Ársreikningur 2016 – góðar niðurstöður.

Ársreikningur Sveitarfélagsins Garðs fyrir árið 2016 var til fyrri umræðu í bæjarstjórn þann 5. apríl. Bæjarstjórn afgreiðir reikninginn eftir síðari umræðu í byrjun maí. Samkvæmt reglum um reikningsskil sveitarfélaga skiptist ársreikningur í tvo hluta. Annars vegar er A-hluti, sem er almennur rekstur bæjarsjóðs sem er að mestu leyti fjármagnaður með skatttekjum. Hins vegar er B-hluti, sem eru fyrirtæki í eigu sveitarfélagsins og eru rekin sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Undir B-hluta fellur m.a. rekstur félagslegra íbúða, íbúða fyrir aldraða og fráveitu.

Niðurstöður og lykiltölur ársreikningsins bera með sér að rekstur sveitarfélagsins gekk mjög vel á árinu 2016 og eru niðurstöður rekstrar talsvert betri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Þá er ljóst að efnahagslegur styrkur sveitarfélagsins er mikill.

Rekstrarniðurstaða í samanteknum reikningi A og B-hluta er afgangur 60,9 milljónir, sem er 35,7 milljóna meiri afgangur en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Sem fyrr er bæjarsjóður í A-hluta skuldlaus en vaxtaberandi langtímaskuldir B-hluta eru aðeins kr. 60,4 milljónir.

Rekstrartekjur A-hluta bæjarsjóðs voru 1.243,5 milljónir, þar af voru skatttekjur 719,9 milljónir og framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 366,6 milljónir. Rekstrarniðurstaða B-hluta bæjarsjóðs var jákvæð um 58,5 milljónir, sem er 27,4 milljónum meiri afgangur en áætlun gerði ráð fyrir. Heildartekjur í samanteknum reikningi A og B-hluta voru 1.277,7 milljónir, sem er 70,3 milljónum meiri tekjur en áætlun ársins gerði ráð fyrir.

Laun og launatengd gjöld námu alls 524,6 milljónum og voru 61 stöðugildi í árslok 2016. Vöru-og þjónustukaup voru 496,8 milljónir, lífeyrisskuldbindingar jukust um 27,6 milljónir sem er 15,3 milljónum umfram áætlun.

Veltufé frá rekstri var 170,5 milljónir og var veltufjárhlutfallið 2,81. Handbært fé frá rekstri var 161,6 milljónir og hækkaði handbært fé frá fyrra ári um 121,4 milljónir, sem er 66,2 milljónum meira en áætlun ársins gerði ráð fyrir. Handbært fé í árslok 2016 var alls 457,4 milljónir.

Fjárfestingar voru 67,6 milljónir, en á móti voru seldar eignir fyrir 22 milljónir og álögð gatnagerðargjöld 14,7 milljónir. Í sjóðstreymisyfirlit kemur fram að fjárfestingar í varanlegum fjármunum voru nettó 39,8 milljónir.

Heildareignir A-hluta voru 3.040 milljónir og samtals í A og B-hluta 3.222,4 milljónir, eiginfjárhlutfall var 82,16%. Samanlagðar skuldir og skuldbindingar A og B-hluta voru 582,7 milljónir, þar af vaxtaberandi langtímaskuldir 60,4 milljónir sem fyrr segir, lífeyrisskuldbindingar 211,6 milljónir og langtíma leiguskuldbinding 111,6 milljónir.

Niðurstöður rekstrar árið 2016 og sterk efnahagsleg staða sveitarfélagsins eru mjög ánægjulegar staðreyndir, enda lýsti bæjarstjórn mikilli ánægju með útkomuna á fundi sínum við fyrri umræðu um ársreikninginn. Bæjarstjórinn er einnig ánægður með útkomuna og þakkar starfsfólki sveitarfélagsins, ásamt góðri og samstilltri bæjarstjórn fyrir þann árangur sem náðst hefur í rekstri og fjárhagslegum málefnum sveitarfélagsins.

Facebooktwittergoogle_plusmail

Fjárhagsáætlun Garðs 2017.

Bæjarstjórn hefur samþykkt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2017 og rammaáætlun fyrir árin 2018-2020.  Fjárhagsáætlun ber með sér að sveitarfélagið stendur styrkum fótum fjárhagslega og ágætt jafnvægi er í rekstri.

Rekstraráætlun.

Helstu niðurstöður rekstraráætlunar fyrir árið 2017 eru að heildartekjur verði 1.323 mkr. Skatttekjur eru áætlaðar 771 mkr., þar af útsvarstekjur 677 mkr. Áætluð framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru 373 mkr.  Ef litið er til útgjalda, þá eru laun og launatengd gjöld áætluð að verði 577 mkr., sem er um 43% af heildartekjum. Annar rekstrarkostnaður 633 mkr., eða um 48% af heildartekjum.

Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði (framlegð) er áætlaður afgangur 114 mkr., sem er um 9% af heildartekjum.  Niðurstaða rekstrarreiknings eftir afskriftir og fjármagnsliði er afgangur rúmlega 29 mkr.  Ef litið er sérstaklega á A hluta rekstraráætlunar, sem er sveitarsjóðurinn sjálfur þá er áætlaður rekstrarafgangur um 36 mkr.

Gjaldskrá í þágu íbúanna.

Samhliða afgreiðslu fjárhagsáætlunar samþykkti bæjarstjórnin gjaldskrá sveitarfélagsins fyrir árið 2017. Afslættir af álögðum fasteignasköttum elli-og örorkulífeyrisþega eru rýmkaðir, þannig að fleiri munu njóta afslátta. Helstu breytingar á þjónustugjaldskránni eru þær að frá 1. janúar 2017 fá íbúar sveitarfélagsins gjaldfrjálsan aðgang að sundlauginni. Þessi breyting er m.a. í þeim tilgangi að hvetja íbúana til heilsueflingar og aukinnar aðsóknar að sundlauginni. Þá má nefna þá breytingu á gjaldskrá að frá næstu áramótum fá íbúar sveitarfélagsins gjaldfrjáls afnot af safnkosti almenningsbókasafns. Markmið með því er að efla bókmenntamenninguna og auka aðsókn að bókasafninu. Hækkunum á einstökum liðum gjaldskrár er stillt í hóf og áfram verður gjaldskrá Sveitarfélagsins Garðs fyrir einstaka þjónustuliði með því lægsta sem sveitarfélög bjóða.

Sjóðstreymi.

Samkvæmt áætlun um sjóðstreymi ársins 2017, þá er veltufé frá rekstri 129 mkr., sem er tæplega 10% af heildartekjum og handbært fé frá rekstri 124 mkr. Afborganir langtímalána verða rúmlega 7 mkr. og fjárfestingar og framkvæmdir 88,3 mkr. Fjármögnun framkvæmda er alfarið af handbæru fé frá rekstri og ekki er gert ráð fyrir lántökum.

Skuldir og skuldbindingar.

Heildarskuldir og skuldbindingar eru áætlaðar 529 mkr. í árslok 2017. Þar af eru lífeyrisskuldbindingar 203 mkr. og leiguskuldbinding 109 mkr. Sveitarsjóður í A hluta áætlunarinnar er skuldlaus, en B hluti skuldar lánastofnunum 60 mkr. Skuldahlutfallið (hlutfall heildar skulda og skuldbindinga af heildartekjum) er 40%. Þessar staðreyndir eru merki um efnahagslega sterka stöðu sveitarfélagsins.

Fjárhagsleg staða.

Það er ljóst að ef til þess kemur að sveitarfélagið þarf að ráðast í fjárfrekar framkvæmdir á næstu árum, þá getur sveitarfélagið mætt því með góðu móti. Annars vegar er til staðar handbært fé, sem er áætlað að verði um 530 mkr. í árslok 2017, auk þess sem skuldastaðan er með þeim hætti að gott svigrúm er til lántöku vegna fjárfrekra verkefna á næstu árum, ef á þarf að halda. Síðan er afkoma rekstrarins með þeim hætti að sveitarfélagið hefur fjárfestingagetu vel yfir 100 milljónir á ári, ef litið er til þess hvert handbært fé frá rekstri er áætlað.

Fjárhagsáætlun haldi.

Eitt er að reikna út fjárhagsáætlun og annað að fylgja henni eftir þannig að hún haldi. Á undanförnum árum hefur tekist vel til við að fylgja fjárhagsáætlunum. Það hefst með virku kostnaðareftirliti og reglulegri eftirfylgni með þróun rekstrarins allt árið. Það eru lykilatriði, því ef upp koma óvænt tilvik sem hafa áhrif á reksturinn þarf að vera svigrúm til að mæta því og gera nauðsynlegar ráðstafanir. Markmið bæjarstjórnar og starfsfólks sveitarfélagsins er að reksturinn sé í góðu jafnvægi og að þær áætlanir sem samþykktar eru haldi og þeim fylgt eftir. Nýsamþykkt fjárhagsáætlun og afkoma undanfarinna ára ber með sér að það hafi tekist vel og við ætlum að halda áfram á þeirri sömu braut.

Nánari upplýsingar á heimasíðu.

Fjárhagsáætlunin, gögn og upplýsingar sem henni fylgja má finna á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is. Þar má einnig finna greinargerð bæjarstjóra með fjárhagsáætlun, þar sem allar helstu upplýsingar liggja fyrir.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

Bæjarsjóður Garðs er skuldlaus !

Ársreikningur 2015.

Á fundi bæjarstjórnar Garðs þann 4. maí sl. var ársreikningur fyrir árið 2015 samþykktur eftir síðari umræðu.  Niðurstöður ársreikningsins eru afar ánægjulegar og bera með sér góða fjárhagslega stöðu sveitarfélagsins.

Það sem ber hvað hæst er að bæjarsjóður í A-hluta efnahagsreiknings skuldar ekki krónu af vaxtaberandi lánum hjá lánastofnunum.  Skuldir B-hluta eru aðeins 61 milljón, en að teknu tilliti til þeirra skulda auk lífeyrisskuldbindinga og leiguskuldbindinga eru skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins alls 519 milljónir. Skuldahlutfall samkvæmt ákvæðum Sveitarstjórnarlaga er aðeins 14,52%, en samkvæmt lögunum má skuldahlutfallið hæst vera 150% miðað við tekjur.

Þá er þeim markmiðum náð að sveitarfélagið stenst nú ákvæði Sveitarstjórnarlaga um rekstrarniðurstöðu, eða svonefnda „jafnvægisreglu“. Hún felur í sér að á hverju þriggja ára tímabili mega gjöld ekki vera umfram tekjur. Bæjarstjórn hefur undanfarin ár unnið að því að ná þessu markmiði, meðal annars með því að láta vinna úttekt á rekstri sveitarfélagsins og fylgja eftir ýmsum tillögum sem fram komu um hagræðingu í rekstri.  Sveitarfélagið hafði gert samkomulag við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga um að umrædd jafnvægisregla væri uppfyllt í síðasta lagi í árslok 2017. Niðurstaðan í ársreikningi 2015 hvað þetta varðar er því afar ánægjuleg.

Heildartekjur sveitarfélagsins voru 1.158 milljónir árið 2015 og rekstrarniðurstaða skilaði 36,5 milljónum í afgang. Í fjárhagsáætlun ársins var gert ráð fyrir 18,5 milljóna afgangi.  Veltufé frá rekstri var 154 milljónir, sem er 13,3% af tekjum og handbært fé frá rekstri af alls 114 milljónir. Í sjóðstreymisyfirliti kemur fram að handbært fé jókst um 46 milljónir og var handbært fé í árslok alls 336 milljónir. Veltufjárhlutfall var 2,68, sem er mjög góð staða, þess má geta að oft er miðað við að veltufjárhlutfallið 1 sé viðunandi.

Bæjarstjórn lýsti á fundinum mikilli ánægju með niðurstöður ársreikningsins, enda full ástæða til. Það er hins vegar ljóst að til þess að halda þeirri stöðu sem fjárhagur sveitarfélagsins er kominn í núna verður að halda áfram aðhaldi í rekstri og skynsemi í fjárfestingum. Það er alþekkt að allar tilslakanir í þeim efnum koma fljótt niður á fjárhagnum og því er það krefjandi verkefni fyrir bæjarstjórn og starfsfólk sveitarfélagsins að standa vaktina og halda vel á fjármálum sveitarfélagsins á næstu árum.

Svona árangur kemur ekki af sjálfu sér. Mjög góð samstaða og samstarf hefur verið meðal allra bæjarfulltrúa við áætlanagerð og í allri umfjöllun um fjármál sveitarfélagsins að undanförnu. Það er til fyrirmyndar og á sinn þátt í því að vel gengur. Starfsfólk sveitarfélagsins á ekki síður sinn þátt í þessu og er öllu starfsfólki þakkað fyrir það. Forstöðumenn stofnana hafa unnið vel, af mikilli ábyrgð og festu, enda liggur fyrir í ársreikningnum að rekstur stofnana er mjög vel í takti við fjárhagsáætlun.

Það eru helst ýmsir utanaðkomandi þættir sem hafa afgerandi áhrif á rekstur sveitarfélaga. Þar ber fyrst að nefna kjarasamninga, en það liggur fyrir að nýgerðir kjarasamningar auka mjög launakostnað sveitarfélaga, á móti kemur að tekjur af útsvari aukast einnig. Þá má nefna framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, sem oft er erfitt að sjá fyrir og sveiflast oft frá ári til árs. Loks má nefna verðbólgustigið í landinu, um þessar mundir og síðustu misseri hefur verðbólga verið með minnsta móti, ekki síst í sögulegu samhengi. Það skapar mjög jákvæðar aðstæður fyrir allan rekstur og ekki síst ef litið er til verðtryggðra lána, það er því gömul saga og ný hve mikilvægt er fyrir alla að verðbólgan haldist í lágmarki.

Bæjarstjórinn er ánægður með ársreikninginn. Ég þakka bæjarstjórn fyrir afar gott og árangursríkt samstarf um fjármál sveitarfélagsins. Ekki síður fá forstöðumenn stofnana sveitarfélagsins og allir starfsmenn sveitarfélagsins þakkir fyrir vel unnin störf og góðan árangur í þeirra störfum.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail