35. vika 2015, Sólseturshátíð.

Sólseturshátíð. 

Vikan hefur einkennst af hátíðarhöldum í Garðinum. Í síðasta mola var m.a. fjallað um sumarhátíð leikskólans Gefnarborgar. Alla vikuna hefur verið skipulögð dagskrá Sólseturshátíðar. Á mánudaginn og þriðjudaginn voru sundlaugarpartý karla og kvenna, í umsjón Víðis. Fjallað var um þessi vel heppnuðu partý í síðasta mola. Á miðvikudaginn var boccia keppni í íþróttahúsinu og um kvöldið vel sótt og skemmtileg fróðleiksganga með ströndinni frá Unuhúsi að Meiðastöðum, undir leiðsögn Harðar Gíslasonar. Hörður er skemmtilegur leiðsögumaður sem kann að segja frá jarðfræðinni, sögunni og einstökum persónum sem búið hafa í Garðinum og sett svip á sögu Garðsins. Á miðvikudagskvöldið var einnig Sólseturshátíðarmót í golfi á golfvelli Golfklúbbs Suðurnesja í Leirunni í Garði, mótið var vel sótt og tókst vel.

Fólk á öllum aldri í Boccia.
Fólk á öllum aldri í Boccia.
Hörður Gíslason segir sögu Garðsins.
Hörður Gíslason segir sögu Garðsins.
Fjölmenn fróðleiksganga með Herði Gíslasyni.
Fjölmenn fróðleiksganga með Herði Gíslasyni.

Á fimmtudag var opnuð samsýning listamanna og hönnuða, þar sem ýmsir Garðbúar sýndu list sína og hönnun. Það er athyglisvert hve margir Garðbúar leggja stund á listir og hönnun, jafnframt ánægjulegt. Hverfaleikar voru haldnir, þar sem Garðbúar fjölmenntu, tóku þátt í ýmsum leikjum og gæddu sér á dýrindis sveppasúpu í boði Doddagrills og Skólamats. Fimmtudagskvöldið endaði á Sólseturshátíðar-spinning í nýju líkamsræktinni í íþróttamiðstöðinni. Þar var mikil mæting, vel tekið á því og mikið fjör.

Rauður hópur á Hverfaleikum 2015.
Rauður hópur.
Glaðlegur barnahópur á Hverfaleikum 2015.
Glaðlegur appelsínugulur barnahópur.
Biðröð í súpuna á Hverfaleikum 2015.
Biðröð í súpuna.
Íþrótta-og æskulýðsfulltrúinn stjórnaði Hverfaleikum 2015.
Íþrótta-og æskulýðsfulltrúinn stjórnaði Hverfaleikum 2015.

Í dag, föstudag verður dagskrá á Nesfiskvellinum, heimavelli Víðis. Ýmis skemmtiatriði og bæjarfulltrúar að grilla pylsur fyrir leik Víðis og Magna í 3. deildinni sem hefst kl. 19:00. Eftir leik verður hin vinsæla strandblak keppni á Garðskaga og síðan sundlaugarpartýi fyrir ungmenni. Miðnæturmessa verður í Útskálakirkju kl. 23:30.

Sólseturshátið nær hámarki á morgun, laugardag. Kl. 10:00 í fyrramálið verður Sólseturshátíðarhlaup frá íþróttamiðstöðinni.  Kl. 11:00 verða gróðursett tré á opna svæðinu sunnan við sundlaugina, í tilefni þess að 35 ár eru liðin frá því Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kjörin forseti Íslands. Eftir hádegi og fram eftir kvöldi verður mikil og glæsileg dagskrá á hátíðarsvæðinu á Garðskaga. Sólseturshátíð lýkur síðan á sunnudaginn. Í Gerðaskóla verður sýning á heimildamyndinni Garður hundrað ára, opið hús verður í Sjólyst og kl. 15:00 verður afmælishátíð Björgunarsveitarinnar Ægis, en á þessu ári eru liðin 80 ár frá stofnun björgunarsveitarinnar.

Nánari upplýsingar um dagskrá Sólseturshátíðar má nálgast á heimasíðunni svgardur.is

Sólsetrið á Garðskaga.

Á þessum tíma árs er mikil upplifun að vera á Garðskaga um miðnætti, þegar sólin fellur bak við fjallgarðinn á Snæfellsnesi. Það er sívinsælt myndaefni og oft er fjölmenni úti á Garðskaga á þessum tíma, sólsetrið er mikið aðdráttarafl og fólk nýtur upplifunarinnar. Veðrið þessa vikuna hefur verið eins og best gerist á þessum tíma árs og það magnar upp stemmninguna. Það er einhver óskýrð stemmning og ákveðinn sjarmi yfir Garðskaganum.

Sólsetur á Garðskaga 25. júní.
Sólsetur á Garðskaga 25. júní.

Bæjarstjórinn á striga.

Ólafur Kjartansson listamaður sýnir nokkrar myndir á samsýningu listamanna í Garði. Þar á meðal er mynd af bæjarstjóranum sem Ólafur dró upp á striga. Ég er að sjálfsögðu ánægður með þetta vel unna verk Ólafs, enda hefur hann greinilega lagt sig fram um að modelið líti sem best út á striganum!

Ólafur Kjartansson, málverkið og frummyndin.
Ólafur Kjartansson, málverkið og modelið.

Veðrið.

Að þessu sinni er varla hægt að ljúka vikumolum án þess að minnast á blessað verðrið. Veðurguðirnir hafa verið okkur einstaklega hliðhollir þessa vikuna og erum við Garðbúar þakklátir fyrir það, ekki síst vegna þess hve miklu máli skiptir að veður sé gott þegar hátíðarhöld standa yfir.

Góða helgi – allir hjartanlega velkomnir á Sólseturshátíðina um helgina.

 

 

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

Hátíðarhöld í Garði.

Sumarhátíð leikskólans Gefnarborgar.

Þriðjudaginn 23. júní var árleg sumarhátíð leikskólans Gefnarborgar. Börnin og starfsfólk leikskólans voru í hátíðarskapi, söngur og gleði með tilheyrandi andlitsmálningu og leikjum voru alls ráðandi. Foreldrar, afar og ömmur og aðrir gestir fjölmenntu í leikskólann til að gleðjast með börnunum. Börnin á leikskólanum eiga góðan vin í Uganda og átti hann 4 ára afmæli þennan dag, sumarhátíðin var ekki síst honum til heiðurs á afmælisdaginn.  Það var ánægjulegt að heimsækja leikskólann og upplifa gleðina og það góða starf sem fer fram í Gefnarborg. Þegar bæjarstjórinn mætti á staðinn tóku góðir vinir í hópi leikskólabarnanna á móti mér og minntu á heimsóknina á skrifstofu bæjarstjórans í vetur, þar sem vakin var athygli á bágbornu ástandi fótboltavallarins á leikskólalóðinni. Við skoðuðum aðstæður og ræddum hvernig væri hægt að koma fótboltavellinum í gott lag. Við skildum allir sáttir og eigum það sameiginlega markmið að aðstaða til fótboltaleikja verði í topp standi áður en langt um líður.

Lína langsokkur á Gefnarborg.
Lína langsokkur á Gefnarborg.
Sumarhátíð Gefnarborgar.
Sumarhátíð Gefnarborgar.

Sólseturshátíð.

Dagskrá Sólseturshátíðar hófst sl. mánudagskvöld, dagskrá stendur yfir alla daga vikunnar og lýkur nk. sunnudag. Hápunkturinn verður á laugardaginn með glæsilegri dagskrá á Garðskaga. Á mánudagskvöldið var vel heppnað sundlaugarpartý hjá körlum, með dýrindis veitingum og skemmtun. Á þriðjudagskvöld var enn betur sótt sundlaugarpartý hjá konum, með glæsilegum veitingum og skemmtun. Bæði partýin heppnuðust mjög vel og allir ánægðir. Við þökkum Víðisfólki fyrir okkur.

Sundlaugarpartý karla.
Sundlaugarpartý karla.
Sundlaugarpartý konur.
Sundlaugarpartý konur.

Næstu daga heldur glæsileg hátíðardagskrá áfram. Íbúarnir eru byrjaðir að skreyta hús og götur með tilheyrandi litum og hátíðarstemmningin fer vaxandi eftir því sem líður á vikuna.

Garðbúar bjóða gesti velkomna til að njóta hátíðarhaldanna og þeirra viðburða sem eru á dagskrá. Sólseturshátíð Garðmanna hefur tekist mjög vel undanfarin ár og nú hugsa veðurguðirnir vel til okkar því veðurspáin fyrir næstu daga er einstaklega góð.

Nánari upplýsingar um dagskrá Sólseturshátíðar má finna á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is.

Gróðursetning.

Á laugardaginn 27. júní kl. 11:00 verða gróðursett þrjú tré á svæðinu sunnan við sundlaugina. Tilefnið er sérstakt, en nú eru liðin 35 ár frá því Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kjörin forseti árið 1980. Af því tilefni verða gróðursett tré í sveitarfélögum landsins og er verkefnið í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands.

Facebooktwittergoogle_plusmail

25. vika 2015.

Kvenréttindadagurinn er í dag.

Í dag er dagur kvenréttinda og því fagnað að konur fengu kosningarétt fyrir 100 árum. Mörg sveitarfélög, stofnanir og fyrirtæki gefa starfsfólki sínu, bæði konum og körlum, frí eftir hádegi í dag til að starfsfólk geti tekið þátt í hátíðahöldum dagsins. Sveitarfélagið Garður gefur sínu starfsfólki frí eftir hádegi í dag í sama tilgangi og vonandi taka sem flestir þátt í hátíðahöldum.

Til að halda til haga fleiru sem tengist því að konur fengu kosningarétt árið 1915, þá var þessi kosningaréttur kvenna bundinn við konur 40 ára og eldri. Þá gilti alveg það sama um karla, sem voru eignalausir verkamenn og vinnumenn til sveita, sá þjóðfélagshópur hafði ekki haft kosningarétt en þeir fengu hann með sömu skilyrðum og konur árið 1915. Þá átti kosningarétturinn að færast fram um eitt ár á hverju ári, þannig að konur hefðu jafngildan kosningarétt og karlar árið 1931. Það var síðan í kjölfarið á sambandslagasamningi dana og íslendinga að konur og karlar fengu jafngildan kosningarétt árið 1920.

Ég óska okkur öllum til hamingju með daginn.

Íslenski fáninn 100 ára.

Það eru ekki bara tímamót í dag varðandi kosningarétt kvenna og kvenréttindabaráttuna. Í dag eru liðin 100 ár frá því íslenski fáninn, þjóðfáninn okkar fallegi var staðfestur með konungsúrskurði þann 19. júní árið 1915. Lög um íslenska fánann voru afgreidd á Alþingi þann þann 15. júní 1944 og voru þau lög þau fyrstu sem þá nýkjörinn forseti Sveinn Björnsson staðfesti á Þingvöllum 17. júní 1944. Fáninn er krossfáni, blái liturinn táknar fjallablámann, rauði liturinn eldinn í iðrum landsins og sá hvíti ísinn á toppum þess.

Þeir íslendingar sem upplifðu þessi merku tímamót fyrir 100 árum hafa án efa verið við það að springa úr stolti, enda stór áfangi á þeirri vegferð sem náði hámarki þann 17. júní 1944. Í Garðinum var íslenski fáninn dreginn að húni í morgun, til heiðurs kvenréttindadeginum, en ekki síður í tilefni 100 ára afmælis íslenska þjóðfánans.

Íslenski fáninn

17. júní.

Eins og maðurinn sagði forðum í þjóðhátíðarræðunni, þá var 17. júní um allt land í gær ! Hátíðahöld voru með hefðbundnum hætti í Garðinum. Hátíðarmessa var í Útskálakirkju, að henni lokinni gengu kirkjugestir skrúðgöngu til Gerðaskóla með íslenska fánann í fararbroddi. Í Gerðaskóla var hátíðardagskrá og annaðist foreldrafélag barna í 10. bekk undirbúning og framkvæmd hennar. Fjölmenni var við hátíðahöldin í skólanum, þar var íslenski fáninn hylltur, fjallkonan flutti ljóð og hátíðarræða Ásmundar Friðrikssonar alþingismanns. Friðrik Dór tónlistarmaður mætti og hélt uppi skemmtilegri dagskrá, sem höfðaði til allra aldurshópa og hljómsveit skipuð nemendum úr Gerðaskóla flutti sitt prógramm, efnilegir tónlistarmenn þar á ferð !  Það var ekki aðeins hátíðarbragur yfir góðri hátíðardagskránni, heldur blakti íslenski fáninn víða við hún í bænum og Garðbúar voru almennt í hátíðarskapi. Ég þakka öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum við að gera þjóðhátíðardaginn í Garði svo hátíðlegan sem raunin var.

Það er okkur mikilvægt að viðhafa hátíðahöld á þjóðhátíðardaginn okkar, til þess að fagna sjálfstæði, frelsi og sjálfræði þjóðarinnar. Ekki síður til þess að viðhalda þekkingunni um liðna tíma og þá baráttu sem lengi var háð með það að markmiði að íslendingar mættu ráða sínum málum sjálfir. Vonandi berum við gæfu til þess að viðhalda því til framtíðar og við sem þjóð eigum að standa saman um að halda hátíðarblæ yfir þjóðhátíðardeginum okkar.

Við megum aldrei gleyma því að það er ekki sjálfgefið að litlar þjóðir búi við þá friðsæld og frelsi sem við njótum, ásamt því að lifa sem sjálfstæð þjóð í eigin landi. Það var draumur forfeðra okkar, sem í langan tíma börðust fyrir því að svo mætti vera og náðu að lokum þeim árangri sem okkar kynslóðir fá að njóta.

Styrkveitingar í Garðinn.

Í vikunni var tilkynnt um styrkveitingar úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja. Sjóðurinn vinnur að því að stuðla að jákvæðri samfélagsþróun á Suðurnesjum, með því að treysta stoðir menningar og auka samkeppnishæfni svæðisins.  Alls var úthlutað um 45 milljónum króna í 35 verkefni, á sviði menningar og lista, nýsköpunar og þróunar og í stofnstyrki.  Fimm styrkir voru veittir vegna verkefna í Garði, eða sem tengjast Garðinum.  Þar má nefna styrk til Norræna félagsins í Garði vegna Norrænna kvikmyndadaga á Suðurnesjum, styrk vegna uppsetningar ljóshúss á gamla vitann á Garðskaga og styrk til viðhalds innanhús í Sjólyst, sem er gamla húsið hennar Unu í Garði.  Þá fékk listaverkefnið Ferskir vindar hæsta styrk vegna listahátíðarinnar í Garði um næstu áramót.  Loks má nefna að Eiríkur Hermannsson hlaut styrk vegna útvarpsþátta um mannlíf og menningu á Suðurnesjum. Frekari upplýsingar um úthlutun úr Uppbyggingarsjóði má finna á heimasíðu Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, sss.is.

Styrkir frá Uppbyggingarsjóði skipta verulega miklu máli fyrir Suðurnesin og það er ánægjulegt hve mörg verkefni í Garði hlut styrki. Það er mikilvægt fyrir okkur og ber merki um dugnaðinn sem býr í Garðbúum og það góða samstarf sem við eigum við ýmsa aðila sem vilja hag Garðsins sem mestan.

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum.

Þann 17. júní var ég viðstaddur skólaslit hjá Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum (MSS), en þá luku 14 nemendur háskólanámi sem þeir höfðu stundað með fjarnámi við Háskólann á Akureyri. Það var ánægjulegt að vera viðstaddur þennan viðburð, ánægjan skein af nemendum og starfsfólki MSS enda miklum áfanga náð. MSS sinnir mikilvægu starfi og er mikilvægur hlekkur í menntakeðjunni á Suðurnesjum. Ég óska hinum útskrifuðu nemendum og starfsfólki MSS til hamingju með áfangann.

Sólseturshátíð í næstu viku.

Nú eftir helgina hefst dagskrá Sólseturshátíðarinnar hér í Garði. Dagskrá stendur yfir alla daga vikunnar, frá mánudegi fram á sunnudag, hápunktur hátíðarinnar verður laugardaginn 27. júní með hátíðahöldum á Garðskaga. Bæjarstjórinn hvetur Garðbúa til góðrar þátttöku, enda er dagskráin fjölbreytt og mikið verður um að vera. Við bjóðum gesti velkomna í Garðinn til að taka þátt með okkur og njóta þess sem boðið er upp á. Dagskrá hátíðarinnar hefur verið dreift í öll hús í Garði og mun hún einnig birtast í fjölmiðlum. Dagskráin og upplýsingar um Sólseturshátíðina er aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is.

Sólsetur við Garðskaga
Sólsetur við Garðskaga

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

24. vika 2015.

Sumarstörfin.

Þótt enn sé frekar svalt í veðri og sumardagar með sól og hlýindum hafi varla látið sjá sig ennþá, þá eru sumarstörfin hafin. Vinnuskólinn vinnur að snyrtingu og hirðingu bæjarins, ungmennin leggja sig fram af alúð og hafa metnað fyrir því að leggja sitt af mörkum í þeim efnum. Margir húseigendur hafa tekið til hendi við að dytta að sínum húsum og lóðum. Það er alltaf ákveðin stemmning í upphafi sumars þegar sumarstörfin eru hafin af fullum krafti.

Vinnuskólinn fegrar bæinn.
Vinnuskólinn fegrar bæinn.
Starfsfólk vinnuskóla tilbúin til starfa.
Starfsfólk vinnuskóla tilbúin til starfa.

Landsliðsæfing í Garði.

Í gær, fimmtudag, kom U21 árs landslið Íslands í knattspyrnu í Garðinn og tók létta æfingu á Nesfiskvelli Víðis. Þetta var síðasta æfing liðsins fyrir landsleikinn gegn Makedóníu sem fram fór í gærkvöldi, en liðið er að hefja leik í undankeppni Evrópumótsins. Landsliðsþjálfarinn er að móta nýtt U21 árs landslið og eru margir leikmenn liðsins að hefja þátttöku í því liði. Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari var að sjálfsögðu mættur með liðinu, en hann lék á árum áður með Tindastóli og háði rimmur við Víðismenn í Garðinum. Gamlir leikmenn Víðis voru mættir til að fylgjast með æfingu landsliðsins og rifjuðu upp baráttuleiki við Tindastól, þegar Eyjólfur lék með Skagfirðingum. Bæjarstjórinn var að sjálfsögðu mættur á völlinn til að bjóða landsliðsmenn og föruneyti velkomna í Garðinn.

Landsliðið fékk góða strauma og innblástur í Garðinum fyrir leikinn gegn Makedóníu í gærkvöldi, því strákarnir gerðu sér lítið fyrir og unnu öruggan sigur 3 – 0. Við þökkum strákunum í U21 landsliðinu, þjálfaranum og öðrum þeim sem fylgdu liðinu á æfinguna í Garði fyrir komuna í Garðinn. Þeir eru að sjálfsögðu alltaf velkomnir aftur og geta gengið að því vísu að Víðismenn taka vel á móti þeim. Við óskum strákunum góðs gengis í baráttunni sem framundan er og vonum að þeim takist að vinna sér sæti í úrslitakeppni Evrópumótsins.

Bæjarstjórinn og landsliðsþjálfari U21 í Garðinum
Bæjarstjórinn og landsliðsþjálfari U21 í Garðinum

Fundur með hundaeigendum.

Í gær var fundur með hundaeigendum í Garði, sem sveitarfélagið boðaði til. Á fundinum var m.a. farið yfir reglur sem gilda um hundahald og lögð áhersla á að hundaeigendur sýni sínum hundum alúð og ábyrgð. Nokkuð hefur verið um að íbúar kvarti vegna lausra hunda og ónæðis af þeirra völdum. Allt var þetta rætt og áhersla lögð á gott samstarf hundaeigenda, sveitarfélagsins og þeirra sem um þessi mál halda. Fundurinn var góður og ágætlega sóttur, gagnlegar upplýsingar komu fram og hundaeigendur komu fram með ýmsar ábendingar til sveitarfélagsins.

Bæjarráð.

Í gær, fimmtudag var fundur í bæjarráði og að venju voru þar ýmis mál á dagskrá. Þar má meðal annars nefna að farið var yfir rekstraryfirlit fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins, ásamt greiðsluyfirliti fyrstu fimm mánuðina. Þar kom fram að framvinda rekstrar er nokkuð vel í takti við fjárhagsáætlun. Þá má nefna að samþykkt var að taka þátt í verkefni á vegum Skógræktarfélags Íslands í tilefni þess að 27. júní verða liðin 35 ár frá því Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kjörin forseti Íslands. Þann dag verða trjáplöntur gróðursettar um allt land, þar á meðal verða gróðursettar plöntur hér í Garðinum.

Deiliskipulag í Útgarði.

Tillaga að deiliskipulagi í Útgarði hefur verið auglýst. Um er að ræða nýtt svæði sem er ætlað fyrir þjónustustarfsemi. Nálgast má tillöguna, ásamt upplýsingum um hana á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is. Einnig geta íbúar fengið upplýsingar á skrifstofu sveitarfélagsins. Íbúar í Garði eru hvattir til þess að kynna sér tillöguna og koma á framfæri athugasemdum ef um það er að ræða.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

23. vika 2015

Nýr skólastjóri Gerðaskóla.

Á fundi bæjarstjórnar sl. föstudag var samþykkt samhljóða að ráða Jóhann Gísla Geirdal Gíslason skólastjóra Gerðaskóla.  Staðan var auglýst fyrr í vor og sóttu sex umsækjendur um stöðuna.  Jóhann er ráðinn skólastjóri frá og með 1. ágúst nk. Ég býð Jóhann velkominn til starfa og vænti góðs samstarfs við hann um starfsemi Gerðaskóla.

Golfnámskeið í Gerðaskóla.

Fyrir síðustu helgi var golfnámskeið fyrir nemendur Gerðaskóla.  Námskeiðið var á vegum Golfklúbbs Suðurnesja og er liður í samstarfi GS og sveitarfélagsins, samkvæmt samningi þar um.  Leiðbeinandi var Karen Sævarsdóttir, sem er margfaldur íslandsmeistari í golfi.  Aldrei er að vita nema í hópi nemenda Gerðaskóla leynist framtíðar golfsnillingar, það er ánægjulegt og jákvætt að GS veiti ungmennum í Garði undirstöðu leiðsögn í þessari vinsælu íþrótt. Nánar er fjallað um golfnámskeiðið á heimasíðu Gerðaskóla, gerdaskoli.is.

Golfkennsla í Gerðaskóla
Golfkennsla í Gerðaskóla
Karen með nemendum Gerðaskóla
Karen með nemendum Gerðaskóla

Bæjarstjórnarfundur.

Fundur var í bæjarstjórn Garðs sl. miðvikudag. Á dagskrá var langur listi mála sem bæjarstjórn tók til umfjöllunar og afgreiðslu. Ungmennaráð mætti á fund bæjarstjórnar og fóru fulltrúar þess yfir nokkur mál sem ráðið hefur fjallað um og gert tillögur um til bæjarstjórnar. Þátttaka ungmennaráðs á fundi bæjarstjórnar var ánægjuleg og kom fram að þau ungmenni sem taka þátt í störfum ráðsins eru ánægð með þátttöku í störfum Ungmennaráðs. Þau lýstu ánægju með jákvætt samstarf við bæjarstjórn og var það gagnkvæmt af hálfu bæjarstjórnar. Meðal annara mála sem bæjarstjórn fjallaði um má nefna að samþykkt var að auglýsa tillögu um deiliskipulag í Útgarði, tillagan verður aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins á næstu dögum og er frestur til athugasemda fram í ágúst. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu bæjarráðs á málum sem þar hafa verið til umfjöllunar og afgreiðslu, m.a. samþykktir Almannavarnanefndar Suðurnesja, utan Grindavíkur.

Á fundi bæjarstjórnar var samþykkt að standa að stofnun og rekstri byggðasamlags um Brunavarnir Suðurnesja. Það mál á sér alllangan aðdraganda og hefur verið í undirbúningi í nokkurn tíma. Stofnfundur verður á næstu dögum og kaus bæjarstjórn sinn fulltrúa í stjórn. Samkvæmt samþykkt um stjórn Sveitarfélagsins Garðs kýs bæjarstjórn fulltrúa í bæjarráð einu sinni á ári og fór það kjör fram á fundinum á miðvikudaginn.  Loks má nefna að bæjarstjórn fól bæjarráði umboð til fullnaðarafgreiðslu mála meðan bæjarstjórn fer nú í sumarleyfi, næsti fundur í bæjarstjórn verður 9. september nk.

Ungmennaráð og bæjarstjórn Garðs
Ungmennaráð og bæjarstjórn Garðs

Tímamót.

Á þessum tíma árs eru margvísleg tímamót. Í dag verða skólaslit í Gerðaskóla, nemendur ljúka þar með skólaárinu og ganga til leiks og starfs út í sumarið. Nemendur 10. bekkjar kveðja skólann sinn og þeirra bíða ný ævintýri. Eins og áður hefur komið fram hefur verið ráðinn nýr skólastjóri fyrir Gerðaskóla. Ágúst Ólason lætur af störfum sem skólastjóri eftir að hafa sinnt starfinu þetta skólaár. Jafnframt liggur fyrir að Skarphéðinn Jónsson, sem var í ársleyfi frá störfum sem skólastjóri, kemur ekki aftur til starfa sem skólastjóri. Bæjarstjórinn þakkar þeim báðum fyrir ánægjulegt samstarf og framlag þeirra til skólastarfsins. Ég óska þeim báðum gæfu og góðs gengis í framtíðinni.

Önnur tímamót má nefna, að starfsfólk vinnuskólans byrjaði að slá grasfleti nú í vikunni. Það er nokkru seinna en verið hefur undanfarin ár og er það afleiðing þess veðurfars sem ríkt hefur í vor.

Sjómannadagur og aðrar hátíðir.

Á sunnudaginn er sjómannadagurinn. Það er löng hefð fyrir því að halda sjómannadaginn hátíðlegan víða um landið og er í mörgum sjávarbæjum myndarleg dagskrá af því tilefni. Ég óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með sjómannadaginn og óska þeim gæfu og góðs gengis í sínum mikilvægu störfum.

Stórt ættarmót verður haldið í Garðinum nú um helgina. Meiðastaðaætt mun koma saman á Garðskaga, efla kynni og styrkja ættarbönd. Meiðastaðaættin er ein af nokkrum ættum sem hafa sett svip sinn á Garðinn gegnum tíðina, meðlimir hennar hafa tekið þátt í uppbyggingu sveitarfélagsins og lagt mikið af mörkum til samfélagsins bæði í Garði og víða annars staðar. Bæjarstjórinn óskar þeim góðrar skemmtunar og ánægjulegra kynna nú um helgina í Garðinum.

Framundan er Sólseturshátíð Garðbúa. Hátíðin verður síðustu vikuna í júní. Undirbúningur er í fullum gangi og á næstu dögum verður upplýsingum um hátíðina og dagskrá hennar komið á framfæri.

Góða helgi !

 

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail