3. vika 2018.

Bóndadagur.

Í dag, föstudag er Bóndadagur og markar upphaf Þorra. Einn af fylgifiskum Þorramánuðar eru þorrablótin og næstu helgar verða haldin þorrablót um allar sveitir landsins, þar sem Þorri verður blótaður að gömlum sið. Á morgun, laugardag verður Þorrablót Suðurnesjamanna í Íþróttamiðstöðinni í Garði. Þorrablótin í Garði hafa mörg undanfarin ár verið mjög vel sótt og vinsæl. Búist er við hátt í 700 manns á þorrablótið að þessu sinni. Góða skemmtun !

Ferskir vindar.

Nú er alþjóðlegu listahátíðinni Ferskum vindum lokið hér í Garði. Hátíðin tókst vel og margir góðir listamenn tóku þátt. Listamennirnir unnu m.a. að list sinni með nemendum leikskólans og grunnskólans, það var ánægjulegt hve nemendurnir tóku góðan þátt í listsköpuninni og aldrei að vita nema það verði kveikjan að því að úr hópi nemenda komi síðar frægir listamenn. Fyrir nokkrum dögum komu nemendahópar í heimsókn að Sunnubraut 4, skoðuðu og fengu kynningu á þeim listaverkum sem þar eru. Hér eru myndir af nemendum kynna sér listaverk og taka þátt í tónlistargjörningi í Gerðaskóla. Við þökkum listamönnum sem tóku þátt í Ferskum vindum að þessu sinni fyrir þeirra framlag, ánægjuleg kynni og dvöl þeirra undanfarnar vikur. Síðast en ekki síst þökkum við Mireyu Samper fyrir gott samstarf, en hún hefur borið hita og þunga af undirbúningi og framkvæmd Ferskra vinda og má segja að hennar framlagi megi líkja við þrekvirki. Kærar þakkir !

                 

Guðni á trukknum.

Um síðustu helgi var frumsýnd heimildamynd um Guðna Ingimundarson og ber myndin heitið Guðni á trukknum. Guðmundur Magnússon kvikmyndagerðarmaður hefur undanfarin ár unnið að gerð myndarinnar, ásamt samstarfsfólki. Myndin er skemmtileg og upplýsandi, bæði um æviferil Guðna en ekki síður er myndin söguleg heimild um samfélagið í Garði fyrr á tímum. Ástæða er til að hvetja áhugasama um að sjá myndina, en líklegt er að fleiri sýningar verði á myndinni í Garðinum og víðar á næstunni. Þá er um að gera að fylgjast með auglýsingum. Guðmundur fær hamingjuóskir og þakkir fyrir þessa merkilegu heimildamynd um heiðursborgara Garðs.

Bæjarráð.

Bæjarráð Garðs fundaði í vikunni og voru að venju ýmis mál á dagskrá. Fjallað var um uppgjör á lífeyrisskuldbindingum hjá Brú lífeyrissjóði starfsfólks sveitarfélaga, einnig um breytingar á lögum og reglum um persónuvernd. Lagðar voru fram upplýsingar um fyrirhugaða stækkun félagsrýmis Fjölbrautarskóla Suðurnesja, en nú eru loksins fjárheimildir í fjárlögum ríkisins til að ráðast í þá löngu tímabæru framkvæmd. Þá má nefna að bæjarráð afgreiddi jákvæða umsögn um umsókn Björgunarsveitarinnar Ægis um tímabundið áfengisveitingaleyfi vegna þorrablóts á morgun. Þorrablótsgestir ættu því að geta verslað sér tilheyrandi veigar til að skola niður þorramatnum annað kvöld.

Veðrið.

Veðrið hefur verið frekar rysjótt undanfarið. Eftir norðan áttir með köldum vindi, suðlægar áttir með éljum og góðviðrisdögum inn á milli snjóaði óvenju mikið í gær fimmtudag. Framundan virðist vera kuldatíð samkvæmt veðurspám.

 

Góða helgi !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

40. vika 2016.

Það hefur verið frekar rólegt yfir Garðinum síðustu vikuna, nema hvað haustlægðirnar eru farnar að koma á færibandi. Veðrið hefur verið frekar erfitt, vikan hófst með þrumum, eldingum og hagléli á mánudags morguninn. Í kjölfarið hafa verið hvassar sunnan áttir með rigningu, af og til hefur þó slegið á milli lægða, til dæmis var ágætt veður í gær fimmtudag.

Fjárhagsáætlun.

Nú stendur yfir vinnsla fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár og rammaáætlunar fyrir næstu þrjú árin þar á eftir. Við vinnslu fjárhagsáætlunar er gengið út frá ýmsum forsendum og er útkomuspá fyrir þetta ár grunnurinn, en útkomuspá var lögð fyrir bæjarráð í síðustu viku og er ágætt útlit með rekstrarafkomu sveitarfélagsins á þessu ári. Aðrar helstu forsendur felast m.a. í þjóðhagsspá um breytingar á verðlagi næsta árið og í kjarasamningum varðandi launaþróun. Eftir umfjöllun í bæjarráði og vinnufundi bæjarfulltrúa með starfsfólki sveitarfélagsins verður fjárhagsáætlun tilbúin í lok október til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Samkvæmt lögum á bæjarstjórn að ljúka afgreiðslu fjárhagsáætlunar eftir síðari umræðu fyrir 15. desember.

Bæjarstjórnarfundur.

Bæjarstjórn Garðs kom saman til fundar í vikunni. Á dagskrá voru fundargerðir fastanefnda sveitarfélagsins og stjórna sem sveitarfélagið á aðild að með öðrum sveitarfélögum. Góð samstaða og vinnuandi er í bæjarstjórninni, sem er ein forsenda þess að vel gangi við stjórnun og rekstur sveitarfélagsins.

Haustið er annatími hjá sveitarstjórnarfólki.

Fyrir sveitarstjórnarfólk er haustið annatími á margan hátt. Þunginn í daglegu starfi þessar vikurnar felst í vinnslu fjárhagsáætlunar og stefnumótunar, en á þessum árstíma er einnig óvenju mikið um alls kyns fundi og ráðstefnur. Þar má m.a. nefna fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem var undir lok september, aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum verður í Garðinum eftir viku, ásamt því að sveitarstjórnarmenn þurfa að mæta á margvíslega fundi þar sem farið er yfir mikilvæg málefni sveitarfélaga sem snerta bæði nútíð og ekki síður framtíðina. Sem dæmi um fundi sveitarstjórnarmanna í þessari viku má nefna fund með stjórnendum Landsnets sl. mánudag þar sem farið var yfir ástand og nauðsynlega uppbyggingu flutningskerfis raforku, sem varðar fyrst og fremst orkuöryggi íbúa og atvinnulífs á Suðurnesjum en þar eru ákveðnar blikur á lofti. Í gær, fimmtudag var fundur með verkefnisstjórn um nýja byggðaáætlun sem er í vinnslu. Á morgun, laugardag verður svo aðalfundur Öldungaráðs Suðurnesja.

Knattspyrnan.

Ævintýri karlalandsliðsins í knattspyrnu heldur áfram og þeir halda þjóðinni við efnið. Frábær sigur í gærkvöldi á Finnlandi, dramatíkin undir lok leiksins sýnir og sannar að það eðli okkar íslendinga að gefast aldrei upp þótt móti blási skilar árangri. Framganga íslenska liðsins var til fyrirmyndar, þótt svo að knattspyrnulega séð hafi þetta ekki verið besti leikur liðsins. En, það að klára leiki á þennan hátt er ákveðinn gæðastimpill og sýnir hvað rétt hugarfar með sigurvilja skiptir miklu máli.  Næsti leikur liðsins verður á sunnudag gegn Tyrkjum, velgengni íslenska liðsins undanfarin misseri gerir mann heldur frekan til fjárins og því er ekkert annað en sigur í leiknum sem kemur til greina.  Ekki má gleyma að minnast á frábæran árangur kvennalandsliðsins, sem fyrir stuttu tryggði sér enn og aftur þátttökurétt í lokakeppni evrópumótsins á næsta ári. Stelpurnar hafa svo sannarlega staðið sig vel og í samanburði er árangur þeirra ekki síðri en hjá karlaliðinu.  Loks er það U21 landsliðið, sem heldur áfram með sinn góða árangur sem leggur ákveðinn grunn að áframhaldandi góðu gengi A-landsliðs Íslands á næstu árum.  Frábær árangur hjá íslensku knattspyrnufólki !

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

13. vika 2016.

Að loknum Páskum.

Nú er Páskahátíðin liðin hjá, með þeim frídögum sem henni fylgir. Daglegt líf er nú aftur komið í fastar skorður, skólahald í eðlilegan farveg sem og atvinnulífið almennt. Fréttir bárust af fjölda íslendinga sem sóttu í sólina og hlýrra veðurfar á suðlægar slóðir um Páska og vonandi höfðu þeir það gott í sinni dvöl þar. Að venju var mikil umferð hér innanlands og sem betur fer gekk hún vel. Frídagar um páskahelgina voru kærkomnir, fólk fékk þá tækifæri til hvíldar frá daglegu amstri og margar fjölskyldur nýta sér gjarnan svona frídaga til að sameinast og hittast, sem er hefðbundið og mikilvægt fyrir marga.

Bæjarráð í vikunni.

Í vikunni var fundur í bæjarráði Garðs. Á dagskrá fundarins voru að venju ýmis mál, en hæst ber þar að drög að ársreikningi sveitarfélagsins fyrir árið 2015 voru til umfjöllunar. Niðurstöður ársreikningsins eru mjög góðar og verður gert frekar grein fyrir þeim hér í molum síðar. Bæjarstjórn mun fjalla um ársreikninginn við fyrri umræðu í næstu viku.

Veðrið.

Um páskahelgina var veður þokkalegt, en þó voru ríkjandi norðlægar áttir með nokkrum vindi og hitastig var rétt yfir frostmarki. Fram eftir vikunni var heldur hlýrra og skárra veður, en þegar þetta er skrifað á föstudagsmorgni er suðaustan átt með nokkrum vindi og rigning. Hitastig þokast heldur upp á við þessa dagana og svo verður næstu daga, samkvæmt veðurspám. Það má því segja að um þessar mundir séu hefðbundin átök vetrar og vors, þar sem vorið mun taka yfirhöndina smám saman.

Apríl er genginn í garð.

Tíminn líður hratt, allt í einu er kominn 1. apríl ! Fjórðungur af nýbyrjuðu ári er liðinn hjá og fyrr en varir verður komið fram í sumarið. Unnið er að undirbúningi sumarverka hjá sveitarfélaginu og nú eftir Páska er síðasti hluti skólastarfs hafinn hjá skólunum fram að lokum þessa skólaárs.  Féttir bárust af því fyrir Páska að sést hafi til Lóu á Garðskaga, þessi góði vorboði ber með sér að vetrartíðin sé að renna sitt skeið á enda.

Vorboðinn er mættur á Garðskaga.
Vorboðinn er mættur á Garðskaga.

Góða helgi.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

10. vika 2016.

Landsbankinn styður við Gerðaskóla.

Unnið hefur verið að því að endurnýja tölvubúnað Gerðaskóla. Fyrir stuttu gaf Landsbankinn skólanum sextán tölvuskjái að gjöf, skjáirnir eru nýlegir og í góðu ástandi en ekki í notkun hjá bankanum. Einar Hannesson útibússtjóri og Herborg Hjálmarsdóttir starfsmaður Landsbankans í Reykjanesbæ afhentu Jóhanni Geirdal skólastjóra Gerðaskóla skjáina í tölvuveri skólans. Landsbankinn fær þakkir fyrir þessa höfðinglegu gjöf til Gerðaskóla.

Herborg Hjálmars og Einar Hannesson útibússtjóri Landsbankans, ásamt Jóhanni skólastjóra í tölvuveri Gerðaskóla. (Mynd: Víkurfréttir)
Herborg Hjálmars og Einar Hannesson útibússtjóri Landsbankans, ásamt Jóhanni skólastjóra í tölvuveri Gerðaskóla. (Mynd: Víkurfréttir)

Nettómótið í Garði.

Um síðustu helgi stóðu unglingaráð körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur fyrir árlegu Nettómóti í körfubolta fyrir yngstu iðkendur. Mótið hefur þótt hið glæsilegasta undanfarin ár, mikil þátttaka og ánægja. Að þessu sinni var þátttakendafjöldinn slíkur að leika þurfti hluta af mótinu í Íþróttamiðstöðinni í Garði og gekk vel. Það var gaman að sjá áhugann og keppnisandann hjá þessum ungu körfuboltahetjum og það var jafnframt ánægjulegt fyrir okkur í Garði að taka á móti  öllum keppendum og gestum sem komu í Garðinn vegna mótsins. Við þökkum þeim öllum fyrir komuna og vonum að dvöl þeirra hér hafi verið ánægjuleg. Hátt í 40 börn tóku þátt í Nettómótinu undir merki Víðis, þjálfarar þeirra eru Bára Bragadóttir og Óli Garðar Axelsson.

Ungir og efnilegir körfuboltakappar í Víði á Nettómóti.
Ungir og efnilegir körfuboltakappar í Víði á Nettómóti.

Forvarnateymið Sunna.

Sl. mánudag hélt forvarnateymið Sunna kynningarfund í grunnskólanum í Vogum. Þar var fjallað um forvarnir og ýmis verkefni sem miða að sjálfstyrkingu og bættum árangri barna og unglinga og um fjölskylduvernd. Jóhann Geirdal skólastjóri Gerðaskóla fjallaði um athyglisverða rannsókn sem hann vann og fjallar um áhrif efnahags fjölskyldna og annarra ytri þátta á námsárangur nemenda. Forvarnanefndin Sunna er sameiginlegt forvarnateymi Garðs, Sandgerðis og Voga, með þátttöku lögreglu, grunnskóla, félagsmiðstöðva og félagsþjónustu. Frábært starf þarna á ferð.

Afmælisveisla í Vogum.

Á þriðjudaginn hittumst við bæjarstjórarnir á Suðurnesjum á bæjarskrifstofunni í Vogum.  Við hittumst reglulega til að fara yfir ýmis málefni og eigum mjög gott samstarf. Nú brá svo við að Ásgeir Eiríksson bæjarstjóri í Vogum átti afmæli á þriðjudaginn, en þann dag var einnig baráttudagur kvenna.  Við sungum fyrir hann afmælissönginn og í staðinn fengum við dýrindis afmælis veitingar. Fundurinn var óvenju árangursríkur og góður !

Afmælisfundur bæjarstjóranna. Róbert, Magnús, Ásgeir, Sigrún og Kjartan Már.
Afmælisfundur bæjarstjóranna. Róbert, Magnús, Ásgeir, Sigrún og Kjartan Már.

Upplestrarkeppni í Gerðaskóla.

Á fimmtudaginn var upplestrarkeppni nemenda úr Gerðaskóla og skólunum í Vogum og Grindavík haldin í Gerðaskóla. Upplestrarkeppni grunnskólanema hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn af stóru viðburðunum á hverju skólaári og er jafnan nokkur spenna í tengslum við hana. Upplestrarkeppnin í Gerðaskóla gekk mjög vel og var gerður góður rómur af upplestri nemendanna. Nemendum Gerðaskóla hefur jafnan gengið vel í þessari keppni og að þessu sinni hlaut Amelía Davíðsdóttir nemandi í Gerðaskóla 2. sæti í keppninni. Til hamingju allir sem tóku þátt í þessari skemmtilegu keppni, sem fyrir utan keppnina sjálfa er mikilvægur liður í því að halda börnum að lestri og að rækta íslenskar bókmenntir.

Styrkir úr Uppbyggingarsjóði.

Á fimmtudaginn voru afhentir styrkir úr Uppbyggingasjóði Suðurnesja. Mörg frábær verkefni fengu styrk úr sjóðnum. Nokkrir styrkir voru veittir aðilum í Garði, eða sem tengjast verkefnum í Garði. Þessi verkefni eru Ferskir vindar, Hollvinir Unu vegna endurbóta á Sjólyst, Garðskagi ehf. vegna ferðaþjónustu á Garðskaga, Guðmundur Magnússon vegna heimildamyndar um Guðna á trukknum. Þar að auki er styrkur til heimildamyndar um knattspyrnulið Víðis, gulldrengina og auk þess hlaut Einar Friðrik Brynjarsson starfsmaður Garðs styrk vegna verkefnisins GrasPro. Þessir styrkir skipta miklu máli fyrir þau verkefni sem hlutu styrki, reynsla síðustu ára er að þessir styrkir hafa mjög jákvæð áhrif á atvinnu-og menningarlíf á Suðurnesjum. Til hamingju allir.

Styrkhafar. Mireya Samper Ferskir vindar, Kristjana Kjartansdóttir fh. Hollvina Unu, Jóhann Ísberg fh. Garðskaga ehf., Guðmundur Magnússon fyrir Guðna á trukknum.
Styrkhafar. Mireya Samper Ferskir vindar, Kristjana Kjartansdóttir fh. Hollvina Unu, Jóhann Ísberg fh. Garðskaga ehf., Guðmundur Magnússon fyrir Guðna á trukknum.

Mikið um að vera um komandi helgi.

Nú um helgina verður Safnahelgi Suðurnesja. Öll söfn á svæðinu verða opin almenningi án aðgangseyris. Í Garði verður byggðasafnið opið, þar verður áhugaverð ljósmyndasýning af bílum Garðmanna gegnum tíðina og frumsýnd verður heimildamynd um nýlokna listahátíð Ferskra vinda. Sjólyst verður opin, Gallery Ársól sömuleiðis og allir eru velkomnir í Ævintýragarð Helga Valdimarssonar að Urðarbraut 4. Nánar um dagskrá Safnahelgar á safnahelgi.is.

Íslandsmót fatlaðra í íþróttum verður í Reykjanesbæ um helgina. Íþróttafélagið Nes er framkvæmdaraðili, en Sveitarfélagið Garður hefur átt ánægjulegt samstarf við íþróttafélagið undanfarin ár með það að markmiði að hlú að og efla íþróttaþátttöku fatlaðra á Suðurnesjum. Íþróttafélagið Nes á samstarf við sveitarfélögin á Suðurnesjum vegna íslandsmótsins og við væntum mikils af mörgum frábærum íþróttamönnum á Suðurnesjum á þessu íslandsmóti.

Síðast en ekki síst, þá verður mikið um að vera í Íþróttamiðstöðinni á morgun, laugardag. Mikil aðsókn hefur verið að líkamsræktinni í vetur og ekki síst í hópatíma, þar sem hefur verið mikið líf og fjör. Á morgun munu fjölmargir sem hafa stundað ræktina að kapp leiða saman hesta sína í skipulögðu þrekmóti. Bakhjarl mótsins er SI verslun og er þrekmótið kennt við SI verslun. Það er klárt að það verður vel tekið á því á morgun og vitað er um marga sem eru stútfullir af keppnisanda og ætla sér stóra hluti í mótinu. Það er kraftur og aukið þrek í Garðbúum.

Veðrið.

Það skiptust á skin og skúrir þessa vikuna, í bókstaflegri merkingu ! Vikan byrjaði með sunnan roki og rigningu. Sól og blíða á þriðjudag, vor í lofti ! Rigning og síðan sól og blíða á miðvikudag. Það syrti í álinn á fimmtudag og föstudag, með suðvestan átt og éljum. Upphaf vikunnar gaf góð fyrirheit um að vorið nálgist, en síðari hluti vikunnar minnir okkur á að ennþá er vetrartíð um miðjan mars.

Góða helgi.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

4. vika 2016.

Þorrablótið.

Þorrablót Suðurnesjamanna var haldið í íþróttamiðstöðinni í Garði sl. laugardag. Vel yfir 600 manns mættu á blótið, þar sem voru frábær skemmtiatriði, dansleikur og ljúffengur þorramatur. Þorrablótið tókst vel í alla staði og var mikil ánægja með það meðal blótsgesta. Knattspyrnufélagið Víðir og Björgunarsveitin Ægir sáu um undirbúning og framkvæmd þorrablótsins, sem tókst vel og var til fyrirmyndar. Hápunktur skemmtidagskrárinnar var frumsýning á Þorraskaupi Víðisfilm, en nokkrir félagar í Víði hafa undanfarin ár sett saman skemmtilega mynd þar sem garðbúar eru plataðir til að gera ótrúlegustu hluti, gert góðlátlegt grín og eftirminnileg atvik síðasta árs sett í skemmtilegan búning. Góður rómur var gerður að myndinni, enda vel gerð og heppnuð.

Það liggur mikil vinna að baki svona myndarlegu þorrablóti. Margir einstaklingar lögðu af mörkum mikla sjálfboðaliðavinnu í undirbúningi blótsins og meðan það stóð yfir, fyrir það er þakkað.

Hæfileikakeppni SAMSUÐ.

Um síðustu helgi fór fram hæfileikakeppni SAMSUÐ í Stapa í Reykjanesbæ.  SAMSUÐ stendur fyrir Samtök félagsmiðstöðva á Suðurnesjum. Í hæfileikakeppninni voru dansatriði, trommaradúet spilaði, leikið var á píanó, fimleikaatriði komu fram og nokkrir söngvarar tóku lagið. Íris Ósk Benediktsdóttir söngkona í Garðinum mun í framhaldinu taka þátt í landshlutaúrslitum í söngvarakeppni SAMFÉS í kvöld (föstudag). Í hæfileikakeppninni um síðustu helgi var m.a. trommaradúet, þar sem tveir trommuleikarar úr Garði spiluðu saman á tvö trommusett og vakti það mikla lukku. Þessir efnilegu trommarar eru Eiður Smári Rúnarsson og Alexander Franzson. Þá lék Eva Rós Jónsdóttir á píanó. Gaman að fylgjast með þessum efnilegu garðbúum á listasviðinu.

Við óskum Írisi Ósk góðs gengis í söngvarakeppni í kvöld.

Fulltrúar Garðs í hæfileikakeppni SAMSUÐ: Alexander Franzson, EiðurSmári Rúnarsson, Íris Ósk Benediktsdóttir, Eva Rós Jónsdóttir.
Fulltrúar Garðs í hæfileikakeppni SAMSUÐ: Alexander Franzson, EiðurSmári Rúnarsson, Íris Ósk Benediktsdóttir, Eva Rós Jónsdóttir.

Heimildamynd um Ferska vinda. 

Guðmundur Magnússon kvikmyndagerðarmaður í Garði vann að upptökum í heimildamynd um listahátíðina Ferska vinda. Myndin verður aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins þegar hún verður fullbúin. Það er mikilvægt að safna heimildum um slíka viðburði og halda þeim til haga. Guðmundur hefur lagt mikið af mörkum í þeim efnum, bæði við gerð kvikmynda um Garðinn og íbúana og eins hefur hann safnað miklu magni ljósmynda um sögu byggðarlagsins. Hann vinnur að því að gera þetta efni aðgengilegt fyrir almenning.  Guðmundur er því einn þeirra listamanna sem vann að listsköpun meðan listahátíðin stóð yfir.

Heimsókn vest-norrænna þingmanna.

Í gær, fimmtudag komu góðir gestir í heimsókn í Garðinn. Þar var á ferð hópur þingmanna sem sitja í VestNorræna ráðinu (Vest Norden), en þingmenn frá Grænlandi, Færeyjum og Íslandi skipa Vest Norræna ráðið og þeir funda í þessum löndum til skiptis. Að þessu sinni fundar ráðið á Íslandi, nánar tiltekið í Grindavík og notuðu þingmenn lausan tíma til þess að ferðast um Suðurnesin. Oddný Harðardóttir alþingismaður og fyrrverandi bæjarstjóri í Garði á sæti í ráðinu fyrir hönd Alþingis, að sjálfsögðu bauð hún upp á ferð í sinn heimabæ í Garði. Hópurinn kom á Garðskaga og inn í Garðskagavita, þar sem Una María Bergmann söng fyrir hópinn. Ánægjan skein úr andliti hvers manns með þá upplifun, það er alltaf ánægjulegt að taka á móti góðum gestum og verða vitni að upplifun þeirra við heimsókn á Garðskaga.

Þjóðfánar Vest Norden landanna.
Þjóðfánar Vest Norden landanna.
Fulltrúar í Vest Norræna ráðinu við Garðskagavita hinn eldri, ásamt bæjarstjóra.
Fulltrúar í Vest Norræna ráðinu við Garðskagavita hinn eldri, ásamt bæjarstjóra.

Veðrið.

Hlýtt og gott í upphafi vikunnar, kólnaði heldur um miðja vikuna og fór að snjóa.  Undir lok vikunnar var hvít snjóþekja yfir öllu, hægviðri og frost. Sl. nótt snerist yfir í norðlæga átt með köldum vindi.

Mánaðaskil.

Tíminn líður oft ótrúlega hratt. Nú er janúar að renna sitt skeið á enda og þar með hefur enn einn mánuður vetrarins liðið hjá. Sólin hækkar á lofti frá degi til dags. Enn er þó nokkuð eftir af vetrartímanum, en með hverri vikunni sem líður styttist í vorið.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail

47. vika 2015.

Heimsókn í Nesfisk

Bæjarstjórn og bæjarstjóri heimsóttu hið myndarlega og öfluga sjávarútvegsfyrirtæki Nesfisk í vikunni. Stjórnendur fyrirtækisins tóku vel á móti gestunum, kynntu starfsemina og leiddu gestina um fyrirtækið. Nesfiskur er vel rekið fyrirtæki og í hópi stærstu sjávarútvegsfyrirtækja í landinu. Starfsmenn eru vel á fjórða hundrað, sjómenn og landverkafólk og fyrirtækið er með vinnslu á þremur stöðum, í Sandgerði og Hvammstanga auk Garðsins. Nesfiskur hefur á undanförnum árum byggt upp glæsilega aðstöðu í Garði, sem er fyrirtækinu til mikils sóma. Bæjarstjóri þakkar fyrir góðar móttökur og áhugaverða kynningu á starfsemi fyrirtækisins. Bæjarstjórn hyggur á fleiri heimsóknir til fyrirtækja í Garði á næstunni, enda er mikilvægt að bæjaryfirvöld séu í góðu sambandi við atvinnulífið í sveitarfélaginu.

Stjórnendur Nesfisks í nýju glæsilegu skrifstofuhúsnæði
Stjórnendur Nesfisks í nýju glæsilegu skrifstofuhúsnæði

Fjárhagsáætlun og íbúafundur.

Nú er verið að leggja lokahönd á fjárhagsáætlun næsta árs. Bæjarstjórn mun afgreiða fjárhagsáætlunina við síðari umræðu á bæjarstjórnarfundi 2. desember. Nk. mánudag verður íbúafundur í Gerðaskóla þar sem farið verður yfir fjárhag og áætlanir sveitarfélagsins. Á íbúafundinum verða einnig kynntar hugmyndir og áform um starfsemi og rekstur ferðaþjónustu á Garðskaga. Bæjarstjóri hvetur garðbúa til að mæta á íbúafundinn og ræða málefni sveitarfélagsins.

Veðrið.

Haustið hefur verið þokkalegt, en þó með talsverðum rigningum. Nú síðustu daga hefur kólnað aðeins í veðri og þegar þessar línur eru skrifaðar er lítilsháttar snjókoma í Garðinum, rétt til þess að lita jörðina hvíta. Þrátt fyrir allt hefur veðrið verið ágætt að undanförnu og vonandi heldur það áfram á næstunni.

Facebooktwittergoogle_plusmail

42. vika 2015.

Afmæli í dag.

Í dag á Íþróttamiðstöðin í Garði afmæli. Íþróttamiðstöðin var vígð og tekin í notkun þann 16. október 1993 og á því 22 ára afmæli í dag. Til hamingju með það Garðbúar og starfsfólk Íþróttamiðstöðvarinnar !

Bæjarráð.

Í vikunni var fundur í bæjarráði Garðs og voru ýmis mál á dagskrá fundarins. Eitt af hlutverkum bæjarráðs er að fjalla um fjármál sveitarfélagsins og fjárhagsáætlun, eftirlitshlutverk bæjarráðs er mikilvægt í þeim efnum. Á þessum fundi var fjallað um framgang fjárhagsáætlunar þessa árs, ásamt því að fjallað var um málefni sem tengjast fjárhagsáætlun næsta árs, sem er í vinnslu um þessar mundir. Meðal mála sem voru á dagskrá bæjarráðs voru málefni flóttamanna, en stjórnvöld hafa leitað til sveitarfélaga í landinu varðandi móttöku flóttafólks. Bæjarstjóri lagði fram minnisblað um hlutverk og skyldur sveitarfélaga, ríkisins, Rauða krossins og annarra aðila varðandi móttöku flóttamanna. Bæjarstjórn mun taka málið til frekari umfjöllunar á næsta fundi. Fyrir fundinum lá einnig erindi frá unglingaráðum Víðis og Reynis, þar sem fram kemur að félögin munu sameiginlega reka starfsemi fyrir unglinga í knattspyrnu á næsta ári. Loks má nefna að fyrir bæjarráði lá erindi frá Íbúðalánasjóði, sem býður sveitarfélaginu húseignir sjóðsins til kaups. Bæjarráð fól bæjarstjóra að afla nánari upplýsinga hjá sjóðnum, m.a. um það hvaða húseignir um er að ræða.

Garðskagi.

Nú er unnið að því að breyta starfsemi og þjónustu á Garðskaga. Fjölmargt ferðafólk sækir á Garðskaga á hverju ári, umferðin hefur aukist mjög allra síðustu ár og er útlit fyrir enn frekari aukningu samfara mikilli fjölgun ferðafólks sem sækir Ísland heim. Markmiðin eru að bæta aðstöðu, auka þjónustu og upplifun fyrir ferðafólk, allt í þeim tilgangi að mæta þörfum ferðafólks og skapa atvinnutækifæri í tengslum við það. Mikil undirbúningsvinna hefur staðið yfir, meðal annars samþykkti bæjarstjórn stefnumótun um þessi mál í byrjun þessa árs og hefur verið unnið eftir henni. Nánar verður gerð grein fyrir þessum málum síðar.

Af fundahöldum.

Starf bæjarstjóra einkennist að miklu leyti af alls konar fundahöldum um hin ýmsu málefni, ásamt því að mæta á fundi til þess að segja frá og kynna sitt sveitarfélag og þau verkefni sem unnið er að hverju sinni.

Nú í vikunni mættum við Ásgeir bæjarstjóri í Vogum á fund launafulltrúa sveitarfélaga á suð-vesturlandi, sem haldinn var í Eldborg í Svartsengi. Launafulltrúarnir fóru þar yfir ýmis mál á sviði launa og kjaramála sveitarfélaganna, með ýmsum sérfræðingum á því sviði. Svona yfirferð er mikilvæg, enda eru kjaramál starfsmanna sveitarfélaga margslungin og því mikilvægt fyrir launafulltrúa að hafa þau mál sem mest á hreinu. Hlutverk okkar Ásgeirs á fundinum var að kynna okkar sveitarfélög og segja frá því helsta sem unnið er að í okkar sveitarfélögum. Það var ánægjulegt að hitta þennan góða hóp og fá tækifæri til þess að kynna sveitarfélagið og segja frá því sem unnið er að í Garðinum.

Einn af fundum sem bæjarstjóri mætti á í vikunni var kynning Isavia á svokölluðu „Master Plani“ um framtíðarsýn uppbyggingar Keflavíkurflugvallar. Fjölgun farþega sem fara um flugvöllin er langt umfram bjartsýnustu spár síðustu ára. Á þessu ári munu hátt í 5 milljónir farþega fara um flugvöllinn, gera má ráð fyrir að talan fari yfir 6 milljónir árið 2016. Til samanburðar fóru rétt yfir 2 milljónir farþega um flugvöllinn árið 2010. Farþegafjöldinn á þessu ári er sá sem spáð hafði verið að yrði árið 2018. Mörgum finnast áætlanir Isavia byggja á bjartsýni, en horft er til áratuga fram í tímann og leitast við að horfa til uppbyggingar sem þarf að eiga sér stað til þess að mæta þeirri þróun sem er í gangi og gera má ráð fyrir að haldi áfram í einhverri mynd inn í framtíðina. Það er til fyrirmyndar að vinna svona áætlanir og mætti gjarnan gera það á mörgum fleiri sviðum hér á landi, þar sem rýnt er til framtíðar og leitast við að meta þróun mála og mæta henni tímanlega í stað þess að þurfa að „redda“ hlutunum þegar tiltekið ástand hefur skapast.

Íbúaþróun.

Það er áhugamál margra að fylgjast með íbúaþróun sveitarfélaga. Samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá voru alls 1.432 íbúar skráðir með lögheimili í byrjun þessarar viku. Til samanburðar voru 1.425 íbúar skráðir með lögheimili í sveitarfélaginu þann 1. desember 2014. Íbúum hefur því fjölgað aðeins á þessu tæplega einu ári.

Kötlumót karlakóra.

Nú um helgina verður Kötlumót karlakóra haldið í Reykjanesbæ. Katla er Samband sunnlenskra karlakóra og munu karlakórar allt frá Höfn til Snæfellsness taka þátt í mótinu. Alls er áætlað að um 600 karlar munu koma saman og sameinast í kórsöng. Fjölmargir sértónleikar verða á nokkrum stöðum í Reykjanesbæ en kórarnir munu sameinast í einn stóran karlakór í Atlantic Studios á Ásbrú á síðdegis á laugardaginn. Gera má ráð fyrir að jarðskjálftamælar Veðurstofunar taki kipp þegar 600 manna karlakór beitir sér af krafti í lögum á við Brennið þið vitar !  Bæjarstjóri hvetur sem flesta til að mæta á tónleika Kötlumótsins. Þess má geta að Kötlumótið í ár er haldið af Karlakór Keflavíkur, en meðal þátttakenda er Söngsveitin Víkingar sem er m.a. skipuð söngglöðum körlum úr Garðinum.

Bleikur föstudagur.

Í dag föstudag mæta margir til sinna starfa með bleikan lit í sínum fatnaði. Það er til merkis um samstöðu og þátttöku í forvarnaátaki gegn krabbameinum, sem stendur yfir þennan mánuðinn. Starfsfólkið á bæjarskrifstofunni í Garði mætti að sjálfsögðu í bleiku í morgun, við gerðum það sem er margir gera og tókum eina „selfie“ mynd í tilefni dagsins. Þetta er skemmtilegt og setur svip á tilveruna.

Bleikur föstudagur
Bleikur föstudagur

Góða helgi !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

34. vika 2015.

Molarnir eru komnir úr sumarleyfi og verður nú þráðurinn tekinn upp á ný. Flestir hafa lokið sínum sumarleyfum og við taka hefðbundin dagleg verkefni, sem jafnan mótar þennan tíma ársins.

Skólastarfið.

Börnin og starfsfólkið eru komin í sitt daglega mynstur eftir sumarleyfi. Meðan á sumarleyfinu stóð var ráðist í að stækka lóð leikskólans og lagfæra ýmislegt sem þörf var á. Þar á meðal er leiksvæði barnanna á leikskólalóðinni og litli fótboltavöllurinn, sem áður hefur komið við sögu í molum. Vonandi eru ungir knattspyrnukappar í leikskólanum ánægðir með það og geta því haldið áfram að undirbúa sig undir það að halda merki Víðis á lofti í framtíðinni.

Gerðaskóli var settur í dag. Fjölmenni var við skólasetninguna, þegar Gerðaskóli var settur í 143. skipti.  Starfsfólk skólans kom til starfa í byrjun vikunnar og nýr skólastjóri og aðstoðarskólastjóri hófu störf þann 1. ágúst sl.  Við skólasetninguna í morgun var ríkjandi eftirvænting meðal nemenda, enda markar upphaf hvers skólaárs nýtt tímaskeið með nýjum áskorunum og spennandi tími framundan hjá nemendum.

Nemendur og starfsfólk skólanna eru boðin velkomin til starfa, með ósk um gott gengi á nýju skólaári.

Sumarstörfin.

Vinnuskólinn hefur lokið störfum, þeim ungmennum sem störfuðu í vinnuskólanum í sumar eru þökkuð þeirra störf. Grasspretta hefur hægt á sér síðustu daga en áfram verður haldið við að halda bænum snyrtilegum með slætti og viðhaldi. Nú eru hin hefðbundnu sumarstörf nánast að baki og við tekur haustið, sem er á næsta leiti.

Haustverkin.

Nú er hafinn undirbúningur haustverka bæjarstjórnar og starfsfólks sveitarfélagsins. Helsta verkefnið er vinnsla fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár og er þegar byrjað að undirbúa það verkefni. Þá er haustið tími ýmiskonar fundahalda hjá sveitarstjórnarmönnum, þar á meðal er fjármálaráðstefna sveitarfélaga og aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Haustið er jafnan einn mesti annatími sveitarstjórnarmanna, þegar línur eru lagðar fyrir komandi ár, en þau verkefni eru jafnframt skemmtileg og gefandi.

Heimsókn.

Nú í vikunni komu góðir gestir í heimsókn á bæjarskrifstofuna. Sveitarstjórinn í Rangárþingi ytra, Ísólfur Gylfi Pálmason, ásamt tveimur starfsmönnum litu við á ferð sinni um Suðurnesin. Við sýndum þeim Garðinn og kynntum starfsemi sveitarfélagsins. Alltaf er ánægjulegt að fá góða gesti í heimsókn, sérlega ánægjulegt að fá Ísólf Gylfa í heimsókn enda erum við góðir félagar og höfum starfað mikið saman á ýmsum vettvangi í mörg ár.

Víðir.

Nú styttist í lok keppnistímabils knattspyrnumanna þetta sumarið. Mínir menn í Víði áttu erfitt uppdráttar framan af sumri, en hafa verið duglegir við að safna stigum seinni hluta sumarsins. Nú eru fjórir leikir eftir og vonandi mun liðinu ganga jafn vel í þeim leikjum eins og verið hefur undanfarið. Næsti leikur Víðis verður í kvöld, föstudag, gegn Berserkjum á Nesfisk vellinum í Garði. Bæjarstjórinn hvetur Garðbúa til þess að fjölmenna á völlinn og hvetja lið Víðis til dáða.

Góða helgi 

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

28. vika 2015.

Stækkun leikskólalóðar.

Nú er leikskólinn Gefnarborg kominn í sumarleyfi. Meðan á því stendur verður unnið að stækkun lóðar leikskólans, ásamt öðru viðhaldi á leikskólanum og lóðinni.

Vinnuskóli í fríi.

Þessa viku hafa ungmennin í vinnuskólanum verið í sumarfríi, hefja aftur störf nk. mánudag.  Hins vegar er ekkert frí hjá grassprettunni, grasið sprettur sem aldrei fyrr í hlýindunum og veðurblíðunni. Það verður því nóg að gera hjá vinnuskólanum næstu vikurnar við að snyrta og viðhalda bænum.

Víðir.

Víðir laut í gras í stórleiknum gegn Reyni Sandgerði í síðustu viku. Vonir bæjarstjórans um sigur Víðismanna í leiknum gengu ekki eftir, en Víðir hefur tækifæri til að hefna tapsins í síðari leiknum gegn Reyni síðar í sumar. Nú sl. þriðjudag lék Víðir við KFR á Hvolsvelli. Þar náðu Víðismenn sínum fyrsta sigri sumarsins, eru vonandi komnir á sigurbraut !  Áfram Víðir.

Bæjarstjóri í sumarleyfi.

Nú stendur tími sumarleyfa sem hæst. Bæjarstjórinn í Garði fer í sumarleyfi nú um helgina og verður meira og minna í sumarleyfi fram yfir miðjan ágúst mánuð. Þar af leiðir að Molar úr Garði fara einnig í sumarleyfi á sama tíma. Molar munu aftur birtast þegar líður á ágúst mánuð. Ég óska öllum gleðilegs sumars.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail