17. vika 2015.

Gleðilegt sumar !

Þessi vika hefur helst einkennst af því að veturinn kvaddi og sumarið tók við.  Sumardagurinn fyrsti var í gær.  Dagurinn heilsaði með glampandi sól hér í Garðinum, norðan gola og hann var frekar svalur.  Garðbúar drógu íslenska fánann að hún og það var hátíðarblær yfir bænum.  Gestir sundlaugarinnar í Garði undu sér vel í sólinni og skjólinu við sundlaugina.  Ekki var laust við að sumir þeirra settu sig í sólbaðsstellingar og eflaust hafa einhverjir sundlaugargestir merki um það á sínu skinni. Vonandi verða veðurguðirnir okkur hliðhollir á komandi vikum og mánuðum, þannig að við fáum að upplifa góða sumartið.

Víðavangshlaup Víðis.

Það er víða til siðs að taka sprettinn og hlaupa í tilefni Sumardagsins fyrsta.  Áralöng hefð ef fyrir víðavangi Víðis á Sumardaginn fyrsta, unglingaráð Víðis annast framkvæmdina.  Á Nesfiskvelli Víðis hlupu margir í tilefni dagsins, börn á öllum aldri og fullorðnir.  Eftir að börnin höfðu hlaupið var skorað á foreldra að taka sprettinn, nokkur hópur tók áskoruninni en sprettirnir voru mis frísklegir ! Haft var á orði að tilefni væri til að veita foreldrum, öfum eða ömmum viðurkenningu fyrir tilþrif í hlaupinu og hefðu þar ýmsir komið til greina. Aðal málið var þó að taka þátt og vera með í að viðhalda góðri hefð í tilefni dagsins. Að loknu hlaupi voru veitt verðlaun og allir viðstaddir nutu veitinga.

Myndirnar hér að neðan tók Guðmundur Sigurðsson og sendi bæjarstjóranum, takk fyrir það Gummi.

Efnilegir Garðbúar hlaupa  á Sumardaginn fyrsta.
Efnilegir Garðbúar hlaupa á Sumardaginn fyrsta.
Foreldrarnir hlupu líka
Foreldrarnir hlupu líka

Sjólyst.

Hollvinir Unu höfðu opið í Sjólyst, íbúðarhúsi Unu í Garði á Sumardaginn fyrsta.  Ég hef fjallað um Unu í fyrri pistlum og vísa til þeirra.  Það var gaman að heimsækja Sjólyst, skoða húsið og njóta kaffiveitinga.  Hollvinir eiga heiður skilinn fyrir að varðveita húsið og minningu um Unu, margir gestir heimsóttu Unuhús nú í sumarbyrjun.

Tími aðalfunda.

Um þetta leyti eru haldnir aðalfundir í mörgum félögum og fyrirtækjum. Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum eiga samstarf um rekstur nokkurra stofnana og fyrirtækja, menn hittast oft þessa dagana á aðalfundum.  Í vikunni var haldinn aðalfundur Dvalarheimilis aldraðra á Suðurnesjum (DS), Garður hefur í samstarfi við þrjú önnur sveitarfélög allt frá því um 1975 staðið að rekstri hjúkrunarheimila fyrir aldraða í Garðvangi og Hlévangi.  Á síðasta ári varð sú breyting að starfsemin í Garðvangi var flutt í Nesvelli í Reykjanesbæ.  Á aðalfundi DS í vikunni var m.a. samþykkt að sveitarfélögin sem standa að DS vinni sameiginlega að því að fá ríkisvaldið til þess að fjölga hjúkrunarrýmum, en nú eru hátt í 60 aldraðir á Suðurnesjum í bið eftir því að fá hjúkrunarþjónustu.  Einnig var samstaða um að knýja á ríkisvaldið um fjármagn til þess að hjúkrunarþjónusta verði aftur rekin í Garðvangi. Framundan er sameiginleg barátta sveitarstjórnarmanna í þessu máli.  Vonandi hefst starfsemi sem fyrst á nýjan leik í Garðvangi, við munum ekki horfa á það aðgerðarlaus að fjöldi aldraðra á Suðurnesjum þurfi að bíða eftir því að njóta sjálfsagðrar þjónustu.

Tími frídaganna.

Sá tími ársins sem nú er einkennist m.a. af því að einstakir frídagar falla inn á daga sem að öllu jöfnu eru virkir dagar.  Margir notfæra sér að taka frí frá vinnu í tengslum við þessa frídaga.  Dagurinn í dag er einn slíkur, þar sem gærdagurinn var frídagur til að fagna sumarkomu og nokkuð er um að starfsfólk sem hefur aðstöðu til þess, taki frídag í dag til að lengja helgina.  Hins vegar hefur megin þorri vinnandi fólks ekki slíka aðstöðu og sinnir sínum verkum.  Næstu vikurnar munu koma til fleiri slíkir frídagar, til ánægju flestu vinnandi fólki.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

16. vika 2015.

Skólabörnin í Garði 

Vikan heilsaði með góðri og skemmtilegri heimsókn, þegar ungir og efnilegir Garðbúar af leikskólanum Gefnarborg komu á skrifstofu bæjarstjórans og ráku sitt erindi.  Frá því var greint nánar í síðasta mola.

Í gær, fimmtudag var opinn dagur í Gerðaskóla.  Foreldrar nemenda, vinir og velunnarar heimsóttu skólann og fengu kynningu á því sem nemendur og starfsfólk fást við í skólanum. Það var ánægjulegt að heimsækja skólann, þar fer fram myndarlegt og gott starf og mega Garðbúar vera stoltir af sínum skóla og því öfluga starfi sem þar fer fram.

Það er ljóst af samskiptum við skólabörn í Garði, hvort sem er í Gerðaskóla eða Gefnarborg, að framtíðin er björt.  Börnin taka virkan þátt og stunda nám og starf af miklum áhuga.  Ein af forsendum þess er að sjálfsögðu gott framlag starfsfólks skólanna, sem bera uppi skólastarfið af áhuga og alúð. Fyrir þetta allt ber að þakka.

Björgunarsveitin Ægir

Fundur var í bæjarráði í vikunni.  Meðal mála sem þar voru til umfjöllunar er samstarfssamningur við Björgunarsveitina Ægir.  Sveitarfélagið og Ægir hafa átt gott samstarf í langan tíma, enda er öflug og vel búin björgunarsveit mikilvæg í okkar samfélagi.  Fjölmörg dæmi sanna það.  Það er í raun ótrúlegt hvað við eigum öflugar björgunar-og hjálparsveitir í landinu, sem byggjast nánast alfarið á sjálfboðaliðastarfi fjölmargra einstaklinga sem þær skipa.  Í samstarfssamningnum við Ægir felast m.a. ýmis verkefni sem Ægir tekur að sér að sinna fyrir sveitarfélagið og í sveitarfélaginu, en sveitarfélagið leggur Ægi til fjármagn til starfseminnar.  Sem gamall björgunarsveitarmaður er bæjarstjórinn ánægður með gott samstarf við Björgunarsveitina Ægir í Garði.

Bsv. Ægir Garði

Víðismenn undirbúa sig fyrir sumarið

Knattspyrnulið Víðis er komið heim úr æfingabúðum á Spáni.  Leikmenn eru sólbrúnir og sællegir, undirbúa sig af kappi fyrir deildarkeppnina sem hefst um miðjan maí.  Það verður spennandi að fylgjast með Víði í sumar, en á síðustu leiktíð voru þeir mjög nálægt því að vinna sér sæti í 2. deild. Víðir á langa og merkilega sögu í íslenskri knattspyrnu, léku um tíma í efstu deild og komust í úrslitaleik bikarkeppninnar eitt árið.  Í liði Víðis í dag eru leikmenn sem eru afkomendur gamalla kempa úr Víði, víst er að þeir vilja ekki vera eftirbátar þeirra sem gerðu garðinn frægan með Víði hér áður fyrr.  Það er mikill metnaður í félaginu, meðal leikmanna og ekki síður hjá þeim sem bera félagsstarfið uppi með miklum myndarbrag. Garðbúar hvetja leikmenn Víðis til glæsilegra dáða á komandi leiktíð !

Víðir í Garði

Landsþing sveitarfélaga

Í dag, föstudag er Landsþing sveitarfélaga í Salnum í Kópavogi.  Þar eiga fulltrúar allra sveitarfélaga sæti.  Að þessu sinni verður sérstaklega fjallað um svæðasamvinnu sveitarfélaga og þjónustu við fatlað fólk.  Þá mun Gunnar Helgi Kristinsson prófessor fjalla um eflingu sveitarstjórnarstigsins, en hann hefur nýlega gefið út bók með rannsóknum sínum um sveitarstjórnarstigið. Loks verður fjallað um kosningalöggjöfina í stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga.  Að loknu Landsþingi verður aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga.  Landsþing sveitarfélaga er mikilvægur vettvangur þar sem jafnan er fjallað um helstu hagsmunamál sveitarfélaga hverju sinni.  Ekki síður er mikilvægt fyrir sveitarstjórnarmenn að hittast og stinga saman nefjum óformlega um einstök mál.  Reynslan er sú að af því má mikið læra og við það vakna oft upp góðar hugmyndir.

Umhverfisdagar í maí

Í maí munu sveitarfélögin á Suðurnesjum, í samstarfi við Sorpeyðingarstöð Suðurnesja, standa fyrir umhverfisdögum.  Á síðasta ári stóðu þessir aðilar fyrir umhverfisdögum og þótti takast vel til. Út frá reynslunni frá síðasta ári verður þetta með eitthvað öðrum hætti í ár og verður það kynnt rækilega á næstunni.  Markmiðið er að auðvelda íbúum sveitarfélaganna vorverkin og koma frá sér alls kyns úrgangi. Með samstilltu átaki allra munum við bæta ásýnd sveitarfélaganna og gera umhverfið snyrtilegra.  Sveitarfélögin og Sorpeyðingarstöðin munu kynna verkefnið fyrir íbúunum með góðum fyrirvara.  Við hvetjum íbúa og lóðaeigendur til að taka til hendi og taka öflugan þátt í því að gera umhverfi sitt og okkar allra snyrtilegt fyrir sumarið.

Vorið er komið 

Nokkuð hefur verið fjallað um veðrið í molunum undanfarnar vikur.  Oftar en ekki hefur verið kvartað yfir veðurfarinu, en nú er nokkuð ljóst að vorið er gengið í garð og því ber að fagna. Góður sólardagur var í gær, fimmtudag og verða vonandi sem flestir á næstunni. Á ferð minni á Garðskaga fyrir nokkru sá ég nokkrar lóur á vappi á grassvæðinu við Garðskagavita.  Það var heldur kuldalegt þann daginn, en afar ánægjulegt að sjá að vorboðinn var mættur í Garðinn.

Lóan er komin.
Lóan er komin.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

Efnilegir knattspyrnumenn í leikskólanum.

Í byrjun vikunnar fékk ég góða og skemmtilega heimsókn. Á skrifstofu bæjarstjórans komu sex ungir drengir sem eru nemendur í leikskólanum Gefnarborg. Þeir afhentu bæjarstjóranum bréf sem þeir höfðu sjálfir samið, með smá aðstoð.  Í bréfinu kemur meðal annars fram að bæjarstjórinn er beðinn um að laga fótboltavöllinn á leikskólalóðinni, þar sem aðstæður til knattspyrnuiðkunar eru ekki nógu góðar.  Þá var líka bent á að laga þarf ýmislegt annað á leikskólalóðinni.

Það var gaman að fá þessa ungu drengi í heimsókn og þeir gerðu vel grein fyrir sínu erindi.  Við töluðum að sjálfsögðu mest um fótboltann og komumst að því hver heldur með hvaða liði í enska boltanum. Þeir voru vel með á nótunum í þeim efnum og fylgjast greinilega vel með.  Í ljós kom að nokkrir í hópnum eru stuðningsmenn sama liðs og bæjarstjórinn, en það lið klæðist rauðu og á heimavöll í Manchester.  Í þessum hópi drengja leynast eflaust framtíðar liðsmenn Víðis og aldrei að vita nema einhverjir þeirra eigi glæsta framtíð og góðan frama í fótboltanum í framtíðinni.

Drengirnir buðu bæjarstjóranum í heimsókn á leikskólann til þess að skoða aðstæður. Þeir tóku sérstaklega fram að best væri að bæjarstjórinn komi í heimsókn þegar það er rigning, því þá eru aðstæður á fótboltavellinum verstar.  Heimboðið verður þegið næst þegar rignir hressilega !

Bæjarstjórinn mun að sjálfsögðu taka erindi drengjanna alvarlega og leita leiða til þess að verða við því sem fyrst, enda hefur bæjarstjórinn fullan skilning á því að aðstaða til knattspyrnuiðkunar þarf að vera eins góð og mögulegt er !

Efnilegir knattspyrnumenn úr leikskólanum í heimsókn hjá bæjarstjóra.
Efnilegir knattspyrnumenn úr leikskólanum í heimsókn hjá bæjarstjóra.
Facebooktwittergoogle_plusmail

15. vika 2015.

Páskahelgin er að baki, með öllum frídögum þeirra sem höfðu ekki vinnuskyldu að gegna.  Bæjarstjórinn naut ánægjulegrar samveru með nánustu fjölskyldu í Garðinum.  Við nutum m.a. útiveru á Garðskaga og fjörunum við hann, Garðskagi er einstök náttúruperla sem margir heimsækja og njóta. Það eru mjög margir sem finna hjá sér þörf til þess að koma oft og reglulega á Garðskaga og njóta náttúrunnar og umhverfisins þar, sem ber í sér einhverja óskilgreinda töfra.

Þessa stuttu viku er óvenju lítið um fundahöld sem bæjarstjórinn hefur tekið þátt í. Ég sat fund með góðum hópi manna í Almannavarnanefnd Suðurnesja í vikunni.  Þar er fjallað um áætlanir og aðgerðir til að viðbragðsaðilar séu jafnan sem best búnir undir atburði þar sem tryggja þarf öryggi og hagsmuni fólks á svæðinu.  Um þessi mál er eðlilega fjallað af fullri alvöru og við búum svo vel að þeir aðilar sem koma að þessum málum hafa mikla reynslu og þekkingu, sem skiptir miklu máli þegar litið er til öryggis hagsmuna fólks almennt.

Skólastarfið.

Nemendur og starfsfólk skólanna mættu til sinna starfa strax að loknu páskaleyfi sl. þriðjudag.  Þótt svo frídagarnir séu gjarnan vel þegnir, þá þykir flestum oftast gott að hefja á ný hið daglega líf með fastmótuðum dagskrám.  Það styttist óðum í lok skólaársins, framundan er vorið og sumarið sem er uppáhalds árstími flestra barna. Á vegum sveitarfélagsins er nú unnið að undirbúningi sumarstarfa, sem felst meðal annars í skipulagningu vinnuskólans sem börnin í Garði taka virkan þátt í.  Það er ekki síður mikilvægt fyrir þau að taka til hendi og læra til verka, vel skipulögðum og stjórnuðum vinnuskóla er einmitt ætlað það hlutverk.  Vinnuskólinn gegnir mikilvægu hlutverki við að hirða og snyrta byggðarlagið yfir sumartímann þannig að íbúum og gestum líði sem best í vel hirtu umhverfi.

Vinnuskóli í Garði
Vinnuskóli í Garði

Golftíðin hafin.

Kylfingar eru fyrir nokkru síðan byrjaðir að leika golf á Sandgerðisvelli.  Um páskahelgina mátti sjá nokkra umferð um golfvöllinn, en fyrir nokkrum vikum var haldið fyrsta golfmót ársins hjá Golfklúbbi Sandgerðis.  Kylfingar í klúbbnum munu án efa koma vel undirbúnir til leiks þegar golftíðin hefst af alvöru, en líklegt er að ekki séu margir aðrir golfvellir á landinu þar sem kylfingar eru byrjaðir að sveifla kylfum sínum.

Golftíðin er hafin !
Golftíðin er hafin !

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

14. vika 2015.

Dymbilvika.

Nú er Dymbilvika í aðdraganda Páska.  Nemendur og starfsfólk í skólum fóru í páskaleyfi fyrir síðustu helgi, en starfsemi leikskóla fer í páskafrí eftir daginn í dag. Almenn vinnuvika telur þrjá daga, nema hjá starfsfólki í ýmsum þjónustugreinum sem sinnir störfum meira og minna alla páskahátíðina.  Ég sá einhvers staðar umfjöllun um þetta heiti vikunnar, Dymbilvika.  Í umfjölluninni kom ekki fram bein niðurstaða, en ýmsar kenningar um það af hverju þetta heiti er dregið.  Helst virtust menn á því að það mætti rekja til kristinnar trúar og starfsemi kirkjunnar, nefnilega kólfa í kirkjuklukkum.  Ég hef enga kenningu um þetta sjálfur, en heiti vikunnar er ágætt og líklega vita flestir ef ekki allir íslendingar hvaða tímabil ársins Dymbilvika nær yfir.

1. apríl.

Margir bíða yfirleitt spenntir eftir 1. apríl og velta fyrir sér hvaða aprílgabb kemur fram.  Það er gömul hefð að gabba fólk þann 1. apríl.  Fjölmiðlar halda þessa hefð og margir einstaklingar notfæra sér að gabba einhvern á þessum degi.  Margar góðar sögur eru til að aprílgöbbum gegnum tíðina og margir eiga eflaust einhverjar skemmtilegar minningar um slíkt.  Það væri fróðlegt að vita uppruna þessarar hefðar og af hverju það er svona ríkt í okkur að gabba fólk á þessum degi.  Þetta er skemmtileg hefð og margir leggja sig fram um að halda hana í heiðri.  Mest er þó um vert að aprílgabb sé góðlátlegt grín og meiði engan.

Bæjarstjórnarfundur.

Í dag, þann 1. apríl verður fundur í bæjarstjórn Garðs.  Þar verður m.a. fyrri umræða um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2014.  Eins og fjallað var um í síðasta pistli, þá er bæjarstjórinn ánægður með niðurstöður ársreikningsins.  Á fundi bæjarstjórnar verður fjallað um fundargerðir og mál frá ýmsum nefndum og af samstarfsvettvangi okkar með öðrum sveitarfélögum.

Byggðasafnið opnar.

Reglulegir opnunartímar Byggðasafnsins á Garðskaga hefjast í dag, 1. apríl. Byggðasafnið verður opið um Páskahelgina, nema Föstudaginn langa og Páskadag verður safnið lokað.

 Páskahelgi framundan.

Þegar undirritaður skrifaði vikupistil fyrir um mánuði síðan var minnst á að þá væri mánuður til Páska og tíminn líði hratt.  Nú er allt í einu komið að því að Páskar eru að ganga í garð, tíminn hefur ekkert hægt á sér !

Páskar eru einn mikilvægasti tími kristinna manna og kirkjustarf tekur almennt mið af því. Krossfesting Jesú á Föstudaginn langa og upprisan á þriðja degi eru meðal grunnstefa í kristinni trú.  Messur verða í Útskálakirkju um páskahátíðina, altarisganga kl. 20:00 á skírdagskvöld og hátíðarmessa kl. 8:00 á páskadag.  Eftir hátíðarmessuna verður morgunverður í Kiwanishúsinu.  Garðbúar og gestir eru hvattir til þess að mæta til messu og njóta friðar og kærleiks.

Útskálakirkja
Útskálakirkja

Í bland við trúarlegt mikilvægi er hin langa páskahelgi jafnan mikil ferðahelgi. Margir leggja land undir fót og leggjast í ferðalög.  Til dvalar í sumarhúsum, heimsókna til fjölskyldna og vina, ásamt því að margir njóta þess að stunda vetraríþróttir og almenna útiveru. Undirritaður hvetur alla ferðalanga til þess að fara varlega í umferðinni, með tillitssemi og umburðarlyndi í huga gagnvart sjálfum sér og öðrum.  Umfram allt eigum við að njóta þessara daga sem framundan eru, í hvaða tilgangi sem á við um hvern og einn.

Gleðilega Páska.

Gleðilega Páska !

Facebooktwittergoogle_plusmail