22. vika 2016.

Skólaslit í dag.

Í dag verða skólaslit í Gerðaskóla. Skólaslit eru jafnan hátíðlegur viðburður og uppskeruhátíð í lok skólaárs. Starfsemi Gerðaskóla hefur gengið vel í vetur. Gerðaskóli er næst elsti grunnskóli landsins, starfsemi skólans hófst með fyrstu skólasetningu þann 7. október 1872. Á liðnu skólaári voru liðlega 200 nemendur við skólann. Ég óska nemendum og starfsfólki skólans til hamingju með þennan áfanga og þakka þeim fyrir liðið skólaár.

Kennimerki Gerðaskóla.
Kennimerki Gerðaskóla.

Sumarstörfin hafin.

Nú hefur sumarstarfsfólk hafið störf og vinnuskólinn farinn af stað. Sláttur grassvæða í fullum gangi og snyrting bæjarins hafin. Það er jafnan mikið líf sem færist í bæjarbraginn þegar sumarstörf sveitarfélagsins hefjast, með kátum og hressum ungmennum sem njóta útiverunnar og taka til hendi eftir skólasetu vetrarins. Sumarstarfsfólkið er boðið velkomið til starfa.

Sláttugengi.
Sláttugengi.

Gróðurvinna í Bræðraborg

Gróðurvinna í Bræðraborg

Afreksfólk í Garði.

Eins og áður hefur komið fram í Molum er margt afreksfólk í Garðinum, á ýmsum sviðum.  Fyrir stuttu var lokahóf hjá Íþróttafélaginu Nes og voru þar veittar viðurkenningar, eins og vera ber við slík tækifæri. Hjá Íþróttafélaginu Nes fara fram æfingar og keppnir í 6 greinum og fara æfingar fram í Reykjanesbæ og Grindavík. Þrír Garðbúar voru útnefndir sem íþróttamenn ársins á lokahófinu, en það eru:  Sigurður Guðmundsson knattspyrnumaður Nes, sem stóð sig vel með íslenska landsliðinu á alþjóðaleikum Special Olympics sl. sumar og tekur þátt í knattspyrnumóti í Litháen nú í júní, með sameiginlegu liði Nes og Ösp.  Jón Reynisson er lyftingamaður Nes, sem lenti í 2. sæti á íslandsmótinu eftir spennandi keppni. Magnús Orri Arnarson er fimleikamaður Nes, en hann varð fyrr í vor íslandsmeistari í fimleikum.

Þetta eru flottir íþróttamenn og eru í hópi afreksfólks í Garði, Garðbúar eru stoltir af þessum frábæru strákum. Innilega til hamingju með þessar viðurkenningar og vonandi gengur þeim sem allra best í komandi keppnum.  Hér að neðan er mynd af verðlaunahöfum á lokahófi Nes, en á hana vantar þá Jón og Magnús sem gátu ekki verið viðstaddir.

Verðlaunahafar á lokahófi Nes 2016.
Verðlaunahafar á lokahófi Nes 2016.

Bæjarstjórnarfundur í vikunni.

Sl. miðvikudag var fundur í bæjarstjórn Garðs. Þetta var síðasti fundur bæjarstjórnar fyrir sumarleyfi, en bæjarstjórn mun næst funda þann 7. september nk. Bæjarstjórn samþykkti að veita bæjarráði heimild til fullnaðarafgreiðslu mála meðan bæjarstjórn er í sumarleyfi og mun bæjarráð funda reglulega í sumar. Fulltrúar í Ungmennaráði Garðs mættu á fund bæjarstjórnar og fóru yfir áherslumál varðandi hagsmuni ungmenna í Garði. Ungmennaráð hefur mætt reglulega á fundi bæjarstjórnar og farið yfir sín áherslumál. Flottir fulltrúar ungmenna í Garðinum.

Á fundinum var fjallað um fundargerðir bæjarráðs, nefnda og stjórna. Þá var á dagskrá umræðuskjal um sameiningu sveitarfélaga, en í skjalinu eru dregnar saman ýmsar upplýsingar um sameiningu sveitarfélaga, þar á meðal ákvæði Sveitarstjórnarlaga um þau mál. Tilefni málsins eru hugmyndir sem uppi hafa verið um könnun á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Bæjarstjórn er einhuga um að framkvæma eigi könnun á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna, en bæjarstjórn mun taka málið til frekari umræðu og afgreiðslu síðar. Loks kaus bæjarstjórn fulltrúa í bæjarráð til eins árs og samþykkti fundaáætlun bæjarráðs og bæjarstjórnar fyrir tímabilið júní – september 2016.

Bæjarstjórn Garðs ásamt bæjarstjóra.
Bæjarstjórn Garðs ásamt bæjarstjóra.

Íbúafjöldi í Garði.

Samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár voru íbúar Garðs 1.443 sl. mánudag. Þann 1. desember 2015 voru alls 1.425 íbúar skráðir í sveitarfélaginu. Þar með hefur íbúum fjölgað um 18 á þessu tæplega hálfa ári. Nýir íbúar eru boðnir velkomnir í Garðinn.

Samstarf sveitarfélaga.

Sveitarfélög eiga með sér samstarf á ýmsum sviðum. Nú hafa bæjarstjórnir Garðs, Sandgerðisbæjar og Reykjanesbæjar ákveðið að eiga formlegt samstarf um skipulag og uppbyggingu svæðisins norður af Flugstöð á Miðnesheiði, en svæðið er innan sveitarfélagamarka þessara sveitarfélaga. Framundan er að afmarka það landsvæði sem verkefnið mun ná yfir og hefja skipulagsvinnu. Hér er um að ræða mikilvægt mál til framtíðar litið, umrætt svæði er í næsta nágrenni við Keflavíkurflugvöll og má vænta þess að í nánustu framtíð verði þetta eitt af mikilvægari uppbyggingarsvæðum á landinu, í tengslum við mjög aukin umsvif í tengslum við flugvöllinn. Samvinna sveitarfélaganna er lykilatriði þess að vel takist til við þetta verkefni til framtíðar litið. Bæjarstjórar sveitarfélaganna þriggja munu undirrita samstarfsyfirlýsingu um verkefnið í dag. Allt að gerast á Suðurnesjum.

Forsetakosningar – atkvæðagreiðsla utan kjörfundar í Garði.

Framundan eru forsetakosningar, mögulega eru einhverjir kjósendur sem verða ekki heima á kjördag og vilja taka þátt í kosningunum með því að kjósa utan kjörstaðar. Sveitarfélagið Garður tekur þátt í tilraunaverkefni í samstarfi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Sýslumannafélags Íslands, sem felst í því að bjóða upp á kosningu utan kjörstaðar á skrifstofu sveitarfélagsins. Þar með geta kjósendur í fyrsta skipti kosið utan kjörstaðar í Garði og þurfa því ekki að mæta á kjörstað hjá sýslumanni í Reykjanesbæ. Kosning utan kjörstaðar á bæjarskrifstofunni fer fram á opnunartíma skrifstofunnar fram að kjördegi þann 25. júní. Það er alltaf ánægjulegt að bjóða upp á aukna þjónustu við íbúa sveitarfélagsins og vonandi nýta sem flestir Garðbúar kosningarétt sinn í þessum kosningum sem öðrum.

Sigurganga Víðis.

Knattspyrnulið Víðis hefur sigrað alla leiki það sem af er leiktíðinni. Eftir sigur á KFR á Nesfiskvellinum um síðustu helgi situr Víðir nú í fyrsta sæti 3. deildar. Leikmenn eru staðráðnir í því að halda áfram á sömu braut, en nk sunnudag mæta Einherjar á Nesfiskvöllinn og etja kappi við Víðismenn. Þetta er svokallaður 6 stiga leikur, þar sem bæði lið sitja á toppi deildarinnar. Molar óska Víði góðs gengis í leiknum.

Helgi Þór Jónsson fagnar öðru marka sinna gegn KFR.
Helgi Þór Jónsson fagnar öðru marka sinna gegn KFR.

Veðrið.

Mánudagurinn heilsaði með sól og blíðu, Garðbúum til mikillar gleði eftir frekar rysjótt veðurfar að undanförnu. Alger viðsnúningur varð á þriðjudag, með sunnan vindi og rigningu. Um miðja vikuna var hægviðri, suðlæg átt með rigningu á köflum. Nú í morgun, föstudag er einmuna veðurblíða, glampandi sólskin og logn. Gott útlit er með veðrið um komandi helgi, ef marka má veðurspár.

Molar í sumarfrí.

Þar sem bæjarstjórinn er að fara í sumarleyfi munu Molar ekki birtast næstu vikur.

Góða helgi og gleðilegt sumar.

Facebooktwittergoogle_plusmail