50. vika 2016.

Molar voru í fríi í síðustu viku, en mikið hefur verið um að vera í Garði síðustu tvær vikur og er hér m.a. stiklað á stóru um það.

Jólasamkomur og sýningar.

Félagsstarf eldri borgara hélt sýningu á handverki tengdu jólum í Auðarstofu. Þar var margt til sýnis og ótrúlega fallegt handverk.  Lista-og menningarfélagið í Garði hefur haft opnar sýningar í Sunnubraut 4 nú í aðdraganda jóla. Þar sýna listamenn í Garði verk sín og eru flest þeirra til sölu. Bæjarstjóra var boðið á jólafund Kvenfélagsins Gefnar, þar sem boðið var upp á dýrindis góðan jólamat og bæjarstjórinn flutti stutta tölu. Nú um síðustu helgi var Aðventukvöld í Útskálakirkju þar sem kirkjan var þétt setin. Þar voru ýmis tónlistaratriði og annað, allt í anda aðventunnar og jólanna. Ýmislegt fleira hefur verið um að vera í Garðinum nú um aðventuna og í aðdraganda jóla. Mikil stemmning og svífandi jólaandi í Garðinum nú á aðventunni.

Sýning á jólaföndri í Auðarstofu.
Sýning á jóla handverki í Auðarstofu.

Nemendur tónlistarskólans fara víða.

Nú þegar jólin nálgast og nemendur tónlistarskólans að fara í jólafrí, þá fara þeir víða um bæinn og leika jólatónlist. Eyþór skólastjóri og hans kennarar vinna gott verk í tónlistarskólanum og það er ánægjulegt að hlusta á þeirra nemendur spila og syngja. Núna í vikunni hafa nemendur komið við á nokkrum stöðum og spilað. Þar á meðal er leikskólinn, en myndin hér að neðan er af Facebook síðu leikskólans Gefnarborgar. Í gær, fimmtudag voru jólatónleikar tónlistarskólans í Miðgarði, sal Gerðaskóla. Þar lék m.a. bjöllukór tónlistarskólans, en hann hefur nú verið endurvakin eftir nokkurra ára hlé. Fjölmenni mætti og nemendur stóðu sig með mikilli prýði. Það er dýrmætt að eiga svo góðan tónlistarskóla sem við Garðbúar búum að.

Jólatónleikar í Gefnarborg.
Jólatónleikar í Gefnarborg. Eyþór með nokkrum nemenda sinna.

Bæjarstjórn í síðustu viku, afgreiðsla fjárhagsáætlunar.

Bæjarstjórn fundaði í síðustu viku.  Þar bar hæst afgreiðsla á fjárhagsáætlun, en auk þess voru ýmsar fundargerðir nefnda og stjórna til umfjöllunar og afgreiðslu. Mikil og góð samstaða er í bæjarstjórninni um fjárhagsáætlunina, enda hefur samvinna bæjarfulltrúa og starfsfólks sveitarfélagsins verið til fyrirmyndar. Það leggur grunninn að góðum árangri. Upplýsingar um fjárhagsáætlun má nálgast á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is, einnig var umfjöllun um fjárhagsáætlunina í síðustu Molum úr Garði.

Hleðslustöð fyrir rafbíla – Stoppu-stuð !

Nú í vikunni komu starfsmenn frá Orkusölunni færandi hendi. Þeir afhentu sveitarfélaginu hleðslustöð fyrir rafmagnsbíla, en Orkusalan vinnur að því verkefni að koma upp slíkum hleðslustöðvum í öllum sveitarfélögum. Finna þarf hleðslustöðinni heppilega staðsetningu og vonandi liggur það fyrir áður en langt um líður. Þetta er athyglisvert og þarft verkefni hjá Orkusölunni og fyrir það er þakkað. Hér fyrir neðan er mynd af því þegar bæjarstjóri ásamt Einari Friðrik hjá Umhverfis-, skipulags-og byggingarsviði tóku við hleðslustöðinni úr hendi starfsmanns Orkusölunnar. Nú verður enn meira stuð í Garði !

img_2214

Jólaundirbúningur í skólunum á aðventunni.

Nú nálgast jólin óðfluga, enda langt liðið á aðventuna. Þessa vikuna og fram í þá næstu er stíf dagskrá í Gerðaskóla og leikskólanum Gefnarborg, jólaandinn svífur yfir. Alltaf skemmtileg og kærleiksrík stemmning síðustu dagana í skólunum fyrir jólafrí. Sl. miðvikudag borðuðu allir nemendur og starfsfólk Gerðaskóla saman jólamat í hádeginu. Flutt voru skemmtiatriði og sungin jólalög undir stjórn Vitors Eugenio tónlistarkennara. Hér að neðan eru myndir frá jólahádeginu í Gerðaskóla.

img_3457

img_3444

Í leikskólanum Gefnarborg er borðaður jólamatur í hádeginu í dag, föstudag. Síðar í dag verður svo jólatrésskemmtun leikskólans í Miðgarði í Gerðaskóla. Kærleikurinn og jólastemmningin svífa yfir skólabörnum og starfsfólki skólanna í Garði þessa dagana, enda styttist í að jólahátíðin gangi í garð.

Skötuhlaðborð Víðis.

Í dag, föstudag verður skötuhlaðborð Unglingaráðs Víðis í Samkomuhúsinu, bæði í hádeginu og um kvöldmatarleyti. Þetta er föst hefð í aðdraganda jóla og hefur verið mikil aðsókn undanfarin ár. Gott framtak hjá Víði að halda þessari hefð, því það er ómissandi liður í aðdraganda jóla að fá vel kæsta skötu að borða.

skotuhladbord-vidis-2016

Jólahúsið 2016.

Umhverfisnefnd stendur fyrir vali á jólahúsinu í ár. Íbúum er gefinn kostur á að tilnefna jólahúsið og koma því á framfæri á bæjarskrifstofu. Umhverfisnefndin mun síðan velja jólahúsið og afhenda eigendum þess verðlaun í næstu viku, rétt fyrir jólin. Það eru mörg hús í Garði sem eru fagurlega skreytt og mörg þeirra með miklar ljósaskreytingar. Hins vegar hefur vantað snjóinn til þess að allar þessar fallegu skreytingar njóti sín betur, kannski rætist úr því fyrir jólin. Eigendur jólahússins 2016 fá afhenta forláta verðlaunagrip sem unnin var af Ástu Óskarsdóttur og sjá má hér fyrir neðan. Gripurinn er fjörusteinn alsettur litríkum smásteinum og áletruðum skildi.  Garðbúar eru glysgjarnir nú á aðventunni.

img_2236

Jólaskákmót Samsuð og Krakkaskák.

Á morgun, laugardag verður árlegt jólaskákmót Samsuð og Krakkaskák haldið í Gerðaskóla. Mótið er fyrir alla grunnskólanemendur á Suðurnesjum, framkvæmdaraðili er Siguringi Sigurjónsson hjá Krakkaskák en Siguringi hefur kennt skák við flesta grunnskóla á Suðurnesjum. Við framkvæmd skákmótsins nýtur hann aðstoðar frá Skáksambandi Íslands. Skákmótið verður í Gerðaskóla á morgun kl. 13:00 – 16:00 og eru allir velkomnir til að fylgjast með okkar ungu skáksnillingum etja kappi.

Molar í frí fram yfir áramót.

Þar sem bæjarstjórinn fer í leyfi nú fyrir jól og fram yfir áramót koma næstu molar á nýju ári. Við óskum öllum gleðilegra jóla og þökkum samfylgdina á því ári sem nú er að líða.

Facebooktwittergoogle_plusmail

Fjárhagsáætlun Garðs 2017.

Bæjarstjórn hefur samþykkt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2017 og rammaáætlun fyrir árin 2018-2020.  Fjárhagsáætlun ber með sér að sveitarfélagið stendur styrkum fótum fjárhagslega og ágætt jafnvægi er í rekstri.

Rekstraráætlun.

Helstu niðurstöður rekstraráætlunar fyrir árið 2017 eru að heildartekjur verði 1.323 mkr. Skatttekjur eru áætlaðar 771 mkr., þar af útsvarstekjur 677 mkr. Áætluð framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru 373 mkr.  Ef litið er til útgjalda, þá eru laun og launatengd gjöld áætluð að verði 577 mkr., sem er um 43% af heildartekjum. Annar rekstrarkostnaður 633 mkr., eða um 48% af heildartekjum.

Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði (framlegð) er áætlaður afgangur 114 mkr., sem er um 9% af heildartekjum.  Niðurstaða rekstrarreiknings eftir afskriftir og fjármagnsliði er afgangur rúmlega 29 mkr.  Ef litið er sérstaklega á A hluta rekstraráætlunar, sem er sveitarsjóðurinn sjálfur þá er áætlaður rekstrarafgangur um 36 mkr.

Gjaldskrá í þágu íbúanna.

Samhliða afgreiðslu fjárhagsáætlunar samþykkti bæjarstjórnin gjaldskrá sveitarfélagsins fyrir árið 2017. Afslættir af álögðum fasteignasköttum elli-og örorkulífeyrisþega eru rýmkaðir, þannig að fleiri munu njóta afslátta. Helstu breytingar á þjónustugjaldskránni eru þær að frá 1. janúar 2017 fá íbúar sveitarfélagsins gjaldfrjálsan aðgang að sundlauginni. Þessi breyting er m.a. í þeim tilgangi að hvetja íbúana til heilsueflingar og aukinnar aðsóknar að sundlauginni. Þá má nefna þá breytingu á gjaldskrá að frá næstu áramótum fá íbúar sveitarfélagsins gjaldfrjáls afnot af safnkosti almenningsbókasafns. Markmið með því er að efla bókmenntamenninguna og auka aðsókn að bókasafninu. Hækkunum á einstökum liðum gjaldskrár er stillt í hóf og áfram verður gjaldskrá Sveitarfélagsins Garðs fyrir einstaka þjónustuliði með því lægsta sem sveitarfélög bjóða.

Sjóðstreymi.

Samkvæmt áætlun um sjóðstreymi ársins 2017, þá er veltufé frá rekstri 129 mkr., sem er tæplega 10% af heildartekjum og handbært fé frá rekstri 124 mkr. Afborganir langtímalána verða rúmlega 7 mkr. og fjárfestingar og framkvæmdir 88,3 mkr. Fjármögnun framkvæmda er alfarið af handbæru fé frá rekstri og ekki er gert ráð fyrir lántökum.

Skuldir og skuldbindingar.

Heildarskuldir og skuldbindingar eru áætlaðar 529 mkr. í árslok 2017. Þar af eru lífeyrisskuldbindingar 203 mkr. og leiguskuldbinding 109 mkr. Sveitarsjóður í A hluta áætlunarinnar er skuldlaus, en B hluti skuldar lánastofnunum 60 mkr. Skuldahlutfallið (hlutfall heildar skulda og skuldbindinga af heildartekjum) er 40%. Þessar staðreyndir eru merki um efnahagslega sterka stöðu sveitarfélagsins.

Fjárhagsleg staða.

Það er ljóst að ef til þess kemur að sveitarfélagið þarf að ráðast í fjárfrekar framkvæmdir á næstu árum, þá getur sveitarfélagið mætt því með góðu móti. Annars vegar er til staðar handbært fé, sem er áætlað að verði um 530 mkr. í árslok 2017, auk þess sem skuldastaðan er með þeim hætti að gott svigrúm er til lántöku vegna fjárfrekra verkefna á næstu árum, ef á þarf að halda. Síðan er afkoma rekstrarins með þeim hætti að sveitarfélagið hefur fjárfestingagetu vel yfir 100 milljónir á ári, ef litið er til þess hvert handbært fé frá rekstri er áætlað.

Fjárhagsáætlun haldi.

Eitt er að reikna út fjárhagsáætlun og annað að fylgja henni eftir þannig að hún haldi. Á undanförnum árum hefur tekist vel til við að fylgja fjárhagsáætlunum. Það hefst með virku kostnaðareftirliti og reglulegri eftirfylgni með þróun rekstrarins allt árið. Það eru lykilatriði, því ef upp koma óvænt tilvik sem hafa áhrif á reksturinn þarf að vera svigrúm til að mæta því og gera nauðsynlegar ráðstafanir. Markmið bæjarstjórnar og starfsfólks sveitarfélagsins er að reksturinn sé í góðu jafnvægi og að þær áætlanir sem samþykktar eru haldi og þeim fylgt eftir. Nýsamþykkt fjárhagsáætlun og afkoma undanfarinna ára ber með sér að það hafi tekist vel og við ætlum að halda áfram á þeirri sömu braut.

Nánari upplýsingar á heimasíðu.

Fjárhagsáætlunin, gögn og upplýsingar sem henni fylgja má finna á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is. Þar má einnig finna greinargerð bæjarstjóra með fjárhagsáætlun, þar sem allar helstu upplýsingar liggja fyrir.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

48. vika 2016.

Aðventan og jólaljósin.

Nú þegar Aðventan er hafin eru margir húseigendur að koma upp og kveikja á alls kyns ljósaskreytingum á húsum sínum. Sums staðar eru ekki einungis ljósaskreytingar á húsunum, heldur eru ljós á trjám og öðru umhverfis og við húsin. Í Garði eru húseigendur duglegir við að koma upp ljósaskreytingum og fjölgar þeim dag frá degi um þessar mundir sem kveikja á ljósaskreytingum á sínum húsum.

Ljósin kveikt á jólatrénu.

Sl. sunnudag, þann fyrsta í Aðventu voru ljósin tendruð á jólatrénu í hjarta bæjarins. Veður var hið besta og var fjölmenni mætt til að taka þátt.  Flutt var hugvekja, Bergdís Júlía Sveinsdóttir yngsti nemandi Gerðaskóla kveikti ljósin á trénu, Söngsveitin Víkingar sungu jólalög og jólasveinar mættu á staðinn. Þá sá unglingaráð Reynis / Víðis um að reiða fram heitt súkkulaði og piparkökur. Það var ánægjuleg stund sem garðbúar og gestir áttu saman á sunnudaginn við jólatréð. Auk þess var fjölskyldumessa í Útskálakirkju og Kvenfélagið Gefn hélt sinn árlega jólabasar. Aðventustemmning í Garðinum.

Fjölmenni tók þátt í að kveikja ljósin á jólatrénu.
Fjölmenni tók þátt í að kveikja ljósin á jólatrénu.

Jólastemmning í leikskólanum.

Nú í aðdraganda jólanna þarf ýmislegt að gera til að undirbúa jólahátíðina, við það skapast jólastemmning. Börnin í Leikskólanum Gefnarborg leggja sitt af mörkum og taka þátt í undirbúningi jóla. Í vikunni tóku þau til hendi og bökuðu piparkökur, sem eru ómissandi þáttur í aðdraganda jóla. Það var mikil einbeiting og áhugi hjá börnunum við piparkökubaksturinn, eins og sjá má dæmi um á myndinni hér fyrir neðan, sem var fengin á Facebook síðu leikskólans.

Einbeiting við piparkökubakstur.
Einbeiting við piparkökubakstur.

Góður gestur í Gerðaskóla.

Í byrjun vikunnar kom Þorgrímur Þráinsson rithöfundur með meiru í heimsókn í Gerðaskóla. Hann hélt fyrirlestur fyrir nemendur og ræddi við þá um lífið og tilveruna. Þorgrímur er duglegur við að fara víða og tala við nemendur grunnskólanna, þetta framtak hans er gott og lofsvert og ber að þakka honum fyrir það.

Íbúafundur.

Bæjarstjórn boðaði til íbúafundar sl. miðvikudag og var ágæt mæting íbúa á fundinn. Aðal efni fundarins var kynning á tillögu um fjárhagsáætlun næsta árs, sem verður á dagskrá bæjarstjórnar í næstu viku. Fundarmenn voru almennt ánægðir með áætlunina og fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins. Á fundinum var einnig rætt um málefni sveitarfélagsins og fengu íbúar svör við ýmsum spurningum sem bornar voru upp. Svona fundir eru mikilvægir, bæði fyrir sveitarstjórnarfólkið og íbúana þar sem í senn koma fram upplýsingar og tækifæri gefst til umræðu um málefni sveitarfélagsins og íbúa þess.

Veðrið.

Veðurfarið að undanförnu er óvenjulegt ef tekið er mið af árstíma. Hlýindi og rigning af og til. Hitamælirinn við sundlaugina sýndi 7° hita kl. 7:00 í morgun. Það er ekki laust við að margir sakni þess að hafa snævi þakta jörð nú í byrjun Aðventu, ekki er ólíklegt að þeim hinum sömu verði að ósk sinni en ekkert slíkt virðist þó í kortunum næstu daga.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail

47. vika 2016.

Aðventan gengur í garð.

Nú á sunnudaginn gengur Aðventan í garð og samkvæmt venju verður mikið um að vera í Garði þann dag.

Aðventuhátíð verður í Útskálakirkju kl. 14:00. Kvenfélagskonur í Kvenfélaginu Gefn taka þátt í messunni og kveikt verður á fyrsta aðventukertinu.

Árlegur jólabasar Kvenfélagsins Gefnar verður í Kiwanishúsinu og hefst kl. 15:00. Að venju verður þar margt í boði og allur ágóði rennur í líknarsjóð kvenfélagsins.

Loks verða tendruð ljós á jólatrénu við Gerðaveg 1. Dagskrá hefst kl. 17:00, flutt verður hugvekja og mun yngsti nemandi Gerðaskóla tendra ljósin á jólatrénu. Þá mun Söngsveitin Víkingar syngja nokkkur lög og öllum verður boðið upp á heitt súkkulaði og piparkökur, í umsjón unglingaráðs Víðis. Ekki er líklegt að snjói fram á sunnudag, en fastlega má búast við að einhverjir jólasveinar láti sjá sig.

Garðbúar og gestir eru hvattir til að taka virkan þátt í viðburðum dagsins og njóta samveru við upphaf Aðventu.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur hjá bæjarráði. Þar bar hæst umfjöllun um fjárhagsáætlun næsta árs og var tillögu um áætlun vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn. Þá var lagt fram árshlutayfirlit rekstrarins fyrir tímabilið janúar – september á þessu ári og lítur það allt vel út miðað við fjárhagsáætlun. Fjallað var um tillögu um verklagsreglur félagsþjónustunnar vegna samstarfs sveitarfélaganna Garðs, Sandgerðis og Voga um félagsþjónustu. Ákveðið var að veita jákvæða umsögn til sýslumanns vegna umsóknar um rekstur heimagistingar, þá var fjallað um erindi frá Öldungaráði Suðurnesja og samþykkt bókun um svar við því. Fyrir bæjarráði lá að fjalla um úthlutunarreglur vegna byggðakvóta og var samþykkt að þær verði óbreyttar frá fyrra ári. Loks lá fyrir fundargerð 1. fundar stýrihóps sem vinnur að úttekt á kostum og göllum sameiningar Garðs og Sandgerðisbæjar. Alltaf í mörg horn að líta hjá bæjarráði.

Íbúafundur.

Bæjarráð ákvað á fundi sínum að boða til íbúafundar miðvikudaginn 30. nóvember kl. 20:00 í Gerðaskóla. Á fundinum verður farið yfir tillögu að fjárhagsáætlun fyrir næsta ár og fjallað um rekstur og fjárhag sveitarfélagsins. Íbúar Garðs eru hvattir til að mæta á íbúafundinn, kynna sér málefni sveitarfélagsins og taka þátt í umræðum um þau.

Starfsfólk félagsmiðstöðvar á faraldsfæti.

Starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar Eldingar fór ásamt Íþrótta-og æskulýðsfulltrúa í vettvangsferð til Reykjavíkur sl. mánudag. Heimsóttar voru félagsmiðstöðvar við þrjá skóla þar sem okkar fólk kynnti sér starfsemi. Starfsmennirnir áttu góð samskipti við forstöðumenn þessara félagsmiðstöðva um starfsemi þeirra, auk þess sem aðstæður voru skoðaðar. Gott framtak hjá okkar fólki og alltaf er gott að skoða og kynna sér starfsemi hjá öðrum, til að læra af og fá nýjar hugmyndir. Það er metnaður hjá okkar fólki að hafa starfsemi félagsmiðstöðvarinnar sem blómlegasta, allt í þágu ungmenna í Garði. Á myndinni hér að neðan má sjá hópinn í einni af félagsmiðstöðvunum í höfuðborginni.

img_3123

Samstarfssamningur við Nes.

Sveitarfélagið Garður og íþróttafélagið Nes hafa átt gott samstarf undanfarin ár. Nýlega var undirritaður nýr samstarfssamningur milli sveitarfélagsins og Nes, sem m.a. felur í sér fjárhagslegan stuðning sveitarfélagsins við starfsemi Nes. Íþróttafólk frá Nes hefur staðið sig mjög vel á íþróttamótum fatlaðra og hafa m.a. keppt fyrir hönd Íslands á alþjóðlegum mótum. Bæjarstjóri og Drífa Birgitta formaður Nes undirrituðu samninginn, að viðstöddum garðmanninum Sigurði Guðmundssyni sem hefur m.a. gert garðinn frægan á knattspyrnuvöllum innanlands og erlendis undanfarin ár.

Bæjarstjóri og fulltrúar Nes.
Bæjarstjóri og fulltrúar Nes.

Veitingahúsið Röstin.

Veitingahúsið Röstin í húsi byggðasafnsins á Garðskaga hefur opnað og býður gesti velkomna. Veitingahúsið er nú opið alla daga frá morgni til kvölds og þar er boðið upp á ljúffenga rétti. Garðskagi ehf rekur veitingahúsið, en félagið hafði áður opnað og rekið kaffihús í gamla vitanum. Það er ánægjulegt að veitingastaður hafi aftur verið opnaður í Garði.

Veðrið.

Eins og verið hefur undanfarnar vikur hefur veðurfar verið frekar rysjótt þessa vikuna. Að mestu hafa verið nokkur hlýindi með suðlægum áttum og yfirleitt rigning. Inn á milli hefur vindáttin snúist í norðlægar áttir með kaldara veðri. Lítið hefur farið fyrir snjó það sem af er haustinu og fram að þessu og næstu daga er útlit fyrir áframhald á suðlægum áttum með nokkrum hlýindum. Framundan er desember mánuður og er ekki ólíklegt að styttist í einhver vetrarveður með tilheyrandi snjó og frosti.

Góða helgi !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

46. vika 2016.

Þrekmót í íþróttamiðstöðinni sl. laugardag.

Um síðustu helgi var Flott þrekmót í keppnisþrautum í Íþróttamiðstöðinni. Fjöldi þátttakenda á öllum aldri tók þátt í mótinu, en þar var á ferð hópur sem hefur stundað líkamsrækt af kappi undanfarna mánuði. Mikil stemmning var og vel tekið á því. SI Verslun var styrktaraðili mótsins og voru vegleg verðlaun veitt. Mikill kraftur og kapp hjá þrekhópnum í Garði. Myndin hér að neðan er af hópnum sem tók þátt í Flott þrek mótinu.

Keppendur í Flott þrek mótinu.
Keppendur í Flott þrek mótinu.

Kjörbúðin opnaði.

Eins og fram kom í síðustu Molum, var opnuð ný verslun í Garði sl. föstudag. Verslunin starfar undir merkinu Kjörbúðin og er rekin af Samkaup. Verslunin er hin glæsilegasta, með miklu og góðu vöruúrvali og hagstæðu verðlagi. Versluninni var vel tekið, opnunardaginn var nánast fullt út úr dyrum allan daginn af viðskiptavinum og mikil aðsókn var að versluninni alla síðustu helgi. Garðbúar bjóða Kjörbúðina velkomna í Garðinn og vonumst við til að hún blómstri með góðri þjónustu og hagstæðu verðlagi fyrir íbúana í Garði og þá gesti sem sækja Garðinn heim. Bæjarstjóri afhenti verslunarstjóranum og fulltrúa Samkaupa blómvönd í tilefni opnunarinnar.

Bæjarstjóri afhenti blóm við opnun Kjörbúðarinnar.

Hollvinir Unu Guðmundsdóttur.

Á morgun, laugardag verður aðalfundur Hollvina Unu Guðmundsdóttur í Kiwanishúsinu kl. 15. Annað kvöld kl. 20:00 verður afmælishátíð félagsins í Útskálakirkju. Þar verður dagskrá í anda Unu Guðmundsdóttur, hún var fædd þann 18. nóvember 1894, en Hollvinafélag Unu var stofnað á fæðingardegi Unu fyrir fimm árum. Mikill kraftur er í Hollinafélagi Unu, sem m.a. vinnur í samstarfi við sveitarfélagið að endurbótum á húsinu Sjólyst, sem einnig er kallað Unuhús, en Una Guðmundsdóttir bjó alla sína ævi í Sjólyst. Nánar í frétt á heimasíðunni svgardur.is.

Merki Sjólystar, söguhúss Unu Guðmundsdóttur.

Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins.

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2017. Útlit er fyrir ágæta niðurstöðu rekstraráætlunar, þannig að segja má að rekstur sveitarfélagsins sé kominn í ágætt jafnvægi. Í vikunni var vinnufundur allra bæjarfulltrúa með bæjarstjóra og starfsfólki bæjarskrifstofunnar. Á fundinum var farið yfir drög að gjaldskrá, ýmis erindi og óskir um fjárheimildir og styrki og framkvæmdir sem ráðast þarf í á næsta ári og á næstu árum. Eftir fundinn er verkefnið að vinna úr niðurstöðum fundarins og útfæra áætlunina í endanlegt horf. Bæjarráð mun taka fjárhagsáætlun til umfjöllunar í næstu viku.

Sameining sveitarfélaga ?

Eins og fram hefur komið tóku bæjarstjórnir Garðs og Sandgerðisbæjar ákvörðun um að láta gera úttekt á kostum og göllum þess að sameina sveitarfélögin. Skipaður hefur verið stýrihópur fulltrúa sveitarfélaganna sem hefur það hlutverk að stýra verkefninu og sjá til þess að það gangi vel fram. Stýrihópurinn hélt sinn fyrsta fund nú í vikunni og er þegar hafin vinna við að fá ráðgjafa til að vinna að verkefninu. Næstu mánuði verður unnið að málinu og munu bæjarstjórnirnar í framhaldinu leggja mat á niðurstöður og taka ákvörðun um framhaldið, eftir samráð við íbúa sveitarfélaganna.

Stýrihópurinn á fyrsta fundi.
Stýrihópurinn á fyrsta fundi.

Veðrið.

Veður hefur verið rysjótt þessa vikuna. Framan af viku var suðvestan átt með nokkrum vindi og vindhviðum, úrkoma var í formi rigningar og stöku élja. Um miðja vikuna breyttist í norðlægar áttir með kólnandi veðri. Fyrsta frost haustsins færðist yfir á miðvikudag, eftir það hefur verið stíf norðlæg átt með kaldara veðri en úrkomulaust.

Facebooktwittergoogle_plusmail

45. vika 2016.

Molarnir eru margir í þessari viku, enda mikið um að vera í Garði.

Hljóðfærasmíði í Gerðaskóla.

Nemendur í 6. og 7. bekkjum Gerðaskóla fengu það verkefni í tónmennt nýlega að búa til ný hljóðfæri, undir leiðsögn Vitors Hugo R. Eugenio kennara. Til þess voru notuð pípulagningarör og þurfti að beita ákveðnum útreikningum til að ná fram ákveðnum tónum úr hljóðfærinu. Allt tókst þetta vel hjá nemendunum, verkefnið snerist ekki eingöngu um tónfræði heldur þurfti að beita stærðfræðinni til þess að finna réttu lausnirnar. Frábært og skemmtilegt verkefni, sem er dæmi um frábært starf í Gerðaskóla. Myndin hér að neðan er sótt á heimasíðu Gerðaskóla, gerdaskoli.is og þar má finna frekari upplýsingar um verkefnið.

Hljóðfærasmiðir að störfum.
Hljóðfærasmiðir að störfum.

Leikskólinn Gefnarborg, jól í skókassa.

Líkt og á síðasta ári tekur leikskólinn Gefnarborg þátt í verkefninu „Jól í skókassa“. Verkefnið er á vegum KFUM og KFUK með það að markmiði að börn og fullorðnir gleðji börn í Úkraínu sem búa við fátækt, sjúkdóma og erfiðleika með því að gefa þeim jólagjafir. Gjafirnar eru settar í skókassa og gáfu foreldrar barnanna á leikskólanum flestar gjafirnar sem fóru í skókassana. Þetta er göfugt og gott framtak, sem gleður börnin á Gefnarborg að taka þátt í, vonandi verður gleðin ekki síðri hjá börnunum í Úkraínu sem fá gjafirnar.

Leikskólabörn senda börnum í Úkraínu jólagjafir.
Leikskólabörn senda börnum í Úkraínu jólagjafir.

Kennarar í heimsókn hjá bæjarstjóranum.

Á þriðjudaginn kom hópur kennara í Gerðaskóla í heimsókn til bæjarstjórans og afhentu kröfu frá kennurum til sveitarfélaga um bætt kjör þeirra, ásamt að lýst er áhyggjum af því hvert stefnir í starfsemi grunnskólanna í landinu. Bæjarstjórinn tók við kröfunni og var hún lögð fram á fundi bæjarráðs í gær, fimmtudag. Alltaf er ánægjulegt að fá góða gesti í heimsókn, hvert sem tilefnið er.

Fundur í bæjarráði.

Bæjarráð fundaði í gær, fimmtudag og voru ýmis mál á dagskrá fundarins. Unnið var í fjárhagsáætlun fyrir næsta ár, samþykktur samningur við Bergraf um eftirlit og viðhald götulýsingar og fjallað um úthlutun á byggðakvóta. Þá var lögð fram áskorun frá kennurum varðandi kjaramál og starf grunnskóla. Loks voru fulltrúar Garðs skipaðir í starfshóp með fulltrúum Sandgerðisbæjar sem fá það verkefni að láta vinna úttekt á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna. Alltaf í mörg horn að líta hjá bæjarráði.

Menningin og félagslífið blómstrar.

Í gær, fimmtudag voru norrænir þematónleikar í Útskálakirkju. Þar komu fram nemendur í tónlistarskólanum og léku norræna tónlist. Tónleikarnir voru samstarfsverkefni tónlistarskólans og Norræna félagsins í Garði og voru vel sóttir.

Í gær var skemmtidagskrá í Auðarstofu hjá félagsstarfi aldraðra. Þar var boðið upp á hangikjöt og saltkjöt, ásamt skemmtidagskrá. Fjölmenni mætti, naut góðra veitinga og skemmtidagskrár. Fjölbreytt og öflug starfsemi í Auðarstofu.

Síðar í dag, föstudag og fram á laugardagsmorgun verða „rokkbúðir“ í Gerðaskóla á vegum tónlistarskólans. Þá koma saman nemendur nokkurra tónlistarskóla, spila saman á rytmahljóðfæri og skapa tónlist. Tónleikar verða á miðnætti í kvöld og síðan verður spilað fram undir hádegi  á morgun, laugardag. Við erum taktviss í Garðinum !

Loks má nefna að annað kvöld, laugardag verður hið víðfræga og eftirsótta herrakvöld Víðis í Samkomuhúsinu. Þar verður væntanlega mikil stemmning og skemmtilegheit. Fyrr um daginn stendur Víðir fyrir firmakeppni í knattspyrnu í Íþróttamiðstöðinni. Alltaf mikið um að vera í herbúðum Víðis.

Flóamarkaður í Samkomuhúsinu.

Á sunnudaginn verður haldinn flóamarkaður í Samkomuhúsinu, milli kl. 13:00 og 18:00. Garðbúar og gestir eru hvattir til að koma við á flóamarkaðnum, þar verður margt áhugavert til sölu. Mikill áhugi er fyrir flóamarkaðnum, a.m.k. ef tekið er mið af umræðu á facebook síðunni Garðmenn og Garðurinn. Börn í 4. fl. knattspyrnuliðs Víðs/Reynis munu annast kaffisölu. Flott framtak og spennandi.

Kjörbúðin opnar.

Í dag opnar verslunin Kjörbúðin í verslunarhúsnæði Samkaups í Sunnubraut 4, þar sem verslun Samkaups hefur verið rekin undanfarin ár. Vonandi taka garðbúar vel á móti nýrri verslun og að hún gangi vel.

Veðrið.

Í upphafi viku voru hvassar sunnanáttir með rigningu, Gott veður á þriðjudag og um miðja vikuna. Þegar þetta er skrifað á föstudags morgni er hvöss suðaustan átt með mikilli rigningu. Spáin gerir ráð fyrir að veðrið gangi yfir þegar líður á daginn og að helgarveðrið verði þokkalegt.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

44. vika 2016.

Að afloknum kosningum.

Alþingiskosningar voru um síðustu helgi. Garðurinn á nú tvo fulltrúa á Alþingi, þau Ásmund Friðriksson og Oddnýju Harðardóttur. Við óskum þeim til hamingju með þingsætin og velfarnaðar í sínum krefjandi verkefnum, en þess má geta að þau eru bæði fyrrverandi bæjarstjórar í Garði. Það hefur jafnan verið metnaðarmál allra byggðarlaga í landinu að eiga fulltrúa á Alþingi, Garðbúar búa vel að því. Við á bæjarskrifstofunni í Garði settum upp samkvæmisleik fyrir kosningarnar, þar sem starfsfólkið spáði fyrir um úrslit kosninganna. Veitt voru vegleg verðlaun þeim sem spáði næst úrslitunum og féllu þau í hlut bæjarstjórarns !

Bæjarstjóri með verðlaun fyrir kosningaspá.
Bæjarstjóri með verðlaun fyrir kosningaspá.

Að loknum kosningunum var settur upp annar samkvæmisleikur á bæjarskrifstofunni, en þá spáði starfsfólkið um samsetningu næstu ríkisstjórnar. Þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir hver niðurstaðan verður úr þeim samkvæmisleik, en greint verður frá því síðar.

Bæjarstjórnarfundur.

Í vikunni var fundur í bæjarstjórn. Þar bar hæst fyrri umræða um fjárhagsáætlun 2017, en síðari umræða og afgreiðsla fjárhagsáætlunar verður í byrjun desember. Áætlun um rekstur sveitarfélagsins á næsta ári lítur ágætilega út og mun bæjarráð hafa áætlunina til frekari vinnslu fram að síðari umræðu í bæjarstjórn. Aðrir liðir á dagskrá bæjarstjórnar voru fundargerðir bæjarráðs og fastanefnda sveitarfélagsins ásamt fundargerðum stjórna og nefnda sem sveitarfélagið á aðild að með öðrum sveitarfélögum.

Trölladiskó í Eldingunni.

Í tengslum við Halloween var haldið trölladiskó í Félagsmiðsöðinni Eldingunni nú á miðvikudaginn. Ungmenninn mættu í alls kyns búningum og voru því ýmsar furðuverur mættar í stuðið. Hér eru myndir af nokkrum þeirra.

img_8357

img_8364

Gunnar Hámundarson GK hverfur á braut.

Fiskiskipið Gunnar Hámundarson GK 357 var fyrir stuttu selt norður á Hauganes. Skipið skipar merkilegan sess í útgerðarsögu Garðs, en skipið var smíðað 1954 og hefur verið gert út frá Garði síðan. Þetta skip var það þriðja í röð skipa sem útgerðarfélagið Gunnar Hámundarson hf gerði út, en útgerðin er ein sú elsta á landinu stofnuð árið 1911. Gunnar Hámundarson GK 357 hefur borið að landi þúsundir tonna af fiski allan þann tíma sem skipið hefur verið gert út og er því skarð fyrir skildi. Nýtt hlutverk skipsins verður að sigla með ferðamenn um Eyjafjörðinn til að skoða hvali.

Gunnar Hámundarson á siglingu.
Gunnar Hámundarson á siglingu.

Heimildamynd um Guðna á trukknum.

Guðni Ingimundarson er heiðursborgari Garðs. Hann er þekktur á Suðurnesjum og víðar fyrir einstakt lífshlaup sitt og margvíslega aðkomu að atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Guðni átti og notaði trukk bifreið með gálga að framan og dráttarspili við hin ýmsu verkefni, sem sum voru flókin úrlausnar og ekki á allra færi að leysa. Guðmundur Magnússon kvikmyndagerðarmaður í Garði hefur unnið að gerð myndarinnar, eftir handriti Harðar Gíslasonar og með tónlist eftir Tryggva M Baldvinsson. Sveitarfélagið Garður og Uppbyggingarsjóður Suðurnesja styrkja gerð myndarinnar. Þess má geta að Guðni Ingimundarson safnaði og gerði upp fjöldan allan af bátavélum af ýmsum stærðum og gerðum. Einstakt safn þessara véla er í byggðasafninu á Garðskaga og eru allar vélarnar gangfærar. Þá má einnig geta þess að Guðni var um tíma vitavörður í Garðskagavita.

Hér að neðan er sýnishorn úr myndinni og hér má sjá þá Guðna og Hörð Gíslason.

Veðrið.

Um síðustu helgi voru sunnan áttir með nokkrum vindi og úrkomu. Í byrjun vikunnar og fram undir miðja vikuna var ágætt veður, hægviðri og úrkomulaust að mestu og þokkalegt hitastig. Sunnanáttin mætti svo aftur með rigningu, en þegar þetta er skrifað á föstudagsmorgni er hægviðri og úrkomulaust, hitastigið um 6°. Útlit er fyrir ágætt veður um komandi helgi.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

43. vika 2016.

Kosningar í Gerðaskóla.

Það eru ekki bara alþingiskosningar í gangi þessa dagana. Nemendur Gerðaskóla ganga til kosninga í dag og taka afstöðu til tiltekinna mála. Framkvæmd kosninga nemendanna verður með sama hætti og verður á morgun vegna alþingiskosninganna. Það verða dyraverðir, kjörstjórar með „kjörskrá“, nemendur nota kjörklefa til að kjósa og skila atkvæðaseðlum sínum í kjörkassa. Þetta er m.a. til þess að kenna nemendunum að taka þátt í kosningum, en svo vel vill til að kosningar til Alþingis fara fram í Gerðaskóla á morgun og þar er búið að koma upp aðstöðu til að framkvæma kosningarnar, sem nemendur og starfsfólk skólans nota í dag fyrir sínar kosningar. Þess má geta að elstu nemendur Gerðaskóla hafa öðlast kosningarétt þegar næstu alþingiskosningar verða eftir fjögur ár og því er kosningin í Gerðaskóla í dag ágæt æfing fyrir þá. Vonandi skilar það sér í aukinni kosningaþátttöku yngstu hópa kjósenda, sem því miður hafa látið sig vanta á kjörstað í of miklum mæli í undanförnum kosningum. Skemmtilegt framtak hjá Gerðaskóla.

Kjörseðillinn
Kjörseðillinn
Biðröð á kjörstað í Gerðaskóla.
Biðröð á kjörstað í Gerðaskóla.

Bæjarráð.

Fundur var í bæjarráði í vikunni. Á dagskrá fundarins bar hæst umfjöllun um fjárhagsáætlun næsta árs. Fjárhagsáætlun verður á dagskrá bæjarstjórnar í næstu viku, þegar fram fer fyrri umræða um áætlunina.

Verðmætasköpun í atvinnulífinu.

Í gær, fimmtudag var haustfundur Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja, Heklunnar.  Á fundinum var fjallað um verðmætasköpun í atvinnulífinu og fluttar um það áhugaverðar framsögur. Enn og aftur kemur fram að samfara mjög auknum umsvifum á Keflavíkurflugvelli er Reykjanesið heitasta svæði landsins er varðar tækifæri, uppbyggingu og blómleg samfélög. En tækifærin eru ekki einungis tengd fjölgun ferðamanna og auknum umsvifum ferðaþjónustu, tækifærin liggja í ýmsum öðrum greinum og mörgum sviðum. Það eru miklar áskoranir og risavaxin verkefni sem blasa við sveitarfélögunum og atvinnulífinu á Suðurnesjum. Það eru miklir hagsmunir í húfi, ekki aðeins fyrir Suðurnesin heldur landið allt.

Á fundinum var bent á þær gríðarlegu miklu tekjur sem aukin umsvif ferðaþjónustu skilar ríkissjóði í formi skatta og gjalda, sem og hvað gjaldeyristekjur þjóðarbúsins aukast mikið vegna mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna sem sækja landið heim. Í því sambandi er sláandi hve lítill hluti af þessum auknu tekjum ríkissjóðs fara í að fjármagna uppbyggingu innviða í landinu, sem brýnt er að gera til þess að mögulegt sé að taka við öllum þeim fjölda erlendra ferðamanna sem heimsækja landið og ferðast um það. Þar er ekki aðeins um að ræða vegi og samgöngur, heldur ekki síður heilbrigðisþjónustu, löggæslu og fjarskipti, svo eitthvað sé nefnt. Ólíkt mörgum öðrum atvinnugreinum, þá nýtast þeir innviðir sem byggja þarf upp og fjármagna vegna ferðamanna öllum landsmönnum og kemur okkur öllum til góða. Það er ljóst að stjórnvöld verða að gefa þessu meiri gaum og ráðstafa meiri hluta af þeim tekjum sem ríkissjóður er að fá vegna ferðamanna til uppbyggingar innviða. Að öðrum kosti blasir við að við stefnum lóðbeint í óefni og draumurinn breytist í martröð.

Alþingiskosningar.

Á morgun, laugardag verða kosningar til Alþingis. Vonandi verða úrslit þeirra og það sem á eftir fylgir til gæfu og hagsbóta fyrir land og þjóð. Kjósendur eru hvattir til að nýta sinn kosningarétt, mæta á kjörstað og taka þátt í kosningunum.

Veðrið.

Veðurfarið hefur verið frekar erfitt að undanförnu. Ríkjandi suðlægar áttir með hvössum vindi á köflum og rigningu en inn á milli hefur verið sólskin, það má því segja að vikan hafi einkennst af því að skipst hafa á skin og skúrir. Þegar þetta er skrifað á föstudags morgni skín sólin í ágætu veðri, en haustið hefur færst yfir og má reikna með kaldari tíð. Við getum átt von á slyddu eða snjókomu og hálku á vegum, það er því mikilvægt að gera sig kláran fyrir slíkar aðstæður og sýna aðgát í umferðinni.

Góða og ánægjulega helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

42. vika 2016.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Um síðustu helgi var aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum haldinn í Gerðaskóla í Garði. Dagskrá fundarins var efnismikil og um margt mjög áhugaverð. Mikið fór fyrir erindum og umræðu um þróun farþegafjölda á Keflavíkurflugvelli og mál því tengd, m.a. um ferðaþjónustu, íbúaþróun og þær áskoranir sem Suðurnesin í heild sinni standa frammi fyrir. Þá var fjallað um samgönguáætlun og það mikilvæga og aðkallandi mál að byggja upp flutningskerfi raforku út á Reykjanesið. Eftir þennan góða fund stendur að sveitarfélögin, atvinnulífið og ýmsir aðilar verða nú að fara í að móta stefnu um það hvernig samfélagið mætir þeirri þróun sem nú á sér stað og mun verða á næstu árum. Hér er um stórt og mikilvægt verkefni að ræða, áskoranirnar eru til staðar og þær eru til að takast á við. Það eru sannarlega spennandi tímar á Suðurnesjum.

Varnarliðið komið aftur ?

Sl. mánudag hrukku margir við í Garðinum, en þá voru herþotur á æfingaflugi úti fyrir ströndinni. Einnig var varðskipið Þór að lóna stutt frá landi og flugu þoturnar yfir og umhverfis varðskipið. Upp kom sú spurning hvort herinn væri kominn aftur ! Svarið var að tékkneskar herþotur sem sinna loftrýmisgæslu við landið voru við æfingar, en hávaðinn var ærandi svo vart var samtalshæft. Börnin á leikskólanum Gefnarborg voru agndofa yfir þessu og skimuðu út á hafið þar sem varðskipið var á ferð. Eflaust hafa einhverjir Garðbúar hugsað til fyrri tíðar þegar umferð herþota var algeng yfir Suðurnesjum.

Leikskólabörnin horfa til varðskipsins Þórs. (Mynd: Leikskólinn Gefnarborg).
Leikskólabörnin horfa til varðskipsins Þórs. (Mynd: Leikskólinn Gefnarborg).

Framkvæmdir á lóð leikskólans.

Lóð leikskólans var stækkuð verulega á síðasta ári, en af þeim sökum hafa verið dimmir blettir á lóðinni þar sem hefur vantað lýsingu. Nú á dögunum var bætt úr því og hefur verið komið fyrir ljósastaurum sem lýsa upp leiksvæði barnanna. Ungir og upprennandi gröfukarlar á leikskólanum fylgdust með dreymandi svip með verktakanum sem gróf fyrir ljósastaurunum og er ekki ólíklegt að einhverjir hafi ákveðið að vinna á gröfu þegar aldur færist yfir þá. Þessi dásamlega mynd af leikskólabörnum fylgjast hugfangin með gröfuvinnunni birtist á Facebook síðu leikskólans Gefnarborgar.

Gröfuvinna við leikskólann.
Gröfuvinna við leikskólann.

Bæjarstjórnarfundur.

Á miðvikudag var fundur í bæjarstjórn, þar sem m.a. var fjallað um kauptilboð í Garðvang. Bæjarstjórn samþykkti að ganga að tilboðinu og slíkt hið sama hafa hin sveitarfélögin sem eru eigendur hússins gert. Kaupandi er Nesfiskur í Garði, en fyrirtækið mun nýta húsnæðið fyrir sitt starfsfólk. Fundurinn var einnig vinnufundur bæjarstjórnar með starfsfólki bæjarskrifstofu þar sem farið var yfir drög að fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. Bæjarráð mun halda áfram umfjöllun og vinnu við fjárhagsáætlun, en á næsta fundi bæjarstjórnar verður fjárhagsáætlun til fyrri umræðu. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum á afgreiðslu fjárhagsáætlunar að vera lokið fyrir 15. desember, en bæjarstjórn Garðs mun afgreiða áætlunina í byrjun desember eftir aðra umræðu.

Alþingiskosningar.

Nú styttist óðum í alþingiskosningarnar þann 29. október nk. Kjósendur í Garði, sem geta af einhverjum ástæðum ekki mætt á kjörstað þann dag, eiga kost á því að kjósa utan kjörstaðar á bæjarskrifstofunni á opnunartíma skrifstofunnar. Þetta fyrirkomulag er í samstarfi við sýslumannsembættið og er liður í að auka þjónustu við íbúana.

Veðrið.

Við nutum veðurblíðu fram í miðja vikuna, þegar var hægviðri og hlýtt. Á miðvikudag byrjaði fjörið með miklum vindi og rigningu af suð-austri og hefur það haldið áfram, en veðrið hefur að mestu gengið niður þegar þetta er skrifað á föstudagsmorgni.

Óveður miðvikudaginn 19. okt. 2016 um hádegi.
Óveður miðvikudaginn 19. okt. 2016 um hádegi.

 

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

41. vika 2016.

Bleikur föstudagur.

Í dag er bleikur föstudagur, í anda átaks Krabbameinsfélagsins gegn krabbameini í þessum mánuði. Vonandi hafa sem flestir styrkt þetta verkefni með því að fjárfesta í bleiku slaufunni. Þetta er lofsvert átak hjá Krabbameinsfélaginu, sem gegnir mikilvægu hlutverki í forvörnum og fræðslu um krabbamein.

Bleika slaufan 2016.
Bleika slaufan 2016.

Bæjarráð.

Fundur var haldinn í bæjarráði í vikunni. Á fundinum voru lögð fram fyrstu drög að rekstraráætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2017, en áætlunin er í vinnslu þessa dagana og verður fyrsta umræða í bæjarstjórn í byrjun nóvember. Af öðrum málum má nefna að fjallað var um erindi frá Sandgerðisbæ, þar sem m.a. kemur fram að bæjarstjórn Sandgerðis hafi samþykkt að skipa í starfshóp sem fái það verkefni að kanna kosti og galla sameiningar Garðs og Sandgerðisbæjar. Bæjarráð Garðs samþykkti að leggja til við bæjarstjórn að Garður skipi sína fulltrúa í starfshópinn. Þess má geta að bæjarstjórn Garðs samþykkti í júní sl. að taka þátt í þessu verkefni en bæjarstjórn Sandgerðis tók málið fyrir og gerði sína samþykkt núna í þessari viku. Þess má vænta að vinna við könnun á kostum og göllum sameiningar sveitarfélaganna hefjist nú á næstu vikum. Þegar niðurstaða þessarar vinnu liggur fyrir munu bæjarstjórnir sveitarfélaganna taka ákvarðanir um hvort hafnar verða formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna, samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga þar um og slíkt ferli endar síðan á því að íbúar sveitarfélaganna greiða atkvæði um tillögu um sameiningu sveitarfélaganna.

Kosning utan kjörfundar á bæjarskrifstofu.

Í samstarfi við sýslumannsembættið fer fram kosning til Alþingis utan kjörstaðar á bæjarskrifstofunni í Garði. Sveitarfélagið tók þátt í tilraunaverkefni um utankjörfundar atkvæðagreiðslu með þessum hætti fyrir forsetakosningar sl. sumar, það gekk mjög vel og nýttu nokkrir íbúar í Garði sér þessa þjónustu. Nú er aftur boðið upp á þessa þjónustu fyrir alþingiskosningarnar. Atkvæðagreiðsla fer fram á opnunartíma bæjarskrifstofunnar og annast starfsfólk framkvæmdina. Íbúar Garðs sem þurfa af einhverjum ástæðum að kjósa utan kjörstaðar eru hvattir til þess að nýta sér þessa góðu þjónustu, mæta á bæjarskrifstofuna og nota þar kosningarétt sinn. Almennt eru kjósendur hvattir til að nota sinn kosningarétt og greiða atkvæði í komandi Alþingiskosningum, sem og öllum öðrum kosningum. Það að taka þátt í kosningum er ekki aðeins lýðræðislegur réttur, heldur mikilvægt tæki fyrir hver og einn til að hafa áhrif. Í raun er það lýðræðisleg skylda okkar hvers og eins að nota okkar kosningarétt og taka þátt í kosningum.

„Stóriðja í stöðugum vexti“.

Isavia hélt fund í vikunni þar sem farið var yfir stöðu mála og framtíðarhorfur varðandi farþegafjölda sem fer um Keflavíkurflugvöll. Á fundinum var einnig kynnt skýrsla með yfirskriftinni „Keflavíkurflugvöllur – stóriðja í stöðugum vexti“ þar sem fjallað er um hvaða þýðingu uppbygging Keflavíkurflugvallar hefur til framtiðar. Þar kom m.a. fram að ef hóflegustu spár ganga eftir þá verður Keflavíkurflugvöllur orðinn stærsti vinnustaður landsins eftir nokkur misseri, fjölgun starfsmanna á hverju ári verður sem svarar starfsmannafjölda í einu álveri. Það er ljóst að hér er um mjög stórt mál að ræða, með afar krefjandi verkefnum til úrlausnar. Það liggur fyrir út frá því að sveitarfélögin, ríkið og fjölmargir aðilar þurfa að taka höndum saman, móta stefnu um uppbyggingu innviða og alls kyns starfsemi til framtíðar til þess að mögulegt verði að mæta þeirri þróun sem farið var yfir á fundinum. Suðurnesin eru og verða í brennidepli næstu misseri og ár, þótt svo ekki nema eitthvað af þeim spám sem fjallað var um ganga eftir.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum verður haldinn í Garði nú um helgina. Auk venjulegra aðalfundarstarfa verða áhugaverð erindi flutt, sem munu án efa kalla fram líflegar umræður. Þessi erindi fjalla öll meira og minna um stöðu mála á Suðurnesjum og framtíðarhorfur, m.a. búsetuþróun, samgöngumál, raforkumál og uppbyggingu innviða til að mæta mikilli aukningu ferðamanna á svæðinu. Allt að gerast á Suðurnesjum.

Kvennakvöld Víðis.

Í kvöld, föstudag verður árlegt kvennakvöld Víðis í Samkomuhúsinu. Mikil aðsókn er jafnan að kvennakvöldinu og samkvæmt heimildum Mola er uppselt og því verður fullt hús af konum í Samkomuhúsinu í kvöld. Miklar sögur hafa farið af stemmningunni á kvennakvöldunum undanfarin ár, karlar í Víði sjá um þjónustu við konurnar og fer sögum af því að mikil eftirspurn sé eftir því meðal karlanna að fá að þjóna á kvennakvöldunum. Eins og sést á myndinni hér að neðan, þá er allt tilbúði fyrir kvennakvöldið og að sjálfsögðu er bleiki liturinn alls ráðandi á þessum bleika föstudegi. Frábært framtak hjá Víði og óskum við konunum góðrar skemmtunar í kvöld.

Allt klárt fyrir kvennakvöld Víðis.
Allt klárt fyrir kvennakvöld Víðis.

Ljóðasamkeppni Hollvina Unu í Sjólyst.

Hollvinir Unu í Sjólyst efna til ljóðasamkeppni í annað sinn á Suðurnesjum, undir heitinu Dagstjarnan 2016. Nánari upplýsingar um ljóðasamkeppnina má m.a. finna á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is.  Þetta er ánægjulegt framtak hjá Hollvinum Unu og vonandi að sem flestir taki þátt.

Una í Sjólyst
Una í Sjólyst

Veðrið.

Veðrið þessa vikuna hefur að mestu einkennst af suðlægum áttu, vindi og vætutíð. Óvenju mikið hefur rignt suma dagana, en nú undir lok vikunnar hefur stytt upp. Þegar þetta er skrifað á föstudagsmorgni skín sólin, en eftir leiðindin í veðrinu alla vikuna sér verulega á trjágróðri, sem hefur fellt mikið af laufum. Útlit er fyrir ágætt helgarveður.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail