22. vika 2015.

Bæjarráð

Í vikunni var fundur í bæjarráði og þar voru að venju ýmis mál á dagskrá.  Á fundinn mættu góðir gestir sem kynntu hugmyndir og forsendur fyrir Fluglestinni, sem gengur út á lestarsamgöngur milli flugstöðvar og BSÍ í Reykjavík.  Þetta var áhugaverð kynning og er ljóst að verkefnið er á miklu flugi, en framundan eru ýmsar rannsóknir mikil vinna áður en fyrir liggur hvort ráðist verður í verkefnið af alvöru. Eftir að hafa kynnt mér málið lít ég ekki á þetta verkefni sem fjarlægan draum heldur virðist vera sem um raunverulegan kost geti verið að ræða.  Það mun væntanlega ráðast áður en langt um líður.

Auk fluglestarinnar var meðal annars fjallað um skýrslu frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, þar sem fjallað er um „Best Practice“, eða góð viðmið. Það gengur út á ferli við undirbúning og vinnslu fjárhagsáætlana sveitarfélaga, ákvarðanatökur og eftirlit með framgangi fjárhagsáætlana.  Þá má nefna að fyrir bæjarráð voru lögð gögn er varða stofnun byggðasamlags um Brunavarnir Suðurnesja, sem hefur verið í undirbúningi í nokkurn tíma.

Ungmennaráð

Eins og í mörgum öðrum sveitarfélögum er starfandi Ungmennaráð í Garði. Ungmennaráð er skipað níu ungmennum, það fundar reglulega undir stjórn Guðbrandar íþrótta-og æskulýðsfulltrúa. Það er ánægjulegt að fylgjast með störfum Ungmennaráðs, þar sem fulltrúarnir fjalla um ýmis málefni sem tengjast þeirra hagsmunum og þau hafa sent tillögur til bæjarstjórnar í þeim anda. Ungmennaráð mætir á fundi hjá bæjarstjórn einu sinni á ári, þar sem þau gera bæjarstjórn grein fyrir sínum sjónarmiðum, en Ungmennaráð mun mæta á fund hjá bæjarstjórn í næstu viku. Þetta er góður vettvangur fyrir ungmennin, þau fá tilsögn og þjálfun í fundarstörfum og hafa þar tækifæri til að koma sínum áhugamálum á framfæri við bæjarstjórn. Framtíðin mun skera úr um hvort eitthvert þeirra sem taka þátt í störfum ungmennaráðs muni taka þátt í stjórnmálum, kannski leynist framtíðar stjórnmálamaður eða -kona í þeirra hópi.

Vinnuskólinn er byrjaður

Að venju heldur sveitarfélagið úti vinnuskóla fyrir ungmenni í sumar. Auglýst var eftir þátttöku fyrr í vor, en nú ber svo við að eftirspurn eftir störfum í vinnuskólanum er mun minni en verið hefur undanfarin ár. Ástæðan er sú að ungmenni eiga nú mun meiri möguleika á störfum í atvinnulífinu og er það að sjálfsögðu á sinn hátt jákvæð þróun, þótt svo að það þýði að minni starfskraftur verði hjá vinnuskóla sveitarfélagsins. Flokkstjórar og ungmenni á framhaldsskólaaldri sem munu starfa hjá sveitarfélaginu í sumar hófu störf í vikunni, við að snyrta og fegra bæinn. Undanfarin ár hefur sláttur á grassvæðum hafist á þessum tíma árs, en nú ber svo við að grasspretta er lítil og því er sláttur ekki hafinn.  Vinnuskólinn er mikilvægur þáttur í starfsemi sveitarfélagsins og ber hitann og þungann af því að halda bænum snyrtilegum.  Það er á sama hátt ánægjulegt fyrir sveitarfélagið að eiga samstarf við ungmennin í vinnuskólanum og taka þannig þátt í uppeldi þeirra.

Sláttugengi í vinnuskólanum 2014.
Sláttugengi í vinnuskólanum 2014.

Krakkasumarið 2015

Íþrótta-og æskulýðsfulltrúi hefur skipulagt Krakkasumarið 2015 í Garði.  Þar er um að ræða ýmis sumarnámskeið sem eru í boði fyrir börn í Garðinum.  Upplýsingum um námskeiðin hefur verið dreift í öll hús og verða aðgengilegar á heimasíðu sveitarfélagsins. Foreldrar eru hvattir til þess að nýta sér þessa þjónustu og beina börnum sínum til þátttöku í námskeiðunum.

Sumarnámskeið 2014, kofabyggð
Sumarnámskeið 2014, kofabyggð

Jarðvangsvika

Þessa vikuna hefur staðið yfir svonefnd Jarðvangsvika. Reykjanes jarðvangur skipulagði dagskrá í samstarfi við ýmsa aðila þessa vikuna og lýkur henni á morgun, laugardag með gönguferð um Ásbrú og hefst hún kl. 10:00 í Eldey frumkvöðlasetri. Reykjanes jarðvangur var stofnaður árið 2012 og vinnur m.a. að því að auka þekkingu íbúa og gesta á sérstöðu Reykjanesskagans.  Allar nánari upplýsingar um jarðvanginn má finna á vefsíðunni reykjanesgeopark.is.

Heklan

Heklan er atvinnuþróunarfélag Suðurnesja, sem er samstarfsvettvangur sveitarfélaganna og ýmissa aðila á Suðurnesjum sem vinna að atvinnumálum, þar á meðal eru Ferðamálasamtök Suðurnesja.  Stjórn Heklunnar fundar reglulega og fjallar um atvinnumál á svæðinu, með það að markmiði að efla atvinnulíf og fjölga störfum. Fundur er í stjórn Heklunnar í dag, föstudag og þar eru ýmis áhugaverð og mikilvæg mál á dagskrá sem falla að þeim markmiðum sem Heklan vinnur að.

Víðir

Víðismenn eru að komast á flug í deildarkeppninni í knattspyrnu. Þeir eru farnir að safna stigum og gerðu jafntefli við Einherja í hörkuleik sl. mánudag, en það var fyrsti heimaleikur liðsins á leiktímabilinu. Bæjarstjórinn hefur fulla trú á því að Víðir muni þegar á líður tímabilið blanda sér í toppbaráttuna í deildinni, liðið lék ágætlega í leiknum á mánudaginn og sýndi góða baráttu, sem löngum hefur einkennt Víðir. Garðbúar standa þétt við bakið á sínu liði og munu veita því góðan stuðning í leikjum liðsins í sumar.  Áfram Víðir !

Veðrið

Eins og fram hefur komið er óvenju kalt í veðri þennan maí mánuð, sem nú er að renna sitt skeið. Við höfum fundið fyrir því, hvar sem er á landinu. Það er ennþá rólegt yfir öllum gróðri og grasspretta er með minna móti vegna kuldans. Fyrir ekki svo löngu héldum við að sumarið væri komið með þokkalegum hlýindum, við erum greinilega ekki í miklu uppáhaldi hjá veðurguðunum um þessar mundir en lifum í þeirri vona að það fari nú að breytast !

Góða helgi

 

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

21. vika 2015.

Bæjarráð í vikunni.

Í vikunni var fundur í bæjarráði og voru ýmis mál á dagskrá að venju.  Af mörgum málum sem voru á dagskrá má meðal annars nefna að fjallað var um hundahald í Garðinum og var ákveðið að leita eftir samstarfi við hundaeigendur í bænum um þeirra málefni, en talsvert hefur verið kvartað undan því að hundar gangi lausir og að íbúar verði fyrir ónæði af völdum hunda. Hagsmunir hundaeigenda, bæjaryfirvalda og íbúa fara saman hvað það varðar að allir séu sáttir við ástand mála. Bæjarráð samþykkti drög að samþykktum fyrir Almannavarnanefnd Suðurnesja og á fundinum voru lagðar fram upplýsingar um fjölda einstaklinga sem fá fjárhagsaðstoð sveitarfélagsins, en umfang þess er heldur minna fyrstu mánuði þessa árs en á sama tíma á síðasta ári, sem er ánægjuleg þróun.  Loks má nefna að bæjarráð samþykkti samning við Ferska vinda um næstu listahátíð, sem verður kringum næstu áramót.

Bæjarráð fær af og til gesti á sína fundi.  Á fundinn í vikunni komu góðir gestir, en fulltrúar í Öldungaráði Suðurnesja mættu og fór fram góð og gagnleg umræða um málefni aldraðra í Garði.  Bar þar hæst málefni Garðvangs, en aldraðir hafa lagt mikla áherslu á að í Garðvangi verði á ný rekin hjúkrunarþjónusta við aldraða.  Þá kom fram að aldraðir eru ánægðir með þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir þeim, en á fundinum var rætt um ýmislegt sem mætti gera til þess að gera góða þjónustu enn betri.  Það er mikilvægt fyrir sveitarstjórnarmenn að eiga gott samstarf við aldraða um þeirra málefni.

Búmenn.

Ég varð var við að það vakti athygli einhverra að sjá bæjarstjórann í Garði í sjónvarpsfréttum í vikunni, þegar fjallað var um fund sem haldinn var um málefni búseturétthafa í Búmönnum.  Það er rétt að veita hér skýringar á því af hverju bæjarstjórinn mætti á þennan fund. Hópur búseturétthafa boðaði til fundar um stöðu mála hjá þeim og buðu þeir sveitarstjórnarmönnum í nokkrum sveitarfélögum til fundarins. Bæjarstjórinn í Garði mætti á fundinn fyrir hönd sveitarstjórnarmanna í Garði, en í Garðinum er nokkur fjöldi íbúða Búmanna.  Það er ljóst að fjárhagsleg staða Búmanna er erfið, en á umræddum fundi var m.a. farið yfir stöðuna og sagt frá því verkefni að vinna sem best úr erfiðri stöðu mála.  Vonandi tekst vel til með það verkefni, ekki síst þar sem um mikla fjárhagslega hagsmuni er að ræða fyrir þá einstaklinga sem eru búseturétthafar í félaginu.

Sólseturshátíð.

Nú styttist óðum í Sólseturshátíð Garðbúa, sem mun standa yfir síðustu vikuna í júní. Framkvæmdanefndin hefur unnið ötullega að undanförnu við að undirbúa hátíðina. Laugardaginn 27. júní verður glæsileg dagskrá þar sem fram munu koma nokkrir af vinsælustu skemmtikröftum landsins. Frekari upplýsingar um dagskrá Sólseturshátíðar munu koma fram fljótlega. Knattspyrnufélagið Víðir annast undirbúning og framkvæmd Sólseturshátíðarinnar, í samstarfi við ýmsa aðila þar á meðal Björgunarsveitina Ægir.  Sólseturshátíðin hefur jafnan tekist vel með góðri þáttöku heimafólks og gesta.

Víðir.

Leiktímabilið hjá mínum mönnum í Víði hefur ekki farið vel af stað.  Næsti leikur er í kvöld á Álftanesi og fyrsti heimaleikurinn verður nk. mánudag kl. 14:00 gegn Einherja. Ég leit við í Víðishúsinu eftir æfingu hjá liðinu í gærkvöldi.  Þar var góður vinur minn Þorgrímur Þráinsson mættur til þess að tala við leikmenn og hvetja til dáða. Við Þorgrímur ólumst upp í Ólafsvík og lékum saman með Víkingi fyrir nokkrum árum. Þorgrímur kann sitt fag og hans framlag hefur örugglega góð og jákvæð áhrif á liðið. Ég óska Víðismönnum góðs gengis og skora á Garðbúa að styðja vel við bakið á liðinu, m.a. með því að fjölmenna á leiki og hvetja leikmenn til dáða.

Þorgrímur Þráins hvetur Víðismenn til dáða.
Þorgrímur Þráins hvetur Víðismenn til dáða.

Sumarblíða.

Þegar þetta er skrifað er sumarblíða í Garðinum.  Sól og logn, hitastigið mætti vera hærra en það stendur til bóta. Það er alltaf jafn áhugavert að upplifa hvað veðurfarið hefur mikil áhrif á mannlífið, á svona góðviðrisdögum eru fleiri með bros á vör en alla jafna !

Hvítasunnuhelgin framundan.

Það er rétt að halda því til haga hvað Hvítasunnan merkir.  Hvítasunnan er stofndagur kirkjunnar og á hinni fyrstu hvítasunnuhátíð kom heilagur andi yfir postula Krists og þeir töluðu tungum framandi þjóða.  Hvítasunna er þriðja stórhátíð kristninnar og með henni lýkur pákatímanum.  Margt fleira má segja um Hvítasunnu, en á síðari tímum hefur hvítasunnuhelgin verið ein fyrsta stóra umferðarhelgin hér á landi á hverju sumri.  Margir nota tækifærið til þess að ferðast um landið og heimsækja ættingja og vini.  Þá hefur til skamms tíma verið hefð víða um land að halda fermingar um Hvítasunnu, en eitthvað hefur það breyst á undanförnum árum.  Ég hvet alla ferðalanga til þess að fara varlega í umferðinni, nú sem ávallt.

Góða helgi ! 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

20. vika 2015.

Vorhátíð Gerðaskóla.

Það er hefð fyrir því að nemendur og starfsfólk Gerðaskóla haldi vorhátíð á þessum tíma árs.  Vorhátíð skólans var haldin í gær, Uppstigningardag. Mikið var um að vera í skólanum, ýmsir leikir og uppákomur ásamt fjáröflun fyrir nokkra bekki skólans. Mikil og góð mæting var í skólanum í gær og allir skemmtu sér vel. Það er mikið um að vera hjá nemendum skólans núna undir lok skólaársins og það var ánægjulegt að sjá hve nemendur tóku almennt virkan þátt. Meðal þess sem var á dagskrá var að nokkrar hljómsveitir skipaðar nemendum í tónlistarskólanum komu fram og léku nokkur lög. Bæjarstjóranum þótti gaman að hlusta á þessa tónlistarmenn, sem eru margir að taka sín fyrstu skref í poppinu og eru efnilegir.  Það minnti á gamla daga frá unglingsárum bæjarstjórans, þegar við nokkrir félagar vorum að stíga okkar fyrstu skref í bransanum og fengum ýmis tækifæri til að koma fram. Það að halda vorhátíð skólans á þennan hátt er mikilvægt fyrir skólasamfélagið, þá hittast nemendur, starfsfólk skólans, foreldrar og aðrir bæjarbúar í skólanum og eiga ánægjulega samveru. Ég þakka nemendum og starfsfólki Gerðaskóla fyrir mig.

Guðmundur Sigurðsson sendi molum nokkrar myndir sem hann tók á vorhátíðinni:

Limbó í Gerðaskóla
Limbó í Gerðaskóla
Vorgleði í Gerðaskóla.
Vorgleði í Gerðaskóla.
Efnilegt tónlistarfólk í Gerðaskóla.
Efnilegt tónlistarfólk í Gerðaskóla.

Umhverfisdagar i Garði.

Í dag, föstudag og á morgun laugardag verða umhverfisdagar í Garði.  Bæjarbúar eru hvattir til þess að taka til og hreinsa rusl af lóðum sínum og nánasta umhverfi. Starfsmenn bæjarins verða við áhaldahús til að taka á móti og aðstoða bæjarbúa við að koma rusli og úrgangi á rétta staði í þar til gerðum gámum sem eru staðsettir við áhaldahúsið. Allt er án endurgjalds og í samvinnu við Sorpeyðingarstöð Suðurnesja, sem mun taka við rusli og úrgangi sem skilað verður.  Frekari upplýsingum um umhverfisdagana var dreift í öll hús í Garði í vikunni, einnig eru nánari upplýsingar á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is.

Bæjarstjóri hvetur Garðbúa til þess að taka virkan þátt í umhverfisdögum og láta til sín taka við að fegra og snyrta bæinn sinn.  „Hreinn bær, okkur kær“

Víðir 79 ára.

Í upphafi vikunnar voru liðin 79 ár frá stofnun Knattspyrnufélagsins Víðis. Ég óska Víði og víðisfólki öllu til hamingju á þessum tímamótum. Starfsemi félagsins er öflug og skiptir miklu fyrir sveitarfélagið og íbúana, margir leggja mikla sjálfboðavinnu af mörkum í þágu félagsins og bæjarbúa.  Það ber að þakka.  Fyrsti leikur knattspyrnuliðs Víðis í deildarkeppninni verður á morgun, laugardag gegn Kára og verður leikið á Akranesi. Ég óska mínum mönnum góðs gengis.

Góðir gestir komu í heimsókn.

Í síðasta vikupistli kom fram að þá stæði yfir vorfundur bæjar-og sveitarstjóra hér á Suðurnesjum. Auk fundahalda fór hópurinn í skoðunar-og kynnisferð um sveitarfélögin á Suðurnesjum. Hér í Garði fékk hópurinn kynningu á sveitarfélaginu og heimsótti m.a. Gerðaskóla, þar sem Ágúst skólastjóri sagði frá skólanum og sýndi þá frábæru og góðu aðstöðu sem skólastarfið í Gerðaskóla býr við. Í skólanum héldu nemendur í 4. og 5. bekk stutta tónleika fyrir gestina, með söng og hljóðfæraleik. Þá var farið á Garðskaga, í byggðasafnið og inn í Garðskagavita, þar sem Una María Bergmann söng fyrir hópinn. Það var mikil upplifun, ekki aðeins fyrir það hve Una María skilaði vel sínum söng, heldur einnig vegna þess hve hljómburður í vitanum er magnaður og sérstakur. Það var ánægjulegt að fá góða gesti í heimsókn.

Bæjar-og sveitarstjórar á mörkum Evrópu og Ameríku.
Bæjar-og sveitarstjórar á mörkum Evrópu og Ameríku.

Burtfarartónleikar í Útskálakirkju.

Sl. þriðjudagskvöld hélt Una María Bergmann mezzosópran burtfarartónleika frá Tónlistarskólanum í Garði.  Tónleikarnir voru í Útskálakirkju, nánar er fjallað um þá í molum sl.  miðvikudag og er vísað til þess. Menningin blómstrar í Garðinum.

Góða helgi !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

Glæsilegir burtfarartónleikar.

Þriðjudaginn 12. maí hélt Una María Bergmann burtfarartónleika frá Tónlistarskólanum í Garði.  Tónleikarnir voru í Útskálakirkju og voru síðari hluti framhaldsprófs hennar frá tónlistarskólanum.  Una María er mezzosópran, undirleikari hennar á tónleikunum var Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari.

Tónleikarnir voru glæsilegir, enda er Una María frábær söngkona.  Útskálakirkja var full út úr dyrum af áheyrendum, góð stemmning og fögnuðu áheyrendur Unu Maríu vel og lengi í lok tónleikanna. Efnisskráin var fjölbreytt með tónlist eftir marga af mestu snillingum tónlistarsögunnar.

Una María hefur stundað tónlistarnám í Tónlistarskólanum í Garði frá unga aldri. Hún byrjaði á píanónámi en um fermingaraldur hóf hún söngnám og lagði síðan aðal áherslu á það eftir grunnskólapróf í píanóleik.  Una María hefur tekið þátt í mörgum viðburðum í Garði og á Suðurnesjum með söng sínum og framundan hjá henni er hlutverk í Brúðkaupi Figaros, sem verður flutt í Hljómahöllinni í lok maí. Hún söng fyrir bæjar-og sveitarstjóra landsins sem komu í heimsókn í Garð fyrir nokkrum dögum, sá söngur fór fram í stóra vitanum á Garðskaga og var skemmtileg upplifun fyrir þá sem þar voru staddir.

Það var ánægjulegt að upplifa tónleika Unu Maríu í Útskálakirkju. Það fór ekki á milli mála að Garðbúar voru afar stoltir af sinni konu og hún söng sig í bókstaflegri merkingu inn í hjörtu allra viðstaddra. Skólastjóri og kennarar við Tónlistarskólann í Garði voru ekki síður stoltir og ánægðir, enda upplifðu þau uppskeru sinnar vinnu með Unu Maríu til margra ára.

Það fer ekki milli mála að Una María hefur mikla tónlistarhæfileika.  Hún á reyndar ekki langt að sækja þá, faðir hennar er Vignir Bergmann sem hefur um langt árabil verið einn af bestu gítarleikurum landsins og er mikill tónlistarmaður, hann er kennari við Gerðaskóla.  Móðir Unu Maríu er Jónína Holm bæjarfulltrúi og kennari við Gerðaskóla.

Ég óska Unu Maríu Bergmann innilega til hamingju með framhaldsprófið frá Tónlistarskólanum í Garði og tónleikana í Útskálakirkju. Ég þakka henni og Helgu Bryndísi fyrir frábæra skemmtun.  Þá er ástæða til að óska Tónlistarskólanum í Garði, skólastjóranum og kennurum til hamingju með þann áfanga að útskrifa nemanda með framhaldspróf frá skólanum, það er sannarlega stór áfangi fyrir tónlistarskólann.

Það verður fróðlegt að fylgjast með Unu Maríu og hennar þátttöku í tónlistarlífinu. Það kæmi ekki á óvart ef hún verður í framtíðinni þekkt nafn í heimi sönglistarinnar, hún hefur allt til að bera til þess að ná góðum frama á þeim vettvangi.

 

Una María Bergmann mezzosópran
Una María Bergmann mezzosópran

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

19. vika 2015.

Ársreikningur 2014

Á fundi bæjarstjórnar sl. miðvikudag var ársreikningur sveitarfélagsins fyrir árið 2014 afgreiddur eftir síðari umræðu. Niðurstöður eru góðar og bera merki um að bæjarstjórn er á réttri leið með rekstur sveitarfélagsins.

Helstu niðurstöður ársreikningsins eru að rekstrarniðurstaða er jákvæð um rúmlega 30 milljónir króna, sem er mun betri afkoma en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir.  Ef fjárhagsáætlun ársins 2015 gengur eftir mun sveitarfélagið standast lagaákvæðið um jafnvægisreglu í árslok 2015, eða tveimur árum fyrr en ráð var fyrir gert.

Á árinu 2014 greiddi sveitarfélagið upp langtímalán að fjárhæð 236 milljónir.  Í árslok var A hluti bæjarsjóðs skuldlaus, en vaxtaberandi skuldir B hluta voru rúmar 63 milljónir.  Skuldahlutfall samkvæmt fjármálareglum sveitarstjórnarlaga var 28% um síðustu áramót. Efnahagsleg staða sveitarfélagsins er því mjög sterk.

Sveitarfélagið hefur framkvæmt mikið á síðustu árum, árið 2014 námu fjárfestingar og framkvæmdir alls 233 milljónum.  Viðbygging við íþróttamiðstöð fyrir glæsilega líkamsræktaraðstöðu var stærsta verkefnið.  Engin lán voru tekin fyrir þessum fjárfestingum, allt fjármagnað með eigin fé sveitarfélagsins.

Í Sveitarstjórnarlögum eru ákvæði um fjármálareglur fyrir sveitarfélög.  Þar er annars vegar ákvæði um að heildarskuldir sveitarfélaga megi ekki vera meiri en sem nemur 150% af reglulegum tekjum, það er ákvæði um skuldahlutfall. Hins vegar að útgjöld á hverju þriggja ára tímabili megi ekki vera meiri en tekjur, en síðara ákvæðið er svonefnd jafnvægisregla.  Sveitarfélagið Garður hefur í samstarfi við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga unnið að því að uppfylla ákvæðið um jafnvægisreglu í síðasta lagi árið 2017.  Hins vegar er sveitarfélagið langt undir mörkum er varðar skuldahlutfall.

Góður árangur í rekstri sveitarfélagsins er ekki síst starfsmönnum þess að þakka, það er þeirra verkefni að fylgja eftir ákvörðunum bæjarstjórnar og það gera starfsmenn sveitarfélagsins af samviskusemi, það ber að þakka.

Vorfundur bæjarstjóra haldinn á Suðurnesjum

Bæjar-og sveitarstjórar sveitarfélaga landsins hafa um langt árabil fundað á hverju vori, þar sem farið er yfir ýmis málefni sveitarfélaganna. Nú í vikulokin kemur hópurinn saman hér á Suðurnesjum. Það eru bæjarstjórar minni sveitarfélaganna fjögurra á Suðurnesjum sem eru gestgjafar að þessu sinni.  Auk fundar um málefni verður farið með hópinn í skoðunarferðir um Suðurnes og komið við í öllum sveitarfélögunum.  Svona samkomur eru mjög góðar og gagnlegar.  Bæjar-og sveitarstjórar bera saman bækur sínar um ýmis málefni og persónuleg tengsl manna eru styrkt.  Þessi hópur á oft ýmis samskipti um margvísleg málefni og á gott samstarf í sínum störfum.  Það er ánægjulegt að taka á móti góðum gestum, ekki síst þegar sólin skín og Suðurnesin skarta sínu fegursta.

Velheppnað forvarnakvöld í Gerðaskóla

Sl. mánudag var forvarnakvöld í Gerðaskóla, á vegum félagsmiðstöðvarinnar Eldingar og Gerðaskóla.  Haldnir voru fyrirlestrar um forvarnir og voru líflegar umræður um málefnið.  Foreldrar, forsjármenn og nemendur Gerðaskóla mættu á fundinn.  Það er mikilvægt að halda uppi fræðslu og forvörnum, allt í þágu ungmenna okkar.  Dæmin sanna að allt skilar það árangri.

Auglýst eftir skólastjóra og aðstoðarskólastjóra Gerðaskóla

Ég minni á að sveitarfélagið hefur auglýst stöður skólastjóra og aðstoðarskólastjóra Gerðaskóla lausar til umsókna.  Áhugasamir eru hvattir til þess að hafa samband við Hagvang, þar sem veittar eru upplýsingar og tekið við umsóknum um störfin.

Enn af veðrinu

Í síðasta vikupistli mátti skilja að ég væri efins um að sumarið væri komið, með tilvísun í veðurlýsingar.  Síðustu vikuna hefur verið sólríkt nánast alla daga, en svalur vindur af norðaustri, misjafnlega mikill.  Þetta er heldur betur allt í áttina og nú er ekki efi í huga bæjarstjórans að sumarið færist yfir og enn betri tíð er í vændum.

Bæjarstjórinn er ekki góður tippari !

Í síðasta vikupistli kom fram að þá væri framundan fyrsti leikur keppnistímabilsins hjá Víði, fyrsta umferð bikarkeppni KSÍ.  Bæjarstjórinn var alveg viss um sigur sinna manna í Víði og tippaði á það.  Ekki gekk það eftir og eru mínir menn úr leik í bikarnum.  Framundan er deildarkeppnin og Víðismenn munu örugglega leggja allt sitt af mörkum til þess að skora nógu mörg mörk til þess að ná öðru af toppsætum deildarinnar og færa sig upp um eina deild.  Ekki verður lagt í að tippa á neitt í þeim efnum, enda er bæjarstjórinn ekki góður tippari eins og dæmin sanna !

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

18. vika 2015.

Frídagur verkamanna.

Í dag er frídagur verkamanna 1. maí.  Þessi dagur hefur lengi verið dagur verkafólks og almennur frídagur.  Launafólk hefur um árabil haldið þennan dag hátíðlegan, með skrúðgöngum og skemmtanahaldi.  Í skrúðgöngum og ræðuhöldum er vakin athygli á ýmsum málum sem varða hagsmuni launafólks og almennings, þar á meðal þörf á bættum kjörum.  Nú standa yfir kjaradeilur milli launafólks og vinnuveitenda, ræðuhöld dagsins munu örugglega bera þess merki.

Ég óska verkafólki og launafólki öllu til hamingju með daginn.

Hópslysaæfing.

Í vikunni var haldin hópslysæfing í næsta nágrenni við Bláa Lónið.  Fyrir rúmlega ári síðan samþykkti Almannavarnanefnd Suðurnesja að láta vinna hópslysaáætlun og nú liggja fyrir drög að henni.  Þessi æfing í vikunni var til þess að prufukeyra áætlunina, eftir hana verður unnið úr því sem þykir þurfa að lagfæra og er stefnt að því að hópslysaáætlun verði tilbúin nú í maí.  Svona áætlun hefur ekki áður verið gerð á Suðurnesjum, en unnið hefur verið eftir flugslysaáætlun sem hefur verið til í langan tíma, vegna flugumferðar um Keflavíkurflugvöll.

Við sem sitjum í Almannavarnanefnd fylgdumst með æfingunni.  Það var lærdómsríkt að fylgjast með því hvernig allt gekk fyrir sig og vorum við mjög ánægðir með hvernig til tókst.  Alls tóku um 60 manns þátt í æfingunni, frá öllum aðgerðaraðlum á Suðurnesjum.  Lögreglan hafði yfirstjórn, auk þess komu að æfingunni slökkviliðin, björgunarsveitir á svæðinu, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Rauði krossinn.  Hópslysið sem var sviðsett átti við um 15 manns sem lentu í umferðarslysi, „Sjúklingarnir“ voru leiknir af 15 ungmennum sem stóðu sig vel og skiluðu sínum hlutverkum með miklum ágætum og innlifun.  Slysið varð í umdæmi Almannavarnanefndar Grindavíkur og því reyndi æfingin á samstarf allra aðila á svæðinu, sem gekk mjög vel.  Eftir að aðgerðum lauk kom allur hópurinn sem tók þátt í æfingunni saman í húsnæði björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík. Þar var farið yfir hvernig til tókst og kvennadeild björgunarsveitarinnar bauð öllum upp á máltíð.

Það er mjög mikilvægt að slíkar viðbragðsáætlanir séu fyrirliggjandi og þær séu prufukeyrðar.  Allt er það í þágu öryggis íbúanna á Suðurnesjum, sem og þeirra fjölmörgu sem eiga leið um Suðurnesin.  Þeir sem tóku þátt í þessari æfingu voru mjög ánægðir í lok dags, bæði með það hvernig til tókst en ekki síður með það að nú liggur fyrir hópslysaáætlun sem virkar mjög vel.

Aðgerðastjórn Almannavarna.
Aðgerðastjórn Almannavarna.
Vettvangur hópslyss.
Vettvangur hópslyss.

Fjölsmiðjan á Suðurnesjum.

Á sat aðalfund Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum, sem er starfrækt í Reykjanesbæ. Sveitarfélagið Garður hefur átt gott samstarf við Fjölsmiðjuna og er einn af bakhjörlum starfseminnar.  Það er ánægjulegt að sjá hve vel gengur hjá Fjölsmiðjunni.  Markmið með starfseminni er m.a. að hjálpa ungu fólki á aldrinum 16 – 24 ára að finna sitt áhugasvið, öðlast starfsreynslu og þar með auka möguleika þess í atvinnulífinu eða námi.  Hér er um að ræða mikilvægt samfélagslegt verkefni, sem hefur hjálpað mörgum ungmennum að finna fjöl sína í lífinu og aðstoðað við að finna sér stað í atvinnu eða námi. Á þann hátt er m.a. verið að aðstoða ungmennin við að auka þeirra lífsgæði. Ég vek athygli á nytjamarkaðinum Kompunni, þar sem Fjölsmiðjan selur ýmislegt, allt frá gömlum geisladiskum upp í myndarleg sófasett. Einnig rekur Fjölsmiðjan bílaþvottastöð þar sem fagmennskan og snyrtimennskan er í fyrirrúmi.

Fluglestin.

Í vikunni komu góðir gestir á fund bæjarstjórans.  Þeir fóru yfir og kynntu hugmyndir og vinnu sem farið hefur fram varðandi lestarsamgöngur milli Flugstöðvar og Umferðarmiðstöðvarinnar í Reykjavík.  Stórhuga hugmyndir, sem í fyrstu virðast minna á skýjaborgir.  Hins vegar þegar betur er að gáð eru ýmsar forsendur fyrir því að um sé að ræða raunhæfan kost.  Þetta þarf að skoða vel og út frá ýmsum hliðum.  Meðal annars þarf að leggja mat á samfélagsleg áhrif fyrir Suðurnesin, þjóðhagslega hagsmuni og ýmislegt annað.  Kannski eigum við eftir að ferðast með járnbrautarlest á Íslandi áður en langt um líður !

Breytingar í Gerðaskóla.

Ég vek athygli á því að stöður skólastjóra og aðstoðarskólastjóra Gerðaskóla hafa verið auglýstar lausar til umsókna. Ég hvet þá sem áhuga hafa að hafa samband við Hagvang, sem vinnur með okkur í Garðinum að ráðningum í stöðurnar.

Sumarið…..

Samkvæmt tímatali er sumarið komið!  Hins vegar hefur veðurtíðin undanfarið ekki verið í takti við tímatalið, kalt en tiltölulega snjólétt hér á Suðurnesjum miðað við Norður-og Austurland.  Engu að síður stendur undirbúningur sumarstarfa yfir og við lifum í voninni um að sumarið og góða veðrið komi að lokum.  Eitt af því sem verið er að undirbúa í Garðinum er Sólseturshátíð, sem er bæjarhátíðin okkar og verður síðustu helgi júní. Hátíðin er einn af hápunktum sumarsins í Garðinum og tekst jafnan vel til með hana.  Þá er unnið að undirbúningi vinnuskólans og ýmissa annarra útiverka á vegum sveitarfélagsins. Loks eru Víðismenn á lokaspretti undirbúnings fyrir upphaf keppnistímabilsins.  Fyrsti leikurinn verður í dag, föstudaginn 1. maí kl. 14:00 í Reykjaneshöllinni gegn Kríu.  Þetta er fyrsta umferð í bikarkeppni KSÍ.  Ég óska Víðismönnum góðs gengis og tippa á sigur minna manna.

Góða helgi!

 

Facebooktwittergoogle_plusmail