48. vika 2015.

Íbúafundur.

Sl. mánudag var haldinn íbúafundur í Gerðaskóla. Á dagskrá var kynning á fjárhagsáætlun 2016 og fjárhag sveitarfélagsins. Síðari hluti fundarins var kynning á hugmyndum og áformum um uppbyggingu ferðaþjónustu á Garðskaga. Fundurinn var vel sóttur af um 50 fundarmönnum og fóru fram góðar og uppbyggilegar umræður um málefni sveitarfélagsins.

Nokkrir fundarmenn á íbúafundi 23.11.2015
Nokkrir fundarmenn á íbúafundi 23.11.2015

Bæjarráðsfundur.

Í gær, fimmtudag var fundur í bæjarráði og var aðalefni fundarins fjárhagsáætlun 2016. Bæjarráð samþykkti gjaldskrá og ýmsar ráðstafanir í tengslum við fjárhagsáætlunina, auk þess að vísa fjárhagsáætlun til síðari umræðu í bæjarstjórn í næstu viku.  Niðurstöður fjárhagsáætlunar eru ágætar og munu Molar fara nánar yfir það eftir að bæjarstjórn hefur afgreitt fjárhagsáætlunina. Fjárhagur og rekstur sveitarfélagsins er í góðu horfi.

Auk fjárhagsáætlunar fjallaði bæjarráð um samkomulag við væntanlega rekstraraðila ferðaþjónustu á Garðskaga og var bæjarstjóra veitt heimild til þess að ganga frá því samkomulagi fyrir hönd sveitarfélagsins. Spennandi verkefni framundan á Garðskaga.

Sjónvarpsviðtal við Víkurfréttir.

Sjónvarp Víkurfrétta tók viðtal við bæjarstjórann í vikunni og var það sýnt í gærkvöldi á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Umræðuefnið var uppbygging ferðaþjónustu á Garðskaga. Þar eru spennandi hlutir á ferðinni og vonandi mun það allt saman ganga upp, enda sækir mikill fjöldi ferðamanna Garðskaga heim á hverju ári og þá ekki síst yfir vetrartímann. Norðurljósin eru eitt megin aðdráttaraflið yfir veturinn, enda er Garðskagi einn besti staður landsins til að njóta norðurljósa. Garðurinn er bær norðurljósanna.

Þessa mögnuðu mynd tók Jóhann Ísberg af norðurljósum yfir Garðskaga, en Jóhann er einn þeirra sem vinna að uppbyggingu ferðaþjónustu á Garðskaga.

Norðurljósin yfir Garðskaga
Norðurljósin yfir Garðskaga

Kveikt á jólatré á sunnudaginn.

Næsta sunnudag verður kveikt á jólatrénu, með tilheyrandi dagskrá. Þessi atburður er fastur liður í upphafi Aðventu og markar upphaf jólastemmningar í Garði. Hefð er fyrir því að afmælisbörn dagsins kveiki á jólaljósunum á jólatrénu. Nánar má sjá dagskrá á heimasíðunni svgardur.is. Bæjarstjóri hvetur garðbúa til að fjölmenna, njóta samveru og þeirrar dagskrár sem í boði verður.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

47. vika 2015.

Heimsókn í Nesfisk

Bæjarstjórn og bæjarstjóri heimsóttu hið myndarlega og öfluga sjávarútvegsfyrirtæki Nesfisk í vikunni. Stjórnendur fyrirtækisins tóku vel á móti gestunum, kynntu starfsemina og leiddu gestina um fyrirtækið. Nesfiskur er vel rekið fyrirtæki og í hópi stærstu sjávarútvegsfyrirtækja í landinu. Starfsmenn eru vel á fjórða hundrað, sjómenn og landverkafólk og fyrirtækið er með vinnslu á þremur stöðum, í Sandgerði og Hvammstanga auk Garðsins. Nesfiskur hefur á undanförnum árum byggt upp glæsilega aðstöðu í Garði, sem er fyrirtækinu til mikils sóma. Bæjarstjóri þakkar fyrir góðar móttökur og áhugaverða kynningu á starfsemi fyrirtækisins. Bæjarstjórn hyggur á fleiri heimsóknir til fyrirtækja í Garði á næstunni, enda er mikilvægt að bæjaryfirvöld séu í góðu sambandi við atvinnulífið í sveitarfélaginu.

Stjórnendur Nesfisks í nýju glæsilegu skrifstofuhúsnæði
Stjórnendur Nesfisks í nýju glæsilegu skrifstofuhúsnæði

Fjárhagsáætlun og íbúafundur.

Nú er verið að leggja lokahönd á fjárhagsáætlun næsta árs. Bæjarstjórn mun afgreiða fjárhagsáætlunina við síðari umræðu á bæjarstjórnarfundi 2. desember. Nk. mánudag verður íbúafundur í Gerðaskóla þar sem farið verður yfir fjárhag og áætlanir sveitarfélagsins. Á íbúafundinum verða einnig kynntar hugmyndir og áform um starfsemi og rekstur ferðaþjónustu á Garðskaga. Bæjarstjóri hvetur garðbúa til að mæta á íbúafundinn og ræða málefni sveitarfélagsins.

Veðrið.

Haustið hefur verið þokkalegt, en þó með talsverðum rigningum. Nú síðustu daga hefur kólnað aðeins í veðri og þegar þessar línur eru skrifaðar er lítilsháttar snjókoma í Garðinum, rétt til þess að lita jörðina hvíta. Þrátt fyrir allt hefur veðrið verið ágætt að undanförnu og vonandi heldur það áfram á næstunni.

Facebooktwittergoogle_plusmail

46. vika 2015.

Mikið um að vera í Auðarstofu.

Í Auðarstofu fer fram félagsstarf fyrir garðbúa sem náð hafa 60 ára aldri, í myndarlegu og góðu húsnæði í eigu sveitarfélagsins. Þar er jafnan mikið um að vera, vel mætt og þátttaka í starfinu er góð. Þann 28. október sl. var haldin mikil sviðaveisla þar sem þeir sem mættu klæddust bleikum litum og margir höfðu hatta á höfði.  Þá var handavinnusýning og vöfflukaffi fyrir stuttu, þar sem mættu um 200 gestir og vöfflur voru borðaðar af um 120 manns.

Það er ánægjulegt hve kröftugt og uppbyggilegt starf á sér stað í Auðarstofu.

Sviðaveisla í Auðarstofu
Sviðaveisla í Auðarstofu
Hópurinn í sviðaveislunni í Auðarstofu.
Hópurinn í sviðaveislunni í Auðarstofu.

Norræn bókasafnavika.

Bókasafnið í Garði og Norræna félagið í Garði standa saman að þátttöku í Norrænni bókasafnaviku þessa vikuna. Þema vikunnar er vinátta. Á skólabókasafninu hefur þessa vikuna verið kynning á norrænum barna-og unglingabókum, ásamt því að lesið hefur verið úr völdum bókum. Í gær, fimmtudag las Hrafn A Harðarson bókasafnsfræðingur upp úr Íslendingasögunum.

Vakin er athygli á því að í bókasafninu í Garði eru til fjölmargar bækur eftir norræna höfunda fyrir bæði börn og fullorðna. Garðbúar eru hvattir til þess að kynna sér þær og njóta þess að lesa norrænar bókmenntir.

Fjölskyldu og menningarvika.

Í síðustu viku stóð yfir Fjölskyldu-og menningarvika í Garði, þetta var í fyrsta skipti sem slík dagskrá hefur verið í Garði. Fjölmargt áhugavert var á dagskrá vikunnar og var þátttaka ágæt. Eftir reynsluna af síðustu viku má gera ráð fyrir að Fjölskyldu-og menningarvika verði endurtekin á næsta ári. Bæjarstjórinn þakkar öllum þeim sem stóðu að undirbúningi og framkvæmd dagskrárinnar fyrir vel unnin störf.

Körfuboltaæfingar fyrir börn.

Þau Bára Bragadóttir og Óli Garðar Axelsson áttu frumkvæði að því að hefja körfuboltaæfingar fyrir börn í 3.-6. bekk grunnskólans. Fyrstu æfingar voru fyrir nokkrum dögum og er aðsóknin mjög góð. Hver veit nema framtíðar körfuboltastjörnur séu að stíga sín fyrstu skref í íþróttahúsinu í Garði þessa dagana. Bæjarstjórinn þakkar þeim Báru og Óla fyrir frumkvæðið og vonast til að æfingar gangi vel.

Upprennandi körfuboltahetjur í Garði.
Upprennandi körfuboltahetjur í Garði.
Bára og Óli Garðara körfuboltafrömuðir.
Bára og Óli Garðar körfuboltafrömuðir.

Fjárhagsáætlun.

Nú stendur sem hæst vinna við fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár og rammaáætlun fyrir næstu þrjú ár þar á eftir. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal lokið við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir 15.desember. Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins verður afgreidd eftir síðari umræðu í bæjarstjórn 2.desember. Eftir hagræðingaraðgerðir síðustu tvö ár er ágætt útlit fyrir viðunandi niðurstöðu áætlunarinnar.

Tekjur af útsvari er einn mikilvægasti tekjustofn sveitarfélagsins og hafa útsvarstekjur vaxið nokkuð á þessu ári og gera má ráð fyrir að sú þróun haldi áfram á næsta ári. Í fjárhagsáætlun ársins 2015 voru tekjur af útsvari áætlaðar um 530,5 milljónir króna, í útkomuspá fyrir árið 2015 er áætlað að útsvarstekjur verði um 561,6 milljónir. Í áætlun Sambands íslenskra sveitarfélaga er gert ráð fyrir að útsvarstekjur sveitarfélagsins verði um 608,7 milljónir króna árið 2016.  Áætlaðar útsvarstekjur eru því 8,9% meiri í áætlun fyrir árið 2016 en gert er ráð fyrir að verði árið 2015.  Þessi þróun er ánægjuleg og er nokkuð í takti við jákvæða þróun í atvinnumálum á Suðurnesjum.

Bæjarstjórn mun boða til íbúafundar mánudaginn 23. nóvember kl. 20:00 í Miðgarði í Gerðaskóla, þar sem farið verður yfir fjárhag og fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár.

Herrakvöld Víðis.

Karlar fjölmenntu á herrakvöld Víðis sl. laugardagskvöld. Kvöldið tókst vel, góð mæting og mikil gleði. Ekki hefur tekist að nálgast myndir af herrakvöldinu til birtingar, hvort sem það er vegna þess að þær þyki ekki birtingarhæfar eða hvort yfir höfuð hafi ekki verið teknar neinar myndir. Hvað sem því líður þá er mikilvægt fyrir Víðir að herrakvöldið tókst vel og að félagið hafi náð að safna einhverjum aurum til rekstrar félagsins.

Veðrið.

Veðrið í haust hefur að miklu leyti verið ágætt, en þó hefur tíðin einkennst af rigningum. Nú er einhver breyting að verða, hitastig fer lækkandi og vart hefur orðið við snjókomu, él og ísaðar götur, sem má telja eðlilegt miðað við hve stutt er til Jóla !

 

Góða helgi !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

45. vika 2015.

Fjölskyldu-og menningarvika í Garði.

Þessi vika hefur einkennst af dagskrá fjölskyldu-og menningarviku í Garðinum. Daglegir viðburðir hafa verið á dagskránni og hefur aðsókn verið ágæt. Dagskránni lýkur á sunnudaginn með bíósýningu í Samkomuhúsinu, þar sem myndin Bíódagar verður sýnd. Dagskrá vikunnar má finna á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is.

Fjölskyldu-og menningarvikan er haldin að frumkvæði Ferða-, safna-og menningarnefndar Garðs, sem annaðist undirbúning og skipulagningu dagskrár. Þetta er í fyrsta skipti sem slík dagskrá er skipulögð í Garðinum, en þess má vænta að þetta verði fastur liður í Garðinum á næstu árum.

Fundur í bæjarstjórn.

Í vikunni var fundur í bæjarstjórn Garðs. Að venju samanstóð dagskrá fundarins að mestu af fundargerðum bæjarráðs og nefnda sveitarfélagsins, ásamt fundargerðum nefnda og stjórna af sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga. Á fundinum í þessari viku var fyrri umræða um fjárhagsáætlun 2016, en áætlunin verður til frekari vinnslu fram að síðari umræðu í bæjarstjórn í byrjun desember. Þegar þar að kemur verður gerð nánari grein fyrir fjárhagsáætlun hér í molum.

Hrekkjavökudiskó.

Við íslendingar erum oft opin fyrir nýjum siðum og förum gjarnan alla leið í þeim efnum. Færst hefur í vöxt að gera æ meira úr hinni amerísku „Hrekkjavöku“, sem löng hefð er fyrir í USA en Molar hafa ekki þekkingu á að útskýra hvað gengur út á og af hverju. Í síðustu viku var haldið hrekkjavökudiskó í Félagsmiðstöðinni Eldingu, þar sem nemendur 1. – 6. bekkjar Gerðaskóla mættu í gervi ýmissa kynjavera, dönsuðu og léku sér. Þetta var hin mesta og besta skemmtun fyrir krakkana og ekki síður fyrir foreldra og starfsfólk félagsmiðstöðvarinnar. Ekki fer sögum af því hvernig börnin sváfu um nóttina, eftir að hafa mætt alls konar misjafnlega ógnvekjandi verum á diskóinu !

Hér að neðan eru myndir af „Hrekkjavökudiskó“ í Eldingunni.

Kynjaverur á hrekkjavökudiskó í Eldingu
Kynjaverur á hrekkjavökudiskó í Eldingu
Ógnvekjandi verur á hrekkjavöku í Eldingu
Ógnvekjandi verur á hrekkjavöku í Eldingu
Ekki væri gott að mæta þessum í myrkri í Garðinum !
Ekki væri gott að mæta þessum í myrkri í Garðinum !

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

Fjölskyldu-og menningarvika í Garði.

Þessa vikuna stendur yfir Fjölskyldu-og menningarvika hér í Garðinum.  Það var Ferða-, safna-og menningarnefnd Garðs sem undirbjó og skipulagði dagskrá vikunnar.  Á dagskrá eru viðburðir alla daga vikunnar og hefst hún í kvöld, mánudaginn 2. nóvember kl. 19:00 hjá Björgunarsveitinni Ægi.

Stofnanir sveitarfélagsins ásamt fleiri aðilum taka virkan þátt í dagskránni.  Frítt er í sund alla daga vikunnar og Byggðasafnið verður opið um næstu helgi.

Dagskrá Fjölskyldu-og menningarvikunnar er hér fyrir neðan og má sjá hana með því að smella á myndina.

Dagskrá Fjölskyldu-og menningarviku.
Dagskrá Fjölskyldu-og menningarviku.

Bæjarstjórinn hvetur Garðbúa og gesti til þess að fjölmenna á viðburði og njóta þess sem boðið er upp á.

Góða skemmtun !

 

 

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail