28. vika 2015.

Stækkun leikskólalóðar.

Nú er leikskólinn Gefnarborg kominn í sumarleyfi. Meðan á því stendur verður unnið að stækkun lóðar leikskólans, ásamt öðru viðhaldi á leikskólanum og lóðinni.

Vinnuskóli í fríi.

Þessa viku hafa ungmennin í vinnuskólanum verið í sumarfríi, hefja aftur störf nk. mánudag.  Hins vegar er ekkert frí hjá grassprettunni, grasið sprettur sem aldrei fyrr í hlýindunum og veðurblíðunni. Það verður því nóg að gera hjá vinnuskólanum næstu vikurnar við að snyrta og viðhalda bænum.

Víðir.

Víðir laut í gras í stórleiknum gegn Reyni Sandgerði í síðustu viku. Vonir bæjarstjórans um sigur Víðismanna í leiknum gengu ekki eftir, en Víðir hefur tækifæri til að hefna tapsins í síðari leiknum gegn Reyni síðar í sumar. Nú sl. þriðjudag lék Víðir við KFR á Hvolsvelli. Þar náðu Víðismenn sínum fyrsta sigri sumarsins, eru vonandi komnir á sigurbraut !  Áfram Víðir.

Bæjarstjóri í sumarleyfi.

Nú stendur tími sumarleyfa sem hæst. Bæjarstjórinn í Garði fer í sumarleyfi nú um helgina og verður meira og minna í sumarleyfi fram yfir miðjan ágúst mánuð. Þar af leiðir að Molar úr Garði fara einnig í sumarleyfi á sama tíma. Molar munu aftur birtast þegar líður á ágúst mánuð. Ég óska öllum gleðilegs sumars.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

27. vika 2015.

Molarnir eru að þessu sinni skrifaðir á fimmtudegi, þar sem bæjarstjórinn þarf að bregða sér út fyrir landsteinana í kvöld og yfir helgina.

Sólseturshátíð lokið.

Vel heppnaðri Sólseturshátíð í Garði lauk sl. sunnudag. Hátíðin hefur jafnan tekist mjög vel og hafa veðurguðirnir átt stóran þátt í því, enda má segja að svona hátíðir kalli á það að veður sé gott. Knattspyrnufélagið Víðir annast undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar, með samningi við sveitarfélagið og í samstarfi við ýmsa aðila. Starf Víðis byggir á sjálfboðavinnu fólks í félaginu og þeir sem koma að svona verkefni leggja af mörkum mikla vinnu. Það er aðdáunarvert hvað ýmsir einstaklingar eru tilbúnir til þess að leggja mikið af mörkum fyrir sitt samfélag með sjálfboðavinnu. Fyrir utan hefðbundna dagskrá Sólseturshátíðar er rétt að vekja athygli á því að sl. sunnudag var frumsýnd heimildamyndin Garður 100 ára, sem Guðmundur Magnússon vann í tilefni 100 ára afmælis sveitarfélagsins árið 2008. Þá bauð Björgunarsveitin Ægir til afmælisfagnaðar sl. sunnudag í tilefni þess að liðin eru 80 ár frá stofnun sveitarinnar. Af því tilefni var undirritaður samstarfssamningur milli björgunarsveitarinnar og sveitarfélagsins. Báðir þessir atburðir voru liðir í dagskrá Sólseturshátíðar að þessu sinni.

Ég þakka öllum þeim sem komu að undirbúningi og framkvæmd Sólseturshátíðarinnar fyrir þeirra framlag í þágu samfélagsins í Garði. Þá þökkum við fjölda gesta sem sóttu hátíðina fyrri þeirra heimsókn.

Hér eru nokkrar myndir frá Sólseturshátíðinni.

Hressir hlauparar.
Hressir hlauparar.
Ungir listamenn sýna dans.
Ungir listamenn sýna dans.
Lína Langsokkur og leikskólabörn
Lína Langsokkur og leikskólabörn
BMX sýna listir sínar.
BMX sýna listir sínar.
Sólsetur á Sólseturshátíð, "sjáðu jökkulinn loga"
Sólsetur á Sólseturshátíð, „sjáðu jökkulinn loga“
Björn Bergmann varaformaður Bsv. Ægis í hátíðarskapi.
Björn Bergmann varaformaður Bsv. Ægis í hátíðarskapi.

Gróðursetning.

Sl. laugardag voru gróðursett þrjú tré í Garði, í tilefni þess að liðin eru 35 ár frá því Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kjörin forseti. Tvö sex ára börn, þau Hrafnhildur Helga Magnadóttir og Jón Grétar Guðmundsson, ásamt Eydísi Evu Hólmbergsdóttur sem ber barn undir belti, framkvæmdu gróðursetninguna. Það var í anda Vigdísar, sem gjarnan gróðursetti þrjú tré þar sem hún kom, eitt fyrir stúlkur, eitt fyrir drengi og eitt fyrir framtíðina. Það var ánægjuleg stund þegar gróðursetningin fór fram í blíðskapar veðri að viðstöddum nokkrum fjölda fólks.

Að lokinni gróðursetningu.
Að lokinni gróðursetningu.

Bæjarráð.

Í síðustu viku var fundur í bæjarráði. Meðal þess sem þar var ákveðið var að koma upp púttvelli í skrúðgarðinum Bræðraborg. Eldri borgarar í Garði hafa óskað sérstaklega eftir slíkri aðstöðu og verður ráðist í þá framkvæmd í samstarfi við Golfklúbb Suðurnesja.

Makríllinn er kominn.

Líkt og undanfarin sumur, er makríllinn mættur úti fyrir ströndinni við Garð. Veiðimenn hafa mætt á bryggjuna og kastað fyrir makríl, ekki fer sögum af aflabrögðum. Suma daga er fjölmenni veiðimanna á bryggjunni og sumir þeirra hafa náð ágætum afla.

Stórleikur á Nesfiskvellinum.

Þegar þessi moli er skrifaður fimmtudaginn 2. júlí er framundan stórleikur milli Víðis og Reynis í Sandgerði á Nesfiskvellinum. Þetta er „El Classico“ leikur á spænska vísu. Mikil stemmning hefur verið í Garði fyrir þennan leik og er víst að Víðismenn ætla sér að rétta sinn hlut gegn Reyni, enda þarf Víðir nauðsynlega á stigum að halda. Samkvæmt upplýsingum á facebook síðu Víðis, hafa liðin alls mæst 26 sinnum í deildakeppni frá árinu 1969. Víðir hefur sigrað í 8 leikjum, Reynir hefur sigrað 12 sinnum og 6 sinnum hefur orðið jafntefli. Ég vona að mínir menn eigi góðan dag og fari með sigur af hólmi, áfram Víðir !

Góða helgi !

 

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail