39. vika 2015.

Hreyfivika UMFÍ.

Þessi vika hefur verið svokölluð „Hreyfivika“, sem UMFÍ stendur fyrir. Hreyfivikan hér á landi er liður í lýðheilsuverkefni sem fer fram um alla Evrópu þessa vikuna. Einn af viðburðum hreyfivikunnar er sundkeppni milli sveitarfélaga, sem felst í því að sem flestir íbúar hvers sveitarfélags taki þátt og syndi sem oftast og mest. Í daglegu morgunsundi hefur bæjarstjóri orðið var við góða þátttöku garðbúa í sundkeppninni og vonandi heldur það áfram að þessari keppni lokinni. Sund er holl og góð hreyfing, um að gera fyrir garðbúa og gesti að notfæra sér þá frábæru aðstöðu sem boðið er upp á í Íþróttamiðstöðinni í Garði, með góðri 25 m. langri sundlaug, heitum pottum, gufubaði og rennibraut.

Vika funda og ráðstefna.

Störf bæjarstjórans þessa viku einkennast að mestu af fundahöldum. Á miðvikudag byrjaði dagurinn á ráðstefnu um málefni flóttamanna, eftir hádegið stóðu Samtök sjávarútvegssveitarfélaga fyrir fundi um málefni sjávarútvegsins og seinni part miðvikudags var síðan ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Árleg fjármálaráðstefna sveitarfélaga hófst á fimmtudags morguninn og mun standa fram yfir hádegi í dag, föstudag. Fjármálaráðstefna sveitarfélaga er góður og mikilvægur vettvangur til umfjöllunar um starfsemi og fjármál sveitarfélaga. Þar koma fram ýmsar upplýsingar varðandi fjármál og efnahagsmál, sem sveitarstjórnarmenn vinna með sem forsendur fyrir vinnslu fjárhagsáætlana sveitarfélaga. Þar fyrir utan er fjármálaráðstefnan góður vettvangur fyrir sveitarstjórnarmenn að hittast og bera saman bækur sínar.

Nýr starfsmaður.

Nú í byrjun vikunnar hóf Einar Friðrik Brynjarsson störf sem tæknifulltrúi og mun starfa með Jóni Ben Einarssyni Umhverfis-, skipulags-og byggingarfulltrúa. Þeir starfa báðir fyrir Sveitarfélagið Garð og Sandgerðisbæ, samkvæmt samstarfssamningi sveitarfélaganna. Einar Friðrik er boðinn velkominn til starfa.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

38. vika 2015.

Þjóðarsáttmáli um læsi.

Í vikunni undirritaði bæjarstjóri fyrir hönd Sveitarfélagsins Garðs þjóðarsáttmála um læsi, ásamt menntamálaráðherra og fulltrúa samtakanna Heimili og skóli. Um er að ræða sameiginlegt verkefni ráðuneytisins, sveitarfélaganna í landinu og samtaka foreldra, um að bæta læsi meðal barnanna okkar. Það skiptir grundvallar máli fyrir framtíð grunnskólabarna að þau hafi góða lestrarfærni að loknum grunnskóla og miðar verkefnið að því að sem allra flestir grunnskólanemendur búi að því. Það var gaman við þetta tilefni að hitta gamlan samstarfsmann, sem nú er í hlutverki menntamálaráðherra. Það er ástæða til að hrósa honum fyrir þetta verkefni og er það hér með gert.

Jónína Magnúsdóttir formaður Skólanefndar Garðs tók þessa mynd af menntamálaráðherra, bæjarstjórum Garðs, Sandgerðisbæjar og Reykjanesbæjar, ásamt fulltrúa Heimilis og skóla, eftir undirritun þjóðarsáttmálans.

Undirritun þjóðarsáttmála um læsi.
Undirritun þjóðarsáttmála um læsi.

Lögreglan skoðar hjól leikskólabarna.

Lögreglumenn litu við á leikskólanum Gefnarborg einn daginn og yfirfóru hjól barnanna og öryggisbúnað þeirra. Þetta er árviss heimsókn lögreglunnar til barnanna, sem mælist jafnan vel fyrir. Mikil spenna fylgir því hvort lögreglumennirnir líma skoðunarmiða á hjólin, til marks um að allt sé í góðu lagi. Ekki var annað að sjá en börnin á Gefnarborg pössuðu vel upp á sín hjól og öryggisbúnaðinn, því öll fengu þau skoðunarmiða límda á hjólin sín. Þakkir til lögreglunnar fyrir að rækta góð samskipti við börnin í Garði, það er jákvætt og skiptir máli.

Bæjarstjóri fylgist með hjólaskoðun lögreglu hjá leikskólabörnum.

Bæjarstjóri fylgist með hjólaskoðun lögreglu hjá leikskólabörnum.

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði Garðs. Þar var m.a. fjallað um undirbúning vinnslu fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár og helstu forsendur fjárhagsáætlunar. Fyrir fundinum lágu upplýsingar um að verulega hafi dregið úr fjárhagsaðstoð á þessu ári, sem er ánægjulegt þróun. Bæjarráð fjallaði um erindi frá Velferðarráðuneyti, þar sem leitað er eftir áhuga sveitarfélaga á móttöku flóttamanna. Bæjarráð ákvað að afla frekari upplýsinga um þau mál áður en endanleg afstaða verður tekin til erindis ráðuneytisins. Þá samþykkti bæjarráð að fela bæjarstjóra að sækja um byggðakvóta.

Áhrif af viðskiptabanni Rússa.

Byggðastofnun hefur birt niðurstöðu úttektar á áhrifum af viðskiptabanni Rússa gagnvart Íslandi. Viðskiptabannið hefur m.a. þau áhrif að loka fyrir sölu á makríl til Rússlands, sem hefur verið mikilvægur markaður fyrir makrílafurðir. Garður er eitt tíu sveitarfélaga sem verða hvað verst fyrir barðinu á þessu viðskiptabanni. Nesfiskur er glæsilegt og vel rekið sjávarútvegsfyrirtæki hér í Garðinum og hefur fyrirtækið stundað veiðar og vinnslu á makríl undanfarin ár. Það hefur skapað mikla atvinnu fyrir fólkið og skapað miklar tekjur. Þá hafa margar útgerðir minni báta gert út á veiðar á makríl. Það er því augljóst að viðskiptabann Rússa hefur mikil áhrif á starfsemi Nesfisks, rekstur annarra fyrirtækja og starfsfólk þeirra.  Þar með verða hagsmunir sveitarfélagsins fyrir barðinu á þessu viðskiptabanni Rússa.

Víðir.

Nú hefur Víðir leikið síðasta leikinn á þessari leiktíð, en sl. laugardag vann Víðir góðan sigur á liði KFR.  Þar með lauk keppnistímabilinu á mikilvægan hátt, með sigri í síðasta leik. Víðir endaði um miðja deild eftir gott gengi síðari hluta tímabilsins. Endahnúturinn var svo glæsilegt lokahóf á laugardagskvöld. Það er auðheyrt að víðismenn eru þegar farnir að huga að næsta tímabili, mikill hugur í fólki og greinilega mikill metnaður að gera betur næst. Knattspyrnufélagið Víðir á stórafmæli á næsta ári, nú ættu félagarnir í Víði að setja sér það markmið að afmælisgjöfin verði að félagið vinni sigur í 3. deildinni og þar með sæti í 2. deild. Engin ástæða til annars en að setja markið hátt !

Meðan á síðasta leik Víðis stóð myndaðist fallegur regnbogi yfir Nesfiskvellinum og náði Guðmundur Sigurðsson þessari frábæru mynd af því. Ekki fer sögum af því hvort leikmenn náðu að óska sér einhvers undir regnboganum.

Það er fallegt í Garðinum !

Regnboginn yfir Víði
Regnboginn yfir Víði

Takk Víðismenn fyrir sumarið !

Veðrið og norðurljósin.

Norðanáttin hefur leikið um Garðbúa í þessari viku, með björtu veðri. Við slíkar aðstæður er oft ótrúlegt sjónarspil á himninum þegar myrkur er, þar sem norðurljósin dansa og lýsa upp. Myndina hér að neðan tók Jóhann Ísberg á þriðjudagskvöldið, þann 15. september.

Norðurljósin yfir Garðskaga
Norðurljósin yfir Garðskaga

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

37. vika 2015.

Ánægjuleg heimsókn.

Í gær kom hópur barna úr Gerðaskóla í heimsókn til bæjarstjórans og færðu tvær myndir að gjöf. Myndirnar höfðu þær Anita B og Heba Lind teiknað og málað, önnur af merki sveitarfélagsins og hin af gamla vitanum á Garðskaga. Það er alltaf jafn ánægjulegt að fá slíkar heimsóknir, sem ber vitni um góðan og jákvæðan hug barnanna.

Skólabörn í heimsókn hjá bæjarstjóranum.
Skólabörn í heimsókn hjá bæjarstjóranum.

Reykjanes Geopark fær vottun.

Reykjanes Geopark (Reykjanes Jarðvangur) var stofnaður fyrir þremur árum og hefur verið unnið að því síðan að Jarðvangurinn fái aðild að evrópusamtökum jarðvanga. Jarðvangurinn nær yfir öll sveitarfélögin á Suðurnesjum, sem eru jafnframt aðilar að jarðvangnum. Kötlu Jarðvangur á Suðurlandi hefur í nokkur ár verið aðili að samtökunum, fyrsti og eini íslenski jarðvangurinn. Nú hefur Reykjanes Jarðvangur fengið aðild að samtökunum og þar með fengið vottun í umhverfismálum og ferðaþjónustu fyrir Reykjanesið. Þetta er mikilvægt og ánægjulegt fyrir Suðurnesjamenn, þessi vottun opnar ýmsa möguleika m.a. fyrir ferðaþjónustuna á Suðurnesjum til markaðssetningar og kynningar. Stór hópur ferðafólks ferðast um heiminn í þeim tilgangi að heimsækja jarðvanga og nú má búast við að þessi markhópur ferðamanna muni heimsækja Suðurnesin í ríkari mæli.

Merki Reykjanes Geopark.
Merki Reykjanes Geopark.

Bæjarstjórn.

Í vikunni var fundur í bæjarstjórn Garðs. Þetta er fyrsti fundur bæjarstjórnar eftir sumarleyfi, en bæjarráð hefur haft fullnaðarheimild til afgreiðslu mála meðan bæjarstjórn var í sumarleyfi frá því í júní. Dagskrá fundar bæjarstjórnar samanstóð að mestu af fundargerðum bæjarráðs, sem voru lagðar fram til kynningar og umræðu á fundinum. Í bókun bæjarstjórnar á fundinum er lýst ánægju með og Suðurnesjamönnum óskað til hamingju með það að Reykjanes Geopark hafi fengið aðild að European Geoparks Network. Þá samþykkti bæjarstjórn fundaáætlun bæjarstjórnar og bæjarráðs fram í maí 2016.

Norðurljósin.

Nú eru norðurljósin farin að minna á sig og við í Garðinum erum farin að sjá þau, reyndar ekki núna allra síðustu kvöld þegar hefur verið sunnan rok og rigning. Gera má ráð fyrir því að núna um miðjan september hefjist kvöldumferð langferðabifreiða út á Garðskaga, fullar af erlendum ferðamönnum sem freista þess að sjá norðurljós. Framundan er því norðurljósatímabil ferðamanna, sem mun standa fram í apríl. Það þótti með endemum þegar Einar Benediktsson vildi selja norðurljósin hér í eina tíð, sömuleiðis þótti mörgum menn vera komnir út á kostulegar brautir fyrir rúmum 10 árum þegar nokkrir aðilar fóru að hreyfa þeirri hugmynd að markaðssetja norðurljós fyrir ferðaþjónustuna. Nú eru norðurljós eitt helsta aðdráttaraflið, sem hefur átt hvað stærstan þátt í mikilli aukningu ferðamanna til Íslands yfir vetrartímann. Norðurljósin eru því orðin ein af mikilvægustu auðlindum okkar.

Gamli vitinn og norðurljósin.
Gamli vitinn og norðurljósin.

Víðir og knattspyrnan.

Um síðustu helgi fór fram nágrannaslagur Reynis og Víðis í 3. deildinni.  Mínir menn í Víði höfðu betur 3-1 og var þessi góði sigur framhald á góðu gengi Víðismanna í undanförnum leikjum. Víðir siglir lygnan sjó um miðja deildina, en síðasti leikur tímabilsins verður á morgun, laugardag. Leikurinn fer fram á Nesfiskvellinum hér í Garði og er gegn KFR, leikurinn hefst kl. 14:00 og hvetur bæjarstjóri alla Garðbúa til þess að fjölmenna á völlinn og styðja við sína menn í Víði. Annað kvöld verður síðan lokahóf hjá Víði.

Lið Þróttar í Vogum vann sér í vikunni sæti í 3. deildinni næsta sumar og mun því etja kappi við Víðir. Molarnir óska Þrótti til hamingju með góðan árangur og er Þróttur boðinn velkominn til leiks með Víði í 3. deild á næsta leiktímabili.

Veðrið.

Veðrið hefur verið hálf leiðinlegt í vikunni. Sunnan rok og rigning á köflum, en rofað hefur til á milli þar sem sólin hefur brotist gegnum skýin. Haustið er komið og því fylgir oft svona veðurfar, þótt svo haustdagar séu líka oft góðir. Vonandi njótum við góðvildar veðurguðanna á komandi vikum.

Góða helgi. 

Facebooktwittergoogle_plusmail

36. vika 2015.

Íbúafjöldi í Garði.

Íbúaþróun í sveitarfélögum er klassískt umfjöllunarefni og m.a. ein af þeim forsendum sem líta þarf til við vinnslu fjárhagsáætlana sveitarfélaga. Þegar þessir vikumolar eru skrifaðir eru íbúar í Sveitarfélaginu Garði alls 1.435 talsins, samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá. Til samanburðar var fjöldi skráðra íbúa í sveitarfélaginu þann 1. desember 2014 1.425 talsins. Þar með hefur íbúum í sveitarfélaginu fjölgað um 10 manns undanfarna 9 mánuði. Íbúar sveitarfélagsins voru um 1.550 þegar flest var á árunum 2008-2009, en á tímabili síðla árs 2013 fór íbúafjöldinn niður fyrir 1.400. Það er ánægjulegt að íbúum sé að fjölga í Garði og vonandi heldur sú þróun áfram.

Samstarf með Sandgerðisbæ.

Nágrannasveitarfélögin Garður og Sandgerðisbær eiga með sér margvíslegt og gott samstarf. Einn liður í því er samstarf í Umhverfis-, skipulags-og byggingarmálum, þar sem sveitarfélögin reka sameiginlega starfsemi. Nýlega var endurnýjaður samstarfssamningur sveitarfélaganna um þessi mál, þar sem m.a. er gert ráð fyrir að ráðinn verði starfsmaður til starfa með sviðstjóra, sem hefur einn sinnt öllum verkefnum þessa umfangsmikla sviðs. Nýlega var auglýst eftir umsóknum um starfið og sóttu alls 22 einstaklingar um það. Sveitarfélögin eru ánægð með þann áhuga sem fram kom með öllum þessum góðu umsóknum og þakka umsækjendum fyrir það. Ákveðið var að ráða Einar Friðrik Brynjarsson til starfa, en hann hefur m.a. menntun og reynslu á sviði umhverfismála.

Samstarfið með Sandgerðisbæ í þessum málum hefur gengið mjög vel og með endurnýjuðum samstarfssamningi verður starfið eflt með það að markmiði að auka og bæta þjónustu við íbúa sveitarfélaganna, sem og styrkja starfsemi og stjórnsýslu sveitarfélaganna.

Bæjarráð.

Bæjarráð fundaði í vikunni, þar sem ýmis mál voru á dagskrá að vanda. Undirbúningur og vinnsla fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár er ofarlega á verkefnalistanum um þessar mundir og verður svo fram í desember. Lista-og menningarmál tóku drjúgan hluta fundarins að þessu sinni, þar sem m.a. var samþykkt að ráðast í skráningu á listaverkum í eigu sveitarfélagsins og þannig verði til Listasafn Garðs. Mörg listaverk eru í eigu sveitarfélagsins, bæði sem afrakstur af listahátíðum Ferskra vinda en einnig hefur sveitarfélagið eignast nokkur listaverk af öðru tilefni. Þá var m.a. samþykkt að stóru og merkilegu listaverki eftir japanskan listamann, sem tók þátt í listahátíð Ferskra vinda á síðasta ári, verði í samstarfi við Listasafn Reykjanesbæjar komið fyrir í Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Þessari mynd verður vel fyrir komið í skólanum, þar sem nemendur, starfsfólk og aðrir fá notið þessa einstaka verks.

Á myndinni hér að neðan, sem fengin er hjá Ferskum vindum, má sjá japanska listamanninn OZ og listaverkið BREATH, sem verður sett upp í Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Á myndinni útskýrir hann listaverkið fyrir fjölda áhorfenda á listahátíðinni Ferskum vindum.

OZ útskýrir BREATH
OZ útskýrir BREATH

Lögreglan og skólabörnin.

Í síðustu molum var lögreglunni hrósað og þakkað fyrir umferðareftirlit við Gerðaskóla vegna öryggis skólabarna. Lögreglan hefur lagt sig fram um að eiga góð samskipti við skólabörn í Garði, m.a. með fræðslu og jákvæðri viðkynningu. Eitt af því sem lögreglan hefur gert er að veita börnunum fræðslu um almennt umferðaröryggi og öryggisbúnað. Nú um dagin mætti Guðmundur lögreglumaður í skólann með hjól og öryggishjálm og veitt börnunum fræðslu í tengslum við það. Guðmundur sendi molum þessa skemmtilegu mynd, sem sýnir hve ánægð börnin eru með heimsókn lögreglunnar og ekki síður er lögreglumaðurinn glaður og ánægður innan um börnin í skólanum.

Ánægðir nemendur með lögreglunni.

Ánægðir nemendur með lögreglunni.

Víðir og Reynir.

Framundan er stórleikur hjá knattspyrnuliði Víðis, þegar það mætir nágrönnunum í Reyni. Leikurinn er á morgun, laugardag, og hefst hann kl. 14:00 á heimavelli Reynis í Sandgerði. Leikurinn er mikilvægur, sérstaklega fyrir Reynir sem er í baráttu um að vinna sér sæti í 2. deild að ári. Víðismenn sigla nokkuð lygnan sjó um miðja deild eftir gott gengi í undanförnum leikjum, en samkvæmt hlutarins eðli vilja bæði lið vinna þennan leik. Leikir þessara liða eru og hafa gjarnan verið nágrannaslagir af bestu gerð ! Garðbúar eru hvattir til að fjölmenna á leikinn og hvetja Víðismenn til dáða.

Þrátt fyrir að lið Víðis og Reynis í meistaraflokki takist á af hörku, þá eiga félögin með sér gott samstarf. Félögin halda úti sameiginlegum liðum yngri flokka og hefur það samstarf gengið vel. Hér að neðan er hópur af ungum knattspyrnuköppum í búningum merktum Víði og Reyni.

Ungir liðsmenn Víðis / Reynis.
Ungir liðsmenn Víðis / Reynis.

Víkingur Ó.

Bæjarstjóri leyfir sér að fara aðeins á svig við ritstjórnarstefnu molanna, sem felst í því að fjalla eingöngu um innansveitarmál í Garði. Þar sem bæjarstjóri er fyrrverandi leikmaður knattspyrnuliðs Víkings í Ólafsvík, þá er ekki hægt að láta hjá líða að lýsa ánægju með og óska Víkingum til hamingju með glæsilegan árangur í 1. deild íslandsmótsins í knattspyrnu. Liðið hefur tryggt sér sæti í efstu deild á ný og hefur jafnframt tryggt sér sigur í mótinu. Sannarlega glæsilegur árangur og ánægjulegur. Þessi árangur Víkinga í Ólafsvík hefur rifjað upp fyrir mörgum Garðubúum árangur Víðis, þegar Víðismenn léku um tíma í efstu deild og komust alla leið í úrslitaleik bikarkeppninnar. Góður árangur sem þessi skiptir miklu máli fyrir fólkið í viðkomandi byggðarlögum, eflir andann og skapar jákvæða ímynd. Vonandi ná Víðismenn að komast í deild bestu liða landsins áður en langt um líður !

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail