8. vika 2016.

Þorri og Góa.

Nú er Þorri liðinn hjá og Góa tekin við. Tíminn líður hratt, mars gengur í garð eftir helgina. Sól hækkar jafnt og þétt á lofti, fyrr en varir verða Páskar liðnir hjá og blessað vorið ræður ríkjum.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði. Ýmis mál voru á dagskrá fundarins, undir einum dagskrárlið komu góðir gestir á fundinn. Það voru fulltrúar Hrafnistu og formaður stjórnar DS, en Hrafnista rekur hjúkrunarþjónustu við aldraða í Hlévangi, sem er í eigu sveitarfélaganna sem standa að DS. Gestirnir fóru yfir starfsemina og brýna þörf á viðhaldi og endurbótum á húsnæðinu. Nánar verður fjallað um það síðar og tekin afstaða til málsins. Almennt sjónarmið er að aldraðir eigi að búa við þá bestu aðstöðu og þjónustu sem völ er á. Þá var á fundinum fjallað um framtíðarþróun á svæðinu Ásbrú norður, sem liggur í norðurátt frá flugstöðinni og inn á Miðnesheiði. Þar er um að ræða mjög mikilvægt mál sem varðar mikla framtíðarhagsmuni og snýst um skipulag og uppbyggingu á þjónustustarfsemi í tengslum við Keflavíkurflugvöll og þá stórauknu umferð ferðafólks sem á sér stað. Loks má nefna að fjallað var um tillögur um breytingar á húsnæði byggðasafnsins á Garðskaga, sem miða að því að bæta aðstöðu og rekstrarskilyrði ferðaþjónustu á Garðskaga.

Fulltrúar Ungmennaráðs á ráðstefnu.

Í síðustu viku sóttu tveir fulltrúar Ungmennaráðs Garðs, ásamt íþrótta-og æskulýðsfulltrúa sveitarfélagsins ráðstefnuna „Skipta raddir ungs fólks máli“, sem haldin var á Hilton hótelinu í Reykjavík. Ráðstefnan var haldin á vegum Evrópu unga fólksins í samstarfi við ýmis samtök sem vinna að málefnum ungs fólks. Það er jafnan fróðlegt og uppbyggilegt fyrir ungt fólk að koma saman og fjalla um málefni sín, ásamt því að hitta jafnaldra sína alls staðar að af landinu og bera saman bækur. Þeir Helgi Líndal og Halldór Gíslason munu án efa miðla sinni reynslu og þeim upplýsingum sem fram komu á ráðstefnunni til Ungmennaráðs, allt í þeim tilgangi að efla starfsemi ráðsins og vinna að hagsmunamálum ungmenna í Garði.

Helgi og Halldór á ráðstefnu ungmenna.
Helgi og Halldór á ráðstefnu ungmenna.
Fjölmenni á ráðstefnunni "Skipta raddir ungs fólks máli".
Fjölmenni á ráðstefnunni „Skipta raddir ungs fólks máli“.

Aðalfundur Víðis.

Í vikunni var haldinn aðalfundur Knattspyrnufélagsins Víðis. Það er vart í frásögur færandi, nema fyrir það að annars vegar verður Víðir 80 ára á þessu ári og aðalfundurinn kaus sér formann af kvenkyni. Félagið mun halda upp á afmæli sitt á þessu ári og vonandi færir knattspyrnulið meistaraflokks karla félaginu að gjöf að sigra 3. deildina. Nýr formaður félagsins er Guðlaug Sigurðardóttir (Gullý), en samkvæmt heimildum Mola er hún fyrsti kvenkyns formaður knattspyrnufélags á Suðurnesjum og þótt víðar væri leitað. Við óskum Gullý til hamingju með kjörið og óskum henni velfarnaðar í hlutverki formanns Víðis.

Veðrið.

Ágætt vetrarveður í byrjun vikunnar og fram eftir vikunni, hægviðri og hiti um frostmark. Í gær, fimmtudag snerist í suðlæga átt með rigningu og slyddu. Nú í morgun á föstudegi, þegar Garðbúar fóru til sinna starfa kom í ljós að nokkuð hafði snjóað í nótt. Moksturstæki voru komin á fulla ferð snemma í morgun til að hreinsa götur, plön og stíga. Ágætt útlit er með veðrið um komandi helgi.

 

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail

7. vika 2016.

Róleg vika.

Það hefur verið frekar rólegt yfir þessari viku, ef litið er til viðburða í Garði. Jón Ögmundsson fyrrverandi aðstoðarskólastjóri Gerðaskóla varð sextugur í vikunni og er honum óskað til hamingju með þann áfanga. Lífið heldur sinn vanagang og fyrr en varir verður febrúarmánuður runninn hjá. Konudagurinn er á sunnudaginn, þá er Þorri liðinn og Góa tekur við. Óðum styttist í Páska og vorið er í seilingar fjarlægð.

Ferskir vindar og Eyrarrósin.

Eins og fram hefur komið var listahátíðin Ferskir vindar í Garði eitt af þremur menningarverkefnum á landsbyggðinni sem voru tilnefnd til að hljóta Eyrarrósina að þessu sinni. Eyrarrósin var afhent í Frystiklefanum á Rifi í Snæfellsbæ í gær, fimmtudag og féll hún í skaut Verksmiðjunnar á Hjalteyri. Það er frábær árangur að Ferskir vindar skuli hafa verið eitt af þremur menningarverkefnum á landsbyggðinni sem komu til greina að hljóta Eyrarrósina og er ákveðin viðurkenning fyrir Ferska vinda. Við óskum Verksmiðjunni á Hjalteyri til hamingju með Eyarrósina.

Mireya Samper ánægð með blómvöndinn við afhendingu Eyrarrósar í Frystiklefanum í Rifi.
Mireya Samper ánægð með blómvöndinn við afhendingu Eyrarrósar í Frystiklefanum í Rifi.
Bæjarstjórinn, Mireya og fulltrúi Verksmiðjunnar á Hjalteyri við afhendingu Eyrarrósar.
Bæjarstjórinn, Mireya og fulltrúi Verksmiðjunnar á Hjalteyri við afhendingu Eyrarrósar.

Víðir.

Undirbúningstímabil knattspyrnumanna fyrir íslandsmótin í sumar stendur nú sem hæst, með tilheyrandi æfingaleikjum og mótsleikjum. Knattspyrnulið Víðis í Garði hefur leikið nokkra leiki að undanförnu og í vikunni sigraði Víðir lið KFS í Fótbolti.net æfingamótinu og mun Víðir leika til úrslita við nágrannana í Þrótti Vogum um sigur í riðlinum. Víðismenn munu koma sterkir til leiks þegar íslandsmótið hefst í maí og ætla sér eflaust stóra hluti á þessu afmælisári félagsins.

Veðrið.

Veðrið í vikunni hefur einkennst af umhleypingum. Um síðustu helgi var fallegt vetrarveður, sérstaklega á sunnudaginn en þá var logn, sólskin og hitastig rétt ofan við frostmark. Fjörið byrjaði svo á mánudag, með sunnanátt og rigningu. Aðfararnótt þriðjudags var hvöss vestanátt og margir Garðbúar hrukku upp um miðja nótt við mikið haglél sem dundi á rúðum húsa í bænum. Um miðja viku skiptist á snjókoma og bjart veður, nú undir helgina hefur snjóað og hlánað á víxl.

Helgin framundan.

Molar óska konum landsins fyrirfram til hamingju með konudaginn á sunnudag – Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

6. vika 2016.

Stórveislur og öskudagur.

Þessi vika fól í sér bolludag, sprengidag og svo öskudag. Í upphafi vikunnar voru rjómabollur um allar trissur á bolludaginn og síðan voru víða miklar veislur á sprengidaginn, þar sem saltkjöt og baunasúpa voru á boðstólum. Eftir öll þessi veisluhöld var komið að öskudeginum á miðvikudaginn. Að venju voru börn dulbúin í alls kyns búningum og víða voru furðuverur á ferli. Hér í Garðinum fór mikið fyrir börnum sem fóru í hópum um bæinn, heimsóttu fyrirtæki og stofnanir þar sem þau fengu eitthvað gott í gogginn. Söngur barnanna ómaði allan daginn á bæjarskrifstofunni. Seinni part dagsins var öskudagshátíð í íþróttahúsinu, þar sem köttur var sleginn úr tunnu. Að vísu var ekki köttur í tunnunni, en afrakstur barnanna var góðgæti sem allir fengu. Það var mikið líf og fjör í íþróttahúsinu, góð mæting eins og myndir hér fyrir neðan bera vitni um.

Öskudagur í íþróttahúsinu.
Öskudagur í íþróttahúsinu.
Lína Langsokkur var mætt í íþróttahúsinu.
Lína Langsokkur var mætt í íþróttahúsinu.

Dagur tónlistarskólans.

Á morgun, laugardag munu nemendur tónlistarskólans verða með tónlistarflutning, kl. 11:00 í Miðgarði í Gerðaskóla. Er það í tilefni dags tónlistarskólans. Garðbúar eru hvattir til að mæta og njóta framlags tónlistarfólksins.

Tónlistarskólinn Garði

Ungmennaráð.

Síðasta laugardag var sameiginlegur fundur ungmennaráða Sveitarfélagsins Garðs og Sandgerðisbæjar, fundurinn var í fundarsal bæjarstjórnar Garðs. Ungmennaráðið í Garði hefur verið vel virkt og fundað reglulega við leiðsögn Guðbrandar íþrótta-og æskulýðsfulltrúa. Þá hefur ungmennaráðið mætt á fundi hjá bæjarstjórn, þar sem málefni ungmenna í Garði hafa verið til umræðu. Það var vel til fundið og ánægjulegt að ungmennaráðin í Garði og Sandgerði hafi fundað sameiginlega. Þar fóru þau yfir ýmis málefni sem þau eiga sameiginleg, meðal annars samstarf ungmenna sveitarfélaganna á ýmsum sviðum.

Ungmennaráð Garðs og Sandgerðis.
Ungmennaráð Garðs og Sandgerðis.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði og voru allmörg mál á dagskrá fundarins. Þar á meðal var erindi frá aðilum sem vinna að heimildamynd um knattspyrnulið Víðis, sem gerði garðinn frægan, lék í efstu deild og til úrslita í bikarkeppni. Samþykkt var að ganga til samstarfs um gerð myndarinnar. Þá var fjallað um vetrarfund SSS, sem verður haldinn hér í Garði síðar í vetur og var samþykkt tillaga um málefni til umræðu á fundinum. Þá má nefna erindi frá Umboðsmanni barna, sem brýnir sveitarfélög til að hafa hagsmuni barna í fyrirrúmi, umfram fjárhagslega hagsmuni, en bæjarstjórn Garðs vinnur einmitt í þeim anda. Fundargerð bæjarráðs mun síðan verða á dagskrá bæjarstjórnar á næsta fundi, í byrjun mars. Margt er um að vera á vettvangi bæjarfulltrúa í Garði, enda gróska á ýmsum sviðum.

Hálka.

Þegar veður er umhleypingasamt á þessum árstíma vill bera við að klaki liggur yfir öllu þegar frystir eftir að snjóalög hlána.  Um og eftir síðustu helgi voru uppi slíkar aðstæður hér í Garðinum og þá er betra að gæta sín í umferðinni, hvort sem er gangandi eða akandi. Starfsmenn sveitarfélagsins leitast við að beita hálkuvörnum, en engu að síður er varasöm hálka hér og þar. Einn morgun í vikunni fóru leikskólabörnin út í göngutúr og þurftu að gæta sín í hálkunni. Myndin hér að neðan var tekin út um glugga á skrifstofu bæjarstjórans, en þar má sjá leikskólabörnin í fylkingu í göngutúr í hálkunni.

Leikskólabörn í göngutúr.
Leikskólabörn í göngutúr.

Ferskir vindar og Eyrarrósin.

Listahátíðin Ferskir vindar í Garði er tilnefnd til verðlauna Eyrarrósarinnar í ár. Eyrarrósin er veitt árlega sem viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni.  Ferskir vindar eru eitt af þremur menningarverkefnum sem koma til greina að hljóta Eyrarrósina að þessu sinni. Úrslit munu liggja fyrir þann 18. febrúar, þegar Dorrit Moussaieff forsetafrúin okkar mun afhenda Eyrarrósina á Rifi í Snæfellsbæ. Til hamingju með þennan áfanga Ferskir vindar, við vonum að Eyrarrósin að þessu sinni komi í Garðinn !

Eyrarrósin, viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni.

Afreksfólk í Garði.

Þótt svo íþróttalífið í Garði einkennist helst af knattspyrnu og að margir garðmenn hafi gert garðinn frægan á knattspyrnuvöllunum, þá leggja garðmenn stund á ýmsar aðrar íþróttagreinar og hafa náð góðum árangri. Nú í lok árs 2015 hlutu tveir efnilegir garðmenn titilinn íþróttamaður ársins í mismunandi íþróttagreinum. Ægir Már Baldvinsson var útnefndur júdómaður UMFN og Atli Viktor Björnsson fimleikamaður Keflavíkur. Bæjarstjórinn óskar þeim til hamingju með frábæran árangur og eru þeir hvattir til frekari dáða í framtíðinni.

Ægir Már Baldvinsson júdómaður UMFN 2015
Ægir Már Baldvinsson júdómaður UMFN 2015
Atli Viktor Björnsson fimleikamaður Keflavíkur 2015.
Atli Viktor Björnsson fimleikamaður Keflavíkur 2015.

Fleira afreksfólk í Garði.

Á síðasta ári hlaut Kristín Júlla Kristjánsdóttir förðunarmeistari Edduverðlaun fyrir gervi í kvikmyndinni Vonarstræti. Í ár er Kristín Júlla tilnefnd til Edduverðlauna fyrir gervi í kvikmyndinni Hrútar og verða verðlaun afhent í lok febrúar. Garðbúar eru stoltir af afrekum Kristínar Júllu í kvikmyndaheiminum og færni hennar í sínu fagi fer ekki milli mála. Það væri frábært að fá önnur Edduverðlaun í Garðinn í ár.

Kristín Júlla með Edduna 2015
Kristín Júlla með Edduna 2015

Veðrið.

Svöl norð-austan átt í byrjun vikunnar, en bjart veður. Um miðja vikuna var stillt, bjart og fallegt vetrarveður. Á öskudag var hægviðri og sólskin, það gefur von um góða tíð næstu daga, ekki síst ef gengið er út frá þjóðtrúnni að öskudagur eigi sér átján bræður. Ekki gekk það hins vegar alveg eftir, því á fimmtudagsmorguninn snjóaði töluvert í logni. Þegar þessi molar eru skrifaðir á föstudagsmorgni er hins vegar logn, 1° frost og útlit fyrir bjartan og góðan dag.

Góða helgi

Facebooktwittergoogle_plusmail

5. vika 2016.

Dagur leikskólans er í dag.

Í dag, föstudag er dagur leikskólans. Að þessu sinni er dagur leikskólans tileinkaður fjölgun karla í kennslu yngri barna. Í leikskólanum Gefnarborg er opið hús í dag og er körlum sérstaklega boðið í heimsókn. Karlar eru hér með hvattir til að heimsækja leikskólann, kynna sér það metnaðarfulla og góða starf sem þar er unnið, með hagsmuni barnanna í fyrirrúmi. Bæjarstjóri fór að sjálfsögðu í heimsókn til barnanna og starfsfólks leikskólans Gefnarborgar, þar var líf og fjör að vanda. Í tilefni dagsins var listasýning þar sem til sýnis var afrakstur barnanna eftir fjögurra vikna vinnu í listasmiðju. Til hamingju með daginn leikskólar og leikskólabörn.

Leikskólinn Gefnarborg hefur löngum verið fjölþjóðlegur. Alls hafa börn af 17 þjóðernum verið í leikskólanum gegnum tíðina. Í dag eru börn af 6 þjóðernum í leikskólanum.

Þjóðfánar barna sem hafa verið í leikskólanum Gefnarborg, 17 þjóðerni.
Þjóðfánar barna sem hafa verið í leikskólanum Gefnarborg, 17 þjóðerni.
Sumarhátíð leikskólans  Gefnarborgar 2015.
Sumarhátíð leikskólans Gefnarborgar 2015.

Heimsókn lögreglu.

Lögreglustjóri kemur árlega á fund með sínu fólki þar sem fjallað er um ýmis mál, þar á meðal er farið yfir margþætta tölfræði um verkefni lögreglunnar. Slíkur fundur var fyrir nokkrum dögum á bæjarskrifstofunni. Ef tekið er mið af tölfræði lögreglunnar, þá er mjög rólegt og lítið sem kemur upp á í Garðinum, sem er mjög ánægjulegt. Lögreglan leggur sig fram um að eiga gott samstarf við sveitarfélögin og samskipti starfsfólks sveitarfélagsins við lögregluna eru regluleg og góð. Þar að auki hefur Krissi hverfislögga aðsetur hér á bæjarskrifstofunni, lögreglan hugsar vel um samfélagið í Garði.

Með lögum skal land byggja
Með lögum skal land byggja

Fundur í bæjarstjórn.

Fundur var í bæjarstjórn í vikunni. Að vanda var fjallað um ýmsar fundargerðir nefnda og ráða. Þar á meðal var fundargerð Jafnréttisnefndar sem skilaði bæjarstjórn tillögu um jafnréttisáætlun sveitarfélagsins. Jafnréttisáætlun var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn. Fundur bæjarstjórnar að þessu sinni tók óvenju stuttan tíma, sem er m.a. til marks um mjög góðan samstarfsanda í bæjarstjórn.

Ungmennaráð funda.

Á morgun, laugardag munu ungmennaráð Garðs og Sandgerðis funda sameiginlega. Tilgangurinn er m.a. að efla samstarf og samskipti ungmennaráða sveitarfélaganna. Það er gott og hollt fyrir fulltrúa ungmennaráðanna að hittast og bera saman bækur sínar. Eflaust munu út úr því koma góðar hugmyndir og tillögur sem ungmennaráðin munu beina til sinna bæjarstjórna og fela í sér hagsmunamál ungmenna í sveitarfélögunum.

Veðrið.

Um sl. helgi var svalt, en upp úr helginni brast á með fallegu vetrarveðri, 2°frost með hægviðri og sól á mánudaginn. Fram eftir vikunni var veður ágætt, en í gær fimmtudag kom veðurskot með hvassviðri og ofankomu. Þennan morguninn er fallegt vetrarveður, sólin skín og það er logn og nokkuð svalt.

Góða helgi.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail