Við lok árs 2015.

Áramót eru jafnan merkileg tímamót, þá er tilfinningin gjarnan sú að tilveran sé núllstillt. Litið er til baka yfir farinn veg, nýr kafli hefst og ákveðin spenna fylgir því að hefja nýtt ár með nýjum áskorunum.  Ef litið er til baka yfir liðið ár kemur jafnan ýmislegt athyglisvert í ljós, sumt hefur hreinlega gleymst en annað er eins og ljóslifandi í hugskotinu.

Molar úr molum.

Undir lok febrúar 2015 hóf bæjarstjóri að skrifa Mola úr Garði. Markmiðið með Molum var að birta þar vikulega pistla þar sem fjallað væri um viðburði og annað sem tengist lífinu og tilverunni í Garðinum, ásamt því að koma á framfæri upplýsingum af vettvangi sveitarfélagsins. Vikupistlarnir hafa birst á föstudögum og sá fyrsti kom fram í lok 9. viku þann 27. febrúar. Auk vikumola hafa birst molar um sérstök umfjöllunarefni, sá fyrsti 23. febrúar þegar Molar úr Garði voru kynntir til sögunnar. Þegar farið er yfir alla molana þá kemur í ljós að margt hefur átt sér stað í Garðinum á liðnu ári, en eflaust má tína til einhverja mola sem sem féllu út af en hefðu átt fullt erindi í vikupistla.

Vikupistlar.

Umfjöllun um veðurfar er klassísk á Íslandi. Í vikupistlum hefur nokkuð verið fjallað um veðrið, sem var erfitt og leiðinlegt framan af árinu og þá sérstaklega yfir vetrarmánuðina.

Um mánaðamótin janúar/febrúar var ný og glæsileg líkamsræktaraðstaða í íþróttamiðstöðinni tekin í notkun. Þar hefur verið mikil aðsókn og má glöggt sjá að vaxtarlag margra hefur breyst til hins betra á árinu. Íþróttamiðstöðin býður upp á glæsilega og góða aðstöðu, með 25 m sundlaug ásamt tveimur heitum pottum, vatnsgufu og rennibraut, auk íþróttasalar í fullri stærð og hinni glæsilegu líkamsræktaraðstöðu.

Upprennandi körfuboltahetjur í Garði.
Upprennandi körfuboltahetjur í Garði.

Skólalífið í Garði er mjög blómlegt og margir skemmtilegir viðburðir hafa verið í skólunum. Það á jafnt við um Gerðaskóla, leikskólann Gefnarborg og Tónlistarskólann. Um mitt árið var ráðinn nýr skólastjóri og aðstoðarskólastjóri við Gerðaskóla, í haust tók nýr leikskólastjóri til starfa í leikskólanum Gefnarborg.

Sumarhátíð leikskólans
Sumarhátíð leikskólans

Á árinu hafa verið nokkrir menningarviðburðir. Hið árlega þorrablót var í upphafi Þorra í janúar sl., þar mætti mikill fjöldi manns, þorrablótið í Garði er það fjölmennasta á Suðurnesjum. Í lok júní var Sólseturshátíð, með ýmsum skemmtilegum uppákomum og myndarlegri dagskrá. Fjölskyldu-og menningarvika var haldin í byrjun nóvember, með dagskrá alla þá vikuna. Nú um miðjan desember hófst listahátíðin Ferskir vindar, sem mun standa fram eftir janúar með þátttöku yfir 50 listamanna víðs vegar að úr heiminum. Auk þessara viðburða mætti nefna marga aðra, t.d. norræna bókasafnsviku, safnahelgi á Suðurnesjum, starfsemi Hollvina Unu í Sjólyst, konu-og herrakvöld Víðis, skötuveisluna í júlí o.m.fl. Það er mikið um að vera á menningarsviðinu í Garði.

Konur í sundlaugarpartýi á Sólseturshátíð.
Konur í sundlaugarpartýi á Sólseturshátíð.
Lína Langsokkur og leikskólabörn á Sólseturshátíð
Lína Langsokkur og leikskólabörn á Sólseturshátíð
Sólsetur á Garðskaga 25. júní.
Sólsetur á Garðskaga 25. júní.

Félagslífið er ekki síður blómlegt. Mikið og kraftmikið starf er í Auðarstofu, þar sem er félagsstarf eldra fólks í Garðinum. Knattspyrnufélagið Víðir stendur fyrir öflugu starfi og er aðdáunarvert hve mikið sjálfboðaliðastarf á sér stað í félaginu. Víðir annast ásamt Björgunarsveitinni Ægi þorrablótið, Víðir er framkvæmdaraðili Sólseturshátíðar, félagið hélt herrakvöld og sérlega glæsilegt og vel sótt konukvöld, Unglingaráðið bauð upp á skötuveislu fyrir jólin og aðalstjórnin bauð styrktaraðilum í hangikjötsveislu á Aðventu. Auk alls þessa heldur Víðir úti öflugu íþróttastarfi þar sem knattspyrnan er megin viðfangsefnið. Björgunarsveitin Ægir heldur uppi öflugu starfi og er mikilvægur hlekkur í  öryggismálum samfélagsins, sem ber að þakka. Auk þessa má nefna starf Kvenfélagsins Gefnar, sem er líka mikilvægur hlekkur í samfélaginu. Hollvinir Unu annast varðveislu Sjólystar og innbús Unu Guðmundsdóttir. Auk þessa starfar Kiwanisklúbburinn Hof, og ekki má gleyma Söngsveitinni Víkingunum sem yljuðu Garðbúum oft um hjartarætur með söng sínum á árinu. Félagslíf barna og unglinga tengist að miklu leyti skólastarfinu og öflugt og fjölbreytilegt starf er í Félagsmiðstöðinni Eldingu.

Sviðaveisla í Auðarstofu
Sviðaveisla í Auðarstofu
Kynjaverur á hrekkjavökudiskó í Eldingu
Kynjaverur á hrekkjavökudiskó í Eldingu
Regnboginn yfir Víði
Regnboginn yfir Víði

Starfsemi sveitarfélagsins var í föstum skorðum á árinu og það sinnir vel þeirri þjónustu við íbúanna sem því ber að veita. Það er jafnan forvitnilegt og spennandi að fylgjast með þróun íbúafjölda í hverju sveitarfélagi. Um síðustu áramót voru skráðir 1.425 íbúar í Garði, þeim fjölgaði á tímabili upp úr miðju ári en fækkaði aftur þegar leið á árið. Samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár voru 1.425 íbúar skráðir í sveitarfélaginu nú í síðustu viku ársins. Þar með hefur íbúafjöldinn staðið í stað frá upphafi ársins, vonandi mun rætast úr því á nýju ári og eru nýir íbúar boðnir velkomnir í Garðinn.

Ýmislegt af vettvangi bæjarstjórnar hefur verið til umfjöllunar í molum. Sagt hefur verið frá helstu málum á fundum bæjarráðs og bæjarstjórnar. Þá var farið yfir helstu niðurstöður ársreiknings 2014 og fjárhagsáætlunar 2016. Þær bera með sér góðan efnahag sveitarfélagsins og að rekstur þess er í ágætu jafnvægi.

Bæjarstjórn Garðs ásamt bæjarstjóra
Bæjarstjórn Garðs ásamt bæjarstjóra

Molar um einstök málefni.

Á árinu birtust nokkrir molar þar sem fjallað var um sérstök málefni. Í febrúar var fjallað um stefnumótun bæjarstjórnar um uppbyggingu atvinnulífs og ferðaþjónustu í Garði.  Þar kemur m.a. fram að Garður sé  „bær hafsins og norðurljósa“.

Norðurljósin yfir Garðskaga
Norðurljósin yfir Garðskaga

Í febrúar voru molar með umfjöllun um Skagagarðinn mikla, sem er mjög merkilegt fyrirbæri í sögu Garðs. Talið er að garðurinn hafi verið hlaðinn um 10.  öld, hann hafi verið allt að 1.500 metra langur.

Í mars var fjallað um Unu í Sjólyst, völvu Suðurnesja. Í sama mánuði voru molar með yfirskriftinni „Vorboðinn í Garðsjónum“, en tilefni þess var að frá glugganum á skrifstofu bæjarstjórans blöstu við smábátar sem höfðu hafið róðra á Garðsjóinn undir lok mars.

Una í Sjólyst
Una í Sjólyst

Í apríl fjölluðu molar um skemmtilega heimsókn sem bæjarstjórinn fékk. Þar voru á ferð nokkrir ungir og efnilegir knattspyrnumenn í leikskólanum. Þeir komu á framfæri kvörtun um að fótboltasvæðið á leikskólalóðinni væri ónýtt og þyrfti að laga. Bæjarstjórinn tók erindinu vel og var fótboltavöllurinn á leikskólalóðinni lagaður sl. sumar.

Knattspyrnumenn úr leikskólanum í heimsókn hjá bæjarstjóra.
Efnilegir knattspyrnumenn í leikskólanum í heimsókn hjá bæjarstjóra.

Í maí hélt Una María Bergmann glæsilega burtfarartónleika frá Tónlistarskólanum í Garði í Útskálakirkju. Tónleikarnir voru síðari hluti framhaldsprófs hennar frá tónlistarskólanum. Fjallað var um tónleikana í sérstökum mola.

Una María Bergmann mezzosópran
Una María Bergmann mezzosópran

Í júní voru sérstakir molar tileinkaðir hátíðahöldum í Garðinum. Annars vegar var umfjöllun um Sólseturshátíð sem þá stóð yfir, einnig var fjallað um sumarhátíð leikskólans.

Fjölmargt fleira mætti nefna, en að öðru leyti fela Molar úr Garði í sér ákveðinn annál ársins 2015 og er forvitnilegt að renna gegnum alla molana, þótt svo þar komi ekki fram allt það sem átti sér stað í Garðinum á árinu. Molarnir halda áfram á nýju ári og munu að ári fela í sér annál næsta árs.

 

Ég óska Garðbúum og landsmönnum öllum farsældar á nýju ári, með þökk fyrir samfylgdina á því ári sem nú er að renna sitt skeið á enda.

new-years-eve-sedona

 

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

51. vika 2015.

Þessi vika hefur borið einkenni þess að jólahátíðin er að ganga í garð.  Ýmsir viðburðir hafa verið í Garðinum sem tengjast jólunum. Menning og listir blómstra í Garðinu, eins og fram kemur í þessum molum.

Nú í morgun komu nemendur Tónlistarskólans í heimsókn á bæjarskrifstofuna og léku nokkur jólalög.

Tónlistarmenn í heimsókn á bæjarskrifstofu.
Tónlistarmenn í heimsókn á bæjarskrifstofu.

Hangikjötsveisla Víðis.

Sl. föstudag bauð Knattspyrnufélagið Víðir styrktaraðilum og velunnurum í hangikjötsveislu í félagsheimili Víðis. Þetta er árviss viðburður þar sem Víðir þakkar fyrir sig. Fjölmenni naut hangikjötsins og var að vanda gerður góður rómur að góðgætinu.

Tónleikar í Útskálakirkju.

Sl. sunnudag voru tvennir tónleikar í Útskálakirkju. Annarsvegar jólatónleikar á vegum kirkjunnar og um kvöldið voru styrktartónleikar Hollvina Unu. Fram komu ýmsir góðir listamenn á báðum tónleikunum, sem voru vel sóttir. Þá voru veitt verðlaun í ljóðasamkeppni Hollvina Unu. Fyrstu verðlaun hlaut Amelía Björk Davíðsdóttir, 12 ára nemandi við Gerðaskóla.

Jólatónleikar Tónlistarskólans.

Tónlistarskólinn í Garði hélt árvissa jólatónleika í Miðgarði í Gerðaskóla í vikunni. Það var ánægjulegt að hlýða á tónlist nemendanna og gaman að sjá hve góðum árangri tónlistarskólinn er að skila inn í tónlistarlífið í Garði. Fram komu nemendur á öllum aldri og af öllum stigum tónlistarnámsins. Leikið var á margskonar hljóðfæri og einnig hljómaði ljúfur söngur.

Jólatónleikar Tónlistarskólans
Jólatónleikar Tónlistarskólans

Ferskir vindar.

Listahátíðin Ferskir vindar hófst í vikunni. Fyrstu listamennirnir komu í Garðinn í byrjun vikunnar og nú er listsköpun þeirra hafin af fullum krafti. Það verður fróðlegt að fylgjast með listamönnunum að störfum á næstu vikum, en sýningar verða í byrjun janúar. Upplýsingar um listahátíðina má nálgast á heimasíðu Ferskra vinda, fresh-winds.com.

Skötuveisla Víðis.

Það er hefð fyrir því að Unglingaráð Víðis bjóði upp á skötuveislu rétt fyrir jólin. Í hádeginu í dag, föstudag mætti fjöldi manns í skötuveisluna í Samkomuhúsinu. Veisluhöldum verður fram haldið í kvöld. Skatan var ljúffeng og góð stemmning var meðal veislugesta.

Jólafrí.

Nú fara Molar í jólafrí, þar með eru þessir vikumolar þeir síðustu á þessu ári. Ég óska öllum gleðilegra hátíða, bæði um jól og áramót. Næstu vikumolar koma á nýju ári.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

50. vika 2015.

Óveðrið og björgunarsveitirnar.

Eins og alkunna er gekk mikið óveður yfir landið í byrjun vikunnar. Garðurinn slapp sem betur fer vel frá óveðrinu, versta veðrið náði ekki til okkar.

Íslensku björgunarsveitirnar eru einstakar og við búum vel að því eiga jafn öfluga sveit björgunarsveitafólks og raun ber vitni. Það er líka einstakt að þvílíkur fjöldi fólks sé tilbúinn til að leggja af mörkum þá miklu vinnu og oft hættulega, sem björgunarsveitarfólk gerir á Íslandi, allt í sjálfboðavinnu. Við í Garðinum búum svo vel að eiga okkar björgunarsveit, en félagar í Björgunarsveitinni Ægi í Garði stóðu vaktina meðan þurfa þótti. Það vekur öryggistilfinningu að vita af björgunarsveitarfólki á vaktinni við svona aðstæður, fyrir það er þakkað af heilum hug.

Merki Björgunarsveitarinnar Ægis í Garði
Merki Björgunarsveitarinnar Ægis í Garði

Bókasafnið.

Við búum vel að góðu bókasafni í Garði. Í bókasafninu er mikið af góðum bókum sem höfða til allra hópa. Þessa dagana kemur hluti af jólabókaflóðinu í bókasafnið í Garði og eru Garðbúar hvattir til þess að nýta sér góða þjónustu bókasafnsins, leigja sér bók og leggjast í lestur.

Tónleikar Hollvina Unu í Sjólyst.

Á sunnudaginn, þann 13. desember verða fjáröflunartónleikar Hollvina Unu haldnir í Útskálakirkju og hefjast kl. 20:00. Á tónleikunum koma fram góðir listamenn og aðgangseyrir rennur óskiptur til starfseminnar í Sjólyst. Bæjarstjóri hvetur garðbúa og gesti til að fjölmenna á tónleikana, njóta góðrar dagskrár og styrkja starfsemina í Sjólyst.

Ferskir vindar.

Í næstu viku hefst listahátíðin Ferskir vindar. Fjöldi erlendra listamanna mun taka þátt í hátíðinni og munu þeir fara að koma í Garðinn upp úr miðri næstu viku, hátíðin mun standa til loka janúar 2016. Að undanförnu hefur verið mikil vinna við að undirbúa komu listamannanna. Listahátíðin Ferskir vindar er í senn skemmtilegur og athyglisverður atburður sem hefur m.a. vakið mikla athygli víða erlendis. Nánari upplýsingar um hátíðina munu koma fram á næstu dögum. Framundan er mikil listaveisla í Garði.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

49. vika 2015.

Jólaljósin tendruð á jólatrénu.

Sl. sunnudagur markaði upphaf Aðventunnar og samkvæmt hefðinni voru ljósin tendruð á jólatrénu í miðbænum þann dag. Fjöldi garðbúa og gesta var viðstaddur, enda góð og hátíðleg dagskrá. Það er hefð fyrir því að afmælisbarn dagsins tendri ljósin, að þessu sinni var það Máney Dögg Másdóttir sem var eitt af afmælisbörnum sunnudagsins. Barnakór tónlistarskólans og Gerðaskóla söng nokkur lög, sem og söngsveitin Víkingarnir. Tveir rauðklæddir og hvítskeggjaðir bræður mættu, rifjuðu upp jólalögin og skemmtu börnunum, reyndar virtust margir fullorðnir hafa gaman að og fundu barnið í sér. Aðventan er gengin í garð og jólahátíðin framundan.

Jólasveinarnir eru komnir til byggða
Jólasveinarnir eru komnir til byggða

Jólabasar kvenfélagsins.

Kvenfélagið Gefn hélt sinn árlega jólabasar fyrsta sunnudag í Aðventu. Þar var ýmislegt fallegt í boði og var salan góð. Kvenfélagið Gefn í Garði er eins og önnur kvenfélög á Íslandi, mikilvægur hlekkur í samfélaginu.

Kvenfélagskonur kátar á jólabasar í Garði
Kvenfélagskonur kátar á jólabasar í Garði

Bærinn að klæðast búningi jólanna.

Húseigendur í Garði hafa að undanförnu komið upp jólaskreytingum og ljósum á hús sín og í garða. Það lífgar upp á bæinn og veitir ánægju.

Eitt af mörgum jólahúsum í Garði
Eitt af mörgum jólahúsum í Garði

Bæjarstjórnarfundur.

Í vikunni var síðasti fundur bæjarstjórnar á þessu ári. Aðal mál fundarins var afgreiðsla fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Áætlunin kemur ágætlega út og ber merki um góða fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Rekstrarafgangur er áætlaður 17,7 milljónir króna, fjárfestingar og framkvæmdir eru áætlaðar 65,2 milljónir. Efnahagur sveitarfélagsins er traustur og skuldir litlar. Sveitarfélagið skuldar lánastofnunum aðeins rúmar 60 milljónir og er hlutfall skulda og skuldbindinga rúmlega 40% miðað við tekjur, það hlutfall má hæst vera 150% samkvæmt lögum. Rekstur og fjármál sveitarfélagsins eru í góðum farvegi, til að fara ekki út af sporinu í þeim efnum þarf áframhaldandi aðhald í rekstri og að skynsemi ráði við ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna.

Snyrtilegasta húsið í Garði.

Undir lok sumars valdi Umhverfisnefnd Garðs Skólabraut 11 sem snyrtilegasta húsið í Garði árið 2015. Eigendur eru Theodór Guðbergsson og Jóna Hallsdóttir. Af því tilefni hefur Umhverfisnefnd afhent þeim viðurkenningu, sem er steinn skreyttur af Ástu Óskarsdóttur.

Bæjarstjóri óskar þeim Jónu og Theodór til hamingju með viðurkenninguna, með þökk fyrir að sýna frumkvæði og metnað við að viðhalda sinni eign snyrtilegri.

Jóna og Theodór með viðurkenningu fyrir snyrtilegasta húsið 2015, ásamt Brynju form. Umhverfisnefndar og Einari Friðrik hjá Umhverfis-, Skipulags-og byggingarsviði.
Jóna og Theodór með viðurkenningu fyrir snyrtilegasta húsið 2015, ásamt Brynju form. Umhverfisnefndar og Einari Friðrik hjá Umhverfis-, Skipulags-og byggingarsviði.

Hver er staðan ?

Í gær, fimmtudag boðaði Heklan, Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja til fundar í Hljómahöllinni undir yfirskriftinn „Hver er staðan ?“. Þar voru flutt nokkur áhugaverð erindi um stöðu og horfur í atvinnu- og menntamálum á Suðurnesjum. Skúli Mogensen forstjóri WOW fór yfir stöðuna og framtíðarhorfur hjá sínu fyrirtæki, þar með um fyrirsjáanleg mjög aukin umsvif í flugstarfsemi og fjölgun ferðafólks á næstu árum. Þá má nefna að Kristján Hjálmarsson hjá HN markaðssamskiptum fór yfir viðhorfskönnun sem m.a. gefur til kynna hvernig ímynd Suðurnesja er. Auk þeirra voru erindi um athyglisverða starfsemi Codland í Grindavík, framboð á starfs-og verkmenntun á Suðurnesjum, ásamt því að fjallað var um upplifun gesta og mikilvægi mannauðs, ekki síst í ferðaþjónustu.

Það er deginum ljósara að ef litið er til erindis Skúla, þá eru Suðurnesin í dauðafæri hvað varðar ferðaþjónustu og aukin umsvif í atvinnustarfsemi. Helsta áhættan í þeim efnum er að nýta ekki tækifærin og trompin sem við höfum á hendi. Lykilatriði í því er samstaða og samvinna, bæði innan Suðurnesja og hjá stjórnvöldum. Erindi Skúla var athyglisvert og í því fólst áskorun á alla aðila um að vinna saman að því að spila rétt úr trompunum. Þá er einnig ljóst af erindi Kristjáns að við eigum verk að vinna við að bæta ímynd Suðurnesja og kveikja áhuga fólks á því að horfa til Suðurnesja með atvinnu og búsetu. Þar virðist helst vanta upp á fræðslu um ágæti svæðisins og þeirra tækifæra sem hér liggja. Það er sannarlega verk að vinna, við höfum trompin á hendi og áskorunin felst í að nota þau rétt.

Veðrið.

Um miðja vikuna gerði áhlaupsveður, með þónokkurri snjókomu. Snjókoman hélt áfram og ekki hefur oft verið jafn mikill snjór í Garðinum undanfarin ár og nú í upphafi Aðventu. Snjórin skapar ákveðna stemmningu á Aðventunni, en hin hliðin snýr að erfiðri færð og snjómokstri. Svona er Ísland og á þessum árstíma má að sjálfsögðu alltaf búast við svona veðurfari. Veðurspáin fyrir daginn í dag og á morgun er ekki góð, molar hvetja landann til að fylgjast vel með veðurspám og fara varlega í umferðinni.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail