Skagagarðurinn mikli

Það er margt athyglisvert að finna í Garðinum.  Saga búsetu og atvinnulífs nær aftur til landnáms og tengist saga Garðs mjög sjósókn og fiskvinnslu. Hitt er ekki síður merkilegt að heimildir eru um öflugan landbúnað á svæðinu fyrr á öldum, þar á meðal um umfangsmikla kornrækt.  Minjar um mikið mannvirki sem talið er tengjast landbúnaði er að finna í Garðinum og nær það yfir í næsta sveitarfélag, nefnilega Sandgerðisbæ.  Þetta mannvirki er Skagagarðurinn mikli, sem telja má einhverjar merkustu fornminjar landsins, sem gefur vísbendingu um löngu horfna atvinnuhætti.

Skagagarðurinn lá frá bænum Kirkjubóli í Sandgerðisbæ og norður til Útskála í Garði.  Við báða enda garðsins tóku við miklir túngarðar og er talið að þessi mannvirki hafi girt með öllu fyrir skagann.  Talið er að Skagagarður hafi verið um 1500 metra langur, um einn og hálfur metri á hæð og það breiður að talið er að tveir menn hafi getað riðið hestum hlið við hlið ofan á garðinum.  Rannsóknir jarðfræðinga hafa leitt í ljós að garðurinn hafi verið hlaðinn upp um eða fyrir 10. öld.  Talið er að garðinum hafi verið ætlað að halda sauðfé frá kornökrum á norðanverðum skaganum.

Enn má sjá móta fyrir Skagagarði í Garðinum.  Á myndinni hér að neðan er gömul teikning sem sýnir hvernig garðurinn er talinn hafa legið, frá Kirkjubóli og í norð-austur átt að Útskálum í Garði.

 

Skagagarðurinn
Skagagarðurinn

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

9. vika 2015.

Í lok hverrar vikur er ekki úr vegi að líta yfir vikuna og rifja upp það helsta.  Þessi vika, sem og margar síðustu vikur, hefur einkennst af leiðindum hjá veðurguðunum.  Endalaus röð af vindasömum dögum þar sem blásið hefur nánast úr öllum áttum, snjókoma og rigning á víxl.  Það er athyglisvert að leiðinda veður yfir vetrartímann virðast jafnan koma mörgum á óvart, við erum ótrúlega fljót að gleyma ef koma örfáir góðir veðurdagar !  Við búum jú á eyju í miðju Atlandshafinu norðanverðu og þess vegna ætti í raun ekki að koma á óvart hvernig veðurguðirnir láta við okkur.  En, dagarnir lengjast hver af öðrum og áður en varir heilsar vorið og vonandi gott sumar í kjölfarið.

Það hefur verið mikil þátttaka í líkamsræktinni í nýju og glæsilegu aðstöðunni í Íþrótamiðstöðinni í Garði.  Suma daga mæta allt að 100 manns í ræktina, sem hlýtur að teljast gott í ekki stærra sveitarfélagi.  Það verður ánægjulegt fyrir marga að upplifa árangurinn þegar sumarið heilsar.  Bæjarstjórinn í Garði er einn af þeim og nú er að hafa úthaldið og eljuna til að stunda ræktina reglulega.  Þessi glæsilega aðstaða er liður í því að auka lífsgæði íbúanna.

En, það er ekki bara mikil gróska í líkamsræktinni, Íþróttamiðstöðin iðar af lífi alla daga.  Fyrir utan íþróttatíma skólabarnanna og fastar æfingar í knattleikjum, þá hafa áhugasamir foreldrar sett af stað fimleikaæfingar fyrir yngstu börnin, með góðri þátttöku.  Þá er líka hafin danskennsla fyrir yngri börnin, en við búum svo vel að í Garðinum býr Bryndís Einarsdóttir sem rekur Brynballet og hún sér um danskennsluna.  Þá er góð þátttaka í Tae kwan do æfingum.   Það er ánægjulegt hve mikill kraftur er í íþrótta- og tómstundastarfi fyrir börnin í Garði.

Bæjarráðið Garðs fundaði í vikunni.  Þar var m.a. fjallað um drög að samningi um næstu listahátíð Ferskra vinda, sem verður frá miðjum desember fram í febrúar 2016.  Ferskir vindar er athyglisverð listahátíð sem hefur víða vakið verðskuldaða athygli og setur alltaf skemmtilegan svip á bæjarlífið. Þá var samþykkt á fundinum að veita 8. bekk Gerðaskóla styrk til heimsóknar til jafnaldra þeirra í vinabæ Garðsins, Nybro í Svíþjóð.  Sænsku börnin komu í heimsókn í Garðinn í júní 2014, 8. bekkur mun endurgjalda heimsóknina í júní í sumar og viðhalda tengslum við vinabæinn okkar í Svíþjóð.

Isavia kynnti verðlaunatillögu um uppbyggingar-og þróunaráætlun Keflavíkurflugvallar.  Gríðarleg aukning hefur verið í komu farþega á flugvöllinn allra síðustu árin.  Isavia hefur vart haft við að stækka og breyta flugstöðinni og annari flugtengdri aðstöðu.  Nú er horft 25 ár fram í tímann með það að markmiði að mæta þeirri miklu umferð farþega um flugvöllinn sem áætluð er.  Það kom fram við kynningu á verðlaunatillögunni að um 1.300 manns vinni störf sem tengjast fluginu á Keflavíkurflugvelli.  Fjöldi þeirra mun aukast enn frekar á næstu árum.

Vonandi verður helgin öllum ánægjuleg, við horfum með mikilli eftirvæntingu til vorsins með þá von í brjósti að fljótlega dragi úr hamagangi veðurguðanna.

Fimleikar í Garði
Fimleikar í Garði

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

Bær hafsins og norðurljósa

Bæjarstjórn Garðs hefur samþykkt stefnumótun um aukna ferðaþjónustu í Garði.  Nú er unnið að því að fylgja stefnunni eftir, vinna úr mörgum hugmyndum sem fram hafa komið og koma verkefnum til framkvæmda.  Margvísleg sóknarfæri eru í Garðinum til þess að auka ferðaþjónustu, fjölga störfum og auka tekjur af ferðaþjónustu í sveitarfélaginu.

Lega sveitarfélagsins nyrst á Reykjanesskaganum er þannig að hafið umlykur það á tvo vegu.  Sögulega séð er helsta tenging Garðsins við hafið, sjósókn og fiskvinnslu, enda eru gjöful fiskimið rétt undan landi.  Á sumardögum má fylgjast með umferð hvala við Garðskaga stutt undan landi.  Á Garðskaga eru tveir vitar sem hafa um langan tíma vísað sjófarendum siglingaleið fyrir Garðskaga.

Norðurljósin eru eftirsótt af ferðafólki, einkum erlendum ferðamönnum.  Mikil umferð ferðamanna er á Garðskaga yfir vetrartímann, í þeim tilgangi að sjá norðurljósin.  Sum kvöld skiptir fjöldi ferðamannanna hundruðum og þegar mest lætur hefur fjöldi þeirra á einu kvöldi verið nærri eitt þúsund. Garðurinn er því eftirsóttur áfangastaður ferðamanna sem leita eftir upplifun við norðurljósin.

Í stefnumótun bæjarstjórnar Garðs er lögð á það áhersla að Sveitarfélagið Garður sé bær hafsins og norðurljósa.

Gamli vitinn yst á Garðskagatá og dansandi norðurljós á stjörnubjörtum himni.
Gamli vitinn og norðurljósin
Facebooktwittergoogle_plusmail

Molar úr Garði

Í okkar samfélagi nútímans vilja flestir hafa gott aðgengi að upplýsingum og margir hafa þörf og ástæður til að koma upplýsingum á framfæri.  Í þeim tilgangi notast margir við samfélagsmiðla á við Facebook, Twitter og fleiri slíka.  Enn aðrir senda rafræn fréttabréf á valinn hóp móttakenda og síðan eru einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir með sínar heimasíður þar sem upplýsingum er komið á framfæri.  Það má segja að gamla aðferðin, að gefa út fréttabréf í pappírsformi heyri nánast sögunni til.

Það er mikilvægt fyrir sveitarfélög og íbúa þeirra að upplýsingamiðlun sé aðgengileg og virk.  Sveitarfélagið Garður heldur úti heimasíðunni svgardur.is.  Þar koma fram margvíslegar upplýsingar um fjölmargt sem tilheyrir sveitarfélaginu sem stjórnsýslueiningu.  Á heimasíðu Garðs er komið á framfæri ýmsum fréttum og tilkynningum frá sveitarfélaginu og eiga beint erindi við íbúana.  Heimasíða sveitarfélags á hins vegar ekki að gegna hlutverki fréttamiðils, megin áherslan á að vera að koma öðrum upplýsingum og gögnum á framfæri.

Þekkt er að bæjarstjórar sendi frá sér fréttabréf á pappírsformi og nú einnig á rafrænu formi, til að koma upplýsingum á framfæri.  Bæjarstjórinn í Garði hefur hins vegar valið þá leið að halda úti bloggsíðu undir heitinu Molar úr Garði, til þess að koma á framfæri ýmsum upplýsingum, stuttum fréttum og tilkynningum og öðru sem tengist sveitarfélaginu og íbúum Garðs.   Bloggsíðan er aðgengileg á heimasíðunni svgardur.is.

Sem fyrsta umfjöllun á Molar úr Garði er ánægjulegt að segja frá því að Garðbúinn Kristín Júlla Kristjánsdóttir hlaut Edduverðlaun sl. laugardag fyrir gervi í kvikmyndinni Vonarstræti.  Ég óska Kristínu innilega til hamingju með Edduna og það er ánægjulegt fyrir bæjarstjórann að Eddan sé komin með aðsetur í Garðinum.  Kvikmyndin Vonarstræti er ein allra besta íslenska kvikmynd sem komið hefur fram á síðustu árum.  Efnistök í myndinni eru áhrifarík, myndin er einkar vel gerð á allan hátt og öllum sem að henni standa til mikils sóma.

Myndina hér að neðan tók Einar Jón forseti bæjarstjórnar Garðs af skjánum á sjónvarpinu sínu, þegar Kristín Júlla hafði tekið við Eddunni í beinni útsendingu.

Kristín Júlla með Edduna 2015
Kristín Júlla með Edduna 2015
Facebooktwittergoogle_plusmail