4. vika 2016.

Þorrablótið.

Þorrablót Suðurnesjamanna var haldið í íþróttamiðstöðinni í Garði sl. laugardag. Vel yfir 600 manns mættu á blótið, þar sem voru frábær skemmtiatriði, dansleikur og ljúffengur þorramatur. Þorrablótið tókst vel í alla staði og var mikil ánægja með það meðal blótsgesta. Knattspyrnufélagið Víðir og Björgunarsveitin Ægir sáu um undirbúning og framkvæmd þorrablótsins, sem tókst vel og var til fyrirmyndar. Hápunktur skemmtidagskrárinnar var frumsýning á Þorraskaupi Víðisfilm, en nokkrir félagar í Víði hafa undanfarin ár sett saman skemmtilega mynd þar sem garðbúar eru plataðir til að gera ótrúlegustu hluti, gert góðlátlegt grín og eftirminnileg atvik síðasta árs sett í skemmtilegan búning. Góður rómur var gerður að myndinni, enda vel gerð og heppnuð.

Það liggur mikil vinna að baki svona myndarlegu þorrablóti. Margir einstaklingar lögðu af mörkum mikla sjálfboðaliðavinnu í undirbúningi blótsins og meðan það stóð yfir, fyrir það er þakkað.

Hæfileikakeppni SAMSUÐ.

Um síðustu helgi fór fram hæfileikakeppni SAMSUÐ í Stapa í Reykjanesbæ.  SAMSUÐ stendur fyrir Samtök félagsmiðstöðva á Suðurnesjum. Í hæfileikakeppninni voru dansatriði, trommaradúet spilaði, leikið var á píanó, fimleikaatriði komu fram og nokkrir söngvarar tóku lagið. Íris Ósk Benediktsdóttir söngkona í Garðinum mun í framhaldinu taka þátt í landshlutaúrslitum í söngvarakeppni SAMFÉS í kvöld (föstudag). Í hæfileikakeppninni um síðustu helgi var m.a. trommaradúet, þar sem tveir trommuleikarar úr Garði spiluðu saman á tvö trommusett og vakti það mikla lukku. Þessir efnilegu trommarar eru Eiður Smári Rúnarsson og Alexander Franzson. Þá lék Eva Rós Jónsdóttir á píanó. Gaman að fylgjast með þessum efnilegu garðbúum á listasviðinu.

Við óskum Írisi Ósk góðs gengis í söngvarakeppni í kvöld.

Fulltrúar Garðs í hæfileikakeppni SAMSUÐ: Alexander Franzson, EiðurSmári Rúnarsson, Íris Ósk Benediktsdóttir, Eva Rós Jónsdóttir.
Fulltrúar Garðs í hæfileikakeppni SAMSUÐ: Alexander Franzson, EiðurSmári Rúnarsson, Íris Ósk Benediktsdóttir, Eva Rós Jónsdóttir.

Heimildamynd um Ferska vinda. 

Guðmundur Magnússon kvikmyndagerðarmaður í Garði vann að upptökum í heimildamynd um listahátíðina Ferska vinda. Myndin verður aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins þegar hún verður fullbúin. Það er mikilvægt að safna heimildum um slíka viðburði og halda þeim til haga. Guðmundur hefur lagt mikið af mörkum í þeim efnum, bæði við gerð kvikmynda um Garðinn og íbúana og eins hefur hann safnað miklu magni ljósmynda um sögu byggðarlagsins. Hann vinnur að því að gera þetta efni aðgengilegt fyrir almenning.  Guðmundur er því einn þeirra listamanna sem vann að listsköpun meðan listahátíðin stóð yfir.

Heimsókn vest-norrænna þingmanna.

Í gær, fimmtudag komu góðir gestir í heimsókn í Garðinn. Þar var á ferð hópur þingmanna sem sitja í VestNorræna ráðinu (Vest Norden), en þingmenn frá Grænlandi, Færeyjum og Íslandi skipa Vest Norræna ráðið og þeir funda í þessum löndum til skiptis. Að þessu sinni fundar ráðið á Íslandi, nánar tiltekið í Grindavík og notuðu þingmenn lausan tíma til þess að ferðast um Suðurnesin. Oddný Harðardóttir alþingismaður og fyrrverandi bæjarstjóri í Garði á sæti í ráðinu fyrir hönd Alþingis, að sjálfsögðu bauð hún upp á ferð í sinn heimabæ í Garði. Hópurinn kom á Garðskaga og inn í Garðskagavita, þar sem Una María Bergmann söng fyrir hópinn. Ánægjan skein úr andliti hvers manns með þá upplifun, það er alltaf ánægjulegt að taka á móti góðum gestum og verða vitni að upplifun þeirra við heimsókn á Garðskaga.

Þjóðfánar Vest Norden landanna.
Þjóðfánar Vest Norden landanna.
Fulltrúar í Vest Norræna ráðinu við Garðskagavita hinn eldri, ásamt bæjarstjóra.
Fulltrúar í Vest Norræna ráðinu við Garðskagavita hinn eldri, ásamt bæjarstjóra.

Veðrið.

Hlýtt og gott í upphafi vikunnar, kólnaði heldur um miðja vikuna og fór að snjóa.  Undir lok vikunnar var hvít snjóþekja yfir öllu, hægviðri og frost. Sl. nótt snerist yfir í norðlæga átt með köldum vindi.

Mánaðaskil.

Tíminn líður oft ótrúlega hratt. Nú er janúar að renna sitt skeið á enda og þar með hefur enn einn mánuður vetrarins liðið hjá. Sólin hækkar á lofti frá degi til dags. Enn er þó nokkuð eftir af vetrartímanum, en með hverri vikunni sem líður styttist í vorið.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail

3. vika 2016.

Bóndadagur.

Í dag, föstudag er bóndadagurinn sem markar upphaf Þorra. Einhvers staðar hefur verið þjófstartað með þorrablót um síðustu helgi, en nú hefst mánuður þorrablóta um land allt. Góður siður sem nýtur sívaxandi vinsælda, sem m.a. má sjá af aukinni aðsókn að þorrablótum. Karlmenn landsins eiga samkvæmt gömlum og góðum siðum von á einhverju góðu í dag, kvenfólkið á að gera okkur strákunum eitthvað gott í tilefni bóndadagsins 🙂

Til hamingju með daginn kæru kynbræður !

Þorrablót í Garði.

Á morgun, laugardag verður þorrablót suðurnesjamanna hér í Garði. Hátt í 700 manns munu mæta þar og blóta þorrann. Glæsileg skemmtiatriði hafa verið boðuð og að venju verður dýrindis matur í boði. Stemmningin hefur aukist í Garði eftir því sem liðið hefur á vikuna og nær hámarki annað kvöld.

Ferskir vindar.

Listahátíðinni Ferskum vindum lauk um síðustu helgi. Hátíðin tókst vel og var ánægjulegt hve margir heimamenn og gestir tóku þátt og fylgdust með listafólkinu. Sýningar voru almennt vel sóttar. Við þökkum Ferskum vindum, forsvarsfólki og listamönnum fyrir ánægjulegt samstarf þann tíma sem hátíðin stóð yfir. Garðurinn er enn ríkari af listaverkum eftir hátíðina.

Bæjarráð.

Bæjarráð fundaði í vikunni. Á fundinum var fjallað um erindi frá Kaupfélagi Suðurnesja, sem eins og kunnugt er vinnur að því að byggja upp þjónustumiðstöð við Rósaselstorg innan Sveitarfélagsins Garðs. Þá lá fyrir fundinum minnisblað frá bæjarstjóra af fundi bæjarfulltrúa með framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja þar sem lyktarmengun frá hausaþurrkunarfyrirtækjum var til umfjöllunar. Lagt var fram samkomulag við Garðskaga ehf, um samstarf við uppbyggingu og ferðaþjónustu á Garðskaga, bæjarráð staðfesti samkomulagið. Loks var erindi frá aðilum sem vilja gera heimildamynd um gullaldarár Víðis í knattspyrnu karla, en sem kunnugt er var Víðir á sínum tíma eitt af stórveldunum í íslenskri knattspyrnu. Alltaf nóg um að vera á vettvangi sveitarfélagsins.

Veðrið.

Blíðskaparveður í upphafi vikunnar, mikil upplifun á þriðjudagsmorguninn þegar sólin kom upp í austri og rauðum lit sló á fjallahringinn handan flóans. Það var ótrúlega fallegt listaverk. Að öðru leyti hefur verðrið verið ágætt alla vikuna, það er ekki eins og nú sé hávetur í janúar.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail

2. vika 2016.

Lista- og menningarbærinn Garður.

Það hefur verið mikið um að vera á sviði lista og menningar í Garði undanfarnar vikur. Á laugardaginn um síðustu helgi var listahátíðin Ferskir vindar opnuð formlega, að viðstöddu fjölmenni. Þar fluttu ávörp sendiherrar Japan og Frakklands, Dorrit Moussaieff forsetafrú og Illugi Gunnarsson mennta-og menningarmálaráðherra, ásamt bæjarstjóra og Mireyu Samper, sem er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar. Þess má geta að Dorrit er verndari hátíðarinnar. Mikil ánægja var með þær sýningar og viðburði sem um 50 listamenn frá ýmsum löndum buðu upp á. Sýningar og viðburðir verða nú um komandi helgi, bæði á laugardag og sunnudag og er full ástæða til að hvetja sem flesta til þess að njóta þess sem Ferskir vindar bjóða upp á. Dagskrá helgarinnar má sjá á heimasíðu Garðs, svgardur.is, einnig á fresh-winds.com og á facebook síðu Ferskra vinda.

Ferskir vindar færa ferskan blæ inn í samfélagið í Garði nú í byrjun árs, Garðurinn er sannkallaður lista-og menningarbær.

Þátttakendur í Ferskum vindum.
Þátttakendur í Ferskum vindum.
Dorrit Moussaieff á Ferskum vindum.
Dorrit Moussaieff á Ferskum vindum.
Bæjarstjóri með sendiherra Japan og japönskum listamönnum á Ferskum vindum.
Bæjarstjóri með sendiherra Japan og japönskum listamönnum á Ferskum vindum.

Skólastarfið hafið á nýju ári.

Starf skólanna í Garði er komið í sínar föstu skorður eftir jólafríið. Börnin og starfsfólk skólanna fylgja daglegu skipulagi og ekki verður annað séð en það sé kærkomið. Síðari hálfleikur skólaársins er hafinn, dagana lengir og brátt má skynja vorið við sjóndeildarhringinn.

Bæjarstjórnarfundur.

Í vikunni var fyrsti fundur bæjarstjórnar á árinu. Að vanda voru allmörg mál á dagskrá, fundargerðir nefnda sveitarfélagsins og fundargerðir af sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga. Helst bar til að bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu Skipulags-og byggingarnefndar um úthlutun lóðar fyrir hótelbyggingu út undir Garðskaga.

Þorrablót.

Framundan er stærsta þorrablót á Suðurnesjum, Þorrablót Suðurnesjamanna sem haldið verður í íþróttamiðstöðinni í Garði. Knattspyrnufélagið Víðir og Björgunarsveitin Ægir undirbúa og sjá um framkvæmd þorrablótsins og má gera ráð fyrir að hátt í 700 manns muni mæta. Bæjarstjóri hefur gegnum tíðina verið á þorrablótum víða um landið, en það er á engan hallað þótt það sé fullyrt að þorrablótið í Garði sé myndarlegasta og best skipulagða þorrablót sem bæjarstjórinn hefur upplifað. Mikill metnaður er lagður í skemmtidagskrána, þar sem hápunkturinn er frumsýning Víðisfilm á skaupi ársins. Gómsætur og vel fram borinn þorramatur kemur frá Skólamat og Axel sjálfur sér um að stjórna umferðinni við matarborðin. Tilhlökkun og spenna hefur verið að byggjast upp fyrir þorrablótinu og mun magnast fram á næstu helgi.  Þorrablótið í garði verður laugardaginn 23. janúar.

Veðrið.

Um síðustu helgi var veðrið afar fagurt og gott. Logn og sól á köflum en heldur kalt. Sólsetrið síðastliðið sunnudagskvöld var töfrum líkast, með miklum litbrigðum. Eftir helgina varð heldur betur breyting, með snjókomu og skafrenningi á mánudag og fram á þriðjudag og norð-austan kulda strekkingi. Frá því um miðja vikuna hefur verið fallegt vetrarveður, gola á köflum en ekki mjög kalt.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

1. vika 2016.

Gleðilegt og farsælt nýtt ár. Þakkir fyrir samfylgdina á liðnu ári.

Nú í upphafi nýs árs er mikið um að vera í Garði og á vettvangi sveitarfélagsins. Árið hefst því með miklum krafti.

Myndin hér að neðan var tekin á fyrsta degi á nýju ári af Laurent Lafolie-Atelier sem er þátttakandi í Ferskum vindum í Garði. Skemmtilegt sjónarhornu frá gamla vitanum á Garðskagatá.

Nýtt ár á Garðskaga
Nýtt ár á Garðskaga

Listahátíðin Ferskir vindar.

Listahátíðin hófst um miðjan desember og mun standa yfir fram í síðari hluta janúar. Yfir 50 listamenn frá ýmsum þjóðlöndum taka þátt að þessu sinni og vinna þeir að fjölbreyttum listaverkefnum. Það er athyglisvert að fylgjast með vinnu listamannanna og sjá hvernig listaverk þeirra þróast og verða til. Opnunarhátíð verður á morgun, laugardaginn 9. janúar og verða sýningar og kynningar á listaverkum bæði á laugardag og sunnudag. Helgina 16. – 17. janúar verða sýningar einnig opnar með tilheyrandi listviðburðum.

Það er listakonan Mireya Samper sem ber hitann og þungann af undirbúningi og framkvæmd listahátíðarinnar, í samstarfi við Sveitarfélagið Garð. Það er aðdáunarvert hvernig Mireya heldur utan um þetta flókna og mikla verkefni, drífur hlutina áfram og passar upp á að allt gangi eins vel og mögulegt er. Þá vekur aðdáun hve mikla vinnu margir einstaklingar leggja af mörkum í tengslum við listahátíðina.

Bæjarstjórinn hvetur Garðbúa og alla landsmenn til þess að njóta þeirra listviðburða sem eiga sér stað í Garði nú í janúar. Ferskir vindar koma með ferskan blæ inn í samfélagið í Garði nú í upphafi ársins og bjóða upp alls kyns skemmtilega og áhugaverða viðburði.

Nánari upplýsingar um listahátíðina má finna á heimasíðu Ferskra vinda: fresh-winds.com og á Facebook síðunni Fresh Winds in Garður.

Myndirnar hér fyrir neðan eru teknar af Lucie Jean, sem er þátttakandi í Ferskum vindum í Garði, af nokkrum þeirra listamanna sem vinna að listsköpun í Garði.

FV.Collin Mura-Smith

 

FV 2016

 

FV 2016 2

 

FV 2016 3

FV 2016 6

Uppbygging í Garði.

Nú í upphafi árs er mikið um að vera í uppbyggingu atvinnulífs í sveitarfélaginu, sem miðar fyrst og fremst að aukinni þjónustu við ferðafólk. Skipulags-og byggingarnefnd samþykkti í lok árs 2015 að úthluta lóð undir hótelbyggingu og má vænta þess að framkvæmdir hefjist áður en langt líður á árið. Þá vinnur Kaupfélag Suðurnesja að því að byggja upp þjónustumiðstöð innan sveitarfélagsins í nágrenni flugstöðvarinnar. Þar er um að ræða mikil og spennandi áform sem munu meðal annars svara ákalli eftir þjónustu á þessu mikilvæga svæði. Það er spennandi að taka þátt í þeim verkefnum sem eru í gangi og framundan eru í Garði.

Bæjarráð.

Í gær var fyrsti fundur bæjarráðs á nýju ári, þar voru tvö mál á dagskrá. Fjallað var um þjónustusvæði fyrir fatlaða á Suðurnesjum og lá fyrir sameiginlegt minnisblað frá bæjarstjórum allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum um fund með ráðherra og embættismönnum þar sem fjallað var um málið. Þá lagði bæjarstjóri fram minnisblöð og upplýsingar varðandi rekstur sveitarfélagsins á síðasta ári. Hafin er vinna við ársreikning 2015 og verður hann væntanlega afgreiddur af bæjarstjórn í apríl. Útlit er fyrir að rekstrarniðurstöður ársins 2015 verði vel viðunandi.

Jól og áramót.

Um jólin og áramótin var margt um að vera í Garði, hefðbundnar skemmtanir og tilheyrandi. Fyrir jólin voru jólatrésskemmtanir og annað tengt jólunum í skólunum. Þar bar m.a. við að bæjarstjórinn settist við trommusettið og spilaði með ungum og efnilegum tónlistarmönnum á jólatrésskemmtun leikskólans. Kvenfélagið Gefn stóð fyrir jólatrésskemmtun milli jóla og nýárs. Á gamlárskvöld stóð Björgunarsveitin Ægir fyrir stórri og myndarlegri áramótabrennu og mikilli flugeldasýningu, sem var í boði sveitarfélagsins. Margt fleira mætti nefna, en það er ljóst að garðbúar sátu ekki bara heima í rólegheitum um hátíðirnar heldur var margt skemmtilegt um að vera og flest samkvæmt hefðum.

Jólamáltíð í Gerðaskóla.
Jólamáltíð í Gerðaskóla.
Jólatrésskemmtun í Gerðaskóla.
Jólatrésskemmtun í Gerðaskóla.
Jólaball leikskólans, bæjarstjórinn við trommusettið.
Jólaball leikskólans, bæjarstjórinn við trommusettið.

Veðrið.

Nú í upphafi ársins hefur veðrið verið þokkalegt. Hitastigið hefur verið kringum 0°, hægviðri framan af vikunni en eftir miðja vikuna hefur blásið nokkuð og heldur kólnað. Ekki hefur farið fyrir snjókomum þessa vikuna. Það er hávetur og allra veðra von, en sú von lifir að veðurguðirnir verði friðsamir og hófstilltir.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail