 !

Allt frá því í vor hefur íbúum Sveitarfélagsins Garðs fjölgað jafnt og þétt. Í Molum 28. viku þann 15. júlí sl. kom fram að íbúar væru 1.477 talsins, samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár. Þá hafði íbúum fjölgað um 52 frá 1. desember 2015, þegar skráðir íbúar í sveitarfélaginu voru 1.425 talsins. Samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár sl. mánudag, þann 29. ágúst voru íbúar sveitarfélagsins 1.499 talsins. Þar með hefur íbúum fjölgað um 74 frá 1. desember sl., eða um 5,2%. Miðað við þróunina má búast við að í næstu viku verði íbúafjöldi sveitarfélagsins orðinn 1.500.

Garður í Útsvari.

Sveitarfélagið Garður mun tefla fram hörku liði í Útsvari Sjónvarpsins í vetur. Þetta verður í fyrsta skipti sem sveitarfélagið tekur þátt í Útsvari og verður spennandi að fylgjast með liði okkar. Búið er að velja í liðið og munu eftirtalin skipa lið Garðs: Magnús Guðmundsson kennari og fyrrverandi skipstjóri, Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur og Guðjón Árni Antoníusson íþróttafræðingur og knattspyrnukappi. Við óskum þeim góðs gengis og stöndum þétt við bakið á okkar liði.

Umferðartalning á Garðskaga.

Umferð ferðafólks hefur aukist mikið á Suðurnesjum að undanförnu. Það sama á við um Garðskaga. Erfitt hefur reynst að nálgast upplýsingar um fjölda þeirra sem koma á Garðskaga, en nú er hafin markviss talning og því verður auðveldara að fá þessar upplýsingar. Talning hófst á Garðskaga í byrjun júní og hefur komið í ljós að um 40.000 manns komu á svæðið hvorn mánuðinn júní og júlí í sumar, eða um 80.000 manns þessa tvo mánuði. Fróðlegt verður að fylgjast með talningu komandi mánuði og misseri, samkvæmt lauslegri ágiskun má ætla að hátt í 200.000 manns komi nú á Garðskaga á ársgrundvelli.

Samstarfssamningur vegna hraðlestar.

Í gær, fimmtudag undirrituðu bæjarstjórar sveitarfélaganna Sandgerðisbæjar, Garðs, Reykjanesbæjar og Voga, ásamt fulltrúum Þróunarfélags um hraðlest milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins samstarfssamning. Samningurinn felur í sér samstarf aðila um skipulagsmál og greiningu á samfélagslegum áhrifum á Suðurnesjum.

Veðrið.

Nú í upphafi september mánuðar er ljóst að haustið er að síga að. Ágætt veður hefur verið þessa vikuna, aðeins skipst á skin og skúrir en ágætt hitastig. Þegar þetta er skrifað á föstudags morgni er hægviðri, heiður himinn og skínandi sól. Útsýnið frá skrifstofu bæjarstjórans, yfir Faxaflóann þar sem blasir við fjallahringurinn alla leið að Snæfellsjökli, er eins og best verður á fallegum degi.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail