11. vika 2018.

Sameining sveitarfélaga.

Mikil vinna er í gangi við undirbúning að sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Stjórn til undirbúnings sameiningunni hefur afgreitt þau formsatriði sem þarf til að sveitarstjórnaráðuneyti geti auglýst sameininguna. Þá er unnið að mörgum öðrum verkefnum til þess að undirbúa það að sameiningin geti gengið hnökralaust fyrir sig. Þar má m.a. nefna starfsmannamálin, samræmingu samþykkta og reglugerða, skjalastjórnun og persónuverndarmál, svo eitthvað sé nefnt. Framundan er svo vinna við að sameina ýmis kerfi og fjárhagsbókhald. Sumir dagar eru þétt bókaðir fyrir ýmsa fundi vegna verkefnisins og má sem dæmi nefna að í dag, föstudag eru ýmsir fundir í gangi hér á bæjarskrifstofunni í Garði, allt frá því snemma morguns og fram á seinnipart dagsins. Allt gengur þetta mjög vel og góður starfsandi svífur yfir verkefninu.

Nýr skólastjóri Gerðaskóla.

Í síðustu viku samþykkti bæjarstjórn að ráða Evu Björk Sveinsdóttur í stöðu skólastjóra Gerðaskóla. Eva mun taka við starfinu þann 1. ágúst. Eva hefur starfað sem aðstoðarskólastjóri við Gerðaskóla í vetur. Um leið og henni er óskað til hamingju með stöðuna væntum við góðs af samstarfi við hana á komandi árum. Þar sem Eva mun láta af starfi aðstoðarskólastjóra, hefur sú staða nú verið auglýst laus til umsóknar á heimasíðu sveitarfélagsins svgardur.is. Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér auglýsinguna.

Er vorið að koma ?

Eftir að töluvert snjóaði í Garðinum um síðustu helgi hefur veður snúist í hlýindi og rigningu á köflum. Snjórinn sem féll um síðustu helgi staldraði stutt við og er horfinn. Nú í vikunni sagði einn pottverjinn frá því í heita pottinum snemma morguns að hann hafi séð nokkra Tjalda á vappi á Garðskaga. Taldi hann það augljóst merki um að vorið sé byrjað að færast yfir. Vonandi er það rétt, hver dagur er hænufet inn í vorið og í átt að sumri.

Góða helgi 🙂

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

10. vika 2018.

Menningin blómstrar í Garði.

Eins og fram hefur komið hlaut listahátíðin Ferskir viðurkenninguna Eyrarrós fyrir stuttu.  Um síðustu helgi var uppskeruhátíð tónlistarskólanna, Nótan haldin í Hörpu. Þar hlaut rokkhljómsveit frá Tónlistarskólanum í Garði, skipuð fjórum nemendum sérstök Nótuverðlaun fyrir framúrskarandi tónlistarflutning í opnum flokki. Þá voru þeir valdir úr hópi verðlaunahafa til að endurflytja sitt atriði í lok hátíðarinnar. Strákarnir í hljómsveitinni, þeir Alexander, Helgi, Hólmar Ingi og Magnús Fannar og tónlistarskólinn fá hamingjuóskir með þennan frábæra árangur. Hér eru myndir af rokkurunum úr Garði í Hörpu.

Alþjóðleg ráðstefna jarðvanga.

Mikið og gott starf hefur verið unnið undanfarin misseri og ár við að byggja upp og markaðssetja Reykjanesið fyrir ferðamenn. Reykjanes Jarðvangur (Reykjanes Geopark) er viðurkenndur UNESCO Global Geopark, sem á aðild að evrópusamtökum jarðvanga og á alþjóðavísu. Í síðustu viku var alþjóðleg ráðstefna jarðvanga haldin í Keili, þar voru mættir um 70 fulltrúar margra jarðvanga víðs vegar að frá 11 löndum. Ráðstefnan tókst vel og var til fyrirmyndar hvernig starfsfólk Reykjanes Jarðvangs stóð að undirbúningi og framkvæmd ráðstefnunnar.

Fleiri viðurkenningar og tilnefningar.

Á síðasta ári var Reykjanes tilnefnt sem eitt af 100 sjálfbærustu ferðamannasvæðum heimsins, svonefnd Sustainable Global Destinations. Nú í vikunni hlaut Reykjanes þriðju verðlaun af þessum 100 sjálfbærustu svæðum, í flokknum Earth Award. Þessi verðlaun eru veitt fyrir framlag í loftslagsmálum, gegn þeim loftslagsbreytingum sem verið hafa (sjá mynd af viðurkenningarskjali hér fyrir neðan). Þá var markaðsherferð Markaðsstofu Reykjaness, „Reykjanes-við höfum góða sögu að segja“ tilnefnd til árangursverðlauna ÍMARK. Þetta verkefni var unnið í samstarfi við HN-Markaðssamskipti. Þótt svo þessi markaðsherferð hafi ekki hlotið verðlaunin, þá felst mikil viðurkenning í tilnefningunni sem merki um gott og árangursríkt verkefni.

Fundur í bæjarstjórn.

Bæjarstjórn fundaði sl. miðvikudag og voru ýmis mál á dagskrá. Uppistaða í dagskrá bæjarstjórnar eru jafnan fundargerðir nefnda og ráða. Meðal þess sem bæjarstjórn samþykkti á fundinum voru drög að nýrri lögreglusamþykkt fyrir sveitarfélögin í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Þá kaus bæjarstjórn fulltrúa í yfirkjörstjórn vegna komandi sveitarstjórnarkosninga.  Við þær kosningar verður kosin bæjarstjórn fyrir nýtt sameinað sveitarfélag, kjördeildir verða í hvoru núverandi sveitarfélaga með tilheyrandi undirkjörstjórnum og því þarf að kjósa yfirkjörstjórn til að annast framkvæmd kosninganna. Þá samþykkti bæjarstjórn að bjóða Evu Björk Sveinsdóttur stöðu skólastjóra Gerðaskóla.

Vorboðinn á Garðsjónum.

Í góða veðrinu nú í vikunni birtist vorboðinn á Garðsjónum. Það eru allir smábátarnir sem voru við veiðar úti fyrir Garði. Það er jafnan ákveðinn vorbragur af því þegar smábátarnir hefja veiðar og sú var upplifunin nú í vikunni. Þegar þetta er skrifað fyrir hádegi á föstudegi, má sjá fjölda smábáta að veiðum úti af Garðinum.

Safnahelgi framundan.

Nú um komandi helgi verður Safnahelgi á Suðurnesjum. Hins ýmsu söfn í öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum verða opin almenningi og ýmsar uppákomur verða. Heimafólk og gestir eru hvattir til að heimsækja söfnin á svæðinu um helgina. Nánari upplýsingar eru á vefnum safnahelgi.is.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

9. vika 2018.

Ferskir vindar handhafi Eyrarrósarinnar.

Alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar í Garði hlaut í gær Eyrarrósina, sem er viðurkenning sem er afhent á hverju ári fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Eliza Reid forsetafrú og verndari Eyrarrósarinnar afhenti Mireyu Samper viðurkenninguna við athöfn á Neskaupstað. Listahátíðin Ferskir vindar hefur verið haldin fimm sinnum í Garði og er samstarfsverkefni sveitarfélagsins og Ferskra vinda. Nú er listahátíðin orðin handhafi Eyrarrósarinnar og er það mikil viðurkenning og heiður fyrir samfélagið í Garði, en ekki síst fyrir Mireyu Samper og hennar samstarfsfólk. Mireya fær innilegar hamingjuóskir með Eyrarrósina, sem er mikil viðurkenning fyrir það menningarstarf sem hún hefur staðið fyrir með Ferskum vindum í Garði undanfarin ár. Einnig fær sveitarfélagið og samfélagið í Garði hamingjuóskir, en listahátíðin Ferskir vindar er ekki síst samfélagslegt verkefni sem margir íbúar og starfsfólk sveitarfélagsins taka þátt í hverju sinni. Hér er Mireya með Eyrarrósina, ásamt Elizu Reid og fulltrúa Listahátíðar í Reykjavík, eftir afhendinguna á Neskaupstað í gær.

Sameining sveitarfélaga.

Undirbúningur að sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar er í fullum gangi. Sameiningin mun taka gildi eftir sveitarstjórnarkosningar 26. maí, þegar íbúar munu kjósa bæjarstjórn fyrir nýtt sameinað sveitarfélag. Mesta spennan um þessar mundir snýst um það hvað nýtt sveitarfélag muni heita. Eftir að yfir 390 tillögur að nafni bárust, hefur sérstök nafnanefnd farið yfir tillögurnar og valið tillögur í 10 liðum sem Örnefnanefnd hefur nú til umsagnar. Rafræn kosning um tillögur að nafni mun síðan fara fram meðal íbúa upp úr miðjum mars og verður það nánar auglýst síðar. Að öðru leyti gengur vinna við undirbúning sameiningarinnar vel, en þar er í mörg horn að líta.

Síðasta föstudag var sameiginlegur fundur allra starfsmanna beggja sveitarfélaganna. Þar var rýnt til framtíðar og m.a. fjallað um hugmyndir um gildi fyrir nýjan vinnustað, sem er nýtt sveitarfélag. Góður andi var á fundinum, samhljómur og áhugi, sem gefur góð fyrirheit um framhaldið.

Bæjarráð í vikunni.

Nú í vikunni fundaði bæjarráð. Að venju voru ýmis mál á dagskránni. Sem dæmi um mál má nefna nýja lögreglusamþykkt fyrir  öll sveitarfélögin í umdæmi lögreglustjórans á Suðurnesjum. Samþykkt voru drög að nýjum samstarfssamningi við Íþróttafélagið Nes, sem er íþróttafélag fatlaðra á Suðurnesjum. Þá má nefna að fjallað var um vinnustaðagreiningu meðal starfsfólks sveitarfélagsins, fundargerðir stjórnar til undirbúnings sameiningu sveitarfélaganna og ráðningu skólastjóra Gerðaskóla, en bæjarstjórn mun samkvæmt samþykkt um stjórn sveitarfélagsins taka ákvörðun um ráðningu skólastjóra í næstu viku.

Fundir bæjarstjórans í vikunni.

Þessi vika hefur verið annasöm vegna alls kyns funda sem bæjarstjórinn í Garði hefur sótt í vikunni. Sem dæmi má nefna fundi um skipulagsmál, um þarfir vegna fyrirhugaðrar stækkunar leikskóla, viðtöl við umsækjendur um stöðu skólastjóra, fundur í Grindavík um samgöngumál og svo fundur í bæjarráði. Þá var eins dags alþjóðleg ráðstefna um jarðvanga, þar sem Reykjanes Jarðvangur sá um framkvæmd og var í brennidepli, loks voru fundir vegna sameiningar sveitarfélaga. Svona eru sumar vikur í störfum bæjarstjórans, enda í mörg horn að líta.

Veðrið.

Eftir langvarandi leiðindatíð í veðrinu, sunnanáttir með snjógangi og rigningu til skiptis, snerist til norðlægrar áttar um miðja vikuna. Með norðanáttinni birti til en heldur svalara veður. Líkur munu vera á því að hann liggi í norðlægum áttum á næstunni. Einhverjir höfðu á orði nú í vikunni að vart væri við vorkeim í lofti og heyra mætti fuglasöng sem fylgdi vortíðinni. Þó ber að hafa í huga að ennþá er vetur og við megum búast við að vetrartíð skelli yfir okkur næstu vikurnar. En, þrátt fyrir allt styttist í vorið með hverri viku og nú er allt í einu komið fram í marsmánuð.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

7. vika 2018

Öskudagur.

Á öskudaginn sl. miðvikudag var að venju mikið um að vera hjá börnunum í Garðinum. Að vísu setti óhagstætt veður smá strik í reikninginn, en hefðbundin öskudagshátíð var í Íþróttamiðstöðinni þar sem fjöldi alls kyns furðuvera mættu. Eins og tilheyrir var „kötturinn“ sleginn úr tunnunni, farið í alls konar leiki og fengið „gott í gogginn“.

Sameining sveitarfélaga.

Vinna við undirbúning sameiningar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar er nú í fullum gangi. Að ýmsu þarf að hyggja og mörg verkefni sem þarf að vinna. Eitt af því mikilvægasta snýr að starfsfólki sveitarfélaganna, m.a. er varðar upplýsingamiðlun og þátttöku starfsfólks við að móta starfsemi í nýju sveitarfélagi. Nú í vikunni var fundur í Vörðunni í Sandgerði þar sem mannauðsráðgjafar hittu hóp starfsfólks til að fara yfir breytingastjórnun og ýmislegt sem hafa þarf í huga. Framundan er frekari vinna með starfsfólki, en mannauður sem felst í starfsfólki sveitarfélaganna er mikill og mikilvægt að unnið sé að sameiningu sveitarfélaganna í samstarfi við starfsfólkið. Hér er mynd af fundinum í Vörðunni.

Ferskir vindar og Eyrarrósin.

Enn á ný er listahátíðin Ferskir vindar í Garði tilnefnd til Eyrarrósarinnar í ár.  Ferskir vindar hafa áður verið tilnefndir til þessarar viðurkenningar, sem er veitt ár hvert fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Um leið og Ferskir vindar fá hamingjuóskir með tilnefninguna er vonandi að Ferskir vindar fái þessa viðurkenningu í ár.

 

Fundur um ferðamál.

Í síðustu viku stóðu Reykjanes Jarðvangur og Markaðsstofa Reykjaness fyrir opnum fundi um ferðamál í Lighthouse Inn Hotel í Garðinum. Um 30 manns mættu á fundinn, enda er ferðaþjónustan mjög vaxandi á svæðinu. Góðar umræður urðu á fundinum og er ljóst að mikill áhugi er á þessum málum.

Víkin víkur.

Nú í vikunni var hafist handa við að brjóta niður og fjarlægja húsið Vík, sem undanfarin ár hefur staðið autt og með laskað þak. Þessu framtaki ber að fagna, enda stóð húsið á áberandi stað við aðalgötu bæjarins og af því hefur verið lýti, auk þess sem af því hefur verið fok-og slysahætta. Hér er mynd sem var tekin þegar byrjað var að brjóta húsið niður.

Veðrið.

Að undanförnu hefur verið vetrartíð, með umhleypingum. Snjór hefur verið með mesta móti í Garðinum undanfarnar tvær vikur. Nú um miðja vikuna hlýnaði og hóf að rigna, með tilheyrandi bráðnun. Í febrúar mánuði má alltaf búast við vetrarveðrum, eins og reyndin hefur verið undanfarið, en með hverri vikunni styttist í vorið.

Góða helgi.

Facebooktwittergoogle_plusmail

3. vika 2018.

Bóndadagur.

Í dag, föstudag er Bóndadagur og markar upphaf Þorra. Einn af fylgifiskum Þorramánuðar eru þorrablótin og næstu helgar verða haldin þorrablót um allar sveitir landsins, þar sem Þorri verður blótaður að gömlum sið. Á morgun, laugardag verður Þorrablót Suðurnesjamanna í Íþróttamiðstöðinni í Garði. Þorrablótin í Garði hafa mörg undanfarin ár verið mjög vel sótt og vinsæl. Búist er við hátt í 700 manns á þorrablótið að þessu sinni. Góða skemmtun !

Ferskir vindar.

Nú er alþjóðlegu listahátíðinni Ferskum vindum lokið hér í Garði. Hátíðin tókst vel og margir góðir listamenn tóku þátt. Listamennirnir unnu m.a. að list sinni með nemendum leikskólans og grunnskólans, það var ánægjulegt hve nemendurnir tóku góðan þátt í listsköpuninni og aldrei að vita nema það verði kveikjan að því að úr hópi nemenda komi síðar frægir listamenn. Fyrir nokkrum dögum komu nemendahópar í heimsókn að Sunnubraut 4, skoðuðu og fengu kynningu á þeim listaverkum sem þar eru. Hér eru myndir af nemendum kynna sér listaverk og taka þátt í tónlistargjörningi í Gerðaskóla. Við þökkum listamönnum sem tóku þátt í Ferskum vindum að þessu sinni fyrir þeirra framlag, ánægjuleg kynni og dvöl þeirra undanfarnar vikur. Síðast en ekki síst þökkum við Mireyu Samper fyrir gott samstarf, en hún hefur borið hita og þunga af undirbúningi og framkvæmd Ferskra vinda og má segja að hennar framlagi megi líkja við þrekvirki. Kærar þakkir !

                 

Guðni á trukknum.

Um síðustu helgi var frumsýnd heimildamynd um Guðna Ingimundarson og ber myndin heitið Guðni á trukknum. Guðmundur Magnússon kvikmyndagerðarmaður hefur undanfarin ár unnið að gerð myndarinnar, ásamt samstarfsfólki. Myndin er skemmtileg og upplýsandi, bæði um æviferil Guðna en ekki síður er myndin söguleg heimild um samfélagið í Garði fyrr á tímum. Ástæða er til að hvetja áhugasama um að sjá myndina, en líklegt er að fleiri sýningar verði á myndinni í Garðinum og víðar á næstunni. Þá er um að gera að fylgjast með auglýsingum. Guðmundur fær hamingjuóskir og þakkir fyrir þessa merkilegu heimildamynd um heiðursborgara Garðs.

Bæjarráð.

Bæjarráð Garðs fundaði í vikunni og voru að venju ýmis mál á dagskrá. Fjallað var um uppgjör á lífeyrisskuldbindingum hjá Brú lífeyrissjóði starfsfólks sveitarfélaga, einnig um breytingar á lögum og reglum um persónuvernd. Lagðar voru fram upplýsingar um fyrirhugaða stækkun félagsrýmis Fjölbrautarskóla Suðurnesja, en nú eru loksins fjárheimildir í fjárlögum ríkisins til að ráðast í þá löngu tímabæru framkvæmd. Þá má nefna að bæjarráð afgreiddi jákvæða umsögn um umsókn Björgunarsveitarinnar Ægis um tímabundið áfengisveitingaleyfi vegna þorrablóts á morgun. Þorrablótsgestir ættu því að geta verslað sér tilheyrandi veigar til að skola niður þorramatnum annað kvöld.

Veðrið.

Veðrið hefur verið frekar rysjótt undanfarið. Eftir norðan áttir með köldum vindi, suðlægar áttir með éljum og góðviðrisdögum inn á milli snjóaði óvenju mikið í gær fimmtudag. Framundan virðist vera kuldatíð samkvæmt veðurspám.

 

Góða helgi !

 

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

2. vika 2018.

Ferskir vindar.

Alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar hefur nú staðið yfir frá því fyrir jól hér í Garðinum. Um síðustu helgi var formleg opnunarhátíð þar sem Eliza Reid forsetafrú opnaði hátíðina, en hún er verndari hátíðarinnar. Listamenn sýna verk sín, halda tónleika og uppákomur víða um bæinn. Um komandi helgi verður lokaþáttur hátíðarinnar með sýningum og uppákomum á laugardag og sunnudag. Nánari upplýsingar um dagskrá má finna á heimasíðu sveitarfélagsins svgardur.is og á síðunni fresh-winds.com. Listahátíðin Ferskir vindar að þessu sinni starfar eftir þemanu DRAUMAR og má finna margt mjög áhugavert á dagskrá hátíðarinnar. Garðbúar og gestir eru hvattir til að njóta þeirrar dagskrár sem boðið er upp á um komandi helgi.

Eitt af þeim listaverkum sem hafa orðið til á listahátíðinni að þessu sinni, er verk sem Bjarni Sigurbjörnsson listmálari málaði á vegg í íþróttamiðstöðinni og setur verkið mikinn svip á íþróttamiðstöðina. Guðbrandur J Stefánsson tók þessa mynd af Bjarna við listaverkið, sem heitir Gleðigarður.

Skólahald á nýju ári.

Starfsemi skólanna er nú komin í sinn fasta farveg eftir jólafrí. Eitt af því sem nemendur Gerðaskóla og leikskólans Gefnarborgar hafa tekið sér fyrir hendur nú á nýju ári er samstarf við listamenn sem taka þátt í Ferskum vindum. Þetta samstarf er ánægjulegt og skapandi fyrir nemendur og má sjá þess merki í sýningum listamanna hátíðarinnar. Hér er mynd af efnilegum listmálurum í leikskólanum, sem unnu að sinni listsköpun undir áhrifum listamanna hjá Ferskum vindum. Myndin er fengin á Facebook síðu leikskólans Gefnarborgar.

Hér eru listamenn hjá Ferskum vindum í tónlistarsköpun með nemendum Gerðaskóla, myndin er af Facebook síðu Ferskra vinda, fresh winds in Gardur.

Lágmynd af heiðursborgara.

Þann 30. desember sl. var afhjúpuð lágmynd af Guðna Ingimundarsyni heiðursborgara Garðs, en Guðni varð 94 ára þann dag. Guðni afhjúpaði sjálfur lágmyndina, sem er steypt í brons og unnin af Ragnhildi Stefánsdóttur myndhöggvara. Hér má sjá Guðna virða fyrir sér sjálfan sig á lágmyndinni, mynd GJS.

Guðni á trukknum.

Á sunnudaginn nk. mun Guðmundur Magnússon kvikmyndagerðarmaður í Garði forsýna heimildamynd sem hann hefur unnið um Guðna Ingimundarson heiðursborgara og ber myndin heitið Guðni á trukknum. Sýningin verður í Miðgarði, sal Gerðaskóla og hefst kl. 14:00.

Veðrið.

Veðrið undanfarna daga hefur verið rysjótt. Gengið hefur á með hvössum suðlægum áttum með rigningu en hægara veður inn á milli. Á milli lægða hefur veður kólnað með tilheyrandi ísingu og hálku.

Góða helgi !

Facebooktwittergoogle_plusmail

1. vika 2018.

Gleðilegt og farsælt nýtt ár !

Ég óska íbúum sveitarfélagsins, starfsfólki þess og landsmönnum öllum farsældar á nýju ári, með þökk fyrir liðnu árin. Áramót eru alltaf sérstakur tímapunktur, þá leitar hugurinn yfir liðið ár og rifjað er upp það fjölmarga sem átti sér stað á árinu sem er að líða. Í mínum huga var árið 2017 að lang mestu leyti gott ár, bæði í einkalífinu og í ýmsum störfum sem unnin voru. Um áramótin hefst svo nýr og óskrifaður kafli lífsins og þá er spennandi að horfa fram á veginn, hvaða verkefni eru framundan og velta fyrir sér hvað nýtt ár ber í skauti sér.

Ef litið er yfir liðið ár 2017, þá hefur margt átt sér stað og unnið var að mörgum verkefnum á vettvangi sveitarfélagsins. Árið var annasamt og um margt gjöfult, segja má að Suðurnesin og þar með Sveitarfélagið Garður hafi verið heitasta svæði landsins ef litið er til aukinna umsvifa í atvinnulífi og íbúaþróunar. Íbúum sveitarfélagsins fjölgaði mikið á árinu 2017, í upphafi árs voru um 1.500 íbúar í Garði en í lok árs rétt innan við 1.600. Nýir íbúar eru boðnir velkomnir í Garðinn, með von um gott samstarf og að þeim líði vel í samfélaginu okkar.

Unnið var að ýmsum framkvæmdar verkefnum hjá sveitarfélaginu og má þar m.a. nefna úrbætur á aðstöðu og húsnæði tónlistarskólans, malbikun gatna, stækkun kirkjugarðs og umhverfisverkefni að Útskálum, fráveituverkefni o.fl. Þá var úthlutað lóðum fyrir íbúðarhús og hófust framkvæmdir á árinu 2017, en nokkur ár eru síðan síðast var unnið að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Garði. Þá urðu þau sögulegu tíðindi í nóvember að íbúar sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar samþykktu að sveitarfélögin verði sameinuð.

Straumur ferðafólks hélt áfram að aukast á árinu 2017, en áætlað er að hátt í 300 þúsund gestir heimsæki Garðskaga á ári. Fyrri hluta ársins var opnað nýtt og glæsilegt hótel, Hotel Lighthouse Inn og haldið var áfram þróun og uppbyggingu ferðaþjónustu á Garðskaga.

Að venju voru ýmsir viðburðir á árinu, má þar nefna árlegt þorrablót þar sem hátt í 700 gestir skemmtu sér og nutu þorramatar. Kvenfélagið Gefn fagnaði 100 ára afmæli félagsins undir lok árs 2017 og Söngsveitin Víkingar sló í gegn bæði innanlands og í söngferð til Norðurlanda. Knattspyrnulið Víðis stóð sig vel síðasta sumar, litlu munaði að liðið færðist upp í 1. deild en vonandi næst sá áfangi á komandi leiktíð. Félags-og menningarlíf í Garði er fjölbreytt og kröftugt, nánast einhverjir viðburðir í hverri viku ársins.

Framundan eru mörg verkefni sem þarf að vinna að á vettvangi sveitarfélagsins. Árið 2018 verður nokkuð sérstakt og viðburðaríkt, þar sem í maí verða sveitarstjórnarkosningar og þá mun taka gildi sameining sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar. Fram að sameiningunni verður unnið að fjölmörgum verkefnum til að undirbúa starfsemi sameinaðs sveitarfélags, það er í senn krefjandi en umfram annað spennandi verkefni. Eitt megin markmið þessarar vinnu verður að halda áfram að byggja upp góða þjónustu við íbúana og að nýtt sameinað sveitarfélag verði eftirsótt til búsetu.

Í stækkandi sveitarfélagi með fjölgun íbúa þarf að huga að innviðum og þjónustunni við íbúana. Á þessu ári verður m.a. hugað að stækkun og bættri aðstöðu leikskólans, þar sem núverandi leikskóli er fullnýttur og búa þarf í haginn til að öll börn geti notið leikskólavistar. Jafnframt þarf að hefja undirbúning að stækkun grunnskólans, vegna fjölgunar nemenda skólans á næstu árum. Á síðasta ári var unnið að deiliskipulagi í tveimur íbúðarsvæðum, þeirri skipulagsvinnu verður lokið nú fyrri hluta ársins og verður hafin úthlutun íbúðarlóða, en eftirspurn er eftir lóðum fyrir íbúðarhúsnæði. Það má því búast við að á þessu ári hefjist framkvæmdir við frekari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og þar með fjölgun íbúa.

Í samstarfi við önnur sveitarfélög á Suðurnesjum verður haldið áfram að vinna að mörgum spennandi og mikilvægum verkefnum. Má þar m.a. nefna þróun og uppbyggingu atvinnu-og athafnasvæðis í nágrenni Keflavíkurflugvallar, sem er spennandi framtíðar verkefni.

Hér hefur verið stiklað á stóru þegar litið er til liðins árs og helstu verkefna sem framundan eru á nýju ári. Fjölmargt fleira væri vert að nefna, en í vikulegum Molum er leitast við að fjalla um það helsta sem á sér stað í sveitarfélaginu og verður því haldið áfram á nýju ári.

Ferskir vindar.

Nú stendur yfir hin alþjóðlega listahátíð Ferskir vindar í Garði. Hátíðin er nú haldinn í fimmta sinn og er þema hátíðarinnar að þessu sinni DRAUMAR. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með listsköpun listamannanna undanfarið. Hér eru nú staddir listamenn frá nokkrum löndum og er listsköpun þeirra mjög fjölbreytileg. Á morgun, laugardaginn 6. janúar verður formleg opnun hátíðarinnar, með listasýningum og uppákomun. Sýningar verða opnar nú á laugardag og sunnudag, einnig laugardag og sunnudag eftir viku. Garðbúar og gestir eru hvattir til að mæta og njóta þeirra listviðburða sem í boði eru þessa daga.

Góða helgi.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

52. vika 2017.

Nú árið er liðið…

Nú líður að því að við kveðjum árið 2017. Þegar litið er til baka yfir árið, þá hefur þetta verið gott ár. Alltaf er þó svo að finna megi eitthvað sem betur mátti fara, eða rifja upp ýmislegt sem varpar skugga á með einhverjum hætti. En, þegar dæmið er gert upp er niðurstaðan sú að árið hefur verið farsælt og gott.

Ég þakka starfsfólki og kjörnum bæjarfulltrúum sveitarfélagsins fyrir ánægjulegt og gott samstarf á árinu sem er að líða. Einnig íbúum sveitarfélagsins fyrir góð samskipti og ánægjulega samfylgd. Mörgum fleirum er vert að þakka fyrir samstarf og samfylgd á árinu. Með þessum síðustu molum úr Garði á þessu ári er landsmönnum öllum sendar góðar áramótakveðjur með þökk fyrir árið sem er að líða.

Áramótabrenna og flugeldasýning.

Á gamlárskvöld verður að venju áramótabrenna í Garðinum. Eldur verður lagður að brennunni kl. 20:30 og flugeldasýning verður um kl. 21:00. Það eru Björgunarsveitin Ægir og Kiwanisklúbburinn Hof sem sjá um framkvæmd, en flugeldasýningin er í samstarfi við sveitarfélagið.

Flugeldasala björgunarsveitarinnar.

Eins og undanfarin ár verður Björgunarsveitin Ægir með flugeldasölu nú fyrir áramótin. Ágóði af flugeldasölunni fer til að fjármagna starfsemi björgunarsveitarinnar og eru allir þeir sem ætla að fjárfesta í flugeldum hvattir til að versla við björgunarsveitina. Eins og mörg dæmi sanna eru sjálfboðaliðar björgunarsveitanna öllum stundum tilbúnir til að bregðast við ef á þarf að halda. Með því að kaupa flugeldana hjá björgunarsveitinni styðjum við starfsemi þeirra, sem er okkur öllum mikilvægt.

Jólatrésskemmtun Gefnar.

Á morgun, laugardaginn 30. desember heldur Kvenfélagið Gefn sína árlegu jólatrésskemmtun og hefst hún kl. 15:00 í Miðgarði, sal Gerðaskóla. Aðgangur er ókeypis og eru fjölskyldur hvattar til að mæta, njóta samveru og skemmtunar.

Nýtt ár heilsar. 

Framundan eru áramót og er sá tímapunktur um margt sérstakur. Litið er til baka yfir farinn veg og liðið ár gert upp. Framundan er nýtt ár og þar með óskrifuð framtíð. Það er alltaf jafn spennandi að horfa fram í tímann og reyna að gera sér í hugarlund hvað nýtt ár muni bera í skauti sér. Árið 2018 mun fela í sér margar áskoranir og spennan felst í óvissunni um marga hluti. Vonandi verður nýtt ár okkur öllum farsælt og til heilla.

Gleðilegt og farsælt nýtt ár, allir hvattir til að fara varlega með skotelda um áramótin !

Facebooktwittergoogle_plusmail

51. vika 2017.

Jólafrí.

Nú eru nemendur og starfsfólk Gerðaskóla komin í jólafrí, litlu jólin voru í vikunni og eftir það jólafrí fram yfir áramótin. Í leikskólanum Gefnarborg er einnig ríkjandi jólaandi. Nú í vikunni heimsótti sóknarpresturinn börnin í leikskólanum og fræddi þau um jólin og það sem þeim tengjast. Eitthvað sást til jólasveina í báðum skólunum. Þá voru jólatónleikar tónlistarskólans í lok síðustu viku, þar sem nemendur fluttu jólalög. Jólaandinn svífur yfir Garðinum.

Ferskir vindar.

Nú er listahátíðin Ferskir vindar hafin. Listamenn eru á fullu í sinni vinnu og verður spennandi að sjá og upplifa listsköpun þeirra.

Jólatrésskemmtun.

Árleg jólatrésskemmtun Kvenfélagsins Gefnar verður í Gerðaskóla laugardaginn 30. desember. Kvenfélagið hefur árum saman staðið fyrir jólatrésskemmtunum fyrir Garðbúa. Að venju er aðgangur gjaldfrjáls.

 

Molar óska Garðbúum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

 

Facebooktwittergoogle_plusmail

50. vika 2017.

Skötuveisla Víðis í dag.

Að venju býður Unglingaráð Knattspyrnufélagsins Víðis upp á skötuveislu fyrir Jól. Í dag og fram á kvöld verður skötuilmur við samkomuhúsið, en eflaust mæta margir til að fá sér skötu í hádeginu í dag og í kvöldmat í kvöld. Garðbúar eru hvattir til að mæta í skötuna hjá Víði, enda ómissandi rétt fyrir Jól.

Jólastemmning í Gerðaskóla.

Í hádeginu í dag, föstudag var hangikjötsveisla og samvera nemenda og starfsfólks með jólalegu ívafi. Nemendur og starfsfólk voru í klæðnaði sem tengist jólahátíðinni, góð stemmning og jólaandi. Miðgarðsbandið skipað kennurum spilaði jólalög og viðstaddir tóku undir með söng. Ýmsar viðurkenningar og verðlaun voru veitt fyrir verkefni tengd jólum, þar á meðal fyrir jólalegustu hurð að kennslustofu, sem féll í skaut 6. bekkjar.  Skemmtileg og í senn hátíðleg stund sem ánægjulegt var að upplifa. Hér eru myndir frá hádeginu í Gerðaskóla.

Þetta er verðlauna jólahurð Gerðaskóla 2017, stofa 6. bekkjar.

Ferskir vindar.

Listahátíðin Ferskir vindar hefst nú um helgina og mun standa fram undir lok janúar. Hátíðin setur jafnan skemmtilegan svip á bæjarlífið, fjöldi listamanna af ýmsu tagi taka þátt og koma þeir margir erlendis frá en einnig taka þátt íslenskir listamenn. Það verður áhugavert og skemmtilegt að fylgjast með og upplifa þessa einstöku listahátíð, sem hefur víða vakið athygli og fengið viðurkenningar. Mireya Samper er helsti forsprakki hátíðarinnar, sem er samstarfserkefni Ferskra vinda og sveitarfélagsins.

Norðurljós á Garðskaga.

Undanfarið hafa hópar erlendra ferðamanna komið á Garðskaga seint um kvöld til að njóta norðurljósa. Skilyrði til að upplifa norðurljósin hafa verið ágæt og er jafnan gaman að fylgjast með upplifun erlendu ferðamannanna þegar þeir sjá norðurljósin í fyrsta skipti. Þeir taka jafnan mikið af myndum, enda eru norðurljósin fallegt myndefni. Hér er mynd sem Jóhann Ísberg tók fyrir nokkrum kvöldum af norðurljósum og gamla vitanum á Garðskaga.

Undirbúningur að sameiningu sveitarfélaga.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum hafa bæjarstjórnir Garðs og Sandgerðisbæjar nú skipað fulltrúa sína í sérstaka stjórn til undirbúnings sameiningu sveitarfélaganna. Þetta er næsta skref í málinu eftir að íbúar samþykktu í atkvæðagreiðslu að sveitarfélögin verði sameinuð. Stjórnin mun á næstu vikum og mánuðum vinna að undirbúningi sameiningar sveitarfélaganna, sem mun taka gildi eftir sveitarstjórnarkosningar í lok maí 2018.

Framkvæmdir á Aðventu.

Nú um Aðventu standa yfir ýmsar framkvæmdir í Garði. Sem dæmi standa yfir framkvæmdir við byggingu íbúðarhúsa, slíkar framkvæmdir hafa ekki verið algengar mörg undanfarin ár en eru hafnar á ný og má reikna með að fjör færist í leikinn á næsta ári við byggingu íbúðarhúsnæðis í Garði. Þá eru framkvæmdir við húsnæði tónlistarskólans á lokaspretti og verður húsnæðið væntanlega tilbúið um miðjan janúar. Þá mun tónlistarskólinn búa við mjög góða aðstöðu, sem vonast er til að efli tónlistarlífið í Garði enn frekar. Hér er mynd af byggingu íbúðarhúss við Vörðubraut, tekin nú í morgunsárið.

 

Jólahátíð nálgast.

Nú er aðeins rúm vika til Jóla. Bærinn er kominn í jólabúning með ljósaskreytingar á húsum víða í bænum. Nemendur og starfsfólk í skólum fara í jólafrí í næstu viku og spennan fyrir jólunum eykst dag frá degi. Árleg jólatrésskemmtun Kvenfélagsins Gefnar verður síðan milli Jóla og nýárs í Gerðaskóla.  Næstu vikuna verður væntanlega helsta spurningin, verða rauð eða hvít jól? Það kemur í ljós, en veðurútlit næstu daga ber ekki með sér von um snjókomu.

Veðrið.

Undanfarna vikuna hefur verðrið nánast leikið við okkur í Garðinum. Flesta daga hafa verið norðlægar áttir með hægviðri og sólar hefur notið við þann hluta daganna sem bjart er. Í næstu viku þann 21. desember verða vetrarsólstöður, eftir það fer daginn að lengja aftur hægt og bítandi og myrkasta skammdegið lætur undan síga.

Góða helgi !

 

Facebooktwittergoogle_plusmail