17. vika 2016.

Ljóshúsið á vitann á Garðskagatá.

Sl. föstudag var ljóshúsi komið fyrir á gamla vitann á Garðskaga. Vitinn hefur verið án ljóshúss frá því eftir 1944, þegar nýi vitinn var tekinn í notkun. Þyrla Landhelgisgæslunnar kom á Garðskaga og lyfti hljóshúsinu á vitann, starfsmenn sveitarfélagsins og félagar í Björgunarsveitinni Ægi unnu saman að því að aðstoða áhöfn þyrlunnar og síðan að festa ljóshúsið á sinn stað. Nokkur fjöldi fólks kom á Garðskaga til að fylgjast með verkinu, það var skemmtilegt og athyglisvert að fylgjast með hve vel tókst til og ekki síður var aðdáunarvert hve áhöfn þyrlunnar leysti sitt verk snilldarlega vel af hendi. Nú er breytt útlit á vitanum, en einhvern veginn finnst manni að vitinn hafi alltaf átt að líta út eins og hann gerir í dag. Hér að neðan eru nokkrar myndir frá því á föstudaginn. Gamli höfðinginn á skagatánni stendur nú með fullri reisn út við yzta haf.

Vitinn án ljóshússins.
Vitinn án ljóshússins.
Ljóshúsið komið á sinn stað á toppi vitans.
Ljóshúsið komið á sinn stað á toppi vitans.
Þyrlan lætur ljóshúsið síga á sinn stað.
Þyrlan lætur ljóshúsið síga á sinn stað.
Áhöfn þyrlunnar, björgunarsveitarmenn og fleiri.
Áhöfn þyrlunnar, björgunarsveitarmenn og fleiri.
Höfðingi við yzta haf.
Höfðingi við yzta haf.

Vitinn er vinsæll meðal ljósmyndara og mjög margar frábærar myndir eru til af honum við ýmsar aðstæður. Hér fyrir neðan eru tvær flottar myndir sem Guðmundur Sigurðsson tók af vitanum og sólsetrinu.

Vitinn og sólsetrið.
Vitinn og sólsetrið.
Töfrum líkast.
Töfrum líkast.

Bæjarráð í vikunni.

Bæjarráð fundaði í gær. Að venju voru mörg og margvísleg mál á dagskrá. Meðal annars var lagt fram stöðuuppgjör rekstrarins eftir þrjá mánuði ársins og er framvinda rekstrarins vel í takti við fjárhagsáætlun. Samningur við Garðskaga ehf um leigu húsnæðis og aðstöðu á Garðskaga var samþykktur, samþykkt að endurnýja samstarfssamning við Íþróttafélagið Nes og samþykkt tillaga um umhverfi og uppbyggingu við Útskálar, svo eitthvað sé nefnt. Það er mikið um að vera á vettvangi sveitarfélagsins á mörgum sviðum.

Fundahöld.

Í þessari viku hafa verið allmargir fundir sem bæjarstjórinn hefur setið. Þetta er tími aðalfunda og í vikunni voru sat bæjarstjórinn aðalfundi Dvalarheimilis aldraðra á Suðurnesjum (DS), Fjölsmiðjunnar í Reykjanesbæ og Kölku (Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja). Það er mikilvægt að fylgjast vel með þeirri starfsemi sem fram fer á svæðinu og sveitarfélagið á aðild að. Allt gengur mjög vel, rekstrarafkoma með betra móti enda er mikið um að vera í atvinnumálum og almennt hvar sem litið er á svæðinu.

Garðbúi meistari í glímu-og bardagaíþróttum.

Eins og áður hefur verið fjallað um í Molum, þá hefur margt afreksfólk á ýmsum sviðum komið úr Garðinum. Nú á Garðurinn eitt mesta efni glímu-og bardagaíþrótta á Íslandi, það er hin 17 ára gamli Ægir Már Baldvinsson. Ægir hefur undanfarin ár æft Júdó og Taekwondo með góðum árangri og unnið nokkra meistaratitla í sínum greinum, bæði á Íslandi og erlendis.  Nú í ár mun Ægir Már taka þátt í ýmsum mótum innanlands og utan, hann hefur þegar unnið meistaratitla á þessu ári. Hann hefur auk Júdó og Taekwondo keppt í íslenskri glímu með góðum árangri og í vor varð hann Evrópumeistari í Gouren og Backhold, sem er glímugrein. Ægir Már hefur keppt undir merkjum UMF Njarðvíkur, þar sem hann stundar æfingar, en hann er búsettur í Garði. Sveitarfélagið Garður hefur veitt Ægi Má stuðning til þátttöku í mótum erlendis og óskum við honum góðs gengis í komandi mótum. Ánægjulegt að fylgjast með þessum unga og efnilega Garðbúa.

Ægir Már Baldvinsson
Ægir Már Baldvinsson

1. maí.

Baráttudagur verkafólks er á sunnudaginn, þann 1. maí. Molar óska launafólki til hamingju með þann dag, með von um að stöðug barátta okkar allra fyrir góðum lífskjörum beri sem mestan árangur, öllum til hagsbóta.

Veðrið.

Um síðustu helgi var veður með ágætum. Í byrjun vikunnar var veður gott og þokkalegt hitastig, en um miðja viku brast á með norðanátt og köldum vindi, hitastig fór á köflum niður undir frostmark. Þennan morguninn hefur hlýnað og norðan vindin lægt, sólin skín. Grasflatir grænka dag frá degi og trjágróður brumar. Vonandi gengur kuldakaflinn yfir næstu daga.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

16.vika 2016.

Gleðilegt sumar !

Þá er sumarið gengið í garð, samkvæmt fornu tímatali og einstakri íslenskri hefð. Í gær var sumarkomunni fagnað á Sumardaginn fyrsta með skemmtidagskrá á vegum Víðis hér í Garðinum. Veður var ágætt, vorbragur í lofti. Dagskráin hófst kl. 11 með árlegu víðavangshlaupi Víðis, þar sem þátttaka var mikil og kl. 12 hófst skemmtidagskrá fyrir börnin í Gerðaskóla. Þar var mikið fjölmenni, líf og fjör með tónlist og skemmtiatriðum. Það er gamall og góður siður víða um land að fagna sumarkomunni á sumardaginn fyrsta með skipulagðri dagskrá, sem fyrst og fremst snýst um börnin. Molar fagna sumarkomunni og óska öllum gleðilegs sumars ! Hér eru nokkrar myndir frá Sumardeginum fyrsta í Garði.

Gullý formaður Víðis stjórnar ferðinni.
Gullý formaður Víðis stjórnar ferðinni.
Margir tóku þátt í víðavangshlaupinu.
Margir tóku þátt í víðavangshlaupinu.
Pylsuveisla Víðis við Gerðaskóla.
Pylsuveisla Víðis við Gerðaskóla.
Efnilegt rokkband Tónlistarskólans.
Efnilegt rokkband Tónlistarskólans.

Ljóshúsið á gamla vitanum.

Ekki tókst að koma fyrir ljóshúsinu á gamla vitann síðasta föstudag, eins og undirbúið hafði verið. Ástæðan var sú að þyrla Landhelgisgæslunnar bilaði, en lyfta átti ljóshúsinu upp á vitann með þyrlunni. Margir voru mættir til að fylgjast með, þar á meðal var Guðni Ingimundarson heiðursborgari Garðs, sem hafði um tíma umsjón með Garðskagavita. Verkinu var sem sagt frestað síðasta föstudag og nú stendur til að ljúka verkinu í dag, föstudag eftir hádegi og vonandi gengur það eftir. Spennandi að sjá breytinguna á útliti þessa gamla höfðingja á skagatánni, sem mun fá sitt upprunalega útlit.

Ljóshúsið komið á Garðskaga.
Ljóshúsið komið á Garðskaga.
Guðni Ingimundarson með Garðskagavita í baksýn.
Guðni Ingimundarson með Garðskagavita í baksýn.

Nýtt hótel rís í Garðinum.

Á síðasta fundi bæjarstjórnar var staðfest samþykkt Skipulags-og byggingarnefndar um úthlutun lóðar fyrir nýtt hótel í Útgarði. Nú í vikunni hófust framkvæmdir á lóðinni, byrjað að grafa fyrir grunni hússins. Þetta eru mikil tímamót í Garði, framkvæmdir hafnar við fyrsta sérhannaða hótelið í bænum. Það er fyrirtækið GSE ehf. sem stendur að framkvæmdinni, en fyrirtækið hefur rekið gistingu í Garðinum undanfarin ár með góðum árangri. Bæjarstjórinn óskar GSE ehf til hamingju með þennan merka áfanga og óskar fyrirtækinu góðs gengis. Það er ánægjulegt að upplifa þetta og fylgjast með heimamönnum standa að slíkri uppbyggingu.

Fleiri framkvæmdir í gangi.

Nú standa yfir framkvæmdir við breytingar á húsnæði byggðasafnsins og veitingaaðstöðunni þar. Ekki liggur fyrir hvenær framkvæmdum lýkur, byggðasafnið opnar og veitingasala hefst á ný. Undanfarið hafa staðið yfir viðhaldsframkvæmdir í báðum vitunum. Nýi vitinn hefur verið lagfærður og málaður að innan, fljótlega verður komið þar upp sýningum sem verða opnar almenningi. Þá hefur verið unnið að lagfæringum inni í gamla vitanum, hann þrifinn, lagfærður og málaður. Til stendur að bjóða upp á veitingar í gamla vitanum, spennandi! Það er Garðskagi ehf. sem vinnur að þessum verkefnum í samstarfi við sveitarfélagið.  Unnið er að undirbúningi þess að koma upp norðurljósasýningu með fræðslu um norðurljós í húsnæði byggðasafnsins, nánar að því síðar. Spennandi tímar framundan á Garðskaga.

Og enn fleiri framkvæmdir.

Það er mjög mikilvægt fyrir byggðina og landið með ströndinni umhverfis Garðskaga og alla leið inn fyrir Leiru að sjóvarnirnar séu tryggar og í lagi. Allar aðstæður eru þannig að ef ekki væri fyrir tryggar sjóvarnir þá væri ágangur sjávar búinn að valda miklu landbroti, landslag og byggð væri eflaust í allt annarri mynd en nú er. Undanfarið hefur verið unnið að endurbótum og styrkingu sjóvarna með ströndinni og er verkið unnið á vegum Vegagerðarinnar. Verkið hófst í Leiru, með ströndinni við golfvöll Golfklúbbs Suðurnesja og eru þær framkvæmdir til mjög mikilla bóta. Framundan er að lagfæra sjóvarnir á nokkrum stöðum með ströndinni allt suður fyrir Garðskaga. Mikilvægar framkvæmdir sem láta ekki mikið yfir sér.

Skemmtanir og afmælishald.

Það er mikið um að vera á vegum Víðis í Garðinum um þessar mundir, enda fagnar félagið 80 ára afmæli á árinu. Hátíðahöld voru í gær á Sumardaginn fyrsta, þar sem Víðir stóð fyrir glæsilegri dagskrá fyrir börnin. Í kvöld, föstudag verður árleg leikmannakynning meistaraflokks Víðis í Samkomuhúsinu, íslandsmótið í knattspyrnu hefst um miðjan maí. Framundan er afmælishátíð þann 7. maí í tilefni 80 ára afmælis félagsins, með mikilli og myndarlegri dagskrá.  Það er mikill kraftur í starfsemi Víðis enda öflugt fólk sem stendur að félaginu og hafi þau öll bestu þakkir fyrir framlag þeirra í þágu íbúanna í sveitarfélaginu. Þá má geta þess að Guðlaug Sigurðardóttir (Gullý) formaður Víðis hélt fjölmenna og skemmtilega afmælisveislu í tilefni 50 ára afmælis síns nú í vikunni.

Það er alltaf eitthvað um að vera í skólunum okkar. Í síðustu viku var þjóðahátíð í Gerðaskóla, í samstarfi við leikskólann Gefnarborg. Nemendur komu saman, flögguðu þjóðfánum og báru kórónur í fánalitum þjóða sem tengjast nemendum, enda eiga margir nemendur tengsl við margar þjóðir. Tónlistin var alls ráðandi og fluttu nemendur tónlist frá ýmsum löndum. Skemmtileg þjóðahátíð í Gerðaskóla. Í dag, föstudag er göngudagur skólans þegar allir fara út að ganga.

Frá þjóðahátíð í Gerðaskóla.
Frá þjóðahátíð í Gerðaskóla.

Veðrið.

Veður hefur verið nokkuð rysjótt síðustu vikuna. Norðan áttir voru ríkjandi um og upp úr síðustu helgi, með nokkrum vindi og svölu veðri. Um miðja vikuna snerist í sunnan áttir, með hlýrra veðri og rigningu á köflum. Þegar þetta er skrifað eftir sumarkomu er norðlægt átt, veður milt og gott, sólin skín. Útlit er fyrir ágætt veður um komandi helgi.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

15. vika 2016.

Vikan.

Þessi vika hefur aðallega borið með sér einkenni þess að vorið er komið. Það hefur verið veðurblíða flesta daga, sólskin og hægviðri. Aðstæður á þriðjudagskvöldið voru ævintýri líkastar, heiður himinn og logn. Litabrigðin á himni allt frá sólbjörtum deginum og fram í nóttina voru á við listsköpun í hæsta gæðaflokki. Um kvöldið skiptust á sólsetrið með allri sinni litadýrð og síðan norðurljós sem dönsuðu eins og eftir bestu dansmúsík. Í gærkvöldi var það sama uppi, þó ekki eins magnað sjónarspil og á þriðjudagskvöldið en norðurljósin voru skínandi björt og fóru mikinn. Við svona aðstæður er engu líkt að dvelja á Garðskaga og upplifa töfrana.

Hjólakraftur í grunnskólanum.

Í dag hefja nokkrir nemendur Gerðaskóla þátttöku í verkefninu „Hjólakraftur“ Þetta verkefni er með þátttöku grunnskólanema víða um landið og snýst m.a. um að efla hjólamenningu og auka hjólreiðar. Þetta er skemmtilegt verkefni, sem nemendurnir eiga vonandi eftir að njóta þess að taka þátt í og byggja upp tengsl við jafnaldra sína í öðrum byggðarlögum. Gott framtak, allir út að hjóla.

Sumarverkin.

Nú þegar vorið er komið með sinni veðurblíðu þessa dagana, þá eflist þróttur til að huga að sumarverkefnum. Íþrótta-og æskulýðsfulltrúi hefur auglýst eftir starfsfólki í vinnuskóla sumarsins og unnið er að undirbúningi ýmissa framkvæmdaverkefna sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Götusópurinn hefur farið um bæinn og sópað götur og plön, það er einn af vorboðunum. Það er ljóst að mikil eftirspurn er eftir starfsfólki til hinna ýmsu starfa á Suðurnesjum um þessar mundir og verktakar eru almennt með þétta verkefnalista. Við vonumst til þess að það muni ekki setja strik í reikninginn varðandi sumarverkefni sveitarfélagsins. Það er hagsmunamál allra að næg atvinna sé í boði og sú ánægjulega staða er nú uppi á Suðurnesjum. Ekki er langt síðan þessu var öfugt farið, en skjótt hafa skipast veður í lofti í atvinnumálum á svæðinu.

Ljóshúsið á gamla vitann.

Allt frá því á síðasta ári hefur staðið til að staðsetja á ný ljóshús á gamla vitann á Garðskaga og var fjallað um það í vikumolum 15. viku 2015. Ljóshúsið sem var á vitanum var fjarlægt eftir að nýi vitinn var tekin í notkun árið 1944. Íslenska vitafélagið stóð fyrir því að nýtt ljóshús var smíðað eftir upprunalegum teikningum, fékk til þess stuðning og styrk hjá Minjavernd og lauk þeirri smíði á síðasta ári. Vitinn er eitt elsta steinsteypta mannvirki í landinu, byggður 1897. Á þeim tíma voru aðeins tveir vitar fyrir í landinu, Reykjanesviti og Dalatangaviti. Sá fyrrnefndi hvarf í hafið vegna landbrots en sá síðari stendur enn og því er gamli vitinn á Garðskaga næst elsta vitahús í landinu. Vitinn á Garðskagatá hefur verið friðaður frá árinu 2003.

Nú er áformað að ljóshúsinu verði komið fyrir á toppi vitans í dag, föstudag og mun þyrla Landhelgisgæslunnar taka þátt í því verkefni. Ef ekkert óvænt kemur upp mun það ganga eftir. Hér að neðan er gömul mynd af vitanum með ljóshúsinu, eins og sjá má af henni mun þetta merkilega mannvirki fá breytta, en upprunalega ásýnd með tilkomu ljóshússins. Samkvæmt þessu eru nú síðustu forvöð að ná ljósmyndum af vitanum með því útliti sem verið hefur, áður en hann fær á sig toppstykkið.

Gamli vitinn á Garðskaga, með ljóshúsi.

Gamli vitinn á Garðskaga, með ljóshúsi.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

14. vika 2016.

Bæjarstjórnarfundur.

Fundur var í bæjarstjórn á miðvikudaginn. Þar fór fram fyrri umræða um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2015. Niðurstöður ársreikningsins eru mjög ánægjulegar og góðar. Reikningurinn felur m.a. í sér að sveitarfélagið uppfyllir nú að fullu fjármálareglur Sveitarstjórnarlaga, bæjarstjórn hefur þar með náð þessu mikilvæga markmiði og það tveimur árum fyrr en áætlanir höfðu gert ráð fyrir.  Frekari umfjöllun verður um ársreikninginn hér í molum síðar. Á fundinum var staðfest lóðaúthlutun Skipulags-og byggingarnefndar fyrir hótelbyggingu í Útgarði. Það verður tímamóta framkvæmd í Garði, þegar fyrsta sérbyggða hótelið mun rísa á staðnum. Það er ánægjulegt og mun stuðla að aukinni ferðaþjónustu og fjölga störfum í sveitarfélaginu. Loks má nefna að bæjarstjórn samþykkti tillögu Umhverfisnefndar um Umhverfisstefnu sveitarfélagsins.

Fjör í Félagsmiðstöðinni Eldingu.

Margvísleg og góð dagskrá er í félagsmiðstöðinni og er hún vel sótt af ungmennum í Garði. Nú í dag verður einn vinsælasti viðburður síðustu ára haldinn í Eldingunni, en það er svokallað Tölvu-LAN. Þá mæta ungmennin með sínar tölvur, tengja þær saman og spila tölvuleik. Þessi viðburður mun standa frá því kl. 15:00 í dag og fram á nótt.

Tölvu-LAN í Eldingu
Tölvu-LAN í Eldingu

Ungmennaráð fundar.

Sl. laugardag kom Ungmennaráð Garðs saman til fundar. Það er ánægjulegt hve mikill áhugi er í Ungmennaráði á málefnum sveitarfélagsins og ungs fólks í Garði. Á fundinum var m.a. farið yfir ný afstaðna Ungmennaráðstefnu UMFÍ. Fleiri mál voru til umfjöllunar og er Ungmennaráð að undirbúa reglulegan sameiginlegan fund með bæjarstjórn síðar í vor. Framtíðin er björt í Garði.

Ungmennaráð Garðs.
Ungmennaráð Garðs.

Framkvæmdir í byggðasafni.

Nú standa yfir framkvæmdir við breytingar og bætta aðstöðu fyrir þjónustu við gesti í byggðasafninu. Samkvæmt venju átti safnið vera opið frá og með 1. apríl, en opnun safnsins mun dragast eitthvað vegna yfirstandandi framkvæmda. Eins og áður hefur komið fram er unnið eftir stefnumótun bæjarstjórnar um uppbyggingu ferðaþjónustu og afþreyingar fyrir ferðafólk á Garðskaga. Framkvæmdirnar í byggðasafninu eru liður í framkvæmd þeirrar stefnumótunar. Spennandi áform eru  uppi um aukna þjónustu og starfsemi á Garðskaga.

Undirbúningur sumarstarfa.

Nú er unnið að undirbúningi sumarstarfa hjá sveitarfélaginu. Á heimasíðunni svgardur.is er auglýst eftir starfsfólki í vinnuskóla sumarsins. Vonandi mun vinnuskólinn búa að góðu og öflugu starfsfólki í sumar, enda vinnur vinnuskólinn mikilvæg verkefni fyrir sveitarfélagið og íbúana í Garði.

Sumarstörf í vinnuskólanum.
Sumarstörf í vinnuskólanum.

Gerðaskóli.

Það er jafnan mikið um að vera í Gerðaskóla, hjá nemendum og starfsfólki. Nk. mánudag mun 7. bekkur leggja upp í ferðalag þar sem áfangastaðurinn eru Reykir í Hrútafirði. Þar munu nemendur dvelja alla næstu viku. Föstudaginn 15. apríl verður þjóðadagur, þar sem fjölbreytileikanum verður fagnað í samstarfi við leikskólann Gefnarborg.

Veðrið.

Í vikunni hefur veður verið ágætt. Sjá má grænan lit verða meira og meira áberandi í túnum og grasflötum. Allt virðist bera með sér að vorið sé að ganga í garð.

Góða helgi.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

13. vika 2016.

Að loknum Páskum.

Nú er Páskahátíðin liðin hjá, með þeim frídögum sem henni fylgir. Daglegt líf er nú aftur komið í fastar skorður, skólahald í eðlilegan farveg sem og atvinnulífið almennt. Fréttir bárust af fjölda íslendinga sem sóttu í sólina og hlýrra veðurfar á suðlægar slóðir um Páska og vonandi höfðu þeir það gott í sinni dvöl þar. Að venju var mikil umferð hér innanlands og sem betur fer gekk hún vel. Frídagar um páskahelgina voru kærkomnir, fólk fékk þá tækifæri til hvíldar frá daglegu amstri og margar fjölskyldur nýta sér gjarnan svona frídaga til að sameinast og hittast, sem er hefðbundið og mikilvægt fyrir marga.

Bæjarráð í vikunni.

Í vikunni var fundur í bæjarráði Garðs. Á dagskrá fundarins voru að venju ýmis mál, en hæst ber þar að drög að ársreikningi sveitarfélagsins fyrir árið 2015 voru til umfjöllunar. Niðurstöður ársreikningsins eru mjög góðar og verður gert frekar grein fyrir þeim hér í molum síðar. Bæjarstjórn mun fjalla um ársreikninginn við fyrri umræðu í næstu viku.

Veðrið.

Um páskahelgina var veður þokkalegt, en þó voru ríkjandi norðlægar áttir með nokkrum vindi og hitastig var rétt yfir frostmarki. Fram eftir vikunni var heldur hlýrra og skárra veður, en þegar þetta er skrifað á föstudagsmorgni er suðaustan átt með nokkrum vindi og rigning. Hitastig þokast heldur upp á við þessa dagana og svo verður næstu daga, samkvæmt veðurspám. Það má því segja að um þessar mundir séu hefðbundin átök vetrar og vors, þar sem vorið mun taka yfirhöndina smám saman.

Apríl er genginn í garð.

Tíminn líður hratt, allt í einu er kominn 1. apríl ! Fjórðungur af nýbyrjuðu ári er liðinn hjá og fyrr en varir verður komið fram í sumarið. Unnið er að undirbúningi sumarverka hjá sveitarfélaginu og nú eftir Páska er síðasti hluti skólastarfs hafinn hjá skólunum fram að lokum þessa skólaárs.  Féttir bárust af því fyrir Páska að sést hafi til Lóu á Garðskaga, þessi góði vorboði ber með sér að vetrartíðin sé að renna sitt skeið á enda.

Vorboðinn er mættur á Garðskaga.
Vorboðinn er mættur á Garðskaga.

Góða helgi.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail