12. vika 2016.

Vegna veikinda birtust ekki molar í síðustu viku, en sem betur fer er heilsufarið orðið gott í þessari viku. Undirritaður veiktist um daginn og þurfti að njóta þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, reyndar var ég daglegur gestur þar um rúmlega vikutíma. Ég þakka starfsfólki HSS fyrir góða þjónustu og sérlega alúðlegt og gott viðmót. Það er mikilvægt að eiga aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu ef á þarf að halda og oft leiðir fólk ekki hugann að því fyrr en á reynir. Íbúar Suðurnesja búa að góðri heilbrigðisþjónustu hjá HSS, þar sem starfsfólkið leggur sig fram um að veita þá þjónustu sem á þarf að halda og fyrir það ber að þakka.

Dagur Norðurlanda er í dag.

Norðurlandaþjóðirnar hafa skapað þá sameiginlegu hefð að halda 23. mars hátíðlegan. Ástæðan er sú að þennan dag árið 1962 undirrituðu fulltrúar ríkisstjórna Norðurlandanna samning um samstarf þjóðanna, samningurinn hefur haft heitið Helsinkisáttmálinn.  Í honum felst samstarf landanna á sviði réttarfars, menningarmála, félagsmála, efnahagsmála, samgangna og umhverfisverndar. Sáttmálinn kveður m.a. á um margvísleg gagnkvæm réttindi norðurlandabúa innan Norðurlanda. Þetta samstarf hefur byggst á samkennd íbúa landanna og hefur frá upphafi verið víðtækt og þverpólitískt, í því felst m.a. styrkur þessa merkilega samstarfs þjóða Norðurlanda.

Vetrarfundur SSS.

Sl. föstudag var vetrarfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Gerðaskóla. Vetrarfundurinn var að þessu sinni helgaður umfjöllun og umræðu um þá miklu uppbyggingu sem er í gangi og er framundan á og við Keflavíkurflugvöll. Eins og fram hefur komið á öðrum vettvangi er mikil uppbygging í gangi á flugvellinum og fyrirsjáanlegt að svo verði næstu árin. Því valda mjög aukin umsvif og umferð um flugvöllinn, sem kallar á mikla fjölgun starfsfólks á flugvallarsvæðinu.  Í því samhengi var á fundinum fjallað um reynsluna af stórframkvæmdum á Austurlandi og um ýmislegt á sviði vinnumarkaðsmála. Fundurinn var mjög upplýsandi og umræður málefnalegar. Það er ljóst að sveitarfélögin standa frammi fyrir krefjandi verkefnum og úrlausnarefnum í tengslum við það sem fjallað var um á fundinum.

Björn Óli forstjóri ISAVIA á vetrarfundi SSS.
Björn Óli forstjóri ISAVIA á vetrarfundi SSS.

Árshátíðir skólans –  páskafrí.

Nú eru nemendur og starfsfólk Gerðaskóla komnir í páskafrí. Í síðustu viku voru árshátíðir nemenda og tókust þær mjög vel. Vonandi hafa nemendur og starfsfólk skólans það gott um páskahelgina og koma fullir orku til starfa eftir páskafríið. Við tekur lokatörnin fyrir lok skólaársins.

Ungmennaráðstefna UMFÍ.

Í síðustu viku var haldin ungmennaráðstefna UMFÍ. Tveir fulltrúar Ungmennaráðs Garðs sóttu ráðstefnuna, undir handleiðslu Íþrótta-og æskulýðsfulltrúa sveitarfélagsins. Ráðstefnan var vel heppnuð og skilaði hún frá sér ályktun, þar sem m.a. er lögð áhersla á úrræði í geðheilbrigðismálum barna og ungmenna.

Fulltrúar Ungmennaráðs með Íþrótta-og æskulýðsfulltrúa Garðs.
Fulltrúar Ungmennaráðs með Íþrótta-og æskulýðsfulltrúa Garðs.

Vorið minnir á sig.

Að undanförnu hefur veðurfar verið með þeim hætti að vorið minnir á sig. Suma daga hefur veðrið minnt á góða vordaga, inn á milli hefur vindinn hreyft meira en aðra daga og verið úrkoma í formi rigningar. Farfuglar eru farnir að koma til baka eftir vetrarvist sunnar á jörðinni, söngur tiltekinna tegunda farfugla er farinn að heyrast í Garðinum, það er væntanlega gleðisöngur við heimkomu.

Páskar framundan.

Nú er liðið að Páskum, með tilheyrandi fríum og ferðalögum. Í fréttum hefur komið fram að þúsundir íslendinga nota páskaleyfið til ferðalaga erlendis, dæmi er um að einhver þúsundir muni dvelja á sama stað um páskahelgina. Vonandi eiga allir utanlandsfarar góða frídaga, hvar sem þeir eru staddir. Hér innanlands má búast við miklum ferðalögum íslendinga, við það bætist hin stóraukna umferð erlendra ferðamanna á bílaleigubílum. Það er því full ástæða til að hvetja alla ferðalanga til varúðar í umferðinni. Vonandi hafa allir það sem allra best um páskahátíðina.

Gleðilega Páska !

 

Góða Páskahelgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

10. vika 2016.

Landsbankinn styður við Gerðaskóla.

Unnið hefur verið að því að endurnýja tölvubúnað Gerðaskóla. Fyrir stuttu gaf Landsbankinn skólanum sextán tölvuskjái að gjöf, skjáirnir eru nýlegir og í góðu ástandi en ekki í notkun hjá bankanum. Einar Hannesson útibússtjóri og Herborg Hjálmarsdóttir starfsmaður Landsbankans í Reykjanesbæ afhentu Jóhanni Geirdal skólastjóra Gerðaskóla skjáina í tölvuveri skólans. Landsbankinn fær þakkir fyrir þessa höfðinglegu gjöf til Gerðaskóla.

Herborg Hjálmars og Einar Hannesson útibússtjóri Landsbankans, ásamt Jóhanni skólastjóra í tölvuveri Gerðaskóla. (Mynd: Víkurfréttir)
Herborg Hjálmars og Einar Hannesson útibússtjóri Landsbankans, ásamt Jóhanni skólastjóra í tölvuveri Gerðaskóla. (Mynd: Víkurfréttir)

Nettómótið í Garði.

Um síðustu helgi stóðu unglingaráð körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur fyrir árlegu Nettómóti í körfubolta fyrir yngstu iðkendur. Mótið hefur þótt hið glæsilegasta undanfarin ár, mikil þátttaka og ánægja. Að þessu sinni var þátttakendafjöldinn slíkur að leika þurfti hluta af mótinu í Íþróttamiðstöðinni í Garði og gekk vel. Það var gaman að sjá áhugann og keppnisandann hjá þessum ungu körfuboltahetjum og það var jafnframt ánægjulegt fyrir okkur í Garði að taka á móti  öllum keppendum og gestum sem komu í Garðinn vegna mótsins. Við þökkum þeim öllum fyrir komuna og vonum að dvöl þeirra hér hafi verið ánægjuleg. Hátt í 40 börn tóku þátt í Nettómótinu undir merki Víðis, þjálfarar þeirra eru Bára Bragadóttir og Óli Garðar Axelsson.

Ungir og efnilegir körfuboltakappar í Víði á Nettómóti.
Ungir og efnilegir körfuboltakappar í Víði á Nettómóti.

Forvarnateymið Sunna.

Sl. mánudag hélt forvarnateymið Sunna kynningarfund í grunnskólanum í Vogum. Þar var fjallað um forvarnir og ýmis verkefni sem miða að sjálfstyrkingu og bættum árangri barna og unglinga og um fjölskylduvernd. Jóhann Geirdal skólastjóri Gerðaskóla fjallaði um athyglisverða rannsókn sem hann vann og fjallar um áhrif efnahags fjölskyldna og annarra ytri þátta á námsárangur nemenda. Forvarnanefndin Sunna er sameiginlegt forvarnateymi Garðs, Sandgerðis og Voga, með þátttöku lögreglu, grunnskóla, félagsmiðstöðva og félagsþjónustu. Frábært starf þarna á ferð.

Afmælisveisla í Vogum.

Á þriðjudaginn hittumst við bæjarstjórarnir á Suðurnesjum á bæjarskrifstofunni í Vogum.  Við hittumst reglulega til að fara yfir ýmis málefni og eigum mjög gott samstarf. Nú brá svo við að Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í Vogum átti afmæli á þriðjudaginn, en þann dag var einnig baráttudagur kvenna.  Við sungum fyrir hann afmælissönginn og í staðinn fengum við dýrindis afmælis veitingar. Fundurinn var óvenju árangursríkur og góður !

Afmælisfundur bæjarstjóranna. Róbert, Magnús, Ásgeir, Sigrún og Kjartan Már.
Afmælisfundur bæjarstjóranna. Róbert, Magnús, Ásgeir, Sigrún og Kjartan Már.

Upplestrarkeppni í Gerðaskóla.

Á fimmtudaginn var upplestrarkeppni nemenda úr Gerðaskóla og skólunum í Vogum og Grindavík haldin í Gerðaskóla. Upplestrarkeppni grunnskólanema hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn af stóru viðburðunum á hverju skólaári og er jafnan nokkur spenna í tengslum við hana. Upplestrarkeppnin í Gerðaskóla gekk mjög vel og var gerður góður rómur af upplestri nemendanna. Nemendum Gerðaskóla hefur jafnan gengið vel í þessari keppni og að þessu sinni hlaut Amelía Davíðsdóttir nemandi í Gerðaskóla 2. sæti í keppninni. Til hamingju allir sem tóku þátt í þessari skemmtilegu keppni, sem fyrir utan keppnina sjálfa er mikilvægur liður í því að halda börnum að lestri og að rækta íslenskar bókmenntir.

Styrkir úr Uppbyggingarsjóði.

Á fimmtudaginn voru afhentir styrkir úr Uppbyggingasjóði Suðurnesja. Mörg frábær verkefni fengu styrk úr sjóðnum. Nokkrir styrkir voru veittir aðilum í Garði, eða sem tengjast verkefnum í Garði. Þessi verkefni eru Ferskir vindar, Hollvinir Unu vegna endurbóta á Sjólyst, Garðskagi ehf. vegna ferðaþjónustu á Garðskaga, Guðmundur Magnússon vegna heimildamyndar um Guðna á trukknum. Þar að auki er styrkur til heimildamyndar um knattspyrnulið Víðis, gulldrengina og auk þess hlaut Einar Friðrik Brynjarsson starfsmaður Garðs styrk vegna verkefnisins GrasPro. Þessir styrkir skipta miklu máli fyrir þau verkefni sem hlutu styrki, reynsla síðustu ára er að þessir styrkir hafa mjög jákvæð áhrif á atvinnu-og menningarlíf á Suðurnesjum. Til hamingju allir.

Styrkhafar. Mireya Samper Ferskir vindar, Kristjana Kjartansdóttir fh. Hollvina Unu, Jóhann Ísberg fh. Garðskaga ehf., Guðmundur Magnússon fyrir Guðna á trukknum.
Styrkhafar. Mireya Samper Ferskir vindar, Kristjana Kjartansdóttir fh. Hollvina Unu, Jóhann Ísberg fh. Garðskaga ehf., Guðmundur Magnússon fyrir Guðna á trukknum.

Mikið um að vera um komandi helgi.

Nú um helgina verður Safnahelgi Suðurnesja. Öll söfn á svæðinu verða opin almenningi án aðgangseyris. Í Garði verður byggðasafnið opið, þar verður áhugaverð ljósmyndasýning af bílum Garðmanna gegnum tíðina og frumsýnd verður heimildamynd um nýlokna listahátíð Ferskra vinda. Sjólyst verður opin, Gallery Ársól sömuleiðis og allir eru velkomnir í Ævintýragarð Helga Valdimarssonar að Urðarbraut 4. Nánar um dagskrá Safnahelgar á safnahelgi.is.

Íslandsmót fatlaðra í íþróttum verður í Reykjanesbæ um helgina. Íþróttafélagið Nes er framkvæmdaraðili, en Sveitarfélagið Garður hefur átt ánægjulegt samstarf við íþróttafélagið undanfarin ár með það að markmiði að hlú að og efla íþróttaþátttöku fatlaðra á Suðurnesjum. Íþróttafélagið Nes á samstarf við sveitarfélögin á Suðurnesjum vegna íslandsmótsins og við væntum mikils af mörgum frábærum íþróttamönnum á Suðurnesjum á þessu íslandsmóti.

Síðast en ekki síst, þá verður mikið um að vera í Íþróttamiðstöðinni á morgun, laugardag. Mikil aðsókn hefur verið að líkamsræktinni í vetur og ekki síst í hópatíma, þar sem hefur verið mikið líf og fjör. Á morgun munu fjölmargir sem hafa stundað ræktina að kapp leiða saman hesta sína í skipulögðu þrekmóti. Bakhjarl mótsins er SI verslun og er þrekmótið kennt við SI verslun. Það er klárt að það verður vel tekið á því á morgun og vitað er um marga sem eru stútfullir af keppnisanda og ætla sér stóra hluti í mótinu. Það er kraftur og aukið þrek í Garðbúum.

Veðrið.

Það skiptust á skin og skúrir þessa vikuna, í bókstaflegri merkingu ! Vikan byrjaði með sunnan roki og rigningu. Sól og blíða á þriðjudag, vor í lofti ! Rigning og síðan sól og blíða á miðvikudag. Það syrti í álinn á fimmtudag og föstudag, með suðvestan átt og éljum. Upphaf vikunnar gaf góð fyrirheit um að vorið nálgist, en síðari hluti vikunnar minnir okkur á að ennþá er vetrartíð um miðjan mars.

Góða helgi.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

9. vika 2015.

Eddan aftur í Garðinn.

Fyrir ári síðan hlaut Kristín Júlla Kristjánsdóttir Edduverðlaun fyrir gervi í kvikmyndinni Vonarstræti. Hún endurtók leikinn að þessu sinni og hlaut Edduverðlaun fyrir gervi í kvikmyndinni Hrútar. Bæjarstjórinn er stoltur af Garðbúanum Kristínu Júllu, sem hefur ítrekað sýnt fram á færni sína á þessu sviði. Til hamingju með Edduna Kristín Júlla !

Kristín Júlla fékk Edduverðlaun 2016
Kristín Júlla fékk Edduverðlaun 2016

Ferskir vindar fá hvatningarverðlaun.

Á vetrarfundi ferðaþjónustunnar á Reykjanesi, sem haldinn var í Hljómahöllinni sl. miðvikudag, voru veittar viðurkenningar. Listahátíðin Ferskir vindar í Garði hlut hvatningarverðlaun ferðaþjónustunnar og Reynir Sveinsson í Sandgerði hlaut þakkarverðlaun. Við í Garði erum að sjálfsögðu ánægð með viðurkenninguna og óskum Mireyu Samper og sveitarfélaginu til hamingju með hana. Þá sendum við hamingjuóskir til Reynis og þakkir fyrir framlag hans til ferðaþjónustu á Reykjanesi.  Þess má geta að Listahátíðin Ferskir vindar er tilnefnd til Menningarverðlauna DV. Það er ánægjulegt hve mikla athygli Ferskir vindar í Garði hafa fengið, enda einstök og alþjóðleg listahátíð sem hefur gengið mjög vel. Garðurinn er menningarbær.

Reynir og Mireya með verðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi. (Mynd: Víkurfréttir).
Reynir og Mireya með verðlaun ferðaþjónustunnar á Reykjanesi. (Mynd: Víkurfréttir).

Fundur í bæjarstjórn.

Á miðvikudag var fundur bæjarstjórnar Garðs. Á dagskrá fundarins voru fundargerðir nefnda og stjórna, bæði fastanefnda sveitarfélagsins og nefnda og stjórna sem sveitarfélagið á aðild að með öðrum sveitarfélögum. Meðal þess sem bæjarstjórn samþykkti eru úthlutunarskilmálar vegna lóða innan deiliskipulags í Útgarði, þar sem m.a. liggur fyrir umsókn um lóð undir nýja hótelbyggingu. Þá var samþykkt að ný gata innan þessa deiliskipulags fái heitið Norðurljósavegur. Góður samstarfsandi er meðal bæjarfulltrúa í bæjarstjórninni og góð samstaða um nánast öll mál sem eru leidd til lykta.

Vetrarfundur ferðaþjónustunnar á Reykjanesi.

Eins og fram kemur hér að framan, þá var Vetrarfundur ferðaþjónustunnar á Reykjanesi haldinn í Hljómahöllinni sl. miðvikudag. Þar voru flutt ýmis áhugaverð erindi og í þeim komu fram athyglisverðar upplýsingar og staðreyndir um ferðaþjónustu á Reykjanesi og í reynd landinu öllu. Enn og aftur kemur í ljós hve gríðarleg sóknarfæri eru á Reykjanesi varðandi aukna ferðaþjónustu, einnig kom fram að mjög margt er í farvatninu við uppbyggingu í þeim efnum á svæðinu. Á fundinum var m.a. rætt um umdeilda gjaldtöku á ferðamenn sem heimsækja Ísland og einnig um mikilvægi þess að leggja áherslu á ábyrga ferðamennsku í landi þar sem dæmin sanna að getur verið hættulegt að ferðast um, sérstaklega ef ferðamenn huga ekki að þeim efnum fyrirfram. Varðandi gjaldtöku, þá voru nefnd mörg dæmi um alls kyns gjaldtöku víða erlendis sem ferðamenn þurfa að greiða, til þess m.a. að fá leyfi til þess að fara á ákveðna staði. Það er aðkallandi að fá botn í þessi mál sem allra fyrst, enda mikil þörf víða um land að fjármagna uppbyggingu innviða og standa undir kostnaði við að tryggja sem best verndun einstakrar náttúru landsins.

Skiphóll, blað allra Garðmanna.

Nú í desember síðast liðnum kom blaðið Skiphóll út í 38. sinn. Blaðið hefur alltaf komið út í desembermánuði og fjallar um málefni Garðs, söguna og fólkið. Það er í raun ótrúlegt að blaðið eigi jafn langa og óslitna útgáfusögu og myndar í raun verðmætan menningararf og varðveitir sögu byggðarlagsins í gegnum tíðina. Nýjasta blaðið, ásamt eldri blöðum eru aðgengileg á heimasíðunni svgardur.is. Fljótlega mun birtast sérstakur moli um hið merkilega blað Skiphól.

Forsíða blaðsins Skiphóll 2015.
Forsíða blaðsins Skiphóll 2015.

Veðrið.

Framan af vikunni var frekar hlýtt í veðri og rigning á köflum. Um miðja vikuna brast á með yndislegu veðri, logni og sólskini og hélst milt veður og hægviðri fram undir helgina. Jörð er nánast auð af snjó og klaka.

Góða helgi

Facebooktwittergoogle_plusmail