42. vika 2015.

Afmæli í dag.

Í dag á Íþróttamiðstöðin í Garði afmæli. Íþróttamiðstöðin var vígð og tekin í notkun þann 16. október 1993 og á því 22 ára afmæli í dag. Til hamingju með það Garðbúar og starfsfólk Íþróttamiðstöðvarinnar !

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði Garðs og voru ýmis mál á dagskrá fundarins. Eitt af hlutverkum bæjarráðs er að fjalla um fjármál sveitarfélagsins og fjárhagsáætlun, eftirlitshlutverk bæjarráðs er mikilvægt í þeim efnum. Á þessum fundi var fjallað um framgang fjárhagsáætlunar þessa árs, ásamt því að fjallað var um málefni sem tengjast fjárhagsáætlun næsta árs, sem er í vinnslu um þessar mundir. Meðal mála sem voru á dagskrá bæjarráðs voru málefni flóttamanna, en stjórnvöld hafa leitað til sveitarfélaga í landinu varðandi móttöku flóttafólks. Bæjarstjóri lagði fram minnisblað um hlutverk og skyldur sveitarfélaga, ríkisins, Rauða krossins og annarra aðila varðandi móttöku flóttamanna. Bæjarstjórn mun taka málið til frekari umfjöllunar á næsta fundi. Fyrir fundinum lá einnig erindi frá unglingaráðum Víðis og Reynis, þar sem fram kemur að félögin munu sameiginlega reka starfsemi fyrir unglinga í knattspyrnu á næsta ári. Loks má nefna að fyrir bæjarráði lá erindi frá Íbúðalánasjóði, sem býður sveitarfélaginu húseignir sjóðsins til kaups. Bæjarráð fól bæjarstjóra að afla nánari upplýsinga hjá sjóðnum, m.a. um það hvaða húseignir um er að ræða.

Garðskagi.

Nú er unnið að því að breyta starfsemi og þjónustu á Garðskaga. Fjölmargt ferðafólk sækir á Garðskaga á hverju ári, umferðin hefur aukist mjög allra síðustu ár og er útlit fyrir enn frekari aukningu samfara mikilli fjölgun ferðafólks sem sækir Ísland heim. Markmiðin eru að bæta aðstöðu, auka þjónustu og upplifun fyrir ferðafólk, allt í þeim tilgangi að mæta þörfum ferðafólks og skapa atvinnutækifæri í tengslum við það. Mikil undirbúningsvinna hefur staðið yfir, meðal annars samþykkti bæjarstjórn stefnumótun um þessi mál í byrjun þessa árs og hefur verið unnið eftir henni. Nánar verður gerð grein fyrir þessum málum síðar.

Af fundahöldum.

Starf bæjarstjóra einkennist að miklu leyti af alls konar fundahöldum um hin ýmsu málefni, ásamt því að mæta á fundi til þess að segja frá og kynna sitt sveitarfélag og þau verkefni sem unnið er að hverju sinni.

Nú í vikunni mættum við Ásgeir bæjarstjóri í Vogum á fund launafulltrúa sveitarfélaga á suð-vesturlandi, sem haldinn var í Eldborg í Svartsengi. Launafulltrúarnir fóru þar yfir ýmis mál á sviði launa og kjaramála sveitarfélaganna, með ýmsum sérfræðingum á því sviði. Svona yfirferð er mikilvæg, enda eru kjaramál starfsmanna sveitarfélaga margslungin og því mikilvægt fyrir launafulltrúa að hafa þau mál sem mest á hreinu. Hlutverk okkar Ásgeirs á fundinum var að kynna okkar sveitarfélög og segja frá því helsta sem unnið er að í okkar sveitarfélögum. Það var ánægjulegt að hitta þennan góða hóp og fá tækifæri til þess að kynna sveitarfélagið og segja frá því sem unnið er að í Garðinum.

Einn af fundum sem bæjarstjóri mætti á í vikunni var kynning Isavia á svokölluðu „Master Plani“ um framtíðarsýn uppbyggingar Keflavíkurflugvallar. Fjölgun farþega sem fara um flugvöllin er langt umfram bjartsýnustu spár síðustu ára. Á þessu ári munu hátt í 5 milljónir farþega fara um flugvöllinn, gera má ráð fyrir að talan fari yfir 6 milljónir árið 2016. Til samanburðar fóru rétt yfir 2 milljónir farþega um flugvöllinn árið 2010. Farþegafjöldinn á þessu ári er sá sem spáð hafði verið að yrði árið 2018. Mörgum finnast áætlanir Isavia byggja á bjartsýni, en horft er til áratuga fram í tímann og leitast við að horfa til uppbyggingar sem þarf að eiga sér stað til þess að mæta þeirri þróun sem er í gangi og gera má ráð fyrir að haldi áfram í einhverri mynd inn í framtíðina. Það er til fyrirmyndar að vinna svona áætlanir og mætti gjarnan gera það á mörgum fleiri sviðum hér á landi, þar sem rýnt er til framtíðar og leitast við að meta þróun mála og mæta henni tímanlega í stað þess að þurfa að „redda“ hlutunum þegar tiltekið ástand hefur skapast.

Íbúaþróun.

Það er áhugamál margra að fylgjast með íbúaþróun sveitarfélaga. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá voru alls 1.432 íbúar skráðir með lögheimili í byrjun þessarar viku. Til samanburðar voru 1.425 íbúar skráðir með lögheimili í sveitarfélaginu þann 1. desember 2014. Íbúum hefur því fjölgað aðeins á þessu tæplega einu ári.

Kötlumót karlakóra.

Nú um helgina verður Kötlumót karlakóra haldið í Reykjanesbæ. Katla er Samband sunnlenskra karlakóra og munu karlakórar allt frá Höfn til Snæfellsness taka þátt í mótinu. Alls er áætlað að um 600 karlar munu koma saman og sameinast í kórsöng. Fjölmargir sértónleikar verða á nokkrum stöðum í Reykjanesbæ en kórarnir munu sameinast í einn stóran karlakór í Atlantic Studios á Ásbrú á síðdegis á laugardaginn. Gera má ráð fyrir að jarðskjálftamælar Veðurstofunar taki kipp þegar 600 manna karlakór beitir sér af krafti í lögum á við Brennið þið vitar !  Bæjarstjóri hvetur sem flesta til að mæta á tónleika Kötlumótsins. Þess má geta að Kötlumótið í ár er haldið af Karlakór Keflavíkur, en meðal þátttakenda er Söngsveitin Víkingar sem er m.a. skipuð söngglöðum körlum úr Garðinum.

Bleikur föstudagur.

Í dag föstudag mæta margir til sinna starfa með bleikan lit í sínum fatnaði. Það er til merkis um samstöðu og þátttöku í forvarnaátaki gegn krabbameinum, sem stendur yfir þennan mánuðinn. Starfsfólkið á bæjarskrifstofunni í Garði mætti að sjálfsögðu í bleiku í morgun, við gerðum það sem er margir gera og tókum eina „selfie“ mynd í tilefni dagsins. Þetta er skemmtilegt og setur svip á tilveruna.

Bleikur föstudagur
Bleikur föstudagur

Góða helgi !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

41. vika 2015.

Aðalfundur SSS.

Um síðustu helgi var aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS). Að venju voru ýmis áhugaverð og mikilvæg málefni til umfjöllunar. Á dagskrá fundarins var aðal umfjöllunarefni þjónusta við aldraða á Suðurnesjum. Fluttar voru þrjár áhugaverðar og efnislega mjög góðar framsögur, í framhaldinu unnu allir fundarmenn sameiginlega að því að draga fram helstu áhersluatriði varðandi þjónustu við aldraða. Stjórn SSS mun í framhaldi ákveða næstu skref og fylgja eftir góðri umfjöllun á fundinum, en gera má ráð fyrir að í framhaldinu verði farið í vinnu við að móta stefnu í málefninu. Á aðalfundi SSS varð mikil umræða um samstarf og samstarfsverkefni sveitarfélaganna á Suðurnesjum, kveikjan að þeirri umræðu var framlag fulltrúa Reykjanesbæjar í umræðunni, sem gekk út frá fjárhagsstöðu þess sveitarfélags. Þeirri umræðu er ekki lokið og má gera ráð fyrir að hún haldi áfram í nánustu framtíð.

Bæjarstjórnarfundur.

Á miðvikudaginn var reglulegur fundur í bæjarstjórn Garðs. Fundargerð bæjarráðs var til umfjöllunar, ásamt ýmsum öðrum fundargerðum nefnda og stjórna. Þar á meðal má nefna að bæjarstjórn samþykkti samhljóða tillögu að deiliskipulagi sem nær yfir nýtt svæði fyrir þjónustu-og atvinnustarfsemi í Útgarði. Þá voru tvær fundargerðir stjórnar Dvalarheimilis aldraðra á Suðurnesjum (DS) til umfjöllunar. Bæjarstjórn lagði í sameiningu fram tvær bókanir um málefni DS, sem snerust um Garðvang. Bæjarstjórn leggst gegn því að gengið verði til sölu á Garðvangi meðan unnið er að því að fá fjárheimildir hjá ríkinu til uppbyggingar Garðvangs og áframhaldandi reksturs hjúkrunarheimilis þar. Stjórn DS hafði á síðasta fundi sínum samþykkt með fjórum atkvæðum að ef ekki á að nýta Garðvang sem hjúkrunarheimili verði húsnæðið selt hið fyrsta. Fulltrúar Garðs og Sandgerðisbæjar sátu hjá við afgreiðslu tillögunnar.

Þá var á fundinum fjallað um fundargerð Heklu, Atvinnuþróunarfélags Suðurnesja. Meðal fundargagna þess fundar var yfirlit yfir breytingar á fjölda atvinnulausra á Suðurnesjum frá apríl til september 2015. Í apríl voru alls 551 einstaklingar skráðir á atvinnuleysisskrá á Suðurnesjum, en nú í september hafði þeim fækkað niður í 340 manns. Þetta er jákvæð og ánægjuleg þróun og er vonandi að enn frekar dragi úr fjölda einstaklinga sem eru á atvinnuleysisskrá á næstu mánuðum. Á þessu ári hefur orðið áþreifanleg breyting á atvinnulífinu á Suðurnesjum, þar sem að undanförnu hefur verið mikil eftirspurn eftir vinnuafli á svæðinu, þar skipta mestu hin auknu umsvif á Keflavíkurflugvelli.

Bæjarstjórn og bæjarstjóri.
Bæjarstjórn og bæjarstjóri.

Gerðaskóli 147 ára.

Gerðaskóli var stofnaður þann 7. október 1872, skólinn átti því 147 ára afmæli sl. miðvikudag. Gerðaskóli er næst elsti skóli á landinu og eru Garðbúar að sjálfsögðu afar stoltir af því. Bæjarstjórinn óskar Gerðaskóla til hamingju með þennan merka áfanga.

Gerðaskóli
Gerðaskóli

Bleikur mánuður í Garði.

Eins og víða annars staðar er bleiki liturinn áberandi í Garði þennan mánuðinn. Ýmsar stofnanir bæjarins eru upplýstar með bleikum ljósum. Með þessum hætti tekur sveitarfélagið þátt í því að vekja athygli á forvörnum gegn krabbameinum og styður þannig við landsátak í þeim efnum.

Starfsfólk bæjarskrifstofa hittist.

Starfsfólk á bæjarskrifstofum fjögurra minni sveitarfélaganna á Suðurnesjum hafa undanfarin ár hist einu sinni á ári. Fundirnir færast milli sveitarfélaganna milli ára og í dag, föstudag, mun starfsfólkið hittast í Sandgerði. Svona hittingur er mikilvægur fyrir starfsfólkið að hittast, kynnast og bera saman bækur sínar. Við erum að mestu leyti að vinna að sambærilegum verkefnum í öllum sveitarfélögunum, starfsfólkið á ýmis samskipti um síma eða með tölvusamskiptum og því er svona hittingur mikilvægur upp á öll samskipti.

Kvennakvöld Víðis.

Í kvöld verður kvennakvöld Víðis í íþróttahúsinu í Garði. Hátt í 300 konur munu þar koma saman og skemmta sér, sem endar með þeim hápunkti að Páll Óskar stígur á stokk og er nokkuð víst að mikil stemmning verður meðal kvennanna. Kvennakvöld Víðis eru árviss viðburður, vegna aukinnar aðsóknar undanfarin ár hefur skemmtunin verið færð úr Samkomuhúsinu í Íþróttamiðstöðina. Þetta er liður í félagsstarfi Víðis, en ekki síður liður í öflugu fjáröflunarstarfi félagsins. Það er alltaf jafn ánægjulegt að upplifa þann mikla kraft sem býr í víðisfólkinu, margir einstaklingar leggja mikla sjálfboðavinnu að mörkum í þágu félagsins og samfélagsins í Garði. Það ber að þakka og er hér með gert.

Allt klárt fyrir kvennakvöld Víðis
Allt klárt fyrir kvennakvöld Víðis

 

Góða helgi.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

40. vika 2015.

Fundir og ráðstefnur sveitarstjórnarmanna.

Eins og fyrri molar hafa fjallað um, þá er þessi tími árs mikill annatími sveitarstjórnarmanna vegna ýmissa funda og ráðstefna.  Í síðustu viku var fjármálaráðstefna sveitarfélaga, þar sem fram komu ýmsar áhugaverðar upplýsingar varðandi fjárhag og rekstur sveitarfélaga. Þar kom meðal annars fram að rekstrarafkoma sveitarfélaga í landinu hafi verið mun lakari árið 2014 en árið áður. Þessu var öfugt farið hjá Sveitarfélaginu Garði, þar sem afkoma ársins 2014 var mun betri en árin áður. Það er hins vegar ljóst að rekstur sveitarfélaga almennt er erfiðari en var fyrir um 2-3 árum síðan og útlitið fyrir árið 2016 virðist almennt vera frekar slæmt. Þar kemur ýmislegt til, en stór áhrifavaldur í rekstri sveitarfélaganna er þróun kjaramála og launahækkanir. Vonandi tekst öllum aðilum sem koma að kjaraborðum að vinna sameiginlega úr því verkefni að koma kjaramálum í landinu í þann farveg sem leiðir til hagsbóta fyrir launafólk og þá um leið fyrir efnahagslífið almennt.

Fundir í þessari viku.

Í vikunni áttu alþingismenn kjördæmisins fund með fulltrúum sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Bæjarstjórinn var því miður forfallaður vegna flensu og gat því ekki setið fundinn. Þessir fundir með þingmönnum eru árvissir á þessum árstíma. Fundirnir eru mikilvægir og gagnlegir, þar sem fulltrúar sveitarfélaganna upplýsa þingmennina og fara yfir helstu málefni sveitarfélaganna ásamt því að koma áherslumálum á framfæri. Ég þekki það af gamalli reynslu hvað þessir fundir eru mikilvægir fyrir þingmenn, til þess að fá ýmsar upplýsingar og eiga samræðu við sveitarstjórnarmenn um hagsmunamál sveitarfélaganna.

Nú um helgina verður aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS). Þar verður farið yfir sameiginleg verkefni sveitarfélaganna, ásamt því að fjallað verður um hin ýmsu málefni sem snerta sveitarfélögin á svæðinu.

Góðir gestir.

Um síðustu helgi komu góðir gestir í heimsókn í Garðinn. Þar var á ferð hópur leiðsögumanna í haustferð Félags leiðsögumanna, undir forystu Ásgeirs bæjarstjóra í Vogum. Við tókum á móti hópnum í byggðasafninu á Garðskaga, gáfum kaffisopa um borð í Hólmsteini og síðan fór hópurinn í vitann og hlýddi á söng Unu Maríu Bergmann. Það voru ánægðir gestir sem yfirgáfu Garðinn og ekki síður vorum við heimafólk ánægð að fá góða gesti í heimsókn.

Veðrið.

Þegar þetta er skrifað glymur fyrsta haglél haustsins á glugga bæjarstjórans. Þessi éljagusa stóð reyndar stutt yfir, en minnti á að haustið stendur yfir og nú er kominn sá tími að veður kólnar og við getum átt von á alls konar veðri. Það er því komið að því að huga að búnaði bílsins, leita að sköfunni í bílskúrnum og hafa allt klárt til þess að mæta óvæntum aðstæðum í umferðinni.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail