13. vika 2015.

Líf og fjör í Gerðaskóla.

Í vikunni héldu nemendur Gerðaskóla og leikskólans Gefnarborgar sínar árlegu árshátíðir.  Það var ánægjulegt að vera viðstaddur og upplifa gleðina og sköpunargáfu nemendanna sem stóðu sig frábærlega.  Fjölbreytt atriði og það vakti athygli hve tónlistin var stór hluti af dagskránni, margir hæfileikaríkir nemendur komu fram með tónlistarflutning.  Það er augljóst að tónlistarkennsla í skólunum í sveitarfélaginu er að skila árangri.  Það kom í ljós í gærkvöldi á árshátíð elstu árganganna að það er rík hefð fyrir því að nemendur 10. bekkjar geri létt grín að kennurum og starfsfólki skólans.  Það fór eftirvæntingar kliður um hátt í 300 áhorfendur í salnum þegar atriðið „Kennaragrín“ var kynnt í lok dagskrár.  Nemendurnir skiluðu gríninu frábærlega og það var athyglisvert hvaða augum þau líta starfsfólk skólans.  Kærar þakkir fyrir mjög vel heppnaða og skemmtilega árshátíð.

Árshátíð Gerðaskóla
Árshátíð Gerðaskóla

Bæjarráð í vikunni.

Fundur var í bæjarráði Garðs í vikunni.  Á dagskrá var m.a. umfjöllun um drög að ársreikningi sveitarfélagsins fyrir árið 2014.  Það er alltaf ákveðin spenna og eftirvænting að fá ársreikning í hendur, þá kemur í ljós hvernig gekk að halda utan um fjárhag sveitarfélagsins á árinu.  Bæjarstjórinn var ánægður með niðurstöðurnar, fyrri umræða um ársreikninginn fer fram í bæjarstjórn í næstu viku.  Eftir það verður gerð grein fyrir útkomunni, vonandi verða sem flestir sáttir með hana.

Ánægjuleg heimsókn.

Í vikunni fékk bæjarstjórinn ánægjulega heimsókn, þegar fulltrúar Vinnumálastofnunar, Landssamtakanna Þroskahjálpar og Öryrkjabandalags Íslands komu og ræddu um samstarfsverkefni þessara aðila sem ber heitið „Virkjum hæfileikana – alla hæfileikana“.  Um er að ræða verkefni sem miðar að því að aðstoða fólk með skerta starfsgetu til starfa.  Atvinnuleitendur úr þeirra hópi hafa sína hæfileika eins og allir aðrir og það er mikilvægt fyrir samfélagið að nýta þann mannauð og hæfileika sem þau búa yfir.  Vonandi tekst vel til.  Bæjarstjórinn fékk afhenta skemmtilega gjöf, sem er tákn fyrir þetta verkefni.  Gjöfin er Origami fugl í boxi. Origami er gamalt listform, líklega upphaflega frá Japan og er tákn fyrir þakklæti og á að veita hamingju.  Kærar þakkir fyrir heimsóknina og fallega gjöf.

Virkjum hæfileikana - alla hæfileikana
Virkjum hæfileikana – alla hæfileikana

Vorboðinn.

Í fyrri pistli var fjallað um vorboðana á Garðsjónum, en fjöldi smábáta hefur meira og minna alla vikuna verið í fiskiríi á Garðsjónum utan við stöndina hér í Garði.  Veðrið hefur verið ágætt í vikunni, suma daga hefur það meira að segja verið mjög gott með sól og hægviðri.  Þegar þetta er skrifað á föstudags morgni er hins vegar snjóél og heldur vetrarlegt út að líta.  Skyggni er frekar takmarkað, en milli élja sjást nokkrir bátar úti fyrir ströndinni og virðist sjólagið þokkalegt.  Vorið hefur sannarlega gert vart við sig þessa dagana, sjósókn smábátanna er glöggt merki um að árstíðaskipti eru að verða.

Vetrarfundur sveitarstjórnarmanna.

Í dag verður vetrarfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.  Þar munu kjörnir fulltrúar, auk framkvæmdastjóra sveitarfélaganna á Suðurnesjum koma saman og fara yfir brýn mál.  Að þessu sinni verður sérstaklega fjallað um atvinnumál, málefni aldraðra og Sóknaráætlun Suðurnesja.  Það er alltaf mikilvægt fyrir sveitarstjórnarmenn að koma saman og fjalla um sameiginleg hagsmunamál, þar sem velferð og lífskjör íbúa sveitarfélaganna er grunnstefið.  Þar fyrir utan er ánægjulegt að hitta gott samstarfsfólk og efla tengslin.  Á slíkum samkomum kvikna oft góðar hugmyndir og í þeim felst gjarnan ákveðinn lærdómur.

Dymbilvika og Páskar framundan.

Pálmasunnudagur er á sunnudaginn og í kjölfarið fylgir Dymbilvikan.  Páskafrí hefjast í skólunum í dag og er það langþráð í hugum margra. Páskahátíðin er framundan með sínum frídögum.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

Vorboðinn á Garðsjónum.

Það hefur lengi verið svo að þegar smábátarnir byrja að róa síðla vetrar, þá sé það merki um að vorið sé að færast yfir.  Í blíðunni í dag, þriðjudag, má sjá fjölda smábáta á Garðsjónum úti fyrir ströndinni hér í Garði.  Þeir eru greinilega að fá’ann, því þeir hafa verið að skaka á þessu svæði í allan dag og voru reyndar nokkrir í gær.  Einhverjir þeirra eru eflaust við línuveiðar.   Í sjávarbyggðunum skapast alltaf ákveðin stemmning þegar smábátakallarnir byrja að róa á þessum tíma ársins, líf færist í samfélögin.  Við á bæjarskrifstofunni búum svo vel að hafa gott útsýni út yfir Garðsjóinn og hér er vel fylgst með skipaferðum úti fyrir ströndinni.  Ekki síst á það við núna þegar sést til vorboðanna á Garðsjónum.

Facebooktwittergoogle_plusmail

12. vika 2015.

Upplestrarkeppni grunnskólanema.

Í lok síðustu viku fór Stóra upplestrarkeppnin fram í Stóru Vogaskóla, þar sem nemendur úr 7. bekkjum grunnskólanna í Garði, Grindavík og Vogum öttu kappi í upplestri.  Það er ánægjulegt að Emilía Ýr Bryngeirsdóttir nemandi Gerðaskóla bar sigur úr býtum í upplestrarkeppninn.  Þá flutti Þorsteinn Helgi Kristjánsson nemandi 6. bekkjar Gerðaskóla tónlistaratriði.  Bæjarstjórinn óskar Emilíu Ýr til hamingju með sigurinn og þakkar Þorsteini Helga fyrir framlag hans.  Fulltrúar Gerðaskóla voru sér og skólanum sínum til mikils sóma í Stóru Vogaskóla sl. fimmtudag.

Emilía Ýr Bryngeirsdóttir sigraði Stóru upplestrarkeppnina.
Emilía Ýr Bryngeirsdóttir sigraði Stóru upplestrarkeppnina.

Samstarf Gerðaskóla og Hollvina Unu.

Í molum bæjarstjórans í síðustu viku var fjallað um Unu Guðmundsdóttur í Sjólyst.  Þar kom fram að Hollvinir Unu hafa umsjón með Sjólyst, húsinu sem Una bjó í lengst af sinni ævi, þar sem haldið er á lofti sögu Unu og heimili hennar varðveitt.  Í byrjun þessarar viku var gengið frá samningi milli Hollvina Unu og Gerðaskóla um samstarf um að fræða nemendur Gerðaskóla um líf og starf Unu Guðmundsdóttur og framlag hennar til heimabyggðarinnar í Garði.  Ágúst Ólason skólastjóri Gerðaskóla og Erna Marsibil Sveinbjarnardóttir formaður Hollvina Unu undirrituðu samninginn.  Það er mikilvægt að halda merkilegri sögu á lofti og uppfræða yngstu kynslóðirnar á hverjum tíma um líf og störf fyrri kynslóða.

Ágúst skólastjóri og Erna formaður Hollvina Unu
Ágúst skólastjóri og Erna formaður Hollvina Unu

Gamli vitinn að fá toppstykkið.

Íslenska vitafélagið hefur unnið að því að koma upp ljóshúsi á gamla vitann á Garðskaga.  Ljóshús var á vitanum meðan hann var í notkun, en eftir að vitinn var lagður niður árið 1944 var ljóshúsið tekið af honum og hefur ekki sést á Garðskaga síðan því það glataðist.  Vitafélagið hefur í nokkurn tíma unnið að málinu og er von til þess að ljóshús verði aftur komið á vitann áður en langt um líður.  Gamli vitinn var byggður á vegum dönsku vitamálastjórnarinnar árið 1897 og var yfirsmiður sá sami og sá um smíði Alþingishússins árin 1881-82.  Þegar vitinn var byggður voru aðeins tveir aðrir vitar fyrir á landinu, Reykjanesviti og Dalatangaviti.  Ljóshúsið á vitanum var 3,6 m. á hæð og var hæð vitans alls 15 m með ljóshúsinu. Upphaflegar teikningar af ljóshúsinu eru til og verður stuðst við þær við endursmíði þess.

Vitinn er nú næst elsti uppistandandi vitinn á landinu.   Hann hefur því mikið menningarsögulegt og umhverfislegt gildi, hann er sterkt og lifandi tákn fyrir Garðskagann og Sveitarfélagið Garð, en vitarnir á Garðskaga eru táknmyndin í bæjarmerki sveitarfélagsins.  Gamli vitinn á Garðskagatá mun fá langþráða „andlitslyftingu“ við að fá aftur á sig toppstykkið.

Gamli vitinn á Garðskaga, með ljóshúsi.
Gamli vitinn á Garðskaga, með ljóshúsi.

Myndin hér að ofan er af gamla vitanum á Garðskaga, á myndinni er vitinn með ljóshúsinu.  Þessi mynd er tekin einhvern tíma fyrir árið 1933, en það á var byggt anddyri framan við innganginn í vitahúsið.

Veðurfar og sólmyrkvi.

Það er væntanlega að bera í bakkafullan lækinn að ræða um veðrið.  Við íslendingar grípum þó oft til þess að tala um veðrið þegar lítið er um spennandi umræðuefni. Eftir enn eina óveðurslægðina sem gekk yfir landið um síðustu helgi brá svo við að sést hefur til sólar í vikunni og meira að segja komu dagar þar sem lognið var kyrrt ! Það styttist í vorið með hverjum deginum, sólardagarnir í vikunni lyftu andanum og færði okkur aftur þá trú að þrátt fyrir allt geti verið mjög gott verður á Íslandi.  Einhvers staðar sá ég á netinu að vorið muni hefji innreið sína undir miðnætti í kvöld, föstudag.  Hversu vísindaleg sú tilgáta er skal ósagt látið, en við tökum vorinu fagnandi þegar að því kemur.

Í dag, föstudag, er jafndægur á vori, dagurinn er orðinn jafn langur nóttu.  Morguninn heilsaði með veðurblíðu og glampandi sól!  Það hafa margir beðið spenntir eftir að upplifa sólmyrkvann í morgun. Í fréttum hefur komið fram að margir erlendir ferðamenn hafi komið til landsins í þeirri von að upplifa sólmyrkvann og margir tilbúnir að leggja mikið fjármagn í þá upplifun, meira að segja að kaupa sér rándýra flugferð til að fljúga upp yfir ský til að hafa meiri von um að sjá fyrirbærið.  Sólmyrkvinn var sjáanlegur héðan úr Garðinum og það var skemmtileg upplifun að fylgjast með honum. Skólabörnin voru með sérstök gleraugu til að horfa á myrkvann, við á bæjarskrifstofunni í Garði vorum svo heppin að hafa rafsuðugler við hendina og með því sáum við sólmyrkvann mjög vel.  Það var víða lítið vinnuframlag á vinnustöðum um kl. 9:30, enda um einstakan viðburð að ræða.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

11. vika 2015.

Ungar körfuboltahetjur.

Um síðustu helgi var haldið Nettó mót í körfubolt í Reykjanesbæ og voru þátttakendur á aldrinum 8 – 12 ára, alls staðar að af landinu.  Alls tóku 39 börn úr Garði þátt í mótinu og léku að sjálfsögðu undir merkjum Víðis.  Í aðdraganda mótsins stóð Íþrótta-og æskulýðsnefnd Garðs fyrir sex vikna körfuboltanámskeiði fyrir börnin, til að búa þau undir átökin á Nettó mótinu.  Fulltrúar Víðis stóðu sig með mikilli prýði og voru félagi sínu og heimabæ til mikils sóma.  Foreldrar barnanna tóku virkan þátt, héldu utan um sína leikmenn og stjórnuðu liðum.  Nettó mótið tókst mjög vel, enda var virkjaður samtakamáttur Keflavíkur og Njarðvíkur við undirbúning og framkvæmd mótsins.  Garðbúar óska sínum fulltrúum til hamingju með frábæra frammistöðu á mótinu og þakka aðstandendum Nettó mótsins fyrir vel heppnað mót.

Krakkablak.

Íþrótta-og æskulýðsnefnd lætur ekki deigan síga!  Í framhaldi af körfuboltanámskeiðinu er nú staðið fyrir kynningu á krakkablaki og er það í umsjá blakdeildar Keflavíkur.  Krakkablak er skemmtileg útfærsla á blaki, í bland við aðra leiki.  Von er til þess að börnin sem taka þátt í krakkablakinu fái einhvern tímann í framhaldinu áhuga á blaki, enda er blak mjög vinsæl íþrótt fyrir fólk á öllum aldri, ekki síst hjá fólki á „besta“ aldri.

Sólseturshátíð.

Hin árlega og skemmtilega Sólseturshátíð verður haldin í Garði síðustu helgi júní mánuðar í sumar.  Knattspyrnufélagið Víðir annast undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar samkvæmt samningi þar um við sveitarfélagið.  Þrátt fyrir að allar vetrarlægðirnar sem skella á okkur um þessar mundir minni ekki á sumartímann þegar Sólseturshátíðin er haldin, þá er þegar hafinn undirbúningur fyrir hátíðina.  Hinir kraftmiklu félagar í Víði eru byrjaðir að leggja drög að skipulagi næstu hátíðar, vonandi hjálpar það einhverjum þeirra að þrauka þessa óskemmtilegu veðurtíð með því að sjá fyrir sér sumartíðina þegar Sólseturshátíðin stendur yfir.

Gestastofa Reykjanes jarðvangs.

Í dag, föstudag, var formlega opnuð gestastofa Reykjanes jarðvangs í Duus húsum í Reykjanesbæ.  Sveitarfélagið Garður er aðili að jarðvangnum, sem er áhugavert verkefni og er til þess að kynna fjölbreytileika mannlífs, náttúru og jarðfræði Reykjaness.  Jarðvangar eru þekktir víða um heim og fjölsóttir af ferðafólki sem vill heimsækja og kynna sér mannlíf, náttúru og jarðfræði viðkomandi svæða.  Í vor verður Jarðvangsvika með sérstakri dagskrá, þar sem lögð verður áhersla á ýmis sérkenni Suðurnesja.

Safnahelgi framundan.

Safnahelgi á Suðurnesjum er orðinn árviss viðburður um þetta leyti árs og verður hún nú um komandi helgi.  Sveitarfélögin á Suðurnesjum og Menningarráð Suðurnesja hafa unnið að undirbúningi safnahelgarinnar.  Mikil og fjölbreytt dagskrá hefur verið sett saman og auglýst.  Í Garðinum verður Byggðasafnið á Garðskaga opið, einnig gallery í vitavarðarhúsinu. Þá verður ævintýragarðurinn hjá Helga Valdimarssyni að Urðarbraut 4 opinn, sem og Gallery Ársól í Kothúsum.  Loks verður Sjólyst, hús Unu í Garði opið og þar munu Hollvinir Unu verða til staðar og segja frá Unu og Sjólyst.  Undirritaður hvetur sem flesta, bæði Suðurnesjamenn sem og aðra landsmenn til að taka þátt, heimsækja söfn og aðra viðburði um helgina. Það er fjölmargt í boði og um að vera víða á svæðinu og er það til marks um fjölbreytileika mannlífs og athafna á Suðurnesjum.

 

Körfuboltahetjur í Garði æfa fyrir Nettó mót.
Körfuboltahetjur í Garði æfa fyrir Nettó mót.

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

Una í Sjólyst, völva Suðurnesja.

Margir landsþekktir einstaklingar hafa lifað og starfað í Garði gegnum tíðina.  Um suma þeirra hefur verið fjallað í ýmsum miðlum, svo sem  í dagblöðum og ljósvakamiðlum, en um suma hafa verið ritaðar bækur.  Árið 1969 kom út bókin Völva Suðurnesja, sem Gunnar M Magnúss skráði.  Í bókinni er fjallað um Unu Guðmundsdóttur, sem kennd er við húsið Sjólyst sem hún bjó lengst í.  Húsið Sjólyst er nú í eigu sveitarfélagsins og í því er haldið til haga munum frá Unu og saga hennar varðveitt.  Húsið Sjólyst er oft nefnt Unuhús.

Una Guðmundsdóttir fæddist í Skúlahúsum í Garði í nóvember 1894.  Una ólst upp og var heimilisföst í Garði alla sína ævi.  Hún var vel gefin, var búin miklum námsgáfum og hafði snemma sérstæða hæfileika á hinu dulrænu sviði.  Hún þótti vel gerður einstaklingur, hafði þá hæfileika að vekja hlýleika og trúnað, á unga aldri vann hún traust allra íbúa í Garði og það hélst allt hennar líf.  Una byrjaði aðeins 16 ára að kenna börnum og hún stundaði kennslu í mörg ár.  Una starfaði ötullega að félagsmálum í Garði, var m.a. lengi gæslumaður ungtemplarastúkunnar og tók virkan þátt í störfum slysavarnafélagsins í Garði alla tíð.  Þess má geta að slysavarnadeild kvenna í Garði heitir í höfuðið á Unu.  Þá var Hún lengi bókavörður við bókasafnið í Garði.

Auk þess að stunda atvinnu og félagsstörf, tók Una á móti mörgum sem sóttu til hennar vegna hennar dulrænu hæfileika.  Fólk leitaði til hennar um andlegan stuðning og hjálp í margskonar erfiðleikum.  Í bókinni Valva Suðurnesja er fjallað um fjölmörg atvik og dæmi um störf Unu í þeim efnum og varð hún mjög þekkt af.

Það er ástæða til þess að hvetja sem flesta til þess að heimsækja húsið Sjólyst og kynna sér sögu Unu í Garði, líf hennar og störf.  Hollvinafélag Unu í Sjólyst hefur haldið utan um þá starfsemi sem fram fer í Sjólyst.  Það er göfugt og mikilvægt að halda nafni Unu Guðmundsdóttur á lofti og varðaveita söguna um þessa merkilegu konu.

Á heimasíðunni svgardur.is er umfjöllun um Unu, í kaflanum Garður – Þekktir Garðmenn.

 

Una í Sjólyst
Una í Sjólyst
Facebooktwittergoogle_plusmail

10. vika 2015.

Veðurfar.

Veðrið hefur alltaf verið vinsælt umræðuefni meðal okkar íslendinga.  Vikan heilsaði með ágætu veðri og sólin lét meira að segja sjá sig.  Um miðja vikuna fór svo allt í sama horf, veðurguðirnir ákváðu að gera okkur aftur lífið leitt með leiðinda veðri meira og minna út vikuna.  Fram hefur komið að nýliðinn febrúarmánuður hafi verið sá kaldasti í Reykjavík frá árinu 2008, úrkomusamur, sólarlítill og almennt leiðindaveður.  Sólardagar fyrri hluta vikunnar rifjuðu upp að þegar veðurguðirnir eru í góðu skapi þá á það sama við um okkur mannfólkið.  Betri tíð er í vændum!

Ferðaþjónustan.

Undirritaður fór á fund í Duus húsum í vikunni, þar sem fjallað var um Stefnu og framtíðarsýn fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi.  Mikilvægt verkefni, sem í raun hefði þurft að vera búið að vinna áður en sprenging varð í fjölgun ferðamanna fyrir nokkrum árum.  Við höfum að mörgu leyti ekki búið okkur undir þessa þróun, m.a. með uppbyggingu innviða og erum að elta þróunina að því leyti.  Ég velti fyrir mér hvort ferðaþjónustan ætti að horfa til þróunar hjá sjávarútvegnum.  Horfa frá magni yfir í aukin verðmæti, því fjöldinn og magnið skilar ekki endilega mestum tekjum og framlegð.  Það sem skiptir megin máli er að nýta auðlindina með sjálfbærni að leiðarljósi og á sem hagkvæmastan hátt.  Aukin framlegð skapar forsendur til að hækka laun.  Það eru allar slíkar forsendur fyrir hendi varðandi ferðaþjónustuna, en til að það geti orðið þarf stefnumótun, aðgerðaáætlun og samvinnu allra aðila sem að málinu koma.  Ég held við séum að fara á rétta leið í þessum málum.

Góður andi í bæjarstjórn.

Bæjarstjórn Garðs fundaði í vikunni.  Það er góður andi í bæjarstjórninni, umræður góðar og nánast öll mál afgreidd samhljóða.  Það er ánægjulegt að starfa við slíkar aðstæður og það mun skila okkur meiri og betri árangri í þágu íbúanna í sveitarfélaginu.

Strætó.

Strætó hækkaði gjaldskrá sína 1. mars.  Sveitarfélagið Garður niðurgreiðir fargjöld barna sem búsett eru í sveitarfélaginu um 80%.  Hækkun á gjaldskrá Strætó hefur ekki áhrif á fargjöld barnanna, þar sem farmiðakort verða seld á „gamla“ verðinu meðan birgðir endast og líklega fram undir árslokin.  Við hvetjum sem flesta að nýta sér almenningssamgöngur, sem eru ódýr og góður kostur.

Eyrarrósin í Garðinn ?

Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni.  Í vikunni var tilkynnt hvaða 10 verkefni eiga möguleika á að hljóta viðurkenninguna í ár.  Eitt af þeim verkefnum er Ferskir vindar í Garði.  Í byrjun apríl mun Dorrit Moussaieff forsetafrúin okkar afhenda Eyrarrósina  því verkefni sem verður fyrir valinu.  Það er ánægjulegt að Ferskir vindar komi til greina að hljóta Eyrarrósina, undirritaður óskar aðstandendum Ferskra vinda til hamingju með það.  Það verður spennandi að fylgjast með því hvort Eyrarrósin kemur í Garðinni, líkt og Edduverðlaunin um daginn.

Eyrarrósin, viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni.

Kvenfélagskonur funda í Garði.

Nú um komandi helgi verður Kvenfélagið Gefn gestgjafi aðalfundar Kvenfélagasambands Gullbringu-og Kjósarsýslu.  Fundurinn verður haldinn í okkar glæsilega sal Miðgarði í Gerðaskóla og er von á um 50 konum frá kvenfélögum innan sambandsins til fundarins.  Um leið og þær eru boðnar velkomnar í Garðinn er vonast til að samvera þeirra verði góð og aðalfundarstörf gangi vel.  Kvenfélögin eiga sér langa og farsæla sögu á Íslandi.  Þau hafa látið sig samfélagsleg verkefni varða og hafa víða verið kjölfesta í sínum samfélögum og skipt miklu máli í félagslífi hvers sveitarfélags.

Tíminn flýgur hratt !

Tíminn flýgur hratt, fyrr en varir kemur vorið.  Áramótin eru nýliðin hjá og nú er aðeins einn mánuður til Páska !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail