34. vika 2016.

Skólasetning Gerðaskóla í 144. skipti.

Í byrjun vikunnar var Gerðaskóli settur, þar með er skólastarf vetrarins hafið eftir gott sumarleyfi. Fyrsta skólasetning Gerðaskóla var þann 7. október 1872 og var skólinn því settur í 144. skipti að þessu sinni. Í sumar var unnið að viðhaldsverkefnum í húsnæði skólans, auk þess sem aparólu var komið fyrir á skólalóðinni. Bæjarstjórinn býður nemendur og starfsfólk skólans velkomið til starfa og óskar þeim góðs gengis í sínum störfum í vetur.

Nú þegar skólastarfið er hafið í grunnskólanum og leikskólanum er hvatt til aðgátar í umferðinni í nágrenni skólanna. Árvökulir lögreglumenn hafa fylgst með umferðinni við skólana þessa vikuna, við verðum öll að gæta fyllstu varúðar gagnvart börnunum sem eiga leið til og frá skólunum.

Sjónarspil á Garðskaga.

Eftir mitt sumar hefur verið mikil umferð fólks að kvöldlagi á Garðskaga til að njóta sólseturs, enda hefur veðurfarið verið með þeim hætti að fallegt sólsetur hefur verið nánast hvert kvöld. Nú styttist í þann tíma ársins þegar fjölmargir koma á Garðskaga að kvöldlagi til að njóta norðurljósa. Sl. þriðjudagskvöld brá svo við að bæði var ótrúlega fallegt og tilkomumikið sólsetur og nokkrum klukkustundum síðar dönsuðu norðurljós á himni yfir Garðskaga. Sólarhring síðar lagðist þoka yfir Garðskagann og þá lýsti vitaljósið í Garðskagavita inn í þokuna og myndaðist sannkölluð dulúð. Sannarlega tilkomumikið sjónarspil. Myndirnar hér að neðan bera vitni um það.

Sólsetur 23. ágúst 2016 (Mynd: Atli R Hólmbergsson)

Sólsetur 23. ágúst 2016 (Mynd: Atli R Hólmbergsson)

Norðurljós 23. ágúst 2016 (Mynd: Jóhann Ísberg).
Norðurljós 23. ágúst 2016 (Mynd: Jóhann Ísberg).
Vitinn í þokunni. (Mynd: Kjartan G Júlíusson).
Vitinn í þokunni. (Mynd: Kjartan G Júlíusson).

Þjóðhátíð á leikskólanum.

Börnin á leikskólanum Gefnarborg tengjast mörgum mismunandi þjóðernum, þar á meðal er Úkraína. Miðvikudaginn 24. ágúst var þjóðhátíðardagur Úkraínu og þann dag var þjóðfána Úkraínu flaggað við leikskólann. Í góða veðrinu hreyfðist fáninn varla á fánastönginni.

Þjóðfáni Ukraínu við Gefnarborg.
Þjóðfáni Ukraínu við Gefnarborg.

Veðrið.

Veðrið í sumar hefur verið hreint dásamlegt. Sumir halda því fram að þetta sé besta sumar í minni eldri manna. Allur gróður ber þess merki, þar sem t.d. trjágróður hefur dafnað mjög vel. Gott verður hefur verið þessa vikuna og kærkomið að fá smá vætu nú síðustu nótt.

Góða helgi.

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

32. vika 2016.

Sumarverkefnum að ljúka.

Nú verða kaflaskil, verkefnum sumarstarfsfólksins lýkur í dag og skólarnir hefjast. Sumarstarfsfólkið hefur unnið vel í sumar, Garðurinn er snyrtilegur og vel við haldið. Við þökkum þeim fyrir þeirra framlag og vel unnin störf í sumar. Jafnframt er öllum óskað velfarnaðar og góðs gengis í skólanámi vetrarins. Hér að neðan eru nokkrar myndir sem Guðbrandur íþrótta-og æskulýðsfulltrúi tók af starfsfólki bæjarins við sín störf.

Í Bræðraborgargarði
Í Bræðraborgargarði
Blómarósir hlúa að blómabeði
Blómarósir hlúa að blómabeði
Verkfundur í Áhaldahúsi
Verkfundur í Áhaldahúsi
Vinnugleði
Vinnugleði
Margir fætur vinna létt verk
Margir fætur vinna létt verk
Viðhaldsvinna
Viðhaldsvinna
Árni í vélaviðgerðum.
Árni í vélaviðgerðum.
Götumálning
Götumálning

Framkvæmdir við vatnslagnir í Útgarð.

Vegna aukinna umsvifa í Útgarði, m.a. vegna tilkomu nýs hótels þar, hafa HS Veitur ráðist í að leggja nýjar lagnir fyrir heitt og kalt vatn meðfram Skagabraut, frá Sandgerðisvegi og að Norðurljósavegi. Af þessum sökum er nokkuð jarðrask á svæðinu og svo mun væntanlega verða áfram næstu vikur og mánuði. Verktaki er ÍAV og er vonast til að framkvæmdin valdi íbúum á svæðinu ekki óþægindum. Vegfarendur eru vinsamlega beðnir um að gæta varúðar við framkvæmdasvæðið.

Veituframkvæmd við Skagabraut.
Veituframkvæmd við Skagabraut.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði. Þar bar helst til að fjallað var um fundargerðir og minnisblöð stýrihóps fulltrúa sveitarfélaganna Garðs, Sandgerðisbæjar og Reykjanesbæjar, sem vinnur að tillögum um skipulag, þróun og uppbyggingu á Miðnesheiði. Um er að ræða gríðarlega mikið hagsmunamál til framtíðar og mikilvægt að vel takist til með verkefnið. Góð samstaða er um verkefnið í sveitarfélögunum þremur og það gefur góð fyrirheit um framhaldið.

Veðrið – langþráð væta.

Í sumar hefur verðrið verið einstaklega gott, sannkölluð sumartíð meira og minna allan tímann. Svo var komið í upphafi vikunnar að grasflatir í Garðinum voru að gulna og gróður farinn að skrælna af langvarandi þurrki. Varla hægt að segja að komið hafi dropi úr lofti vikum saman. Á þriðjudagskvöldið breytti um og fór að rigna, með hlýjum sunnanáttum. Næstu daga er útlit fyrir að eitthvað rigni, en birti til með sólskini inn á milli. Eftir smá vætu í nótt, þá skín sólin inn um gluggann hjá bæjarstjóranum í Garði þegar þetta er ritað. Gróðurinn fagnar svona veðurtíð og hefur tekið vel við sér nú í lok vikunnar.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

31. vika 2016.

Róleg vika.

Eins og venja er til er vikan eftir Verslunarmannahelgi frekar róleg almennt. Margir hafa verið í sumarleyfum og nýta þessa viku til ferðalaga, aðrir eru að koma sér í daglega rútínu eftir sumarleyfin. Nú þegar líður inn í ágúst mánuð fara hjólin að snúast aftur af meiri krafti, stutt er í að skólahald hefjist og almennt verður farið að huga að verkefnum haustsins og næsta vetrar.

Tónlistarsköpun í Garðskagavita.

Eins og fram kom í molum síðustu viku, þá unnu þau Ólafur Arnalds og Nanna Bryndís Hilmarsdóttir tónlistarmenn að tónlistarsköpun og upptökum í Garðskagavita í síðustu viku. Afrakstur þeirra vinnu hefur verið opinberaður á internetinu, mjög flott lag og skemmtilegt myndband. Það er ánægjulegt fyrir okkur í Garði að þessi viðburður hafi átt sér stað á Garðskaga og óskum þeim Ólafi og Nönnu til hamingju með frábært verk. Hér að neðan er hlekkur á tónlistarmyndbandið sem þau unnu í Garðskagavita.

Ólafur Arnalds – Particles ft. Nanna Bryndís Hilmarsdóttir

Byggðasafnið og ferðaþjónusta á Garðskaga.

Byggðasafnið var opnað aftur fyrir nokkru síðan, eftir framkvæmdir í húsinu. Safnið er nú opið daglega milli kl. 13:00 og 17:00. Eins og kunnugt er var opnað lítið kaffihús í gamla vitanum og hefur verið mikil aðsókn að því, enda þykir mörgum sérstök upplifun að koma við í gamla vitanum. Nú mun stutt í að veitingasala hefjist aftur á efri hæð í byggðasafninu og unnið hefur verið að uppsetningu á sýningum í stóra vitanum, sjálfum Garðskagavita.

Unuhús, Sjólyst.

Í ár hefur verið unnið að viðhaldi og endurbótum á Sjólyst. Skipt hefur verið um glugga og nú standa yfir endurbætur á klæðningu hússins. Sjólyst er hús Unu í Garði og hafa Hollvinir Unu annast húsið, sem er í eigu sveitarfélagsins og haldið á lofti minningu Unu. Í húsinu eru munir sem voru þar meðan Una Guðmundsdóttir bjó í Sjólyst, gestir eru velkomnir í heimsókn en Sjólyst er að jafnaði opin gestum um helgar.

Endurbætur á Sjólyst.
Endurbætur á Sjólyst.

Víðir á sigurbraut.

Eftir slæman skell um daginn komu Vðismenn sterkir til baka og unnu góðan sigur á Dalvík í gær. Liðið er í góðri stöðu í öðru sæti 3. deildar og á nú alla möguleika á að vinna sér sæti í 2. deild að ári. Til hamingju Víðismenn, með óskum um áframhaldandi gott gengi.

Veðrið.

Veðrið í sumar hefur verið með ágætum hér í Garðinum. Að undanförnu hefur verið sólskin nánast alla daga og oftast hægviðri eða logn, sannkallað sumarveður. Mikil umferð hefur verið af fólki á Garðskaga undanfarin kvöld, sólarlagið bak við Snæfellsnesið er töfrum líkast og vilja margir upplifa það og njóta. Útlit er fyrir áframhald á veðurblíðunni, a.m.k. næstu dagana.

Regnbogafáninn blaktir.

Regnbogafáninn hefur verið dreginn upp við bæjarskrifstofuna í Garði. Um helgina verða Hinsegin dagar og mun regnbogafáninn blakta fram yfir helgi af því tilefni.

Regnbogafáni við bæjarskrifstofuna.
Regnbogafáni við bæjarskrifstofuna.

 

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail