35. vika 2015.

Skólastarfið hafið.

Í byrjun vikunnar mættu nemendur Gerðaskóla til náms, þar með er skólaárið hafið og allt að falla í fastar skorður í skólanum. Við upphaf skólastarfs hvert haust er mikilvægt að allir sem standa að hverjum nemanda hjálpi til við að passa upp á að engin óhöpp verði hjá börnunum á leið til og frá skólanum. Þar er umferðin efst á blaði. Það er til fyrirmyndar að lögreglan hefur þessa vikuna verið á vettvangi hvern morgun og fylgst með umferð barnanna til skólans. Lögreglan fær hrós og þakkir fyrir það.

Lögreglan með skólabörnum.
Lögreglan með skólabörnum.

Starfsemi Tónlistarskólans hófst í gær. Garðbúar búa vel að góðum tónlistarskóla og ýmsir góðir tónlistarmenn hafa numið við tónlistarskólann í Garði.

Makrílveiði og -vinnsla.

Undanfarið hefur fjöldi smábáta verið við makrílveiðar undan ströndinni við Garð, nánast uppi í landsteinum. Afli hefur almennt verið góður og makrílvinnsla hefur verið á fullum krafti hjá Nesfiski að undanförnu.  Vonandi að makríllinn komist á sína markaði, enda víða þörf fyrir góð og fyrsta flokks matvæli.

Víðir.

Lið Víðis hefur verið á mjög góðu róli í undanförnum leikjum. Þeir unnu góðan sigur á Berserkjum um síðustu helgi og næsti leikur verður gegn Völsungi á Nesfiskvellinum í Garði á morgun, laugardag kl. 14:00.  Bæjarstjórinn hvetur Garðbúa til að fjölmenna á völlinn og hvetja leikmenn Víðis til dáða.

Haustið nálgast.

Þegar þetta er ritað er norð-austan vindur af hafi hér í Garðinum, frekar kalsalegt. Smá sólarglenna, en auðfundið að haustið bankar upp á. Eftir frekar dapra byrjun á sumrinu hefur sumartíðin verið ágæt þetta árið og svosem engin ástæða til þess að kvarta yfir veðrinu þetta sumar þegar upp er staðið. Haustið nálgast og oft eru veður góð fram eftir haustinu, september er t.d. uppáhalds mánuður sumra. Vonandi verður veðurtíðin upp á sitt besta á komandi vikum og mánuðum.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

34. vika 2015.

Molarnir eru komnir úr sumarleyfi og verður nú þráðurinn tekinn upp á ný. Flestir hafa lokið sínum sumarleyfum og við taka hefðbundin dagleg verkefni, sem jafnan mótar þennan tíma ársins.

Skólastarfið.

Börnin og starfsfólkið eru komin í sitt daglega mynstur eftir sumarleyfi. Meðan á sumarleyfinu stóð var ráðist í að stækka lóð leikskólans og lagfæra ýmislegt sem þörf var á. Þar á meðal er leiksvæði barnanna á leikskólalóðinni og litli fótboltavöllurinn, sem áður hefur komið við sögu í molum. Vonandi eru ungir knattspyrnukappar í leikskólanum ánægðir með það og geta því haldið áfram að undirbúa sig undir það að halda merki Víðis á lofti í framtíðinni.

Gerðaskóli var settur í dag. Fjölmenni var við skólasetninguna, þegar Gerðaskóli var settur í 143. skipti.  Starfsfólk skólans kom til starfa í byrjun vikunnar og nýr skólastjóri og aðstoðarskólastjóri hófu störf þann 1. ágúst sl.  Við skólasetninguna í morgun var ríkjandi eftirvænting meðal nemenda, enda markar upphaf hvers skólaárs nýtt tímaskeið með nýjum áskorunum og spennandi tími framundan hjá nemendum.

Nemendur og starfsfólk skólanna eru boðin velkomin til starfa, með ósk um gott gengi á nýju skólaári.

Sumarstörfin.

Vinnuskólinn hefur lokið störfum, þeim ungmennum sem störfuðu í vinnuskólanum í sumar eru þökkuð þeirra störf. Grasspretta hefur hægt á sér síðustu daga en áfram verður haldið við að halda bænum snyrtilegum með slætti og viðhaldi. Nú eru hin hefðbundnu sumarstörf nánast að baki og við tekur haustið, sem er á næsta leiti.

Haustverkin.

Nú er hafinn undirbúningur haustverka bæjarstjórnar og starfsfólks sveitarfélagsins. Helsta verkefnið er vinnsla fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár og er þegar byrjað að undirbúa það verkefni. Þá er haustið tími ýmiskonar fundahalda hjá sveitarstjórnarmönnum, þar á meðal er fjármálaráðstefna sveitarfélaga og aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Haustið er jafnan einn mesti annatími sveitarstjórnarmanna, þegar línur eru lagðar fyrir komandi ár, en þau verkefni eru jafnframt skemmtileg og gefandi.

Heimsókn.

Nú í vikunni komu góðir gestir í heimsókn á bæjarskrifstofuna. Sveitarstjórinn í Rangárþingi ytra, Ísólfur Gylfi Pálmason, ásamt tveimur starfsmönnum litu við á ferð sinni um Suðurnesin. Við sýndum þeim Garðinn og kynntum starfsemi sveitarfélagsins. Alltaf er ánægjulegt að fá góða gesti í heimsókn, sérlega ánægjulegt að fá Ísólf Gylfa í heimsókn enda erum við góðir félagar og höfum starfað mikið saman á ýmsum vettvangi í mörg ár.

Víðir.

Nú styttist í lok keppnistímabils knattspyrnumanna þetta sumarið. Mínir menn í Víði áttu erfitt uppdráttar framan af sumri, en hafa verið duglegir við að safna stigum seinni hluta sumarsins. Nú eru fjórir leikir eftir og vonandi mun liðinu ganga jafn vel í þeim leikjum eins og verið hefur undanfarið. Næsti leikur Víðis verður í kvöld, föstudag, gegn Berserkjum á Nesfisk vellinum í Garði. Bæjarstjórinn hvetur Garðbúa til þess að fjölmenna á völlinn og hvetja lið Víðis til dáða.

Góða helgi 

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail