Fjölskyldu-og menningarvika í Garði.

Þessa vikuna stendur yfir Fjölskyldu-og menningarvika hér í Garðinum.  Það var Ferða-, safna-og menningarnefnd Garðs sem undirbjó og skipulagði dagskrá vikunnar.  Á dagskrá eru viðburðir alla daga vikunnar og hefst hún í kvöld, mánudaginn 2. nóvember kl. 19:00 hjá Björgunarsveitinni Ægi.

Stofnanir sveitarfélagsins ásamt fleiri aðilum taka virkan þátt í dagskránni.  Frítt er í sund alla daga vikunnar og Byggðasafnið verður opið um næstu helgi.

Dagskrá Fjölskyldu-og menningarvikunnar er hér fyrir neðan og má sjá hana með því að smella á myndina.

Dagskrá Fjölskyldu-og menningarviku.
Dagskrá Fjölskyldu-og menningarviku.

Bæjarstjórinn hvetur Garðbúa og gesti til þess að fjölmenna á viðburði og njóta þess sem boðið er upp á.

Góða skemmtun !

 

 

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

Glæsilegir burtfarartónleikar.

Þriðjudaginn 12. maí hélt Una María Bergmann burtfarartónleika frá Tónlistarskólanum í Garði.  Tónleikarnir voru í Útskálakirkju og voru síðari hluti framhaldsprófs hennar frá tónlistarskólanum.  Una María er mezzosópran, undirleikari hennar á tónleikunum var Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari.

Tónleikarnir voru glæsilegir, enda er Una María frábær söngkona.  Útskálakirkja var full út úr dyrum af áheyrendum, góð stemmning og fögnuðu áheyrendur Unu Maríu vel og lengi í lok tónleikanna. Efnisskráin var fjölbreytt með tónlist eftir marga af mestu snillingum tónlistarsögunnar.

Una María hefur stundað tónlistarnám í Tónlistarskólanum í Garði frá unga aldri. Hún byrjaði á píanónámi en um fermingaraldur hóf hún söngnám og lagði síðan aðal áherslu á það eftir grunnskólapróf í píanóleik.  Una María hefur tekið þátt í mörgum viðburðum í Garði og á Suðurnesjum með söng sínum og framundan hjá henni er hlutverk í Brúðkaupi Figaros, sem verður flutt í Hljómahöllinni í lok maí. Hún söng fyrir bæjar-og sveitarstjóra landsins sem komu í heimsókn í Garð fyrir nokkrum dögum, sá söngur fór fram í stóra vitanum á Garðskaga og var skemmtileg upplifun fyrir þá sem þar voru staddir.

Það var ánægjulegt að upplifa tónleika Unu Maríu í Útskálakirkju. Það fór ekki á milli mála að Garðbúar voru afar stoltir af sinni konu og hún söng sig í bókstaflegri merkingu inn í hjörtu allra viðstaddra. Skólastjóri og kennarar við Tónlistarskólann í Garði voru ekki síður stoltir og ánægðir, enda upplifðu þau uppskeru sinnar vinnu með Unu Maríu til margra ára.

Það fer ekki milli mála að Una María hefur mikla tónlistarhæfileika.  Hún á reyndar ekki langt að sækja þá, faðir hennar er Vignir Bergmann sem hefur um langt árabil verið einn af bestu gítarleikurum landsins og er mikill tónlistarmaður, hann er kennari við Gerðaskóla.  Móðir Unu Maríu er Jónína Holm bæjarfulltrúi og kennari við Gerðaskóla.

Ég óska Unu Maríu Bergmann innilega til hamingju með framhaldsprófið frá Tónlistarskólanum í Garði og tónleikana í Útskálakirkju. Ég þakka henni og Helgu Bryndísi fyrir frábæra skemmtun.  Þá er ástæða til að óska Tónlistarskólanum í Garði, skólastjóranum og kennurum til hamingju með þann áfanga að útskrifa nemanda með framhaldspróf frá skólanum, það er sannarlega stór áfangi fyrir tónlistarskólann.

Það verður fróðlegt að fylgjast með Unu Maríu og hennar þátttöku í tónlistarlífinu. Það kæmi ekki á óvart ef hún verður í framtíðinni þekkt nafn í heimi sönglistarinnar, hún hefur allt til að bera til þess að ná góðum frama á þeim vettvangi.

 

Una María Bergmann mezzosópran
Una María Bergmann mezzosópran

 

Facebooktwittergoogle_plusmail