Við lok árs 2015.

Áramót eru jafnan merkileg tímamót, þá er tilfinningin gjarnan sú að tilveran sé núllstillt. Litið er til baka yfir farinn veg, nýr kafli hefst og ákveðin spenna fylgir því að hefja nýtt ár með nýjum áskorunum.  Ef litið er til baka yfir liðið ár kemur jafnan ýmislegt athyglisvert í ljós, sumt hefur hreinlega gleymst en annað er eins og ljóslifandi í hugskotinu.

Molar úr molum.

Undir lok febrúar 2015 hóf bæjarstjóri að skrifa Mola úr Garði. Markmiðið með Molum var að birta þar vikulega pistla þar sem fjallað væri um viðburði og annað sem tengist lífinu og tilverunni í Garðinum, ásamt því að koma á framfæri upplýsingum af vettvangi sveitarfélagsins. Vikupistlarnir hafa birst á föstudögum og sá fyrsti kom fram í lok 9. viku þann 27. febrúar. Auk vikumola hafa birst molar um sérstök umfjöllunarefni, sá fyrsti 23. febrúar þegar Molar úr Garði voru kynntir til sögunnar. Þegar farið er yfir alla molana þá kemur í ljós að margt hefur átt sér stað í Garðinum á liðnu ári, en eflaust má tína til einhverja mola sem sem féllu út af en hefðu átt fullt erindi í vikupistla.

Vikupistlar.

Umfjöllun um veðurfar er klassísk á Íslandi. Í vikupistlum hefur nokkuð verið fjallað um veðrið, sem var erfitt og leiðinlegt framan af árinu og þá sérstaklega yfir vetrarmánuðina.

Um mánaðamótin janúar/febrúar var ný og glæsileg líkamsræktaraðstaða í íþróttamiðstöðinni tekin í notkun. Þar hefur verið mikil aðsókn og má glöggt sjá að vaxtarlag margra hefur breyst til hins betra á árinu. Íþróttamiðstöðin býður upp á glæsilega og góða aðstöðu, með 25 m sundlaug ásamt tveimur heitum pottum, vatnsgufu og rennibraut, auk íþróttasalar í fullri stærð og hinni glæsilegu líkamsræktaraðstöðu.

Upprennandi körfuboltahetjur í Garði.
Upprennandi körfuboltahetjur í Garði.

Skólalífið í Garði er mjög blómlegt og margir skemmtilegir viðburðir hafa verið í skólunum. Það á jafnt við um Gerðaskóla, leikskólann Gefnarborg og Tónlistarskólann. Um mitt árið var ráðinn nýr skólastjóri og aðstoðarskólastjóri við Gerðaskóla, í haust tók nýr leikskólastjóri til starfa í leikskólanum Gefnarborg.

Sumarhátíð leikskólans
Sumarhátíð leikskólans

Á árinu hafa verið nokkrir menningarviðburðir. Hið árlega þorrablót var í upphafi Þorra í janúar sl., þar mætti mikill fjöldi manns, þorrablótið í Garði er það fjölmennasta á Suðurnesjum. Í lok júní var Sólseturshátíð, með ýmsum skemmtilegum uppákomum og myndarlegri dagskrá. Fjölskyldu-og menningarvika var haldin í byrjun nóvember, með dagskrá alla þá vikuna. Nú um miðjan desember hófst listahátíðin Ferskir vindar, sem mun standa fram eftir janúar með þátttöku yfir 50 listamanna víðs vegar að úr heiminum. Auk þessara viðburða mætti nefna marga aðra, t.d. norræna bókasafnsviku, safnahelgi á Suðurnesjum, starfsemi Hollvina Unu í Sjólyst, konu-og herrakvöld Víðis, skötuveisluna í júlí o.m.fl. Það er mikið um að vera á menningarsviðinu í Garði.

Konur í sundlaugarpartýi á Sólseturshátíð.
Konur í sundlaugarpartýi á Sólseturshátíð.
Lína Langsokkur og leikskólabörn á Sólseturshátíð
Lína Langsokkur og leikskólabörn á Sólseturshátíð
Sólsetur á Garðskaga 25. júní.
Sólsetur á Garðskaga 25. júní.

Félagslífið er ekki síður blómlegt. Mikið og kraftmikið starf er í Auðarstofu, þar sem er félagsstarf eldra fólks í Garðinum. Knattspyrnufélagið Víðir stendur fyrir öflugu starfi og er aðdáunarvert hve mikið sjálfboðaliðastarf á sér stað í félaginu. Víðir annast ásamt Björgunarsveitinni Ægi þorrablótið, Víðir er framkvæmdaraðili Sólseturshátíðar, félagið hélt herrakvöld og sérlega glæsilegt og vel sótt konukvöld, Unglingaráðið bauð upp á skötuveislu fyrir jólin og aðalstjórnin bauð styrktaraðilum í hangikjötsveislu á Aðventu. Auk alls þessa heldur Víðir úti öflugu íþróttastarfi þar sem knattspyrnan er megin viðfangsefnið. Björgunarsveitin Ægir heldur uppi öflugu starfi og er mikilvægur hlekkur í  öryggismálum samfélagsins, sem ber að þakka. Auk þessa má nefna starf Kvenfélagsins Gefnar, sem er líka mikilvægur hlekkur í samfélaginu. Hollvinir Unu annast varðveislu Sjólystar og innbús Unu Guðmundsdóttir. Auk þessa starfar Kiwanisklúbburinn Hof, og ekki má gleyma Söngsveitinni Víkingunum sem yljuðu Garðbúum oft um hjartarætur með söng sínum á árinu. Félagslíf barna og unglinga tengist að miklu leyti skólastarfinu og öflugt og fjölbreytilegt starf er í Félagsmiðstöðinni Eldingu.

Sviðaveisla í Auðarstofu
Sviðaveisla í Auðarstofu
Kynjaverur á hrekkjavökudiskó í Eldingu
Kynjaverur á hrekkjavökudiskó í Eldingu
Regnboginn yfir Víði
Regnboginn yfir Víði

Starfsemi sveitarfélagsins var í föstum skorðum á árinu og það sinnir vel þeirri þjónustu við íbúanna sem því ber að veita. Það er jafnan forvitnilegt og spennandi að fylgjast með þróun íbúafjölda í hverju sveitarfélagi. Um síðustu áramót voru skráðir 1.425 íbúar í Garði, þeim fjölgaði á tímabili upp úr miðju ári en fækkaði aftur þegar leið á árið. Samkvæmt bráðabirgðatölum Þjóðskrár voru 1.425 íbúar skráðir í sveitarfélaginu nú í síðustu viku ársins. Þar með hefur íbúafjöldinn staðið í stað frá upphafi ársins, vonandi mun rætast úr því á nýju ári og eru nýir íbúar boðnir velkomnir í Garðinn.

Ýmislegt af vettvangi bæjarstjórnar hefur verið til umfjöllunar í molum. Sagt hefur verið frá helstu málum á fundum bæjarráðs og bæjarstjórnar. Þá var farið yfir helstu niðurstöður ársreiknings 2014 og fjárhagsáætlunar 2016. Þær bera með sér góðan efnahag sveitarfélagsins og að rekstur þess er í ágætu jafnvægi.

Bæjarstjórn Garðs ásamt bæjarstjóra
Bæjarstjórn Garðs ásamt bæjarstjóra

Molar um einstök málefni.

Á árinu birtust nokkrir molar þar sem fjallað var um sérstök málefni. Í febrúar var fjallað um stefnumótun bæjarstjórnar um uppbyggingu atvinnulífs og ferðaþjónustu í Garði.  Þar kemur m.a. fram að Garður sé  „bær hafsins og norðurljósa“.

Norðurljósin yfir Garðskaga
Norðurljósin yfir Garðskaga

Í febrúar voru molar með umfjöllun um Skagagarðinn mikla, sem er mjög merkilegt fyrirbæri í sögu Garðs. Talið er að garðurinn hafi verið hlaðinn um 10.  öld, hann hafi verið allt að 1.500 metra langur.

Í mars var fjallað um Unu í Sjólyst, völvu Suðurnesja. Í sama mánuði voru molar með yfirskriftinni „Vorboðinn í Garðsjónum“, en tilefni þess var að frá glugganum á skrifstofu bæjarstjórans blöstu við smábátar sem höfðu hafið róðra á Garðsjóinn undir lok mars.

Una í Sjólyst
Una í Sjólyst

Í apríl fjölluðu molar um skemmtilega heimsókn sem bæjarstjórinn fékk. Þar voru á ferð nokkrir ungir og efnilegir knattspyrnumenn í leikskólanum. Þeir komu á framfæri kvörtun um að fótboltasvæðið á leikskólalóðinni væri ónýtt og þyrfti að laga. Bæjarstjórinn tók erindinu vel og var fótboltavöllurinn á leikskólalóðinni lagaður sl. sumar.

Knattspyrnumenn úr leikskólanum í heimsókn hjá bæjarstjóra.
Efnilegir knattspyrnumenn í leikskólanum í heimsókn hjá bæjarstjóra.

Í maí hélt Una María Bergmann glæsilega burtfarartónleika frá Tónlistarskólanum í Garði í Útskálakirkju. Tónleikarnir voru síðari hluti framhaldsprófs hennar frá tónlistarskólanum. Fjallað var um tónleikana í sérstökum mola.

Una María Bergmann mezzosópran
Una María Bergmann mezzosópran

Í júní voru sérstakir molar tileinkaðir hátíðahöldum í Garðinum. Annars vegar var umfjöllun um Sólseturshátíð sem þá stóð yfir, einnig var fjallað um sumarhátíð leikskólans.

Fjölmargt fleira mætti nefna, en að öðru leyti fela Molar úr Garði í sér ákveðinn annál ársins 2015 og er forvitnilegt að renna gegnum alla molana, þótt svo þar komi ekki fram allt það sem átti sér stað í Garðinum á árinu. Molarnir halda áfram á nýju ári og munu að ári fela í sér annál næsta árs.

 

Ég óska Garðbúum og landsmönnum öllum farsældar á nýju ári, með þökk fyrir samfylgdina á því ári sem nú er að renna sitt skeið á enda.

new-years-eve-sedona

 

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

Hátíðarhöld í Garði.

Sumarhátíð leikskólans Gefnarborgar.

Þriðjudaginn 23. júní var árleg sumarhátíð leikskólans Gefnarborgar. Börnin og starfsfólk leikskólans voru í hátíðarskapi, söngur og gleði með tilheyrandi andlitsmálningu og leikjum voru alls ráðandi. Foreldrar, afar og ömmur og aðrir gestir fjölmenntu í leikskólann til að gleðjast með börnunum. Börnin á leikskólanum eiga góðan vin í Uganda og átti hann 4 ára afmæli þennan dag, sumarhátíðin var ekki síst honum til heiðurs á afmælisdaginn.  Það var ánægjulegt að heimsækja leikskólann og upplifa gleðina og það góða starf sem fer fram í Gefnarborg. Þegar bæjarstjórinn mætti á staðinn tóku góðir vinir í hópi leikskólabarnanna á móti mér og minntu á heimsóknina á skrifstofu bæjarstjórans í vetur, þar sem vakin var athygli á bágbornu ástandi fótboltavallarins á leikskólalóðinni. Við skoðuðum aðstæður og ræddum hvernig væri hægt að koma fótboltavellinum í gott lag. Við skildum allir sáttir og eigum það sameiginlega markmið að aðstaða til fótboltaleikja verði í topp standi áður en langt um líður.

Lína langsokkur á Gefnarborg.
Lína langsokkur á Gefnarborg.
Sumarhátíð Gefnarborgar.
Sumarhátíð Gefnarborgar.

Sólseturshátíð.

Dagskrá Sólseturshátíðar hófst sl. mánudagskvöld, dagskrá stendur yfir alla daga vikunnar og lýkur nk. sunnudag. Hápunkturinn verður á laugardaginn með glæsilegri dagskrá á Garðskaga. Á mánudagskvöldið var vel heppnað sundlaugarpartý hjá körlum, með dýrindis veitingum og skemmtun. Á þriðjudagskvöld var enn betur sótt sundlaugarpartý hjá konum, með glæsilegum veitingum og skemmtun. Bæði partýin heppnuðust mjög vel og allir ánægðir. Við þökkum Víðisfólki fyrir okkur.

Sundlaugarpartý karla.
Sundlaugarpartý karla.
Sundlaugarpartý konur.
Sundlaugarpartý konur.

Næstu daga heldur glæsileg hátíðardagskrá áfram. Íbúarnir eru byrjaðir að skreyta hús og götur með tilheyrandi litum og hátíðarstemmningin fer vaxandi eftir því sem líður á vikuna.

Garðbúar bjóða gesti velkomna til að njóta hátíðarhaldanna og þeirra viðburða sem eru á dagskrá. Sólseturshátíð Garðmanna hefur tekist mjög vel undanfarin ár og nú hugsa veðurguðirnir vel til okkar því veðurspáin fyrir næstu daga er einstaklega góð.

Nánari upplýsingar um dagskrá Sólseturshátíðar má finna á heimasíðu sveitarfélagsins, svgardur.is.

Gróðursetning.

Á laugardaginn 27. júní kl. 11:00 verða gróðursett þrjú tré á svæðinu sunnan við sundlaugina. Tilefnið er sérstakt, en nú eru liðin 35 ár frá því Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kjörin forseti árið 1980. Af því tilefni verða gróðursett tré í sveitarfélögum landsins og er verkefnið í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands.

Facebooktwittergoogle_plusmail

Vorboðinn á Garðsjónum.

Það hefur lengi verið svo að þegar smábátarnir byrja að róa síðla vetrar, þá sé það merki um að vorið sé að færast yfir.  Í blíðunni í dag, þriðjudag, má sjá fjölda smábáta á Garðsjónum úti fyrir ströndinni hér í Garði.  Þeir eru greinilega að fá’ann, því þeir hafa verið að skaka á þessu svæði í allan dag og voru reyndar nokkrir í gær.  Einhverjir þeirra eru eflaust við línuveiðar.   Í sjávarbyggðunum skapast alltaf ákveðin stemmning þegar smábátakallarnir byrja að róa á þessum tíma ársins, líf færist í samfélögin.  Við á bæjarskrifstofunni búum svo vel að hafa gott útsýni út yfir Garðsjóinn og hér er vel fylgst með skipaferðum úti fyrir ströndinni.  Ekki síst á það við núna þegar sést til vorboðanna á Garðsjónum.

Facebooktwittergoogle_plusmail

Una í Sjólyst, völva Suðurnesja.

Margir landsþekktir einstaklingar hafa lifað og starfað í Garði gegnum tíðina.  Um suma þeirra hefur verið fjallað í ýmsum miðlum, svo sem  í dagblöðum og ljósvakamiðlum, en um suma hafa verið ritaðar bækur.  Árið 1969 kom út bókin Völva Suðurnesja, sem Gunnar M Magnúss skráði.  Í bókinni er fjallað um Unu Guðmundsdóttur, sem kennd er við húsið Sjólyst sem hún bjó lengst í.  Húsið Sjólyst er nú í eigu sveitarfélagsins og í því er haldið til haga munum frá Unu og saga hennar varðveitt.  Húsið Sjólyst er oft nefnt Unuhús.

Una Guðmundsdóttir fæddist í Skúlahúsum í Garði í nóvember 1894.  Una ólst upp og var heimilisföst í Garði alla sína ævi.  Hún var vel gefin, var búin miklum námsgáfum og hafði snemma sérstæða hæfileika á hinu dulrænu sviði.  Hún þótti vel gerður einstaklingur, hafði þá hæfileika að vekja hlýleika og trúnað, á unga aldri vann hún traust allra íbúa í Garði og það hélst allt hennar líf.  Una byrjaði aðeins 16 ára að kenna börnum og hún stundaði kennslu í mörg ár.  Una starfaði ötullega að félagsmálum í Garði, var m.a. lengi gæslumaður ungtemplarastúkunnar og tók virkan þátt í störfum slysavarnafélagsins í Garði alla tíð.  Þess má geta að slysavarnadeild kvenna í Garði heitir í höfuðið á Unu.  Þá var Hún lengi bókavörður við bókasafnið í Garði.

Auk þess að stunda atvinnu og félagsstörf, tók Una á móti mörgum sem sóttu til hennar vegna hennar dulrænu hæfileika.  Fólk leitaði til hennar um andlegan stuðning og hjálp í margskonar erfiðleikum.  Í bókinni Valva Suðurnesja er fjallað um fjölmörg atvik og dæmi um störf Unu í þeim efnum og varð hún mjög þekkt af.

Það er ástæða til þess að hvetja sem flesta til þess að heimsækja húsið Sjólyst og kynna sér sögu Unu í Garði, líf hennar og störf.  Hollvinafélag Unu í Sjólyst hefur haldið utan um þá starfsemi sem fram fer í Sjólyst.  Það er göfugt og mikilvægt að halda nafni Unu Guðmundsdóttur á lofti og varðaveita söguna um þessa merkilegu konu.

Á heimasíðunni svgardur.is er umfjöllun um Unu, í kaflanum Garður – Þekktir Garðmenn.

 

Una í Sjólyst
Una í Sjólyst
Facebooktwittergoogle_plusmail

Molar úr Garði

Í okkar samfélagi nútímans vilja flestir hafa gott aðgengi að upplýsingum og margir hafa þörf og ástæður til að koma upplýsingum á framfæri.  Í þeim tilgangi notast margir við samfélagsmiðla á við Facebook, Twitter og fleiri slíka.  Enn aðrir senda rafræn fréttabréf á valinn hóp móttakenda og síðan eru einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir með sínar heimasíður þar sem upplýsingum er komið á framfæri.  Það má segja að gamla aðferðin, að gefa út fréttabréf í pappírsformi heyri nánast sögunni til.

Það er mikilvægt fyrir sveitarfélög og íbúa þeirra að upplýsingamiðlun sé aðgengileg og virk.  Sveitarfélagið Garður heldur úti heimasíðunni svgardur.is.  Þar koma fram margvíslegar upplýsingar um fjölmargt sem tilheyrir sveitarfélaginu sem stjórnsýslueiningu.  Á heimasíðu Garðs er komið á framfæri ýmsum fréttum og tilkynningum frá sveitarfélaginu og eiga beint erindi við íbúana.  Heimasíða sveitarfélags á hins vegar ekki að gegna hlutverki fréttamiðils, megin áherslan á að vera að koma öðrum upplýsingum og gögnum á framfæri.

Þekkt er að bæjarstjórar sendi frá sér fréttabréf á pappírsformi og nú einnig á rafrænu formi, til að koma upplýsingum á framfæri.  Bæjarstjórinn í Garði hefur hins vegar valið þá leið að halda úti bloggsíðu undir heitinu Molar úr Garði, til þess að koma á framfæri ýmsum upplýsingum, stuttum fréttum og tilkynningum og öðru sem tengist sveitarfélaginu og íbúum Garðs.   Bloggsíðan er aðgengileg á heimasíðunni svgardur.is.

Sem fyrsta umfjöllun á Molar úr Garði er ánægjulegt að segja frá því að Garðbúinn Kristín Júlla Kristjánsdóttir hlaut Edduverðlaun sl. laugardag fyrir gervi í kvikmyndinni Vonarstræti.  Ég óska Kristínu innilega til hamingju með Edduna og það er ánægjulegt fyrir bæjarstjórann að Eddan sé komin með aðsetur í Garðinum.  Kvikmyndin Vonarstræti er ein allra besta íslenska kvikmynd sem komið hefur fram á síðustu árum.  Efnistök í myndinni eru áhrifarík, myndin er einkar vel gerð á allan hátt og öllum sem að henni standa til mikils sóma.

Myndina hér að neðan tók Einar Jón forseti bæjarstjórnar Garðs af skjánum á sjónvarpinu sínu, þegar Kristín Júlla hafði tekið við Eddunni í beinni útsendingu.

Kristín Júlla með Edduna 2015
Kristín Júlla með Edduna 2015
Facebooktwittergoogle_plusmail